Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 10

Hvað hamlar mér að skírast?

Hvað hamlar mér að skírast?

„Stigu báðir niður í vatnið, Filippus og hirðmaðurinn, og Filippus skírði hann.“ – POST. 8:38.

SÖNGUR 52 Kristin vígsla

YFIRLIT *

1. Hvað misstu Adam og Eva og hvaða afleiðingar hafði það?

HVER finnst þér að eigi að ákveða hvað sé gott og hvað sé illt? Þegar Adam og Eva borðuðu af skilningstré góðs og ills gáfu þau skýrt til kynna að þau treystu ekki Jehóva og mælikvarða hans. Þau ákváðu að setja sér eigin mælikvarða á hvað væri gott og illt. (1. Mós. 3:22) En hugsaðu þér hvað þau misstu. Þau misstu vináttuna við Jehóva. Þau glötuðu líka möguleikanum á að lifa að eilífu og gáfu börnum sínum synd og dauða í arf. (Rómv. 5:12) Það sem Adam og Eva kusu að gera hafði hörmulegar afleiðingar.

Eþíópíski hirðmaðurinn vildi skírast sem fyrst eftir að hann tók trú á Jesú. (Sjá 2. og 3. grein.)

2-3. (a) Hvernig brást eþíópíski hirðmaðurinn við boðun Filippusar? (b) Hvaða blessun fylgir því að láta skírast og hvaða spurningar munum við skoða?

2 Hegðun Adams og Evu var gerólík viðbrögðum eþíópíska hirðmannsins þegar Filippus boðaði honum trúna. Hirðmaðurinn var svo þakklátur fyrir það sem Jehóva og Jesús höfðu gert fyrir hann að hann lét skírast þegar í stað. (Post. 8:34-38) Við sendum sömuleiðis skýr skilaboð þegar við vígjum Jehóva líf okkar og látum skírast. Við sýnum að við erum þakklát fyrir það sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur. Við sýnum líka að við treystum Jehóva og viðurkennum rétt hans til að ákveða hvað sé gott og hvað sé illt.

3 Hugsaðu um þá blessun sem við njótum þegar við þjónum Jehóva. Við eigum möguleika á að hljóta að lokum allt sem Adam og Eva glötuðu, þar á meðal eilíft líf. Vegna trúar okkar á Jesú Krist fyrirgefur Jehóva syndir okkar svo að við getum haft góða samvisku. (Matt. 20:28; Post. 10:43) Við fáum líka að tilheyra alheimsfjölskyldu hans. Hann viðurkennir okkur sem þjóna sína og lofar okkur dásamlegri framtíð. (Jóh. 10:14-16; Rómv. 8:20, 21) Sumir sem hafa kynnst Jehóva hika við að feta í fótspor eþíópíska hirðmannsins þrátt fyrir þessa augljósu kosti. Hvað hamlar þeim að skírast? Hvernig geta þeir yfirstigið hindranirnar?

ÞAÐ SEM HINDRAR SUMA Í AÐ SKÍRAST

Það sem gæti hindrað þig í að láta skírast.

Lítið sjálfstraust (Sjá 4.-5. grein.) *

4-5. Hvað gerði Avery og Hönnuh erfitt fyrir?

4 Lítið sjálfstraust. Foreldrar Averys eru vottar Jehóva. Pabbi hans er þekktur fyrir að vera umhyggjusamur faðir og duglegur öldungur. Samt hélt Avery aftur af sér að láta skírast. Hvers vegna? Hann segir: „Mér fannst að ég gæti aldrei orðið eins duglegur og pabbi.“ Avery trúði ekki heldur að hann réði við verkefni sem hann yrði kannski beðinn um að taka að sér. „Ég óttaðist að vera beðinn um að fara með bæn, flytja ræður eða sjá um starfshóp.“

5 Hannah, sem er 18 ára, hafði mjög lítið sjálfstraust. Foreldrar hennar þjóna Jehóva en hún efaðist samt um að hún gæti lifað samkvæmt meginreglum hans. Af hverju? Trú hennar á sjálfri sér hafði hrapað verulega. Stundum leið henni svo illa að hún skaðaði sig, en það gerði bara illt verra. „Ég sagði aldrei neinum frá því sem ég gerði, ekki einu sinni foreldrum mínum,“ segir hún. „Ég ímyndaði mér að Jehóva myndi ekki vilja mig vegna þess að ég skaðaði mig.“

