Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvert horfa augu þín?

Hvert horfa augu þín?

„Til þín hef ég augu mín, þú sem situr á himnum.“ – SÁLM. 123:1.

SÖNGVAR: 143, 124

1, 2. Hvað felst í því að láta augu okkar einblína á Jehóva?

VIÐ lifum á ,örðugum tíðum‘ og lífið verður jafnvel enn þá erfiðara áður en nýr dagur rís og sönnum friði er komið á um alla jörð. (2. Tím. 3:1) Við ættum því að spyrja okkur hvert við leitum til að fá hjálp og leiðbeiningar. Það fyrsta sem okkur dettur kannski í hug er að við leitum til Jehóva og það er það besta sem við getum gert.

2 Hvað felst í því að leita til eða horfa til Jehóva? Og hvernig getum við gengið úr skugga um að augu okkar einblíni á hann þegar við tökumst á við flókin vandamál lífsins? Fyrir mörgum öldum viðurkenndi sálmaskáldið að við höfum þörf fyrir að hefja augu okkar til Jehóva til að fá hjálp þegar eitthvað bjátar á. (Lestu Sálm 123:1-4.) Hann bar það að horfa til Jehóva saman við það hvernig þjónn leitar til húsbónda síns. Hvað átti sálmaskáldið við með því? Þjónn leitar ekki aðeins til húsbóndans til að fá fæði og skjól heldur þarf hann líka að leita stöðugt til hans til að vita hvað hann vill og fara síðan að óskum hans. Með svipuðum hætti þurfum við að lesa í orði Guðs daglega til að fullvissa okkur um hvað hann vill að hvert og eitt okkar geri og fylgja síðan þeirri leiðsögn. Þá fyrst getum við verið örugg um að Jehóva hjálpi okkur þegar á reynir. – Ef. 5:17.

3. Hvað getur dregið athygli okkar frá því að horfa einbeitt til Jehóva?

3 Við vitum hversu mikilvægt er að horfa stöðugt til Jehóva en stundum gæti eitthvað truflað okkur. Það var einmitt það sem kom fyrir Mörtu, góða vinkonu Jesú. Í stað þess að hlusta á hann ,lagði hún allan hug á að veita sem mesta þjónustu‘. (Lúk. 10:40-42) Fyrst trúföst kona eins og Marta lét trufla sig þótt Jesús væri á staðnum ætti það ekki að koma okkur á óvart ef það sama gerðist hjá okkur. En hvað getur dregið athygli okkar frá því að horfa til Jehóva? Í þessari grein er rætt hvernig það sem aðrir gera gæti rænt okkur athyglinni. Við skoðum líka hvernig við getum horft einbeitt til Jehóva.

TRÚFASTUR MAÐUR FER Á MIS VIÐ TÆKIFÆRI

4. Hvers vegna gæti það komið okkur á óvart að Móse fór á mis við það tækifæri að ganga inn í fyrirheitna landið?

4 Móse leitaði til Jehóva til að fá leiðsögn og ráð. Hann var staðfastur og „öruggur eins og hann sæi hinn ósýnilega“. (Lestu Hebreabréfið 11:24-27.) Í Biblíunni segir: „Annar eins spámaður og Móse kom aldrei aftur fram í Ísrael. Drottinn umgekkst hann augliti til auglitis.“ (5. Mós. 34:10) En þrátt fyrir að Móse hafi átt svona náið samband við Jehóva fór hann á mis við það tækifæri að ganga inn í fyrirheitna landið. (4. Mós. 20:12) Hvað varð til þess að Móse hrasaði?

5-7. Hvaða mál kom upp stuttu eftir að Ísraelsmenn fóru út úr Egyptalandi og hvernig tókst Móse á við það?

5 Innan við tveim mánuðum eftir að Ísraelsmenn fóru út úr Egyptalandi – jafnvel áður en þeir komu að Sínaífjalli – kom upp alvarlegt vandamál. Fólkið fór að kvarta undan vatnsleysi. Það fór að finna að Móse og ástandið varð svo alvarlegt að Móse hrópaði til Jehóva: „Hvað get ég gert við þetta fólk? Það er rétt að því komið að grýta mig.“ (2. Mós. 17:4) Jehóva svaraði Móse með því að gefa honum skýrar leiðbeiningar. Hann átti að taka staf sinn og slá á klettinn við Hóreb og þá myndi vatn spretta úr honum. Við lesum: „Þetta gerði Móse frammi fyrir augum öldunga Ísraels.“ Ísraelsmenn drukku nægju sína og málið var úr sögunni. – 2. Mós. 17:5, 6.

