Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 12

Látum okkur annt um tilfinningar annarra

Látum okkur annt um tilfinningar annarra

„Verið öll ... hluttekningarsöm.“ – 1. PÉT. 3:8.

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

YFIRLIT *

1. Hvers vegna líður okkur vel innan um þá sem láta sér annt um tilfinningar okkar og velferð eins og hvatt er til í 1. Pétursbréfi 3:8?

OKKUR líður vel innan um fólk sem lætur sér annt um tilfinningar okkar og velferð. Það reynir að setja sig í spor okkar, að skilja hvað við erum að hugsa og hvernig okkur líður. Það gerir sér grein fyrir þörfum okkar og réttir fram hjálparhönd – jafnvel áður en við biðjum um nokkuð. Við kunnum að meta þá sem sýna okkur hluttekningu. * – Lestu 1. Pétursbréf 3:8.

2. Hvers vegna gætum við þurft að vinna í því að sýna samúð?

2 Við sem erum kristin viljum öll sýna samúð. En það er ekki alltaf auðvelt. Hvers vegna? Í fyrsta lagi vegna þess að við erum ófullkomin. (Rómv. 3:23) Við verðum því að berjast gegn þeirri meðfæddu tilhneigingu að hugsa fyrst og fremst um sjálf okkur. Auk þess eiga sum okkar erfitt með að sýna samúð vegna þess hvernig við vorum alin upp eða vegna einhvers sem hefur gerst í lífi okkar. Það getur líka verið að viðhorf annarra hafi áhrif á okkur. Á þessum síðustu dögum eru margir „sérgóðir“ og tillitslausir. (2. Tím. 3:1, 2) Hvernig getum við sigrast á þessum hindrunum og látið okkur annt um tilfinningar annarra?

3. (a) Hvernig getum við sýnt hluttekningu í ríkari mæli? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?

3 Við getum sýnt hluttekningu í ríkari mæli með því að líkja eftir Jehóva Guði og syni hans, Jesú Kristi. Jehóva er Guð kærleikans og besta fyrirmyndin um að láta sér annt um aðra. (1. Jóh. 4:8) Jesús líkti fullkomlega eftir persónuleika föður síns. (Jóh. 14:9) Þegar hann var á jörð sýndi hann hvernig menn geta verið umhyggjusamir. Í þessari grein skoðum við fyrst hvernig Jehóva og Jesús hafa sýnt að þeim er annt um tilfinningar annarra. Síðan ræðum við hvernig við getum líkt eftir þeim.

JEHÓVA BER UMHYGGJU FYRIR ÖÐRUM

4. Hvernig sjáum við af Jesaja 63:7-9 að Jehóva lætur sér annt um tilfinningar þjóna sinna?

4 Af Biblíunni má sjá að Jehóva lætur sér annt um tilfinningar þjóna sinna. Tökum sem dæmi hvernig honum leið þegar Ísraelsmenn gengu í gegnum erfiðleika. „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða,“ segir í orði hans. (Lestu Jesaja 63:7-9.) * Síðar sagði Jehóva fyrir milligöngu Sakaría spámanns að hann tæki það persónulega þegar illa væri komið fram við fólk hans. „Hver sá sem snertir við yður, snertir sjáaldur mitt,“ sagði hann við þjóna sína. (Sak. 2:12) Þetta er áhrifarík lýsing á því hve annt Jehóva er um fólk sitt.

Jehóva sýndi hluttekningu með því að frelsa Ísraelsmenn úr þrælkun í Egyptalandi. (Sjá 5. grein.)

