Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Stendur þú með Jehóva?

Stendur þú með Jehóva?

„Drottin Guð þinn skalt þú óttast, hann skalt þú dýrka, við hann skalt þú halda þér fast.“ – 5. MÓS. 10:20, Biblían 1981.

SÖNGVAR: 28, 32

1, 2. (a) Af hverju er rökrétt að standa með Jehóva? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

ÞAÐ er rökrétt að halda sér fast við Jehóva. Enginn er eins máttugur, vitur eða kærleiksríkur og Guð okkar. Við viljum auðvitað öll standa með honum og vera honum trúföst. (Sálm. 96:4-6) En sumir þjóna hans hafa þó hvikað frá trúfesti sinni þegar á reyndi.

2 Í þessari grein skoðum við dæmi um fólk sem sagðist standa með Jehóva en svívirti hann á sama tíma með hegðun sinni. Við getum dregið mikilvæga lærdóma af þessum frásögum og það getur hjálpað okkur að sýna Jehóva óskipta hollustu.

JEHÓVA RANNSAKAR HJARTAÐ

3. Hvers vegna reyndi Jehóva að hjálpa Kain og hvað sagði hann við hann?

3 Lítum fyrst á frásöguna af Kain. Hann tilbað engan annan guð en Jehóva. En Jehóva hafði ekki velþóknun á tilbeiðslu hans. Hann sá að illar hneigðir bjuggu í hjarta hans. (1. Jóh. 3:12) Jehóva reyndi að hjálpa Kain og sagði: „Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“ (1. Mós. 4:6, 7) Jehóva sagði Kain efnislega: „Ef þú iðrast og tekur einarða afstöðu með mér þá stend ég með þér.“

4. Hvað gerði Kain þegar hann fékk tækifæri til að taka afstöðu með Jehóva?

4 Kain hefði getað endurheimt velþóknun Jehóva með því að leiðrétta hugsunarhátt sinn. En hann hlustaði ekki á hann. Rangt hugarfar hans og eigingjarnar langanir leiddu til rangra verka. (Jak. 1:14, 15) Á sínum yngri árum hvarflaði það eflaust ekki að Kain að taka afstöðu gegn Jehóva. En nú hunsaði hann viðvörun Guðs, gerði uppreisn gegn honum og drap bróður sinn.

5. Hvers konar hugarfar getur orðið til þess að við misstum velþóknun Jehóva?

5 Vottur Jehóva nú á dögum gæti líkt og Kain sagst tilbiðja Jehóva en á sama tíma gert hluti sem hann hatar. (Júd. 11) Kannski gælir hann við siðlausa draumóra, elur á græðgi eða ber kala til trúsystkinis. (1. Jóh. 2:15-17; 3:15) Slíkur hugsunarháttur getur orðið til þess að hann syndgi. Vel má vera að á sama tíma sé hann virkur í boðuninni og sæki samkomur að staðaldri. Þótt annað fólk viti ekki hvernig við hugsum og hegðum okkur sér Jehóva allt. Það fer ekki fram hjá honum ef við þjónum honum ekki af öllu hjarta. – Lestu Jeremía 17:9, 10.

6. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að sigrast á syndugum tilhneigingum ef við tökum einarða afstöðu með honum?

6 Jehóva gefst þó ekki auðveldlega upp á okkur. Ef við förum út á ranga braut hvetur hann okkur til að snúa aftur til sín. „Snúið aftur til mín, þá sný ég aftur til ykkar,“ segir hann. (Mal. 3:7) Jehóva veit að við þurfum að glíma við veikleika. En hann vill að við höfnum því sem er illt. (Jes. 55:7) Ef við gerum það stendur hann með okkur og styrkir okkur andlega, tilfinningalega og líkamlega þannig að við getum sigrast á syndugum tilhneigingum okkar. – 1. Mós. 4:7.

