Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 2

Lofum Jehóva í söfnuðinum

Lofum Jehóva í söfnuðinum

„Í söfnuðinum vil ég lofa þig.“ – SÁLM. 22:23.

SÖNGUR 59 Lofum öll Guð

YFIRLIT *

1. Hvaða tilfinningar bar Davíð til Jehóva og hvað knúði það hann til að gera?

DAVÍÐ KONUNGUR skrifaði: „Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur.“ (Sálm. 145:3) Hann elskaði Jehóva og það knúði hann til að lofa hann „í söfnuðinum“. (Sálm. 22:23; 40:6) Þú elskar áreiðanlega Jehóva og ert sammála því sem Davíð sagði: „Lofaður sért þú, Drottinn, Guð föður vors, Ísraels, frá eilífð til eilífðar.“ – 1. Kron. 29:10-13.

2. (a) Hvernig getum við lofað Jehóva? (b) Hvað eiga sumir erfitt með og hvað ætlum við að skoða?

2 Ein leið til að lofa Jehóva er að svara á samkomum. En sum trúsystkini okkar eiga verulega erfitt með það. Þau vilja taka þátt í samkomunum en finnst það ógnvekjandi. Hvernig geta þau tekist á við þennan ótta? Og hvaða gagnlegu ráð geta hjálpað okkur öllum að gefa uppörvandi svör? Áður en við svörum því skulum við skoða fjórar mikilvægar ástæður fyrir því að við svörum á samkomum.

HVERS VEGNA SVÖRUM VIÐ Á SAMKOMUM?

3-5. (a) Hvaða ástæða er gefin í Hebreabréfinu 13:15 fyrir því að svara á samkomum? (b) Verðum við öll að svara eins? Skýrðu svarið.

3 Jehóva veitir okkur öllum þann heiður að fá að lofa hann. (Sálm. 119:108) Svörin okkar á samkomum eru hluti af „lofgjörðarfórn“ okkar og enginn getur fært þá fórn fyrir okkur. (Lestu Hebreabréfið 13:15.) Ætlast Jehóva til þess að við færum honum öll eins fórn eða gefum eins svör? Nei, það gerir hann ekki.

4 Jehóva veit að geta okkar og kringumstæður eru mismunandi. Hann metur mikils þær fórnir sem við getum fært honum. Höfum í huga hvers konar fórnir Ísraelsmenn færðu. Sumir gátu fórnað lambi eða geit. Fátækur Ísraelsmaður mátti fórna ,tveim turtildúfum eða tveim dúfum‘. En ef hann hafði ekki efni á tveim fuglum gat hann fært Jehóva „tíunda hluta úr efu af fínu mjöli“ að fórn. (3. Mós. 5:7, 11) Mjöl var ekki eins dýr fórn en Jehóva kunni samt að meta hana svo framarlega sem mjölið var ,fínt‘.

5 Gæskuríkur Guð okkar hefur ekki breyst. Hann fer ekki fram á að við séum öll eins vel máli farin og Apollós eða eins sannfærandi og Páll þegar við svörum. (Post. 18:24; 26:28, NW) Jehóva vill bara að við svörum eins vel og við getum – miðað við okkar getu. Munum eftir ekkjunni sem gaf smápeningana tvo. Hún var dýrmæt í augum Jehóva vegna þess að hún gaf það besta sem hún gat gefið. – Lúk. 21:1-4.

Að svara er sjálfum okkur og öðrum til gagns. (Sjá 6. og 7. grein.) *

6. (a) Hvaða áhrif geta svör annarra haft á okkur samkvæmt Hebreabréfinu 10:24, 25? (b) Hvernig geturðu sýnt að þú kunnir að meta uppörvandi svör annarra?

6 Við uppörvum hvert annað með svörum okkar. (Lestu Hebreabréfið 10:24, 25.) Okkur finnst öllum ánægjulegt að heyra fjölbreytt svör á samkomum. Það er gaman að heyra barn svara á einfaldan og einlægan hátt. Það hreyfir við okkur að heyra ákafann í röddinni þegar einhver segir frá sannindum sem hann er nýbúinn að uppgötva. Og við dáumst að þeim sem taka í sig kjark til að svara þótt þeir séu feimnir eða nýbyrjaðir að læra tungumálið. (1. Þess. 2:2) Hvernig getum við sýnt að við kunnum að meta það sem þau leggja á sig? Við getum þakkað þeim eftir samkomu fyrir uppörvandi svör. Önnur leið er að svara sjálf. Þannig fáum við ekki aðeins uppörvun heldur uppörvum við líka aðra. – Rómv. 1:11, 12.

