Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Treystum á Jehóva og lifum

Treystum á Jehóva og lifum

„Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ – ORÐSKV. 3:5.

SÖNGVAR: 3, 8

1. Af hverju þurfum við öll á huggun að halda?

VIÐ þurfum öll á huggun að halda. Kannski einkennist líf okkar af vonbrigðum, áhyggjum og kvíða. Ef til vill ertu að glíma við elli, veikindi eða ástvinamissi. Sum okkar þurfa að þola ofsóknir. Við sjáum að ofbeldi færist í aukana. Við vitum að þessar ,örðugu tíðir‘ eru sönnun þess að við lifum „á síðustu dögum“ og að nýi heimurinn færist nær með hverjum deginum sem líður. (2. Tím. 3:1) Sum okkar hafa beðið lengi eftir að sjá loforð Jehóva uppfyllast og margir upplifa meiri erfiðleika nú en áður. Hvar fáum við huggun?

2, 3. (a) Hvað vitum við um Habakkuk? (b) Hvers vegna ætlum við að skoða bók Habakkuks?

2 Til að fá svar við því skulum við skoða bók Habakkuks. Ekki er vitað mikið um líf og starf Habakkuks en við getum sótt huggun í biblíubókina sem ber nafn hans. Talið er að nafn hans merki „innilegt faðmlag“. Það passar vel við hvernig Jehóva huggar okkur, það er eins og hann taki okkur í faðm sinn. Það gæti líka vísað til þess hvernig þjónar hans halda sig fast við hann. Habakkuk talaði við Guð og lagði fyrir hann spurningar. Jehóva innblés Habakkuk að skrifa niður samtal þeirra af því að hann vissi að við gætum notið góðs af því. – Hab. 2:2.

3 Það eina sem við finnum um Habakkuk í Biblíunni er samtal hans við Jehóva. Bók þessa áhyggjufulla spámanns er hluti af ,öllu því sem áður var ritað‘ og er varðveitt í orði Guðs, Biblíunni, ,til þess að við höldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa‘. (Rómv. 15:4) Hvernig getur bók Habakkuks hjálpað okkur? Hún getur hjálpað okkur að skilja hvað það merkir að treysta á Jehóva. Spádómur Habakkuks fullvissar okkur líka um að við getum öðlast innri frið og varðveitt hann þrátt fyrir erfiðleika og raunir. Með það í huga skulum við skoða bók Habakkuks.

BIÐJUM TIL JEHÓVA

4. Hvers vegna var Habakkuk örvæntingarfullur?

4 Lestu Habakkuk 1:2, 3. Á dögum Habakkuks var ástandið mjög erfitt. Fólk allt í kring var spillt og ofbeldisfullt og þar af leiðandi var hann mjög niðurdreginn. Hvenær myndi illskan taka enda? Af hverju tók það Jehóva svona langan tíma að skerast í leikinn? Habakkuk horfði upp á samlanda sína beita hver annan órétti og kúgun. Honum fannst hann hjálparvana. Hann grátbað því Jehóva að grípa í taumana. Habakkuk gæti hafa fundist Jehóva standa á sama um ástandið eða að hann væri seinn á sér. Hefur þér einhvern tíma liðið þannig?

5. Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af bók Habakkuks? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

5 Treysti Habakkuk ekki lengur á Jehóva og loforð hans? Þvert á móti! Hann leitaði til Jehóva með erfiðleika sína og áhyggjur en ekki til manna og það sýnir að hann hafði ekki misst alla von eða gefist upp. Hann var augljóslega áhyggjufullur af því að hann skildi ekki hvers vegna Jehóva beið með að laga ástandið og leyfði honum að þjást. Jehóva innblés Habakkuk að færa áhyggjur sínar í letur. Hann vill því greinilega að við séum óhrædd við að segja honum frá áhyggjum okkar og efasemdum. Hann vill að við úthellum hjarta okkar fyrir honum í bæn. (Sálm. 50:15; 62:9) Í Orðskviðunum 3:5 fáum við líka hvatninguna: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.“ Habakkuk hefur án efa þekkt þetta vers og tekið það til sín.