„VILLIST EKKI“

7. Hvernig missti Salómon velþóknun Jehóva?

7 Við getum dregið lærdóm af Salómon konungi. Á sínum yngri árum leitaði hann leiðsagnar Jehóva. Jehóva gaf honum mikla visku og treysti honum fyrir að byggja mikilfenglegt musteri í Jerúsalem. En Salómon glataði vináttu hans. (1. Kon. 3:12; 11:1, 2) Lög Guðs kváðu skýrt á um að hebreskir konungar mættu ekki taka sér ,margar konur svo að hjarta þeirra viki ekki af réttri leið‘. (5. Mós. 17:17) En Salómon óhlýðnaðist. Hann kvæntist 700 konum og tók sér 300 hjákonur. (1. Kon. 11:3) Margar af eiginkonum hans voru ekki af Ísraelsætt og tilbáðu falsguði. Salómon óhlýðnaðist því einnig lögum Guðs um að kvænast ekki útlendum konum. – 5. Mós. 7:3, 4.

8. Hvernig misbauð Salómon Jehóva?

8 Smátt og smátt hætti Salómon að hafa mætur á lögum Guðs. Það varð til þess að hann misbauð Guði stórlega. Hann fór að dýrka falsguði ásamt heiðnum eiginkonum sínum. Hann reisti altari handa gyðjunni Astarte og að minnsta kosti eitt handa falsguðinum Kamos. Af öllum stöðum reisti hann ölturun á fjalli beint fyrir framan Jerúsalem – þar sem hann hafði áður reist musteri Jehóva. (1. Kon. 11:5-8; 2. Kon. 23:13) Salómon taldi sér ef til vill trú um að svo framarlega sem hann héldi áfram að færa fórnir við musterið myndi Jehóva loka augunum fyrir óhlýðni hans.

9. Hvaða afleiðingar hafði það að Salómon skyldi hunsa viðvaranir Guðs?

9 En Jehóva lokar aldrei augunum fyrir rangri breytni. Í Biblíunni segir: „Drottinn reiddist Salómon vegna þess að hann hafði gerst fráhverfur Drottni ... sem hafði birst honum tvisvar og bannað honum að fylgja öðrum guðum. Salómon hafði ekki farið eftir því sem Drottinn bauð honum.“ Fyrir vikið missti Salómon velþóknun og stuðning Guðs. Erfingjar hans fengu ekki að ríkja yfir öllu Ísraelsríki og þurftu að súpa seyðið af rangri breytni hans í hundruð ára. – 1. Kon. 11:9-13.

10. Hvað getur ógnað sambandi okkar við Jehóva?

10 Það er augljóst af dæmi Salómons að við stofnum sambandi okkar við Jehóva í hættu ef við veljum okkur vini sem hvorki skilja né virða mælikvarða hans. Það geta verið einhverjir sem tilheyra söfnuðinum en eru veikir í trúnni. Eða kannski eru það ættingjar okkar, nágrannar, vinnufélagar eða skólafélagar sem tilbiðja ekki Jehóva. Hvernig sem því er farið getum við með tímanum misst velþóknun Jehóva ef við veljum okkur vini sem lifa ekki eftir mælikvarða hans.

Hvaða áhrif hafa þeir sem þú umgengst á samband þitt við Jehóva? (Sjá 11. grein.)

11. Hvernig getum við metið hvort þeir sem við umgöngumst séu góður félagsskapur?

11 Lestu 1. Korintubréf 15:33Flestir búa yfir einhverjum góðum eiginleikum og margir utan safnaðarins forðast að gera það sem er augljóslega rangt. En þýðir það endilega að þeir séu góður félagsskapur? Veltu fyrir þér hvaða áhrif umgengni við þá hefur á samband þitt við Jehóva. Auðvelda þeir þér að styrkja það? Hvað býr í hjörtum þeirra? Tala þeir aðallega um tísku, peninga, nýjustu tæknina, skemmtun eða annað þvíumlíkt? Tala þeir oft illa um aðra eða segja dónalega brandara? „Af gnægð hjartans mælir munnurinn,“ sagði Jesús, og það er viðvörun við hæfi. (Matt. 12:34) Ef þú áttar þig á að þeir sem þú umgengst stofna sambandi þínu við Jehóva í hættu skaltu ekki hika við að draga úr samskiptum við þá og jafnvel slíta vinskapnum ef þess er þörf. – Orðskv. 13:20.

JEHÓVA KREFST ÓSKIPTRAR HOLLUSTU

12. (a) Hvað gerði Jehóva Ísraelsmönnum ljóst stuttu eftir að þeir yfirgáfu Egyptaland? (b) Hvernig brugðust Ísraelsmenn við þegar Guð fór fram á óskipta hollustu?