7. Hvaða gagn höfum við af því að svara?

7 Við höfum sjálf gagn af því að svara. (Jes. 48:17) Hvernig þá? Í fyrsta lagi: Ef við höfum það markmið að svara er það okkur hvatning til að búa okkur vel undir samkomuna. Þegar við undirbúum okkur vel fáum við betri skilning á orði Guðs. Og því betri sem skilningur okkar er þeim mun auðveldara er að fara eftir því sem við lærum. Í öðru lagi: Það er líklegra að við höfum meiri ánægju af samkomunni ef við tökum þátt í umræðunum. Í þriðja lagi: Við þurfum að hafa fyrir því að svara og þar af leiðandi munum við oft það sem við sögðum löngu eftir að samkoman er búin.

8-9. (a) Hvernig heldurðu að Jehóva líti á svör okkar miðað við Malakí 3:16? (b) Hvað gæti sumum samt fundist erfitt?

8 Við gleðjum Jehóva þegar við tjáum trú okkar. Við megum vera viss um að Jehóva hlustar á okkur og metur mikils það sem við leggjum á okkur til að svara á samkomum. (Lestu Malakí 3:16.) Hann sýnir þakklæti sitt með því að blessa okkur þegar við gerum okkar ýtrasta til að þóknast honum. – Mal. 3:10.

9 Við höfum augljóslega góðar ástæður fyrir því að svara á samkomum. Samt gætu sumir verið hræddir við að rétta upp höndina. Láttu ekki deigan síga ef þér líður þannig. Skoðum nokkrar meginreglur Biblíunnar, fáein dæmi og nokkur gagnleg ráð sem geta hjálpað okkur öllum að svara oftar á samkomum.

AÐ SIGRAST Á ÓTTANUM

10. (a) Hvað óttast mörg okkar? (b) Hvers vegna getur verið góðs viti að vera hræddur við að svara?

10 Færðu hnút í magann í hvert sinn sem þú svo mikið sem hugsar um að rétta upp hönd til að svara? Þá ertu ekki einn um það. Sannleikurinn er sá að flest okkar finna fyrir vissum ótta þegar við svörum. Þú þarft að gera þér grein fyrir hvað veldur óttanum áður en þú getur unnið bug á þessari lamandi tilfinningu. Óttastu að gleyma því sem þú vildir segja eða að þú segir eitthvað vitlaust? Ertu hræddur um að svarið þitt verði ekki eins gott og annarra? Þess konar ótti getur reyndar verið góðs viti. Það er merki um að þú sért auðmjúkur og að þér finnist aðrir betri en þú. Jehóva hefur miklar mætur á auðmýkt. (Sálm. 138:6; Fil. 2:3) En hann vill líka að þú lofir hann og hvetjir bræður þína og systur á samkomum. (1. Þess. 5:11) Jehóva elskar þig og vill gefa þér það hugrekki sem þú þarft á að halda.

11. Hvaða biblíulegu sannindi geta hjálpað okkur?

11 Gott er að hafa í huga nokkur biblíuleg sannindi. Okkur verður öllum á í tali eins og segir í Biblíunni. (Jak. 3:2) Jehóva ætlast ekki til að við séum fullkomin og það gera trúsystkini okkar ekki heldur. (Sálm. 103:12-14) Þau eru andleg fjölskylda okkar og þau elska okkur. (Mark. 10:29, 30; Jóh. 13:35) Þau vita að stundum koma svörin okkar ekki alveg rétt út.

12-13. Hvað lærum við af Nehemía og Jónasi?

