Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystum á Krist – öflugan leiðtoga okkar

Treystum á Krist – öflugan leiðtoga okkar

„Einn er leiðtogi yðar, Kristur.“ – MATT. 23:10.

SÖNGVAR: 16, 14

1, 2. Hverju stóð Jósúa frammi fyrir eftir dauða Móse?

ORÐ Jehóva ómuðu enn í eyrum Jósúa: „Móse, þjónn minn, er dáinn. Leggðu nú af stað yfir Jórdan, þú og allt þetta fólk, og inn í landið sem ég gef þeim, Ísraelsmönnum.“ (Jós. 1:1, 2) Hvílík breyting í lífi Jósúa sem hafði verið aðstoðarmaður Móse í næstum 40 ár!

2 Jósúa velti ef til vill fyrir sér hvort Ísraelsmenn myndu viðurkenna hann sem leiðtoga þar sem Móse hafði leitt þjóðina um svo langt skeið. (5. Mós. 34:8, 10-12) Í biblíuskýringarriti segir um Jósúabók 1:1, 2: „Öryggi þjóðar – bæði í fortíð og nútíð – er í hve mestri hættu þegar nýr leiðtogi tekur við völdum.“

3, 4. Hvaða blessun hlaust af því að Jósúa treysti Guði og hverju veltum við kannski fyrir okkur?

3 Jósúa hlýtur að hafa verið smeykur, og ekki að ástæðulausu. En hann treysti á Jehóva og innan fárra daga gekk hann einbeittur til verks. (Jós. 1:9-11) Og Jehóva blessaði hann fyrir að sýna þetta traust. Frásögn Biblíunnar sýnir að Jehóva notaði engil til að leiða Jósúa og Ísraelsþjóðina. Það er rökrétt að ætla að þessi engill hafi verið Orðið, frumgetinn sonur Guðs. – 2. Mós. 23:20-23; Jóh. 1:1.

4 Jehóva hjálpaði Ísraelsþjóðinni að laga sig að breytingunum þegar Jósúa tók við sem leiðtogi hennar. Við lifum líka á tímum sögulegra breytinga þar sem miklar framfarir eiga sér stað í söfnuði Guðs. Við veltum því kannski fyrir okkur hvort við höfum góðar ástæður til að treysta á Jesú sem útvalinn leiðtoga okkar. (Lestu Matteus 23:10.) Til að fá svar við þeirri spurningu skulum við skoða hvernig Jehóva leiddi fólk sitt statt og stöðugt á tímum mikilla breytinga til forna.

FÓLK GUÐS LEITT INN Í KANAANSLAND

5. Hvern hitti Jósúa þegar hann nálgaðist Jeríkó? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Jósúa upplifði nokkuð óvænt skömmu eftir að Ísraelsmenn voru komnir yfir Jórdan. Þegar hann nálgaðist Jeríkó sá hann mann með sverð í hendi. Jósúa þekkti hann ekki og spurði: „Hvort ert þú okkar maður eða fjandmannanna?“ Jósúa varð furðu lostinn þegar maðurinn sagði hver hann væri. Þetta var enginn annar en „hershöfðingi Drottins“, reiðubúinn að verja þjóð hans. (Lestu Jósúabók 5:13-15.) Annars staðar í frásögunni virðist Jehóva tala beint til Josua en eflaust hefur hann gert það fyrir milligöngu engils, eins og svo oft áður. – 2. Mós. 3:2-4; Jós. 4:1, 15; 5:2, 9; Post. 7:38; Gal. 3:19.

6-8. (a) Hvers vegna gætu sum fyrirmæli Jehóva hafa virst óvenjuleg frá mannlegum bæjardyrum séð? (b) Hvernig reyndust leiðbeiningarnar bæði skynsamlegar og tímabærar? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

6 Jósúa hafði þegar fengið skýrar leiðbeiningar um það hvernig hann ætti að vinna Jeríkóborg. Við fyrstu sýn virtust sum fyrirmælin ekki góð herkænska. Jehóva fyrirskipaði til dæmis að allir karlmenn skyldu umskornir, en það þýddi að þeir gátu ekki barist í nokkra daga. Var þetta virkilega besti tíminn til að umskera þessa hraustu menn? – 1. Mós. 34:24, 25; Jós. 5:2, 8.