12 Við getum líka lært af því sem gerðist stuttu eftir að Jehóva frelsaði Ísraelsmenn frá Egyptalandi. Jehóva birtist þjóðinni með tilkomumiklum hætti þegar hún hafði safnast saman við rætur Sínaífjalls. Þykkur skýsorti myndaðist yfir fjallinu. Jehóva lét þrumur og eldingar dynja yfir, huldi fjallið reyk og lét hávært hljóð, líkast hornablæstri, kveða stöðugt við. (2. Mós. 19:16-19) Það var þá sem Jehóva sagði Ísraelsmönnum að hann væri „vandlátur Guð“, Guð sem krefst óskiptrar hollustu. Hann fullvissaði þá um að hann yrði trúfastur þeim sem elska hann og halda boð hans. (Lestu 2. Mósebók 20:1-6.) Í raun var Jehóva að segja: „Ef þið standið með mér þá stend ég með ykkur.“ Hvernig hefðir þú brugðist við ef þú hefðir verið á staðnum og heyrt þetta loforð Jehóva? Eflaust hefðirðu brugðist við með sama hætti og Ísraelsmenn. „Allt fólkið svaraði einum rómi og sagði: ,Við skulum gera allt sem Drottinn hefur boðið.‘“ (2. Mós. 24:3) Fljótlega reyndi þó á hollustu Ísraelsmanna með óvæntum hætti.

13. Hvernig reyndi á trúfesti Ísraelsmanna?

13 Skýsortinn, eldingarnar og hin tilkomumiklu táknin frá Guði gerðu Ísraelsmenn skelfingu lostna. Þeir báðu því Móse að tala við Jehóva fyrir þeirra hönd á Sínaífjalli. Móse varð við beiðni þeirra og fór upp á fjallið. (2. Mós. 20:18-21) En tíminn leið og Móse var lengi í burtu. Voru Ísraelsmenn nú einir og yfirgefnir í eyðimörkinni án leiðtoga síns? Það virðist vera að þjóðin hafi reitt sig um of á Móse, mennskan leiðtoga sinn. Fólkið varð óþreyjufullt og sagði við Aron: „Búðu til guð handa okkur sem getur farið fyrir okkur því að við vitum ekki hvað varð um þennan Móse, manninn sem leiddi okkur út af Egyptalandi.“ – 2. Mós. 32:1, 2.

14. Hvað tókst Ísraelsmönnum að telja sér trú um og hvernig brást Jehóva við?

14 Ísraelsmenn vissu að Jehóva hefur andstyggð á skurðgoðadýrkun. (2. Mós. 20:3-5) En fyrr en varði voru þeir farnir að tilbiðja gullkálf! Þó að þeir hafi augljóslega óhlýðnast tókst þeim einhvern veginn að telja sér trú um að þeir stæðu enn með Jehóva. Aron sagði meira að segja að kálfadýrkunin væri hátíð handa Jehóva! Hvernig brást Jehóva við? Honum fannst hann svikinn og hann sagði við Móse að Ísraelsmenn hefðu „steypt sér í glötun“ og „vikið af þeim vegi sem [hann] bauð þeim“. ,Reiði hans blossaði upp‘ og það hvarflaði jafnvel að honum að þurrka út hina nýmynduðu Ísraelsþjóð. – 2. Mós. 32:5-10.

15, 16. Hvernig sýndu Móse og Aron að þeir stóðu algerlega með Jehóva? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

15 Jehóva ákvað að eyða ekki Ísraelsþjóðinni. Hann sýndi henni miskunn og gaf trúum tilbiðjendum sínum tækifæri til að taka einarða afstöðu með sér. (2. Mós. 32:14) Þegar Móse sá fólkið hrópa, syngja og dansa frammi fyrir skurðgoðinu tók hann gullkálfinn og muldi hann mélinu smærra. Síðan sagði hann: „,Hver sem fylgir Drottni komi til mín.‘ Þá söfnuðust allir Levítar að honum.“ – 2. Mós. 32:17-20, 26.

16 Aron, sem hafði átt þátt í að búa til gullkálfinn, iðraðist og tók afstöðu með Jehóva ásamt hinum Levítunum. Þeir sýndu trúfesti og aðgreindu sig frá syndurunum. Það var viturleg ákvörðun. Þúsundir þeirra sem tilbáðu skurðgoðið týndu lífi þennan dag. En þeir sem stóðu með Jehóva héldu lífi og hann lofaði að blessa þá. – 2. Mós. 32:27-29.