6. Hvers vegna er mikilvægt að biðja?

6 Habakkuk treysti á Jehóva, föður sinn, og tók frumkvæðið í að nálægja sig honum. Hann velti sér ekki upp úr áhyggjum sínum né treysti á sjálfan sig. Þess heldur setti hann okkur gott fordæmi með því að segja Jehóva frá tilfinningum sínum og áhyggjum í bæn. Jehóva, sem heyrir bænir, vill að við treystum honum með því að segja honum frá áhyggjum okkar. (Sálm. 65:3) Þegar við gerum það sjáum við hvernig hann svarar bænum okkar – hvernig hann huggar og leiðbeinir okkur á kærleiksríkan hátt. (Sálm. 73:23, 24) Hverjar sem aðstæður okkar eru hjálpar Jehóva okkur að skilja hvernig hann lítur á málin. Að biðja til Guðs er ein besta leiðin til að sýna að við treystum á hann.

HLUSTUM Á JEHÓVA

7. Hvernig brást Jehóva við þegar Habakkuk tjáði honum áhyggjur sínar?

7 Lestu Habakkuk 1:5-7Eftir að Habakkuk hafði tjáð Jehóva áhyggjur sínar hefur hann kannski velt fyrir sér hver viðbrögð Jehóva yrðu. Rétt eins og skilningsríkur og umhyggjusamur faðir ávítaði Jehóva hann ekki fyrir að úthella hjarta sínu í einlægni. Guð vissi að hann þjáðist og væri að grátbiðja um hjálp. Hann beindi athygli Habakkuks að því sem myndi henda ótrúa Gyðinga í nánustu framtíð. Það má vel vera að Jehóva hafi sagt Habakkuk fyrstum manna að brátt yrði bundinn endi á ofbeldið.

8. Af hverju komu viðbrögð Jehóva Habakkuk á óvart?

8 Jehóva benti Habakkuk á að hann væri reiðubúinn að skerast í leikinn. Þessi ofbeldisfulla og spillta kynslóð átti refsingu yfir höfði sér. Með því að segja „á yðar dögum“ gaf Jehóva í skyn að dómurinn myndi falla á dögum spámannsins og samtíðarmanna hans. Viðbrögð Jehóva voru alls ekki eins og Habakkuk hafði búist við. Var þetta svar við grátbeiðni hans? Það sem Jehóva sagði honum merkti að þjáningar Júdamanna myndu aukast. * Kaldear (Babýloníumenn) voru miskunnarlausir og grimmir. Þeir voru jafnvel enn ofbeldisfyllri en þjóð Habakkuks sem þekkti í það minnsta meginreglur Jehóva. Hvers vegna ætlaði Jehóva að nota þessa grimmu heiðnu þjóð til að refsa Júdamönnum? Hvernig hefði þér liðið ef þú hefðir verið í sporum Habakkuks?

9. Hverju velti Habakkuk eflaust fyrir sér?

9 Lestu Habakkuk 1:12-14, 17Habakkuk vissi að Jehóva myndi nota Babýloníumenn til að refsa illvirkjunum. Þótt hann ætti erfitt með að sjá heildarmyndina treysti hann á Jehóva og kallaði hann ,bjarg‘ sitt. (5. Mós. 32:4; Jes. 26:4) Habakkuk sýndi þolinmæði og treysti á kærleika og góðvild Guðs. Hann var því ekki hræddur við að leita áfram svara hjá Jehóva. Hvers vegna leyfði Jehóva ástandinu í Júda að versna? Af hverju gerði hann ekki eitthvað strax í málinu? Hvers vegna ,horfði hann aðgerðalaus‘ á illvirkjana fyrst hann er ,hinn Heilagi‘ og ,augu hans eru of hrein til að líta hið illa‘?