5. Nefndu dæmi um það hvernig Jehóva hefur hjálpað þjónum sínum sem þjást.

5 Jehóva finnur ekki aðeins til með þjónum sínum sem þjást. Hann hjálpar þeim líka. Þegar Ísraelsmenn voru þrælar í Egyptalandi gerði hann sér grein fyrir þjáningum þeirra og fann sig knúinn til að lina þær. Hann sagði við Móse: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar ... og heyrt kvein hennar ... Já, ég þekki þjáningu hennar. Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta.“ (2. Mós. 3:7, 8) Jehóva leysti þjóð sína úr þrælkuninni af því að hann fann til með henni. Síðar meir urðu Ísraelsmenn fyrir árásum óvina í fyrirheitna landinu. Hvaða áhrif hafði það á Jehóva? Hann „kenndi í brjósti um þá er þeir kveinuðu undan kúgurum sínum og kvölurum“. Umhyggja Jehóva varð aftur til þess að hann hjálpaði þjónum sínum. Hann sendi dómara til að frelsa þjóðina úr höndum óvinanna. – Dóm. 2:16, 18.

6. Hvernig hefur Jehóva sýnt að honum er umhugað um tilfinningar þjóna sinna þó að þeir sjái málin ekki í réttu ljósi? Nefndu dæmi.

6 Jehóva er umhugað um tilfinningar þjóna sinna – líka þegar þeir sjá málin ekki í réttu ljósi. Tökum Jónas spámann sem dæmi. Guð sendi hann til að flytja Nínívebúum dómsboðskap. Þegar þeir iðruðust ákvað Guð að þyrma þeim, Jónasi til mikillar óánægju. „Honum brann reiðin“ af því að spádómurinn um eyðingu borgarinnar rættist ekki. En Jehóva var þolinmóður við Jónas og hjálpaði honum að leiðrétta hugarfar sitt. (Jónas 3:10–4:11) Með tímanum skildi Jónas það sem Jehóva var að kenna honum og Jehóva fól honum meira að segja að skrá frásöguna okkur til gagns. – Rómv. 15:4. *

7. Um hvað getum við verið fullviss miðað við samskipti Jehóva við þjóna sína?

7 Samskipti Jehóva við fólk sitt fullvissa okkur um að honum sé annt um þjóna sína. Hann tekur eftir því þegar við þjáumst. Jehóva „þekkir hjörtu manna“. (2. Kron. 6:30, Biblían 1981) Hann skilur innstu hugsanir okkar, tilfinningar og takmörk. Og hann „lætur ekki reyna [okkur] um megn fram“. (1. Kor. 10:13) Það er hughreystandi loforð!

JESÚS BER UMHYGGJU FYRIR ÖÐRUM

8-10. Hvað átti þátt í því að Jesús lét sér annt um aðra?

8 Jesús lét sér innilega annt um aðra þegar hann var maður á jörð. Að minnsta kosti þrennt átti þátt í því. Í fyrsta lagi endurspeglaði Jesús fullkomlega persónuleika föður síns eins og fram hefur komið. Hann elskaði fólk, rétt eins og faðir hans gerði. Hann var ánægður með allt sem hann hjálpaði Jehóva að skapa en hann hafði sérstakt ,yndi af mannanna börnum‘. (Orðskv. 8:31, Biblían 1981) Það var vegna kærleika að Jesús lét sér annt um tilfinningar annarra.

9 Í öðru lagi gat Jesús lesið hjörtu fólks, rétt eins og faðir hans. Hann gat vitað hvað fólki gekk til og hvernig því leið. (Matt. 9:4; Jóh. 13:10, 11) Þegar hann tók eftir að fólk var sorgmætt vorkenndi hann því og hughreysti það. – Jes. 61:1, 2; Lúk. 4:17-21.

10 Í þriðja lagi upplifði Jesús sjálfur suma af þeim erfiðleikum sem fólk almennt varð fyrir. Hann virðist til dæmis hafa alist upp í fátækri fjölskyldu. Hann lærði að vinna erfiðisvinnu af Jósef, fósturföður sínum. (Matt. 13:55; Mark. 6:3) Vera má að Jósef hafi dáið einhvern tíma áður en Jesús hóf þjónustu sína. Jesús þekkti því örugglega sársaukann sem fylgir ástvinamissi. Hann vissi líka hvernig það var að vera í fjölskyldu með ólíkar trúarskoðanir. (Jóh. 7:5) Þetta og fleira hefur auðveldað honum að skilja erfiðleika og tilfinningar ófullkominna manna.