12 Skoðum tvö dæmi í Biblíunni sem geta hjálpað þér að komast yfir óttann. Munum eftir Nehemía. Hann þjónaði við hirð voldugs konungs. Nehemía var niðurdreginn því að hann hafði heyrt að múrar og hlið Jerúsalem voru rústir einar. (Neh. 1:1-4) Hugsaðu þér hnútinn sem hann hlýtur að hafa haft í maganum þegar konungur spurði hvers vegna hann væri svona niðurlútur. Nehemía fór sem snöggvast með bæn áður en hann svaraði. Það sem konungur gerði í kjölfarið var þjóð Guðs til mikillar hjálpar. (Neh. 2:1-8) Munum líka eftir Jónasi. Hann varð svo hræddur þegar Jehóva bað hann að tala til íbúa Níníve að hann hljóp í þveröfuga átt. (Jónas 1:1-3) En með hjálp Jehóva gat Jónas leyst verkefni sitt af hendi. Og það sem hann sagði var íbúum Níníve heldur betur til góðs. (Jónas 3:5-10) Við lærum af Nehemía að það er mikilvægt að biðja áður en við svörum. Og af Jónasi lærum við að Jehóva getur hjálpað okkur að þjóna sér, sama hversu óttaslegin við erum. Það er enginn söfnuður jafn ógnvekjandi og Nínívebúar, er það nokkuð?

13 Hvaða gagnlegu ráð geta hjálpað þér að gefa uppörvandi svör á samkomum? Skoðum nokkrar tillögur.

14. Hvers vegna ættum við að búa okkur vel undir samkomurnar og hvenær gætum við gert það?

14 Búðu þig undir hverja samkomu. Þú færð meira sjálfstraust til að svara þegar þú skipuleggur þig fyrir fram og undirbýrð þig vel. (Orðskv. 21:5) Við höfum auðvitað ekki öll sömu dagskrá. Eloise, ekkja á níræðisaldri, byrjar að búa sig undir Varðturnsnámið fyrripart vikunnar. Hún segir: „Ég hef meiri ánægju af samkomunum ef ég undirbý mig fyrir fram.“ Joy, sem er í fullri vinnu, tekur frá tíma á laugardögum til að búa sig undir Varðturnsnámið. „Mér finnst gott að hafa efnið í fersku minni,“ segir hún. Ike er önnum kafinn öldungur og brautryðjandi. Hann segir: „Mér finnst best að undirbúa mig í skorpum í vikunni frekar en að gera það allt á einu bretti.“

15. Hvernig geturðu búið þig vel undir samkomu?

15 Hvað felst í því að búa sig vel undir samkomu? Byrjaðu hverja námsstund á því að biðja Jehóva um heilagan anda. (Lúk. 11:13; 1. Jóh. 5:14) Síðan skaltu gefa þér nokkrar mínútur til að líta yfir efnið. Veltu fyrir þér titlinum, millifyrirsögnum, myndum og rammagreinum. Farðu síðan yfir hverja grein fyrir sig og ef þú getur skaltu reyna að lesa öll versin sem vísað er í. Hugleiddu efnið og einbeittu þér sérstaklega að því sem þig langar til að svara. Því betur sem þú undirbýrð þig því meira gagn hefurðu af efninu og þá verður auðveldara fyrir þig að svara. – 2. Kor. 9:6.

16. Hvaða hjálpargögn standa þér til boða og hvernig notarðu þau?

16 Ef þú getur skaltu nota rafræn hjálpargögn á máli sem þú skilur. Fyrir milligöngu safnaðarins hefur Jehóva gefið okkur rafræn hjálpargögn sem auðvelda okkur að búa okkur undir samkomurnar. Appið JW Library® gerir okkur kleift að sækja námsrit í snjalltækinu okkar. Þá getum við farið yfir efnið hvar og hvenær sem er – að minnsta kosti lesið það yfir eða hlustað á það. Sumir nota appið til að undirbúa sig þegar þeir eru í hádegishléi í vinnu eða skóla eða þegar þeir ferðast. Forritið Watchtower Library og VEFBÓKASAFN Varðturnsins auðvelda okkur að rannsaka efni sem við viljum skoða betur.

Hvenær gefurðu þér tíma til að búa þig undir samkomur? (Sjá 14.-16. grein.) *

17. (a) Hvers vegna er gott að undirbúa nokkur svör? (b) Hvað lærðirðu af myndbandinu Vertu vinur Jehóva – undirbúið svörin ykkar?