10. Af hverju gæti okkur stundum liðið eins og Habakkuk?

10 Stundum gæti okkur liðið eins og Habakkuk. Við hlustum á Jehóva. Við treystum honum og lesum í Biblíunni og það veitir okkur von. Við erum minnt á loforð hans þegar við hlýðum á kennsluna sem við fáum fyrir milligöngu safnaðarins. Þrátt fyrir það veltum við kannski fyrir okkur hvenær erfiðleikar okkar taki enda. Hvað lærum við af því sem Habakkuk gerði í framhaldinu?

BÍÐUM ÞOLINMÓÐ EFTIR JEHÓVA

11. Hvað var Habakkuk ákveðinn í að gera?

11 Lestu Habakkuk 2:1Habakkuk talaði við Jehóva og það veitti honum hugarró. Hann varð enn ákveðnari í að bíða þolinmóður eftir Jehóva og hélt áfram að vera þolinmóður því að síðar sagði hann: „Með hugarró mun ég ... bíða neyðardagsins.“ (Hab. 3:16) Trúfastir þjónar Guðs hafa sýnt sams konar traust og þolinmæði. Við getum líkt eftir þeim og beðið þolinmóð eftir að Jehóva skerist í leikinn. – Míka 7:7; Jak. 5:7, 8.

12. Hvað getum við lært af Habakkuk?

12 Hvað getum við lært af Habakkuk? Í fyrsta lagi megum við aldrei hætta að biðja til Jehóva, sama hvaða erfiðleikum við mætum. Í öðru lagi verðum við að hlusta á það sem Jehóva segir í orði sínu og fyrir milligöngu safnaðarins. Og í þriðja lagi verðum við að bíða þolinmóð eftir Jehóva og treysta því að hann bindi enda á þjáningar okkar á settum tíma. Við getum líka öðlast hugarró ef við eigum náið samband við Jehóva og hlustum þolinmóð á hann eins og Habakkuk gerði, og það auðveldar okkur að halda út. Vonin hjálpar okkur að vera þolinmóð og þannig varðveitum við gleðina í öllum erfiðleikum okkar. Vonin gefur okkur fullvissu um að himneskur faðir okkar styðji okkur. – Rómv. 12:12.

13. Hvaða fullvissu fáum við í Habakkuk 2:3?

13 Lestu Habakkuk 2:3Jehóva var án efa ánægður að Habakkuk skyldi bíða þolinmóður. Hann gerði sér fulla grein fyrir því að Habakkuk var í erfiðum aðstæðum. Guð veitti spámanninum huggun og fullvissaði hann um að hann fengi svar við einlægum spurningum sínum. Fljótlega yrðu áhyggjur hans að engu. Guð var í raun að segja við hann: „Vertu þolinmóður og treystu á mig. Þú færð svar við bænum þínum þótt það virðist dragast á langinn!“ Jehóva minnti hann á að hann væri búinn að ákveða hvenær hann ætlaði að uppfylla loforð sín. Hann hvatti Habakkuk til að bíða þolinmóður. Fyrir vikið yrði spámaðurinn ekki fyrir vonbrigðum.

Hvers vegna erum við staðráðin í að þjóna Jehóva eftir bestu getu? (Sjá 14. grein.)

14. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera þegar á reynir?

14 Við þurfum líka að bíða þolinmóð eftir Jehóva og hlusta vandlega á það sem hann segir. Það styrkir traust okkar á honum og veitir okkur hugarró þótt við mætum mótlæti og erfiðleikum. Jesús hvatti okkur til að treysta á Jehóva, hinn mikla tímavörð, í stað þess að einblína á „tíma eða tíðir“ sem Jehóva hefur ekki enn opinberað. (Post. 1:7) Við skulum því fyrir alla muni bíða þolinmóð í auðmýkt og trú svo að við gefumst ekki upp. Notum tíma okkar til að þjóna Jehóva eftir bestu getu. – Mark. 13:35-37; Gal. 6:9.

AÐ TREYSTA Á JEHÓVA VEITIR LÍF OG DÁSAMLEGA FRAMTÍÐ

15, 16. (a) Hvaða mikilvægu loforð er að finna í bók Habakkuks? (b) Hvað undirstrika þessi loforð?