Áhrif vina (Sjá 6. grein) *

6. Hvað hindraði Vanessu í að láta skírast?

6 Áhrif vina. Vanessa er 22 ára. Hún segir: „Ég átti mjög góða vinkonu sem ég hafði þekkt í næstum tíu ár.“ Vanessa hafði sett sér það markmið að skírast en vinkonan studdi hana ekki í því. Vanessu þótti það leitt. Hún segir: „Ég á erfitt með að eignast vini og var hrædd um að ég myndi aldrei eignast nána vinkonu aftur ef ég sliti vináttunni við hana.“

Ótti við að mistakast (Sjá 7. grein) *

7. Hvað óttaðist Makayla og hvers vegna?

7 Ótti við að mistakast. Makayla var fimm ára þegar bróður hennar var vikið úr söfnuðinum. Með tímanum sá hún hvaða áhrif hegðun hans hafði á foreldra þeirra. Hún segir: „Ég óttaðist að ef ég léti skírast myndi mér verða eitthvað á sem yrði til þess að mér yrði vikið úr söfnuðinum. Og það myndi gera foreldra mína enn sorgbitnari.“

Ótti við andstöðu (Sjá 8. grein) *

8. Hvað óttaðist Miles?

8 Ótti við andstöðu. Pabbi og stjúpmamma Miles eru bæði vottar Jehóva en ekki mamma hans. Miles segir: „Ég bjó hjá mömmu í 18 ár og var hræddur við að segja henni að mig langaði til að skírast. Ég sá hvernig hún brást við þegar pabbi varð vottur og óttaðist að hún myndi gera mér erfitt fyrir.“

HVERNIG GETURÐU YFIRSTIGIÐ HINDRANIRNAR?

9. Hvaða áhrif hefur það án efa að læra hve kærleiksríkur og þolinmóður Jehóva er?

9 Adam og Eva ákváðu að þjóna ekki Jehóva vegna þess að þau byggðu ekki upp sterkan kærleika til hans. Samt leyfði Jehóva þeim að lifa nógu lengi til að eignast börn og ákveða hvernig þau vildu ala þau upp. Það kom fljótlega í ljós hve heimskulegt það var af Adam og Evu að ákveða að vera óháð Jehóva. Elsti sonur þeirra réðst á saklausan bróður sinn og drap hann. Með tímanum varð ofbeldi og sjálfselska allsráðandi á jörðinni. (1. Mós. 4:8; 6:11-13) En Jehóva var með áætlun um að frelsa þá afkomendur Adams og Evu sem vilja þjóna honum. (Jóh. 6:38-40, 57, 58) Kærleikur þinn til Jehóva vex án efa þegar þú lærir meira um hve þolinmóður og kærleiksríkur hann er. Þá langar þig til að hafna þeirri lífsstefnu sem Adam og Eva völdu og vígja Jehóva líf þitt.

Þú getur yfirstigið þessar hindranir.

(Sjá 9.-10. grein.) *

10. Hvernig getur það hjálpað þér að þjóna Jehóva að hugleiða Sálm 19:8?

10 Haltu áfram að kynnast Jehóva. Því betur sem þú kynnist Jehóva því öruggari verðurðu um að þú getir þjónað honum trúfastlega. Avery, sem minnst var á fyrr í greininni, segir: „Það gaf mér aukið sjálfstraust að lesa um og hugleiða loforðið í Sálmi 19:8.“ (Lestu.) Avery sá hvernig Jehóva stóð við þetta loforð og gerði „hinn fávísa [óreynda, NW] vitran“. Það styrkti kærleika hans til Jehóva. Kærleikurinn byggir ekki aðeins upp sjálfstraust heldur hjálpar hann okkur líka að hafa hugann við Jehóva og vilja hans. Hannah, sem minnst var á áður, segir: „Með sjálfsnámi og biblíulestri áttaði ég mig á að þegar ég skaðaði sjálfa mig særði ég líka Jehóva.“ (1. Pét. 5:7) Hannah fór eftir því sem hún las í orði Guðs. (Jak. 1:22) Hver var árangurinn? Hún segir: „Ég fór að elska Jehóva heitt þegar ég fann hvernig það var mér til góðs að hlýða honum. Núna er ég sannfærð um að Jehóva leiðbeini mér alltaf þegar mig vantar hjálp.“ Hannah sigraðist á tilhneigingunni til að skaða sig. Hún vígði Jehóva líf sitt og lét skírast.