6 Biblían segir í framhaldinu að Móse hafi nefnt staðinn „Massa og Meríba vegna þess að Ísraelsmenn höfðu komið með ásakanir og reynt Drottin með því að spyrja: ,Er Drottinn mitt á meðal okkar eða ekki?‘“ (2. Mós. 17:7) Þetta voru viðeigandi nöfn því að þau merkja „raun“ og „kvörtun“.

7 Hvað fannst Jehóva um það sem gerðist við Meríba? Hann leit á hegðun Ísraelsmanna sem ögrun við sig og valdastöðu sína en ekki bara sem uppreisn gegn Móse. (Lestu Sálm 95:8, 9.) Það sem Ísraelsmenn gerðu var greinilega rangt. Við þetta tækifæri brást Móse rétt við. Hann horfði til Jehóva og fylgdi síðan vandlega leiðsögn hans.

8. Hvaða mál kom upp undir lok 40 ára eyðimerkurgöngunnar?

8 En hvað gerðist þegar svipaðar aðstæður komu upp undir lok eyðimerkurgöngunnar um 40 árum síðar? Ísraelsmenn voru aftur staddir á stað sem síðar var kallaður Meríba. Þetta var þó ekki sami staður og hinn því að nú voru þeir nálægt landamærum fyrirheitna landsins, í grennd við Kades. * Ísraelsmenn kvörtuðu aftur undan vatnsleysi. (4. Mós. 20:1-5) En í þetta sinn urðu Móse á alvarleg mistök.

9. Hvaða leiðbeiningar fékk Móse en hvað gerði hann? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Hvernig brást Móse við þessari uppreisn? Enn á ný hóf hann augu sín til Jehóva til að leita leiðsagnar. Í þetta sinn sagði Jehóva honum ekki að slá á klettinn heldur átti hann að taka staf sinn, stefna fólkinu saman fyrir framan klettinn og ávarpa hann. (4. Mós. 20:6-8) Móse ávarpaði þó ekki klettinn heldur hrópaði í reiði sinni til þeirra sem voru þar saman komnir: „Hlýðið nú á, þverúðugu menn. Getum við látið vatn renna úr þessum kletti handa ykkur?“ Síðan sló hann á klettinn, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. – 4. Mós. 20:10, 11.

10. Hvernig brást Jehóva við því sem Móse gerði?

10 Jehóva reiddist Móse mjög. (5. Mós. 1:37; 3:26) Hvers vegna brást hann þannig við? Ýmsar ástæður gætu verið fyrir því. Eins og fram hefur komið fylgdi Móse ekki leiðbeiningunum sem hann hafði fengið í þetta skipti, og kannski var Jehóva reiður yfir því.

11. Hvernig getur það að Móse sló á klettinn hafa dregið athyglina frá kraftaverkinu sem Jehóva vann?

11 Önnur ástæða gæti verið þessi: Klettar á fyrri staðnum, sem kallaður var Meríba, voru úr graníti, þéttu bergi. Sama hversu fast maður slær á granít dytti engum í hug að vatn gæti flætt úr því. En klettarnir við síðari staðinn, sem kallaður var Meríba, eru allt öðruvísi, yfirleitt úr kalksteini. Vegna þess hve gljúpur kalksteinn er þá er algengt að vatn seytli í gegnum hann og safnist fyrir í honum. Fólk getur síðan nýtt sér þetta vatn. Gæti verið að með því að slá tvisvar á þennan gljúpa klett hafi Móse vakið þá hugmynd hjá fólkinu að vatnið streymdi úr honum af náttúrulegum orsökum en ekki vegna þess að Jehóva hafi gert kraftaverk? Dró Móse úr því hve merkilegt kraftaverkið var með því að slá á klettinn í stað þess að ávarpa hann? * Við getum ekki vitað það fyrir víst.

Í HVERJU FÓLST UPPREISN MÓSE?