15 Jehóva hefur gefið hinum réttlátu, sem treysta á hann, eftirfarandi loforð: „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú sína“ og „heimsbyggðin mun mettast af þekkingu á dýrð Drottins“. (Hab. 2:4, 14) Þeir sem treysta þolinmóðir á Guð fá eilíft líf að launum.

16 Loforð Jehóva í Habakkuk 2:4 gætu við fyrstu sýn virst almenn staðhæfing. En loforðin eru svo mikilvæg að Páll postuli vitnaði þrisvar sinnum í versið. (Rómv. 1:17; Gal. 3:11; Hebr. 10:38) Við mætum öll erfiðleikum. En við getum verið viss um að við fáum að sjá fyrirætlun Jehóva uppfyllast svo framarlega sem við erum trúföst og treystum á hann. Jehóva vill að við horfum til framtíðar.

17. Hvað fullvissar Jehóva okkur um í bók Habakkuks?

17 Við sem lifum á þessum síðustu dögum getum dregið mikilvægan lærdóm af bók Habakkuks. Jehóva lofar eilífu lífi öllum sem sýna trú og traust á hann. Við skulum því styrkja traust okkar til hans, líka þegar við þurfum að glíma við áhyggjur og vandamál. Fyrir milligöngu Habakkuks fullvissar Jehóva okkur um að hann muni styðja okkur og frelsa. Hann biður okkur vingjarnlega að treysta sér og bíða þolinmóð eftir að ríki hans komi. Þá mun jörðin vera full af hamingjusömu og friðsömu fólki sem tilbiður Jehóva. – Matt. 5:5; Hebr. 10:36-39.

TREYSTUM Á JEHÓVA MEÐ GLEÐI

18. Hvaða áhrif hafði loforð Jehóva á Habakkuk?

18 Lestu Habakkuk 3:16-19Það sem Jehóva sagði hafði mikil áhrif á Habakkuk. Hann hugleiddi þau miklu máttarverk sem Jehóva hafði áður gert fyrir fólk sitt. Þannig endurheimti hann traust sitt á Jehóva. Hann vissi að Jehóva myndi brátt taka í taumana. Það veitti spámanninum huggun, jafnvel þótt hann vissi að þjáningar sínar myndu ekki strax taka enda. Habakkuk efaðist ekki lengur. Hann var orðinn fullviss um að Jehóva myndi bjarga sér. Síðan lýsti hann yfir trausti sínu á Jehóva á afar eftirminnilegan hátt. Sumir fræðimenn vilja meina að 18. versið merki bókstaflega: „Ég mun hoppa af gleði vegna Drottins. Ég mun dansa af fögnuði yfir Guði.“ Við getum dregið mikilvægan lærdóm af þessu. Jehóva hefur ekki aðeins gefið okkur dásamleg loforð heldur hefur hann líka fullvissað okkur um að hann sé að vinna að því að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga.

19. Hvernig fáum við huggun líkt og Habakkuk?

19 Við getum dregið mikilvægan lærdóm af bók Habakkuks – að treysta á Jehóva. (Hab. 2:4) Við getum öðlast slíkt traust og viðhaldið því ef við styrkjum samband okkar við Jehóva með því að (1) vera bænrækin og segja Jehóva frá áhyggjum okkar, (2) hlusta vel á það sem hann segir okkur fyrir milligöngu Biblíunnar og safnaðarins og (3) bíða trúföst og þolinmóð eftir honum. Það gerði Habakkuk. Í byrjun var hann áhyggjufullur en þegar hann lauk ritun bókar sinnar var hann öruggur og fullur gleði. Megum við fara að fordæmi hans svo að við getum líka fundið fyrir föðurlegu faðmlagi Jehóva. Er hægt að hugsa sér betri huggun í þessum myrka heimi?

^ gr. 8 Í Habakkuk 1:5 er notuð fleirtölumyndin „yðar“ en það bendir til þess að ógæfan myndi koma yfir alla Júdamenn.