Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 20

Að hughreysta fórnarlömb kynferðisofbeldis

Að hughreysta fórnarlömb kynferðisofbeldis

„Guð allrar huggunar ... hughreystir mig í sérhverri þrenging minni.“ – 2. KOR. 1:3, 4.

SÖNGUR 134 Ykkur er trúað fyrir börnunum

YFIRLIT *

1-2. (a) Hvaða dæmi sýnir að menn hafa meðfædda þörf fyrir hughreystingu og að þeir búa yfir hæfileika til að hughreysta aðra? (b) Hvaða skaða verða sum börn fyrir?

MENN hafa meðfædda þörf fyrir hughreystingu og þeir búa yfir einstökum hæfileika til að hughreysta aðra. Tökum dæmi: Þegar lítið barn dettur og hruflar hnéð hleypur það gjarnan grátandi til mömmu eða pabba. Foreldrarnir geta ekki grætt sárið en þeir geta huggað barnið. Þau spyrja kannski hvað gerðist, þurrka burt tárin, segja eitthvað huggandi við barnið og setja jafnvel krem eða plástur á sárið. Fyrr en varir hættir barnið að gráta og heldur jafnvel áfram að leika sér. Og með tímanum grær sárið.

2 En stundum verða börn fyrir mun alvarlegri skaða. Sum börn eru beitt kynferðisofbeldi. Það getur verið einstakt tilvik eða staðið yfir í mörg ár. Hvort heldur er getur ofbeldið skilið eftir djúp tilfinningasár. Stundum er ofbeldismaðurinn látinn sæta refsingu en í öðrum tilvikum virðist hann sleppa við afleiðingar gerða sinna. En jafnvel þó að réttlætinu sé fullnægt fljótt getur skaðinn sem hlýst af ofbeldinu varað langt fram á fullorðinsár.

3. (a) Hvað er Jehóva umhugað um eins og fram kemur í 2. Korintubréfi 1:3, 4? (b) Hvaða spurningum leitum við svara við í þessari grein?

3 Segjum sem svo að bróðir eða systir í söfnuðinum sé enn að berjast við erfiðar tilfinningar vegna kynferðisofbeldis í æsku. Hvaða hjálp stendur til boða? (Lestu 2. Korintubréf 1:3, 4.) Jehóva er greinilega umhugað um að þjónar hans njóti ástúðar og umhyggju. Leitum því svara við þrem spurningum: (1) Hvers vegna geta þeir sem voru beittir kynferðisofbeldi í æsku þurft á hughreystingu að halda? (2) Hverjir geta hughreyst þá? (3) Hvernig getum við hughreyst þá?

HVERS VEGNA ER ÞÖRF Á HUGHREYSTINGU?

4-5. (a) Hvers vegna er mikilvægt að gera sér grein fyrir að börn eru ólík fullorðnu fólki? (b) Hvernig getur kynferðisofbeldi haft áhrif á traust barna til annarra?

4 Sumir fullorðnir sem voru beittir kynferðisofbeldi í æsku þurfa enn á hughreystingu að halda þó að mörg ár séu liðin. Til að skilja hvers vegna þurfum við að gera okkur grein fyrir að börn eru mjög ólík fullorðnu fólki. Ill meðferð hefur oft gerólík áhrif á börn en fullorðna. Lítum á nokkur dæmi.

5 Börn þurfa að mynda náin tengsl við þá sem ala þau upp og annast og þau þurfa að geta treyst þeim. Slík bönd gefa börnunum öryggiskennd og þau læra að treysta þeim sem elska þau. (Sálm. 22:10) Því miður á kynferðisofbeldi sér oftast stað heima hjá barninu og ofbeldismaðurinn er oft á tíðum náinn ættingi eða fjölskylduvinur. Ef barn er beitt kynferðisofbeldi af einhverjum sem það treystir getur það brotið niður traust þess til fólks. Jafnvel mörgum árum seinna getur það átt erfitt með að treysta öðrum.

6. Hvers vegna er kynferðisofbeldi grimmilegur og skaðlegur verknaður?

6 Börn eru varnarlaus og kynferðisofbeldi er grimmilegur og skaðlegur verknaður. Það getur valdið barni miklum skaða að vera neytt til að taka þátt í kynferðisathöfnum mörgum árum áður en það hefur líkamlegan, tilfinningalegan eða hugarfarslegan þroska til að hafa kynmök í hjónabandi. Kynferðisofbeldi getur brenglað viðhorf barnsins til kynlífs, sjálfs sín og allra þeirra sem vilja tengjast því.