17 Undirbúðu nokkur svör fyrir hverja námsgrein ef hægt er. Hvers vegna? Vegna þess að þú færð kannski ekki alltaf að svara þegar þú réttir upp hönd. Líklega rétta aðrir upp hönd á sama tíma, og sá sem stýrir umræðunum gæti valið einhvern þeirra. Námsstjórinn gæti þurft að takmarka svörin á einhverjum tímapunkti til að halda samkomunni innan tímamarka. Þú skalt því ekki móðgast eða missa móðinn ef þú færð ekki að svara strax. Ef þú undirbýrð nokkur svör færðu fleiri tækifæri til að taka þátt í umræðunum. Eitt svaranna gæti falið í sér að lesa biblíuvers. En ef þú getur skaltu líka undirbúa svar þar sem þú tjáir þig með eigin orðum. *

18. Hvers vegna ættum við að gefa stutt svör?

18 Gefðu stutt svör. Oft eru stutt og einföld svör hvað mest uppörvandi. Reyndu því að hafa svörin þín stutt, helst ekki lengur en hálfa mínútu. (Orðskv. 10:19; 15:23) Ef þú hefur svarað á samkomum í mörg ár hefurðu mikilvægu hlutverki að gegna – að setja öðrum gott fordæmi með því að gefa stutt svör. Það gæti dregið kjarkinn úr sumum ef svörin þín eru flókin og nokkurra mínútna löng. Þeim finnst þeir kannski ekki geta svarað eins vel og þú. Stutt svör gefa líka fleirum færi á að taka þátt í samkomunni. Gefðu einfalt og markvisst svar, sérstaklega ef þú færð að svara fyrst. Reyndu að nefna ekki allt sem kemur fram í greininni. Eftir að búið er að ræða aðalatriðið geturðu bent á önnur atriði. – Sjá rammann „ Hverju get ég svarað?

19. Hvernig getur sá sem stýrir umræðunum hjálpað þér, en hvað þarft þú að gera?

19 Segðu þeim sem stýrir umræðunum að þú viljir svara við vissa grein. Ef þú ákveður að gera þetta skaltu tala við bróðurinn með góðum fyrirvara áður en samkoman byrjar. Þegar komið er að því að gefa svar við greininni skaltu rétta upp hönd fljótt og nógu hátt til að hún sjáist.

20. Að hvaða leyti eru samkomurnar eins og matarboð með vinum?

20 Líttu á samkomurnar eins og matarboð með góðum vinum. Hvað myndirðu gera ef nokkrir vinir í söfnuðinum byðu þér í grillveislu og bæðu þig að taka með lítið eitt af mat? Þú gætir orðið smá stressaður en líklega myndirðu gera þitt besta til að taka með eitthvað sem öllum finnst gott. Jehóva, gestgjafi okkar, hefur lagt á borð fyrir okkur alls kyns góðgæti á samkomunum. (Sálm. 23:5; Matt. 24:45) Það gleður hann þegar við tökum með okkur einfalda gjöf, þá bestu sem við getum gefið. Undirbúðu þig því vel og svaraðu eins oft og þú getur. Þá næristu ekki aðeins af borði Jehóva heldur kemurðu líka með gjöf sem aðrir í söfnuðinum geta notið.

SÖNGUR 2 Þú heitir Jehóva

^ gr. 5 Við elskum öll Jehóva og höfum yndi af að lofa hann, rétt eins og sálmaskáldið Davíð. Við höfum sérstakt tækifæri til að tjá kærleika okkar til Guðs með því að svara á samkomum. Sumum okkar finnst það hins vegar erfitt. Ef það á við um þig getur þessi grein hjálpað þér að koma auga á hvað það er sem þér finnst ógnvekjandi og sigrast á því.

^ gr. 17 Horfðu á myndbandið Vertu vinur Jehóva – undirbúið svörin ykkar. Þú finnur það undir BIBLÍAN OG LÍFIÐ > BÖRN.

^ gr. 63 Mynd: Fólk á samkomu hefur ánægju af að taka þátt í umræðum um grein í Varðturninum.

^ gr. 65 Mynd: Hér eru nokkur þeirra sem tóku þátt í Varðturnsnámi safnaðarins á myndinni á undan. Þau taka sér öll tíma til að búa sig undir samkomuna þótt aðstæður þeirra séu ólíkar.