12. Af hvaða annarri ástæðu gæti Jehóva hafa reiðst Móse og Aroni?

12 Það er enn eitt sem gæti útskýrt hvers vegna Jehóva reiddist Móse og Aroni. Taktu eftir hvað Móse sagði við fólkið: „Getum við látið vatn renna úr þessum kletti handa ykkur?“ Þegar Móse segir „við“ á hann líklega við sjálfan sig og Aron. Orð hans gefa til kynna að hann hafi alls ekki borið næga virðingu fyrir Jehóva sem stóð að baki kraftaverkinu að öllu leyti. Það sem stendur í Sálmi 106:32, 33 virðist styðja þennan möguleika en þar segir: „Þeir reittu hann til reiði við Meríbavötn og Móse varð fyrir mótlæti þeirra vegna því að þeir risu gegn vilja hans og honum hrutu vanhugsuð orð af vörum.“ * (4. Mós. 27:14) Hver svo sem ástæðan var hefur það sem Móse gerði dregið úr því að Jehóva hlyti þann heiður sem honum bar. Jehóva sagði við bæði Móse og Aron: „Þið risuð gegn skipun minni.“ (4. Mós. 20:24) Þetta var alvarleg synd.

13. Hvers vegna var það bæði viðeigandi og sanngjarnt að Jehóva skyldi dæma Móse eins og hann gerði?

13 Jehóva gerði meiri kröfur til Móse og Arons en til annarra vegna þess að þeir fóru með forystu meðal þjóðarinnar. (Lúk. 12:48) Jehóva hafði áður neitað heilli kynslóð Ísraelsmanna um inngöngu í Kanaansland vegna uppreisnar fólksins. (4. Mós. 14:26-30, 34) Það var því bæði viðeigandi og sanngjarnt að Móse hlyti sama dóm og þeir fyrir uppreisn sína. Hann fékk ekki að ganga inn í fyrirheitna landið, ekkert frekar en hinir uppreisnarmennirnir.

ORSÖK VANDANS

14, 15. Hvað varð til þess að Móse gerði uppreisn?

14 Hvað varð til þess að Móse gerði uppreisn gegn Jehóva? Skoðum aftur Sálm 106:32, 33 en þar segir: „Þeir reittu hann til reiði við Meríbavötn og Móse varð fyrir mótlæti þeirra vegna. [„Þeir ollu honum gremju,“ NW] og honum hrutu vanhugsuð orð af vörum.“ Þó að það hafi verið Jehóva sem Ísraelsmenn ögruðu fann Móse til gremju. Hann sýndi ekki næga sjálfstjórn og það varð til þess að hann talaði án þess að hugsa um afleiðingarnar.

15 Móse lét það sem aðrir gerðu draga athygli sína frá því að horfa til Jehóva. Í fyrra skiptið tók Móse rétt á málum. (2. Mós. 7:6) En eftir að hafa leitt uppreisnargjarna Ísraelsmennina um áratugaskeið var hann kannski orðinn þreyttur og uppgefinn. Ætli Móse hafi aðallega hugsað um sínar eigin tilfinningar í stað þess að reyna að sjá hvernig hann gæti heiðrað Jehóva?

16. Hvers vegna ættum við að velta fyrir okkur því sem Móse gerði?

16 Fyrst trúfastur spámaður eins og Móse gat misst einbeitinguna og hrasað gæti hið sama auðveldlega komið fyrir okkur. Við erum við það að ganga inn í nýjan heim sem Jehóva hefur lofað okkur, rétt eins og Móse sem stóð á þröskuldi fyrirheitna landsins. (2. Pét. 3:13) Ekkert okkar vill fara á mis við slíkt tækifæri. Til að ná markmiði okkar þurfum við þó að horfa einbeitt til Jehóva og leitast við að gera vilja hans öllum stundum. (1. Jóh. 2:17) Hvaða lærdóma getum við dregið af mistökum Móse?