7. (a) Hvers vegna er auðvelt fyrir útsmogna barnaníðinga að blekkja börn og hvernig fara þeir stundum að því? (b) Hverju geta slíkar lygar valdið?

7 Börn eru ekki með fullmótaða rökhugsun og geta ekki gert sér fulla grein fyrir hættum sem þau þurfa að varast. (1. Kor. 13:11) Þess vegna er mjög auðvelt fyrir útsmoginn barnaníðing að blekkja barn. Hann reynir að fá barnið til að trúa hættulegum lygum eins og til dæmis að því sé um að kenna, að barnið þurfi að þegja yfir kynferðisofbeldinu, að enginn muni trúa því eða koma því til hjálpar ef það segir frá og að kynferðisathafnir milli fullorðinna og barna séu eðlileg leið til að sýna að þau elski hvort annað. Slíkar lygar geta brenglað hugsun barnsins og það getur tekið það mörg ár að átta sig á lyginni. Barn sem verður fyrir slíku getur vaxið úr grasi með þá hugmynd um sjálft sig að það sé skemmt, óhreint og ekki þess vert að vera elskað og hughreyst.

8. Hvers vegna megum við vera viss um að Jehóva geti hughreyst þá sem farið hefur verið illa með?

8 Það kemur því ekki á óvart að kynferðisofbeldi getur valdið langvarandi skaða. Það er hrikalegur glæpur! Kynferðisofbeldi er orðið mjög útbreitt og það sýnir skýrt að við lifum á síðustu dögum, tíma sem einkennist af því að margir eru „kærleikslausir“ og að ,vondir menn og svikarar magnist í vonskunni‘. (2. Tím. 3:1-5, 13) Aðferðir Satans djöfulsins eru verulega illar og það er sorglegt þegar menn hegða sér þannig að þeir þóknast honum. En Jehóva er miklu sterkari en Satan og eftirbreytendur hans og hann tekur eftir öllu sem Satan gerir. Við getum verið viss um að hann viti vel hvað við þurfum að þola og að hann geti veitt okkur þá hughreystingu sem við þurfum. Við njótum þeirrar hamingju að þjóna ,Guði allrar huggunar sem hughreystir okkur í sérhverri þrenging okkar svo að við getum hughreyst alla aðra í þrengingum þeirra á sama hátt og hann hughreystir okkur‘. (2. Kor. 1:3, 4) En hverja notar Jehóva til að veita hughreystingu?

HVERJIR GETA VEITT HUGHREYSTINGU?

9. Hvað gerir Jehóva fyrir þá sem fjölskyldan hefur farið illa með eins og sjá má af orðum Davíðs konungs í Sálmi 27:10?

9 Þeir sem voru vanræktir af foreldrum sínum í æsku eða voru beittir kynferðisofbeldi af nánum ættingja eða vini þurfa sérstaklega á hughreystingu að halda. Davíð konungur vissi að við gætum alltaf treyst að Jehóva hughreysti okkur. (Lestu Sálm 27:10.) Davíð treysti því að Jehóva tæki þá að sér sem fjölskyldan færi illa með. Hvernig gerir Jehóva það? Hann notar trúfasta þjóna sína á jörð til þess. Bræður okkar og systur í söfnuðinum eru okkur eins og fjölskylda. Jesús kallaði til dæmis þá sem þjónuðu Jehóva með honum bræður sína, systur og móður. – Matt. 12:48-50.

10. Hvernig lýsti Páll starfi sínu sem öldungur?

10 Skoðum dæmi um þess konar tengsl innan kristna safnaðarins. Páll postuli var duglegur og trúr öldungur. Hann setti gott fordæmi og var jafnvel innblásið að segja öðrum að breyta eftir sér eins og hann breytti eftir Kristi. (1. Kor. 11:1) Taktu eftir hvernig Páll lýsti eitt sinn starfi sínu sem öldungur: „Ég var mildur á meðal ykkar, eins og móðir sem hlúir að börnum sínum.“ (1. Þess. 2:7) Trúir öldungar nú á dögum geta á sama hátt talað mildilega og hlýlega þegar þeir hughreysta niðurdregna með hjálp Biblíunnar.