11. Hvenær var umhyggja Jesú sérstaklega augljós? Skýrðu svarið. (Sjá mynd á forsíðu.)

11 Umhyggja Jesú var sérstaklega augljós þegar hann gerði kraftaverk. Hann gerði þau ekki af illri nauðsyn heldur vegna þess að hann „kenndi í brjósti um þá“ sem þjáðust. (Matt. 20:29-34; Mark. 1:40-42) Hugsaðu þér til dæmis hvernig honum hefur liðið þegar hann leiddi heyrnarlausan mann afsíðis til að lækna hann eða þegar hann reisti upp einkason ekkju. (Mark. 7:32-35; Lúk. 7:12-15) Jesús fann til með þeim og vildi hjálpa þeim.

Jesús sýnir umhyggju með því að leiða heyrnarlausan mann afsíðis áður en hann læknar hann. (Sjá 11. grein)

12. Hvernig sýndi Jesús Mörtu og Maríu hluttekningu, samanber Jóhannes 11:32-35?

12 Jesús sýndi Mörtu og Maríu hluttekningu. Hann grét þegar hann sá þær syrgja Lasarus, bróður sinn. (Lestu Jóhannes 11:32-35.) Þó að Jesús hafi misst náinn vin sinn var það ekki þess vegna sem hann grét. Hann vissi vel að hann ætlaði að reisa Lasarus upp. Jesús grét þar sem hann skildi sársauka vinkvenna sinna og það hryggði hann að sjá þær syrgja.

13. Hvers vegna er hughreystandi að vita að Jesús er hluttekningarsamur?

13 Það er hughreystandi að læra um hluttekningu Jesú. Við erum auðvitað ekki fullkomin eins og hann en við elskum hann vegna þess hve umhyggjusamur hann var. (1. Pét. 1:8) Það er uppörvandi að vita að nú ríkir hann sem konungur í ríki Guðs. Bráðum bindur hann enda á allar þjáningar. Þar sem Jesús var eitt sinn maður á jörð er hann best til þess fallinn að græða sár mannkyns sem Satan hefur valdið. Það er mikil blessun að hafa stjórnanda sem getur „séð aumur á veikleika okkar“. – Hebr. 2:17, 18; 4:15, 16.

LÍKJUM EFTIR JEHÓVA OG JESÚ

14. Hvað langar okkur til að gera í samræmi við það sem segir í Efesusbréfinu 5:1, 2?

14 Þegar við hugleiðum fordæmi Jehóva og Jesú langar okkur til að sýna hluttekningu í ríkari mæli. (Lestu Efesusbréfið 5:1, 2.) Við getum ekki lesið hjörtu eins og þeir en við getum reynt að skilja tilfinningar og þarfir annarra. (2. Kor. 11:29) Ólíkt eigingjörnu fólki í heiminum reynum við að líta „ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra“. – Fil. 2:4.

(Sjá 15.-19. grein.) *

15. Hverjir þurfa öðrum fremur að vera hluttekningarsamir?

15 Safnaðaröldungar þurfa öðrum fremur að vera hluttekningarsamir. Þeir vita að þeir bera ábyrgð á sauðunum sem þeim hefur verið falið að annast. (Hebr. 13:17) Öldungarnir þurfa að vera skilningsríkir til að geta aðstoðað trúsystkini sín. Hvernig geta þeir sýnt hluttekningu?

16. Hvað gerir umhyggjusamur öldungur og hvers vegna er það mikilvægt?

16 Umhyggjusamur öldungur ver tíma með trúsystkinum sínum. Hann spyr þau spurninga og hlustar síðan þolinmóður og með athygli. Það er sérstaklega mikilvægt ef einn af dýrmætum sauðum hjarðarinnar vill létta á hjarta sínu en á erfitt með að finna réttu orðin. (Orðskv. 20:5) Öldungur styrkir kærleiks- og vináttuböndin við trúsystkini sín og ávinnur sér traust þeirra með því að gefa fúslega af tíma sínum. – Post. 20:37.