7 Varnarlausir hermenn Ísraels veltu eflaust fyrir sér hvernig þeir ættu að verja fjölskyldur sínar ef óvinaher gerði áhlaup á búðirnar. En skyndilega bárust þær fréttir að Jeríkó væri „umlukt, rammlega víggirt og lokuð vegna Ísraelsmanna“. (Jós. 6:1) Þessi óvænta atburðarás hefur án efa styrkt traust þeirra á leiðsögn Guðs.

8 Auk þess fengu Ísraelsmenn fyrirmæli um að ráðast ekki á Jeríkó heldur að ganga kringum borgina einu sinni á dag í sex daga og sjö sinnum sjöunda daginn. Sumir hermannanna hugsuðu kannski með sér: „Hvílík tímasóun! Kröftum okkar væri betur varið í eitthvað annað.“ En Jehóva, leiðtogi Ísraels, vissi upp á hár hvað hann var að gera. Þetta útspil styrkti trú Ísraelsmanna og hlífði þeim við beinum átökum við öfluga hermenn Jeríkó. – Jós. 6:2-5; Hebr. 11:30. *

9. Af hverju ættum við að fylgja þeim leiðbeiningum sem við fáum frá söfnuði Guðs? Nefndu dæmi.

9 Hvað lærum við af þessari frásögu? Stundum skiljum við kannski ekki til fulls hvers vegna söfnuðurinn tekur vissa stefnu. Til dæmis má vera að við efuðumst í fyrstu um gagnsemi þess að nota snjalltæki við sjálfsnám, í boðuninni og á samkomum. Nú sjáum við örugglega kosti þess að nota þau ef völ er á. Trú okkar og eining styrkist þegar við sjáum það góða sem hlýst af slíkum nýjungum þótt við hefðum kannski vissar efasemdir í byrjun.

FORYSTA KRISTS Á FYRSTU ÖLD

10. Hver stóð á bak við hinn mikilvæga fund stjórnandi ráðs í Jerúsalem?

10 Um 13 árum eftir að Kornelíus tók kristna trú héldu sumir Gyðingar enn þá fram að nauðsynlegt væri að láta umskerast. (Post. 15:1, 2) Þegar ósætti um þetta mál kom upp í Antíokkíu var ákveðið að Páll skyldi bera málið undir hið stjórnandi ráð í Jerúsalem. En hver stóð á bak við þá ákvörðun? „Ég fór þangað eftir opinberun,“ sagði Páll. Það er greinilegt að Kristur stýrði málum þannig að hið stjórnandi ráð myndi útkljá deiluna. – Gal. 2:1-3.

Það er augljóst að Kristur leiddi söfnuðinn á fyrstu öld. (Sjá 10. og 11. grein.)

11. (a) Hvaða þráláta viðhorf um umskurð ríkti meðal kristinna manna af hópi Gyðinga? (b) Hvernig sýndi Páll að hann studdi auðmjúkur öldungana í Jerúsalem? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

11 Hið stjórnandi ráð tók það skýrt fram undir leiðsögn Krists að kristnir menn af heiðnum uppruna þyrftu ekki að umskerast. (Post. 15:19, 20) Margir af hópi Gyðinga umskáru þó enn syni sína mörgum árum eftir að þessi ákvörðun var tekin. Þegar öldungarnir í Jerúsalem fréttu að sá orðrómur væri kominn á kreik að Páll héldi ekki Móselögin gáfu þeir honum óvæntar leiðbeiningar. * (Post. 21:20-26) Þeir sögðu honum að taka fjóra menn með sér í musterið svo að fólk sæi að hann ,gætti lögmálsins‘. Páll hefði getað véfengt fyrirmæli þeirra, mótmælt og sagt að rót vandans væri sú að kristnir menn af hópi Gyðinga hefðu ekki réttan skilning á umskurðarmálinu. En Páll fór auðmjúkur eftir fyrirmælunum sem honum voru gefin. Þannig sýndi hann öldungunum stuðning enda vissi hann að þeir vildu stuðla að einingu meðal bræðra og systra. Okkur er þó kannski spurn: Af hverju beið Jesús svona lengi með að útkljá þetta deilumál fyrst Móselögin höfðu fallið úr gildi með dauða hans? – Kól. 2:13, 14.