Þroskaðar systur geta oft veitt góða hughreystingu. (Sjá 11. grein.) *

11. Hvað sýnir að fleiri en öldungar geta veitt hughreystingu?

11 Geta fleiri en öldungar hughreyst fórnarlömb kynferðisofbeldis? Já, við berum öll ábyrgð á að ,uppörva hvert annað‘. (1. Þess. 4:18) Þroskaðar systur í söfnuðinum geta verið systrum sem þurfa hughreystingu til mikillar hjálpar. Það er vel við hæfi að Jehóva líkir sér við móður sem huggar barn sitt. (Jes. 66:13) Í Biblíunni eru nefnd dæmi um konur sem hugguðu þá sem þjáðust. (Job. 42:11) Það gleður Jehóva mjög að sjá systur nú á dögum hughreysta trúsystur sínar sem eiga erfitt. Stundum geta öldungarnir beðið þroskaða systur einslega að aðstoða trúsystur í neyð á þennan hátt. *

HVERNIG GETUM VIÐ VEITT HUGHREYSTINGU?

12. Hverju þurfum við að gæta okkar á?

12 Við gætum þess auðvitað að hnýsast ekki í mál sem bróðir okkar eða systir vill ekki tala um. (1. Þess. 4:11) En hvað getum við gert fyrir þá sem þurfa og vilja hjálp og hughreystingu? Skoðum fimm ráð byggð á Biblíunni um hvernig við getum veitt öðrum hughreystingu.

13. Hvað gerði engill Jehóva fyrir Elía, eins og fram kemur í 1. Konungabók 19:5-8 og hvernig getum við líkt eftir englinum?

13 Aðstoðaðu með það sem þarf. Þegar Elía spámaður var á flótta undan þeim sem vildu drepa hann missti hann kjarkinn og vildi deyja. Jehóva sendi voldugan engil til hans. Engillinn veitti honum þá hjálp sem hann þurfti. Hann gaf Elía heitan mat og hvatti hann til að borða. (Lestu 1. Konungabók 19:5-8.) Við sjáum af þessari frásögu að lítið góðverk getur oft gert heilmikið gagn. Við getum sýnt niðurdregnum bróður eða systur umhyggju okkar með máltíð, lítilli gjöf eða korti með hughreystandi orðum. Ef við eigum erfitt með að ræða við aðra um erfið og persónuleg mál þeirra getum við samt sýnt umhyggju okkar í verki með þessum hætti.

14. Hvað getum við lært af frásögunni af Elía?

14 Hjálpaðu þeim sem eru niðurbrotnir að finna ró og öryggi. Við getum lært annað af frásögunni af Elía. Jehóva gerði kraftaverk svo að spámaðurinn gat gengið alla leið að Hórebfjalli. Kannski fannst Elía hann vera öruggur á þessum fjarlæga stað þar sem Jehóva hafði gert sáttmála við þjóð sína fyrr á öldum. Kannski fannst honum hann loksins vera utan seilingar þeirra sem sóttust eftir lífi hans. Hvað getum við lært af frásögunni? Ef við viljum hjálpa fórnarlömbum kynferðisofbeldis gætum við fyrst þurft að hjálpa þeim að finna til öryggis. Til dæmis ættu öldungar að hafa í huga að niðurbrotin systir finnur kannski fyrir meiri ró og öryggi heima hjá sér yfir kaffibolla heldur en í fundarsal í ríkissalnum. Öðrum myndi kannski líða betur með að ræða um kynferðisofbeldið í ríkissalnum.

Við getum grætt aðra með því að hlusta þolinmóð, biðja innilegra bæna og velja hughreystandi orð. (Sjá 15.-20. grein.) *

15-16. Hvað felur í sér að vera góður hlustandi?