17. Hvað segjast mörg trúsystkini meta mest í fari öldunga? Nefndu dæmi.

17 Mörg trúsystkini segja að hluttekning sé sá eiginleiki sem þau meta mest í fari öldunga. Hvers vegna? „Það er auðveldara að tala við þá því að maður veit að þeir skilja mann,“ segir Adelaide. Hún bætir við: „Þegar maður talar við þá sést á viðbrögðum þeirra að þeim er annt um mann.“ Bróðir nokkur segir fullur þakklætis: „Þegar ég útskýrði aðstæður mínar fyrir einum öldungi fylltust augu hans tárum. Ég á alltaf eftir að muna það.“ – Rómv. 12:15.

18. Hvernig getum við þroskað með okkur hluttekningu?

18 Öldungar eru auðvitað ekki þeir einu sem þurfa að vera hluttekningarsamir. Við getum öll þroskað með okkur þennan eiginleika. Hvernig? Reyndu að setja þig í spor trúsystkinis eða einhvers í fjölskyldunni sem er að ganga í gegnum erfiðleika. Sýndu unglingunum í söfnuðinum áhuga, sem og þeim sem eru veikir, aldraðir eða hafa misst ástvin. Spyrðu hvernig þeir hafi það og hlustaðu einlæglega þegar þeir tjá tilfinningar sínar. Reyndu að láta þá skynja að þú skiljir aðstæður þeirra. Vertu fús til að hjálpa þeim á hvaða vegu sem þú getur. Ef við gerum það sýnum við ósvikinn kærleika. – 1. Jóh. 3:18.

19. Hvers vegna þurfum við að vera sveigjanleg þegar við reynum að aðstoða aðra?

19 Við þurfum að vera sveigjanleg þegar við reynum að aðstoða aðra. Hvers vegna? Vegna þess að fólk bregst mismunandi við erfiðleikum. Sumir hafa mikla þörf fyrir að tala en aðrir eru lokaðri. Það er því gott að bjóða fram aðstoð en við ættum að forðast að spyrja of persónulegra spurninga. (1. Þess. 4:11, NW) Og þegar aðrir létta á hjarta sínu erum við kannski ekki alltaf sammála því sem þeir segja. En við verðum að hafa í huga að það er þannig sem þeim líður. Við viljum vera fljót til að heyra og sein til að tala. – Matt. 7:1; Jak. 1:19.

20. Um hvað er rætt í næstu grein?

20 Við viljum ekki aðeins sýna hluttekningu innan safnaðarins heldur líka í boðuninni. Hvernig getum við sýnt þennan fallega eiginleika þegar við gerum fólk að lærisveinum? Það er umræðuefni næstu greinar.

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

^ gr. 5 Jehóva og Jesús láta sér annt um tilfinningar annarra. Í þessari grein skoðum við hvað við getum lært af fordæmi þeirra. Einnig er rætt hvers vegna við þurfum að vera hluttekningarsöm og hvernig við getum verið það.

^ gr. 1 ORÐASKÝRINGAR: Að vera hluttekningarsamur merkir að skilja hvernig öðrum líður og setja sig í spor þeirra. (Rómv. 12:15) Að sýna hluttekningu er nátengt því að sýna samúð og umhyggju.

^ gr. 4 Jesaja 63:9 (Biblían 1981): „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða, og engill auglitis hans frelsaði þá. Af elsku sinni og vægðarsemi endurleysti hann þá, hann tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.“

^ gr. 6 Jehóva var líka umhyggjusamur í garð fleiri trúfastra þjóna sinna þegar þeir sýndu sterkar tilfinningar. Hugsaðu til dæmis um frásögurnar af Hönnu (1. Sam. 1:10-20), Elía (1. Kon. 19:1-18) og Ebed Melek (Jer. 38:7-13; 39:15-18).

^ gr. 66 MYNDIR: Á samkomum höfum við mörg tækifæri til að sýna hlýju og umhyggju. Við sjáum (1) öldung spjalla vinalega við ungan boðbera og móður hans, (2) feðgin hjálpa eldri systur út í bíl og (3) tvo öldunga hlusta með athygli á systur sem leitar ráða.