Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Langlyndi – þolgæði sem hefur tilgang

Langlyndi – þolgæði sem hefur tilgang

NÚNA á „síðustu dögum“ er aukið álag á fólki og því er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að þjónar Jehóva séu langlyndir. (2. Tím. 3:1-5) Menn eru sérgóðir, ósáttfúsir og taumlausir í heiminum í kringum okkur. Þeir sem sýna slíka eiginleika eru sjaldnast langlyndir. Þess vegna ættum við sem þjónum Guði að spyrja okkur: Hef ég smitast af óþolinmæði heimsins? Hvað merkir það að vera langlyndur? Og hvernig get ég tileinkað mér þennan frábæra eiginleika svo að hann verði hluti af persónuleika mínum?

HVAÐ ER LANGLYNDI?

Eins og orðið er notað í Biblíunni merkir langlyndi meira en bara að þola erfiðar aðstæður. Fólk sem líkir eftir langlyndi Guðs hefur tilgang með þolgæði sínu. Það hugsar ekki bara um eigin þarfir heldur einnig um velferð þess sem veldur erfiðleikunum. Ef langlyndur einstaklingur er beittur ranglæti eða honum ögrað gefur hann ekki upp vonina um að hægt sé að ná sáttum. Það kemur því ekki á óvart að Biblían skuli nefna ,langlyndi‘ sem fyrsta eiginleikann af mörgum sem eiga rætur í kærleikanum. * (1. Kor. 13:4) Orð Guðs nefnir líka „langlyndi“ sem einn af eiginleikum ,ávaxtar andans‘. (Gal. 5:22, 23) Hvernig getum við þroskað með okkur þennan göfuga eiginleika?

HVERNIG ER HÆGT AÐ TEMJA SÉR LANGLYNDI?

Til að rækta með okkur langlyndi þurfum við að biðja um hjálp heilags anda. Jehóva gefur þeim sem treysta honum og reiða sig á hann heilagan anda sinn. (Lúk. 11:13) Andi Guðs er mjög öflugur en við þurfum samt sem áður að leggja okkar af mörkum og breyta í samræmi við bænir okkar. (Sálm. 86:10, 11) Það þýðir að við þurfum að gera okkar besta til að sýna langlyndi alla daga til að það festi rætur í hjarta okkar. En til að varðveita þennan eiginleika getum við þurft að gera meira. Hvað getur það verið?

Við getum tamið okkur langlyndi með því að kynna okkur fullkomið fordæmi Jesú og líkja eftir því. Í samræmi við það fordæmi var Páli innblásið að lýsa ,hinum nýja manni‘ sem er meðal annars ,langlyndur‘. Síðan hvatti hann okkur: „Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar.“ (Kól. 3:10, 12, 15) Við getum látið frið Krists „ríkja“ í hjörtum okkar með því að líkja eftir óhagganlegri trú hans á að Guð muni á sínum tíma leiðrétta þau mál sem snerta okkur. Þegar við fylgjum fordæmi Jesú látum við ekkert sem gerist í kringum okkur verða til þess að við missum þolinmæðina. – Jóh. 14:27; 16:33.

Þó að við hlökkum mikið til að sjá nýja heiminn sem Jehóva hefur lofað lærum við að temja okkur meiri þolinmæði þegar við hugleiðum hvernig hann hefur sýnt okkur þolinmæði. Biblían veitir okkur þessa fullvissu: „Ekki er Drottinn seinn á sér með fyrirheitið þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við ykkur þar eð hann vill ekki að neinn glatist heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pét. 3:9) Þegar við hugleiðum hvernig Jehóva hefur verið langlyndur við okkur hvetur það okkur til að vera þolinmóð við aðra. (Rómv. 2:4) Við hvaða aðstæður getum við þurft að sýna langlyndi?

AÐSTÆÐUR SEM KALLA Á LANGLYNDI

Við getum lent í ýmsum aðstæðum dagsdaglega sem reyna á langlyndi okkar. Það reynir til dæmis á þolinmæðina að grípa ekki fram í fyrir öðrum þegar mann langar að segja frá einhverju mikilvægu. (Jak. 1:19) Við getum einnig þurft að sýna langlyndi þegar við umgöngumst trúsystkini sem fara í taugarnar á okkur. Í stað þess að bregðast of harkalega við er skynsamlegt að íhuga hvernig Jehóva og Jesús bregðast við okkar veikleikum. Þeir eru ekki gagnrýnir á smávægilega galla. Þeir líta heldur á góða eiginleika okkar og bíða þolinmóðir á meðan við leggjum okkur fram um að gera betur. – 1. Tím. 1:16; 1. Pét. 3:12.

Það getur líka reynt á langlyndi okkar þegar einhver gefur í skyn að við höfum sagt eða gert eitthvað rangt. Við erum oft fljót að móðgast og réttlæta sjálf okkur. En Biblían mælir með að við förum öðruvísi að. Hún segir: „Betri er þolinmóður maður en þóttafullur. Vertu ekki auðreittur til reiði því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ (Préd. 7:8, 9) Jafnvel þó að ásökunin eigi ekki við rök að styðjast ættum við að hugsa okkur vel um áður en við svörum. Jesús fylgdi þeirri meginreglu þegar aðrir ásökuðu hann ranglega. – Matt. 11:19.