(Sjá 11. grein) *

11. Hvað gerði Vanessa til að eignast góða vini og hvað lærum við af því?

11 Vandaðu valið á vinum. Vanessa, sem minnst var á áður, gerði sér að lokum grein fyrir því að vinkona hennar hindraði hana í að taka framförum í þjónustunni við Jehóva. Hún sleit því vinskapnum við hana. En hún lét ekki þar við sitja. Hún lagði hart að sér til að eignast vini innan safnaðarins. Hún segir að fordæmi Nóa og fjölskyldu hans hafi hjálpað sér. „Þau voru umkringd fólki sem elskaði ekki Jehóva,“ segir hún. „En þau áttu félagsskap hvert við annað.“ Vanessa varð brautryðjandi eftir að hún lét skírast. Hún segir: „Það hefur auðveldað mér að eignast góða vini, bæði í heimasöfnuðinum og í öðrum söfnuðum.“ Þú getur líka eignast góða vini með því að gera eins mikið og þú getur í því starfi sem Jehóva hefur falið okkur. – Matt. 24:14.

(Sjá 12.-15. grein) *

12. Hvers konar ótta skorti Adam og Evu og hvað hafði það í för með sér?

12 Ræktaðu með þér heilbrigðan ótta. Viss ótti er góður fyrir okkur. Við þurfum til dæmis að óttast að misbjóða Jehóva. (Sálm. 111:10) Ef Adam og Eva hefðu óttast Jehóva á þennan heilbrigða hátt hefðu þau ekki gert uppreisn gegn honum. En þau gerðu uppreisn. Eftir á opnuðust augu þeirra á þann hátt að þau gerðu sér fulla grein fyrir að þau voru syndug. Þau gátu ekki annað en gefið börnum sínum synd og dauða í arf. Þau skömmuðust sín fyrir að vera nakin og huldu nekt sína vegna þess að þau sáu og skildu í hvaða stöðu þau voru. – 1. Mós. 3:7, 21.

13-14. (a) Hvers vegna þurfum við ekki að vera sjúklega hrædd við að deyja, samanber 1. Pétursbréf 3:21? (b) Hvaða ástæður höfum við til að elska Jehóva?

13 Við eigum að óttast Jehóva á heilbrigðan hátt en við þurfum ekki að vera sjúklega hrædd við að deyja. Jehóva hefur opnað okkur leið að eilífu lífi. Ef við iðrumst synda okkar í einlægni fyrirgefur Jehóva okkur þegar okkur verður á. Hann gerir það vegna trúar okkar á lausnarfórn sonar síns. Ein besta leiðin til að sýna trú er að vígja líf okkar Guði og láta skírast. – Lestu 1. Pétursbréf 3:21.

14 Við höfum margar ástæður til að elska Jehóva. Hann sér okkur fyrir öllu því góða sem við njótum dagsdaglega. En hann gerir meira en það því að hann kennir okkur líka sannleikann um sjálfan sig og fyrirætlun sína. (Jóh. 8:31, 32) Hann hefur gefið okkur söfnuðinn til að styðja okkur og leiðbeina. Hann hjálpar okkur með byrðar lífsins og gefur okkur von um eilíft líf við fullkomnar aðstæður. (Sálm. 68:20; Opinb. 21:3, 4) Kærleikurinn til Jehóva eykst þegar við hugleiðum hve mikið hann hefur nú þegar gert til að sýna hve annt honum er um okkur. Þá óttumst við að særa hann því að okkur þykir innilega vænt um hann. Það er réttur og heilbrigður ótti.

15. Hvernig sigraðist Makayla á óttanum við að mistakast?

15 Makayla, sem áður er nefnd, sigraðist á óttanum við að mistakast þegar henni varð ljóst hve fús Jehóva er að fyrirgefa. „Ég skildi að við erum öll ófullkomin og gerum mistök. En ég lærði líka að Jehóva elskar okkur og fyrirgefur á grundvelli lausnarfórnarinnar.“ Kærleikur hennar til Jehóva fékk hana til að vígja honum líf sitt og skírast.