17. Hvað lærum við af því sem Páll sagði um skurðgoðadýrkun Ísraelsmanna?

17 Hvað lærum við af þessu? Páll postuli sagði: „Þetta hefur gerst okkur til viðvörunar til þess að við [tilbiðjum] ekki skurðgoð eins og nokkrir þeirra. [Frásagan er rituð] til viðvörunar okkur sem endir aldanna er kominn yfir. Sá er hyggst standa gæti því vel að sér að hann falli ekki.“ (1. Kor. 10:6, 7, 11, 12) Eins og Páll benti á geta jafnvel sannir tilbiðjendur Jehóva farið að gera það sem er rangt. Þeir sem láta undan þeirri freistingu gætu haldið að Jehóva hafi enn velþóknun á þeim. En það eitt að vilja vera vinur Jehóva eða að segjast vera honum trúr þýðir ekki endilega að hann hafi velþóknun á manni. – 1. Kor. 10:1-5.

18. Hvað gæti orðið til þess að við fjarlægðumst Jehóva og hvaða afleiðingar getur það haft?

18 Ísraelsmenn urðu óþreyjufullir þegar Móse kom ekki eins fljótt niður af Sínaífjalli og þeir bjuggust við. Eins gætum við orðið óþreyjufull ef okkur finnst endi þessa heimskerfis hafa seinkað og nýi heimurinn vera víðs fjarri. Við gætum farið að hugsa sem svo að það sé langt þangað til þessi loforð rætast eða að þau séu of góð til að vera sönn. Ef við gætum ekki að okkur getur slíkur hugsunarháttur orðið til þess að við förum að leggja meiri áherslu á eigin langanir en það sem Jehóva vill. Með tímanum gætum við fjarlægst Jehóva og að lokum farið að gera eitthvað sem okkur hafði ekki órað fyrir þegar við vorum sterk í trúnni.

19. Hverju megum við aldrei gleyma og hvers vegna?

19 Við megum aldrei gleyma að Jehóva krefst óskiptrar hollustu og algerrar hlýðni. (2. Mós. 20:5) Við værum að gera það sem Satan vill ef við myndum að einhverju leyti hætta að gera það sem Jehóva vill, og það endar bara með ósköpum. Páll sagði: „Ekki getið þið drukkið bikar Drottins og bikar illra anda. Ekki getið þið tekið þátt í borðhaldi Drottins og borðhaldi illra anda.“ – 1. Kor. 10:21.

HÖLDUM OKKUR FAST VIÐ JEHÓVA

20. Hvernig getur Jehóva hjálpað okkur, jafnvel eftir að við höfum gert mistök?

20 Frásögur Biblíunnar af Kain, Salómon og Ísraelsmönnum við Sínaífjall eiga allar eitt sameiginlegt. Allir fengu þeir tækifæri til að ,taka sinnaskiptum og snúa sér til Guðs‘. (Post. 3:19) Það er greinilegt að Jehóva gefst ekki auðveldlega upp á þeim sem gera mistök. Hann var til dæmis fús til að fyrirgefa Aroni. Nú á dögum varar Jehóva okkur við rangri breytni á kærleiksríkan hátt. Hann gerir það meðal annars með frásögum Biblíunnar, biblíutengdum ritum og ráðum trúsystkina. Ef við tökum þessar viðvaranir til okkar getum við treyst því að Jehóva sýni okkur miskunn.

21. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera þegar reynir á hollustu okkar við Jehóva?

21 Það er ekki að ástæðulausu að Jehóva sýnir okkur einstaka góðvild. (2. Kor. 6:1) Það gefur okkur tækifæri til að „afneita óguðleik og veraldlegum girndum“. (Lestu Títusarbréfið 2:11-14.) Meðan við lifum „í heimi þessum“ mun sífellt reyna á óskipta hollustu okkar við Jehóva. Verum alltaf reiðubúin að taka einarða afstöðu með Jehóva, Guði okkar, því að það er hann sem við ,eigum að óttast, hann skulum við dýrka, við hann skulum við halda okkur fast‘. – 5. Mós. 10:20.