Foreldrar þurfa sérstaklega að sýna langlyndi þegar þeir taka á röngum viðhorfum, löngunum eða tilhneigingum barna sinna. Tökum Mattias sem dæmi en hann tilheyrir Betelfjölskyldunni í Skandinavíu. Þegar Mattias var unglingur var stöðugt gert grín að trú hans í skólanum. Í fyrstu vissu foreldrar hans ekki af því. En þau þurftu að takast á við áhrifin sem þetta hafði á son þeirra. Hann fór að efast um trú sína. „Þetta reyndi verulega á þolinmæðina,“ segir Gillis, pabbi hans. Mattias spurði: „Hver er Guð? Hvað ef Biblían er ekki orð Guðs? Hvernig vitum við að það er í raun Guð sem vill að við gerum hitt eða þetta?“ Hann spurði líka pabba sinn: „Af hverju ætti að dæma mig ef ég trúi ekki því sama og þið?“

Gillis segir: „Stundum var sonur okkar reiður þegar hann spurði spurninga. Hann var ekki reiður við móður sína eða mig heldur sannleikann sem honum fannst flækja líf sitt.“ Hvernig fór Gillis að? „Við feðgarnir sátum og spjölluðum saman, stundum í nokkra klukkutíma. Ég hlustaði aðallega en spurði einstaka spurninga til að finna út hvernig hann hugsaði og hverjar skoðanir hans væru. Stundum útskýrði ég eitthvað fyrir honum og sagði honum að hugsa um það í einn eða tvo daga áður en við héldum umræðunni áfram. En stundum sagðist ég þurfa nokkra daga til að hugsa um það sem hann hafði sagt. Vegna samtala okkar fór Mattias smátt og smátt að skilja og viðurkenna biblíusannindi eins og um lausnargjaldið, réttmætt drottinvald Jehóva og kærleika hans. Það tók tíma og reyndi oft á en hægt og bítandi óx kærleikur hans til Jehóva. Við hjónin erum mjög ánægð að þolinmæði okkar við að hjálpa syni okkar í gegnum unglingsárin skilaði sér og náði til hjarta hans.“

Gillis og kona hans treystu á hjálp Jehóva við að leiðbeina syni sínum með þolinmæði. Gillis segir: „Ég sagði Mattiasi oft að við mamma hans elskuðum hann heitt og að það hvetti okkur til að biðja enn ákafar til Jehóva um að hjálpa honum að skilja.“ Foreldrar Mattiasar eru sannarlega ánægðir að hafa sýnt langlyndi og ekki gefist upp.

Þjónar Guðs þurfa líka að rækta með sér langlyndi þegar þeir annast langveika fjölskyldumeðlimi eða vini. Tökum Ellen * sem dæmi en hún býr einnig í Skandinavíu.

Fyrir um átta árum fékk eiginmaður Ellenar heilablóðfall í tvígang sem skaðaði heilastarfsemina. Eftir það getur hann ekki fundið til samúðar, gleði eða sorgar. Þetta er mjög erfitt fyrir Ellen. Hún segir: „Þetta hefur kostað mikla þolinmæði og margar bænir.“ Hún bætir við: „Filippíbréfið 4:13 er uppáhaldsversið mitt og veitir mér mikla huggun, en þar segir: ,Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.‘“ Þessi styrkur gerir Ellen kleift að þrauka með langlyndi því að hún er fullviss um að Jehóva styðji hana. – Sálm. 62:6, 7.

LÍKJUM EFTIR LANGLYNDI JEHÓVA

Jehóva er auðvitað besta fyrirmynd okkar um að sýna langlyndi. (2. Pét. 3:15) Biblían nefnir mörg dæmi um langlyndi hans. (Neh. 9:30; Jes. 30:18) Hvernig brást Jehóva til dæmis við þegar Abraham spurði hann út í ákvörðunina um að eyða Sódómu? Í Fyrsta lagi greip Jehóva ekki fram í fyrir honum þegar hann talaði. Hann hlustaði með þolinmæði á allar spurningar hans þegar hann lýsti áhyggjum sínum. Síðan sýndi Jehóva að hann hafði verið að hlusta með því að endurtaka orð Abrahams og fullvissaði hann um að hann myndi ekki eyða Sódómu, jafnvel þó að hann fyndi þar aðeins tíu réttláta. (1. Mós. 18:22-33) Jehóva er sannarlega frábær fyrirmynd um að hlusta með þolinmæði og bregðast ekki of harkalega við.

Langlyndi er ómissandi eiginleiki hins nýja manns sem allir kristnir menn eiga að íklæðast. Ef við leggjum okkur fram um að sýna þennan mikilvæga eiginleika heiðrum við himneskan föður okkar sem er bæði umhyggjusamur og langlyndur. Auk þess verðum við talin meðal þeirra „sem trúa og eru stöðuglynd og erfa það sem Guð hefur heitið“. – Hebr. 6:10-12.

^ gr. 4 Rætt var um kærleikann í fyrstu greininni af níu í þessari greinaröð um ávöxt anda Guðs.

^ gr. 15 Nafninu er breytt.