MISSTU EKKI EINBEITINGUNA ÚT AF ÞVÍ SEM AÐRIR GERA

17. Hvað hjálpar okkur að missa ekki stjórn á skapinu?

17 Misstu ekki stjórn á skapinu. Jafnvel þótt við þurfum að takast á við sömu hlutina aftur og aftur skulum við ekki ,þreytast að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp‘. (Gal. 6:9; 2. Þess. 3:13) Höfum við taumhald á tungu okkar og skapi þegar erfiðar aðstæður koma upp eða samskiptaerfiðleikar skjóta síendurtekið upp kollinum? (Orðskv. 10:19; 17:27; Matt. 5:22) Þegar aðrir reyna á þolrifin í okkur þurfum við að læra að láta reiði Jehóva komast að. (Lestu Rómverjabréfið 12:17-21.) Ef við horfum til Jehóva sýnum við honum tilhlýðilega virðingu með því að bíða þolinmóð eftir að hann taki á málum þegar hann telur ástæðu til. Þannig leyfum við reiði hans að komast að. Ef við gerðum það ekki heldur reyndum að hefna okkar með einhverjum hætti myndi það þýða að við vanvirtum Jehóva.

18. Hvað þurfum við að muna varðandi það að fylgja leiðbeiningum?

18 Fylgdu vandlega nýjustu leiðbeiningunum. Leggjum við okkur fram um að fylgja nýjustu leiðbeiningunum sem Jehóva hefur látið okkur í té? Þá gerum við hlutina ekki bara eins og við höfum alltaf gert þá. Við erum öllu heldur fljót að tileinka okkur allar nýjar leiðbeiningar sem Jehóva veitir okkur fyrir milligöngu safnaðarins. (Hebr. 13:17) En samtímis þurfum við að gæta þess að ,fara ekki lengra en ritað er‘. (1. Kor. 4:6) Þannig horfum við einbeitt til Jehóva.

Hvað getum við lært af viðbrögðum Móse við mistökum annarra? (Sjá 19. grein.)

19. Hvað þurfum við að gera til að mistök annarra skaði ekki vináttu okkar við Jehóva?

19 Láttu mistök annarra ekki skaða vináttu þína við Jehóva. Ef við beinum táknrænum augum okkar alltaf til Jehóva látum við ekki verk annarra valda okkur gremju eða skaða vináttu okkar við hann. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef okkur hefur verið falin ábyrgð í söfnuði Guðs eins og í tilfelli Móse. Það er vissulega rétt að hvert og eitt okkar þarf að ,vinna að sáluhjálp sinni með ugg og ótta‘ en höfum samt hugfast að Jehóva er ekki með neina stífa og ósveigjanlega mælistiku sem hann dæmir okkur eftir. (Fil. 2:12) Því meiri ábyrgð sem við höfum því meiri kröfur gerir Jehóva til okkar. (Lúk. 12:48) En ef við elskum Jehóva getur ekkert orðið okkur til hrösunar eða gert okkur viðskila við kærleika hans. – Sálm. 119:165; Rómv. 8:37-39.

20. Hvað ættum við að vera ákveðin í að gera?

20 Á þessum erfiðu tímum skulum við hefja augu okkar til hans „sem situr á himnum“ svo að við getum skilið hvað hann vill að við gerum. Látum aldrei það sem aðrir gera hafa neikvæð áhrif á vináttu okkar við hann. Það sem kom fyrir Móse hvetur okkur til að hafa þetta hugfast. Í stað þess að bregðast of harkalega við þegar ófullkomleiki annarra blasir við skulum við vera ákveðin í að láta ,augu okkar horfa til Drottins Guðs okkar uns hann líknar okkur‘. – Sálm. 123:1, 2.

^ gr. 8 Þetta var annar staður en Meríba sem var nálægt Refídím. Ólíkt fyrri staðnum var þessi settur í samband við Kades en ekki Massa. Báðir staðirnir voru þó nefndir Meríba vegna þess að þar kvartaði fólkið. – Sjá kort í Handbók biblíunemandans, 7. kafla.

^ gr. 11 Prófessor John A. Beck segir um þessa frásögu: „Samkvæmt arfsögn Gyðinga gagnrýndu uppreisnarseggirnir Móse með þessum orðum: ,Móse þekkir eiginleika þessa kletts. Ef hann vill sanna að hann geti unnið kraftaverk ætti hann að láta vatn streyma handa okkur af öðrum kletti líka.‘“ En þetta er auðvitað bara sögusögn.

^ gr. 12 Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. október 1987.