(Sjá 16. grein) *

16. Hvað hjálpaði Miles að sigrast á óttanum við andstöðu?

16 Miles, sem óttaðist að mamma hans risi gegn því að hann léti skírast, leitaði ráða hjá farandhirðinum. Miles segir: „Hann ólst líka upp á trúarlega skiptu heimili. Hann hjálpaði mér að finna út hvað ég gæti sagt til að sannfæra mömmu um að pabbi væri ekki að þrýsta á mig að láta skírast heldur væri það mín eigin ákvörðun.“ Mamma Miles brást ekki vel við og hann þurfti að lokum að flytjast frá henni. En hann stóð við ákvörðunina. „Það snerti mig djúpt að læra um það góða sem Jehóva hefur gert fyrir mig,“ segir Miles. „Ég skildi hve heitt Jehóva elskar mig þegar ég hugleiddi lausnarfórn Jesú rækilega. Það varð til þess að ég vígði líf mitt Jehóva og lét skírast.“

HALTU ÞIG VIÐ ÁKVÖRÐUN ÞÍNA

Við getum sýnt að við kunnum að meta það sem Guð hefur gert fyrir okkur. (Sjá 17. grein.)

17. Hvað getum við öll gert?

17 Eva hafnaði föður sínum þegar hún borðaði af skilningstrénu í Eden. Og þegar Adam slóst í lið með henni sýndi hann algert vanþakklæti fyrir allt það góða sem Jehóva hafði gert fyrir hann. Við getum öll sýnt að við séum alls ekki á sama máli og Adam og Eva. Með því að láta skírast sýnum við Jehóva að við erum sannfærð um að hann eigi réttinn á að ákveða hvað sé rétt eða rangt fyrir okkur. Með því sýnum við að við elskum himneskan föður okkar og treystum honum.

18. Hvernig getur þér farnast vel í þjónustunni við Jehóva?

18 Eftir að við látum skírast þurfum við að halda áfram að fara eftir vilja Jehóva í stað okkar eigin. Milljónir manna gera það nú þegar. Þú getur það líka ef þú dýpkar skilning þinn á Biblíunni, átt reglulega félagsskap við trúsystkini og segir öðrum kappsamur frá því sem þú hefur lært um ástríkan föður þinn. (Hebr. 10:24, 25) Þegar þú þarft að taka ákvarðanir skaltu hlusta á þau ráð sem Jehóva gefur þér í orði sínu og fyrir milligöngu safnaðarins. (Jes. 30:21) Þá farnast þér vel í öllu sem þú gerir. – Orðskv. 16:3, 20.

19. Hverju ættirðu alltaf að muna eftir og hvers vegna?

19 Þú lærir betur og betur að meta Jehóva og mælikvarða hans ef þú gleymir aldrei hve mikið gagn þú hefur af leiðsögn hans. Þá tekst Satan ekki með nokkru móti að tæla þig frá því að þjóna Jehóva. Sjáðu sjálfan þig fyrir þér eftir þúsund ár þar sem þú horfir til baka til þess tíma þegar þú ákvaðst að láta skírast. Það var langbesta ákvörðun þín!

SÖNGUR 28 Hver er þinn vinur, Guð?

^ gr. 5 Mikilvægasta ákvörðun ævinnar er hvort þú lætur skírast. Hvers vegna er hún svona mikilvæg? Þeirri spurningu er svarað í þessari grein. Greinin hjálpar einnig þeim sem eru að hugleiða skírn að yfirstíga hindranir sem gætu staðið í vegi fyrir þeim.

^ gr. 56 MYND: Sjálfstraust: Unglingsstrákur veigrar sér við að svara á samkomu.

^ gr. 58 MYND: Vinir: Ung stúlka í vondum félagsskap fer hjá sér þegar hún sér trúsystkini.

^ gr. 60 MYND: Mistök: Ung stúlka horfir á bróður sinn fara að heiman eftir að honum er vikið úr söfnuðinum. Hún hefur áhyggjur af að mistakast líka.

^ gr. 62 MYND: Andstaða: Strákur er hræddur við að biðja á meðan mamma hans, sem er ekki í trúnni, horfir á.

^ gr. 65 MYND: Sjálfstraust: Unglingsstrákur eykur sjálfsnám sitt.

^ gr. 67 MYND: Vinir: Ung stúlka lærir að vera stolt af því að vera vottur.

^ gr. 69 MYND: Mistök: Ung stúlka styrkir samband sitt við Jehóva og lætur skírast.

^ gr. 71 MYND: Andstaða: Strákur útskýrir trú sína fyrir mömmu hans, sem er ekki í trúnni, af hugrekki.