12. Hver getur ástæðan hafa verið fyrir því að Kristur beið með að útkljá deiluna um umskurð?

12 Þegar við fáum gleggri skilning á trúaratriðum getur það tekið tíma fyrir suma að tileinka sér hann. Kristnir menn af hópi Gyðinga þurftu að sama skapi tíma til að breyta viðhorfi sínu. (Jóh. 16:12) Sumum fannst erfitt að sætta sig við að umskurður var ekki lengur merki um sérstakt samband við Guð. (1. Mós. 17:9-12) Aðrir voru tregir til að skera sig úr í samfélagi Gyðinga af ótta við ofsóknir. (Gal. 6:12) Þegar fram liðu stundir gaf Kristur hins vegar nánari leiðbeiningar í innblásnum bréfum Páls. – Rómv. 2:28, 29; Gal. 3:23-25.

KRISTUR LEIÐIR ENN ÞÁ SÖFNUÐ SINN

13. Hvað hjálpar okkur að vera þakklát fyrir leiðsögn Krists nú á dögum?

13 Ef við skiljum ekki til fulls ástæðurnar fyrir sumum skipulagsbreytingum innan safnaðarins getur verið gott að hugleiða hvernig Kristur leiðbeindi þjónum Guðs fyrr á tímum. Á dögum Jósúa og á fyrstu öld gaf hann alltaf viturlegar leiðbeiningar til að vernda þjóna Guðs í heild, styrkja trú þeirra og varðveita einingu þeirra. – Hebr. 13:8.

14-16. Hvernig eru leiðbeiningar ,hins trúa og hyggna þjóns‘ augljóst merki um að Kristi sé umhugað um andlega velferð okkar?

14 Þær tímabæru leiðbeiningar, sem ,hinn trúi og hyggni þjónn‘ lætur í té, eru augljóst merki um að Jesú sé ákaflega umhugað um samband okkar við Jehóva. (Matt. 24:45) Marc er fjögurra barna faðir. Hann segir: „Satan reynir að veikja söfnuðina með því að ráðast á fjölskyldur. Fjölskyldufeður eru því hvattir til að halda tilbeiðslustund fjölskyldunnar í hverri viku. Skilaboðin eru skýr: Standið vörð um fjölskyldu ykkar!“

15 Þegar við gerum okkur grein fyrir að Kristur leiðbeinir okkur skiljum við að hann ber mikla umhyggju fyrir okkur og vill að við séum sterk í trúnni. Öldungur að nafni Patrick segir: „Í fyrstu fannst sumum letjandi að hittast í litlum hópum fyrir boðunina um helgar. En þannig skín í gegn einn helsti eiginleiki Jesú – umhyggja hans fyrir lítillátum. Nú finnst hæverskum trúsystkinum og þeim sem eru ekki mjög virk í boðuninni þau meira virði og að þau komi að meira gagni. Fyrir vikið hafa þau dafnað í trúnni.“

16 En Kristur sér ekki aðeins fyrir andlegum þörfum okkar. Hann hjálpar okkur líka að einbeita okkur að mikilvægasta starfi sem unnið er á jörðinni nú til dags. (Lestu Markús 13:10.) André er nýútnefndur öldungur. Hann hefur alltaf verið vakandi fyrir stefnubreytingum í söfnuði Guðs. Hann segir: „Fækkun starfsfólks á deildarskrifstofunum minnir okkur á hve naumur tíminn er orðinn og að við þurfum fyrst og fremst að einbeita okkur að boðuninni.“

FYLGJUM TRÚFÖST LEIÐSÖGN KRISTS

17, 18. Hvers vegna er gott að hugleiða gagnið sem við höfum haft af því að laga okkur að nýlegum breytingum?

17 Við sjáum skýrt af öflugri leiðsögn konungs okkar, Jesú Krists, að hann horfir til framtíðar. Við getum glaðst yfir þeim breytingum sem hafa verið gerðar og hvernig það hefur verið okkur til góðs að laga okkur að þeim. Ykkur gæti fundist uppörvandi að ræða í tilbeiðslustund fjölskyldunnar hvernig þið hafið notið góðs af breytingunum sem gerðar hafa verið á samkomum eða boðuninni.

Hjálpar þú fjölskyldu þinni og öðrum að vera samstíga söfnuði Jehóva? (Sjá 17. og 18. grein.)

18 Það er bæði auðveldara og ánægjulegra að fylgja leiðbeiningum frá söfnuði Jehóva ef við skiljum andann að baki þeim og hvernig þær eru okkur til góðs. Það gleður okkur til dæmis að vita að það sparar peninga að draga úr prentun rita. Nýjasta tækni auðveldar okkur að flytja enn fleira fólki fagnaðarerindið. Gætir þú notað myndskeiðin og rafræn rit í ríkari mæli? Þannig styðurðu Krist sem vill að við förum skynsamlega með fjármuni safnaðarins.

19. Af hverju ættum við að styðja leiðsögn Krists?

19 Þegar við styðjum leiðsögn Krists styrkjum við trú bræðra okkar og systra og stuðlum að einingu. André segir um nýlegan niðurskurð á stærð Betelfjölskyldunnar um heim allan: „Breytingarnar hafa styrkt traust mitt á leiðsögn Krists og nú ber ég enn meiri virðingu fyrir Betelítunum sem löguðu sig að þeim með jákvæðu hugarfari. Þeir eru samstíga himnavagni Jehóva með því að gleðjast yfir hvaða verkefni sem þeim er gefið.“

SÝNUM TRÚ OG TREYSTUM Á LEIÐTOGA OKKAR

20, 21. (a) Hvers vegna getum við treyst á Krist, leiðtoga okkar? (b) Um hvað er rætt í næstu grein?

20 Innan skamms mun leiðtogi okkar, Jesús Kristur, hrósa fullnaðarsigri og vinna „ógnarleg stórvirki“. (Opinb. 6:2; Sálm. 45:5) Þangað til býr hann okkur undir lífið í nýja heiminum og það verk sem bíður okkar þar – að kenna þeim sem rísa upp og hjálpa til við að gera jörðina að paradís.

21 Konungur okkar leiðir okkur inn í nýja heiminn svo framarlega sem við berum fullt traust til hans óháð þeim breytingum sem kunna að verða. (Lestu Sálm 46:2-4.) Það getur verið erfitt að takast á við breytingar, ekki síst þegar lífið tekur óvænta stefnu. Hvernig getum við varðveitt innri frið og sterka trú á Jehóva þegar það gerist? Leitað verður svara við þeirri spurningu í næstu grein.

^ gr. 8 Fornleifafræðingar fundu miklar birgðir af korni í rústum Jeríkó. Það gefur til kynna að umsátrið hafi ekki staðið lengi og að matarbirgðir borgarinnar hafi ekki verið uppurnar. Ísraelsmenn máttu ekki fara ránshendi um Jeríkó. Þar af leiðandi var þetta rétti tíminn til að ráðast inn í landið því að uppskerutíminn stóð yfir og nægan mat var að finna á ökrunum. – Jós. 5:10-12.

^ gr. 11 Sjá rammagreinina „Páll sýnir auðmýkt og hollustu“ í Varðturninum 1. maí 2003, bls. 20.