15 Vertu góður hlustandi. Biblían segir skýrt: „Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala.“ (Jak. 1:19) Ertu góður hlustandi? Þú hugsar kannski að þú þurfir ekki annað en að sitja hljóður og horfa á þann sem talar til að vera góður hlustandi. En að hlusta vel felur meira í sér. Til dæmis hlustaði Jehóva vel þegar Elía úthellti hjarta sínu fyrir honum. Jehóva skildi að Elía var hræddur, fannst hann einn og taldi allt vera til einskis sem hann hafði lagt á sig. Í kærleika sínum talaði Jehóva við Elía um hvert áhyggjuefni fyrir sig. Hann sýndi Elía að hann hafði hlustað á hann af athygli. – 1. Kon. 19:9-11, 15-18.

16 Hvernig getum við sýnt kærleika og samúð þegar við hlustum á aðra? Nokkur nærgætin og hlýleg orð geta sýnt hvernig okkur er innanbrjósts. Þú gætir sagt: „Mér þykir leitt að þetta skyldi koma fyrir þig. Ekkert barn ætti að þurfa að upplifa þetta.“ Þegar vinur þinn tjáir sig í angist sinni geturðu ef til vill spurt hann út í það sem hann segir til að vera viss um að þú skiljir hann. Þú gætir spurt: „Geturðu útskýrt fyrir mér hvað þú átt við?“ eða: „Þegar þú sagðir þetta skildi ég það þannig að ... Var það rétt skilið hjá mér?“ Spurningar sem þessar lýsa umhyggjusemi og fullvissa vin þinn um að þú sért í raun að hlusta og reyna að skilja hann. – 1. Kor. 13:4, 7.

17. Hvers vegna ættum við að vera þolinmóð og ,sein til að tala‘?

17 Gættu þess samt að vera „seinn til að tala“. Gríptu ekki fram í til að gefa ráð eða leiðrétta hugsunarhátt vinar þíns. Og vertu þolinmóður. Þegar Elía úthellti hjarta sínu fyrir Jehóva lýsti hann angist sinni og notaði sterkar lýsingar. Síðar, eftir að Jehóva hafði styrkt trú hans, úthellti hann hjarta sínu aftur með nákvæmlega sömu orðum. (1. Kon. 19:9, 10, 13, 14) Hvað lærum við af þessu? Stundum þarf sá sem er niðurbrotinn að úthella hjarta sínu oftar en einu sinni. Við viljum hlusta þolinmóð eins og Jehóva gerir. Við viljum sýna samúð og hluttekningu frekar en að reyna að koma með lausnir. – 1. Pét. 3:8.

18. Hvernig geta bænir okkar hughreyst þá sem þjást?

18 Biddu innilegra bæna með þeim sem þjáist. Þeir sem eru mjög langt niðri finnst stundum að þeir geti ekki farið með bæn. Kannski finnst þeim að þeir séu ekki verðir þess að nálgast Jehóva. Til að uppörva einhvern sem líður þannig getum við beðið með honum og notað nafn hans í bæninni. Við getum sagt við Jehóva hversu vænt okkur og söfnuðinum þykir um hann. Við getum beðið Jehóva að hugga og hughreysta þennan dýrmæta þjón sinn. Þess konar bænir geta verið ákaflega hughreystandi. – Jak. 5:16.

19. Hvernig getum við undirbúið okkur til að hughreysta aðra?

19 Veldu orð sem hughreysta og græða. Hugsaðu áður en þú talar. Vanhugsuð orð eru særandi en vingjarnleg orð græðandi. (Orðskv. 12:18) Biddu því Jehóva um að hjálpa þér að finna vingjarnleg, hughreystandi og huggandi orð. Mundu að engin orð eru eins kröftug og orð Jehóva sjálfs í Biblíunni. – Hebr. 4:12.

20. Hvernig líta sum trúsystkini okkar á sig vegna þess að þau voru beitt kynferðisofbeldi og á hvað viljum við minna þau?

20 Sumir bræður eða systur sem voru beitt kynferðisofbeldi kunna að vera sannfærð um að þau séu óhrein, einskisverð eða að engum þyki vænt um þau – jafnvel að engum geti þótt vænt um þau. Það er hræðileg lygi! Notaðu því Biblíuna til að minna þau á hvað þau eru verðmæt í augum Jehóva. (Sjá rammann „ Hughreysting frá Biblíunni“.) Mundu hvernig engill styrkti Daníel spámann vingjarnlega þegar hann var niðurdreginn og sorgmæddur. Jehóva þótti vænt um Daníel og vildi að hann vissi hve verðmætur hann væri. (Dan. 10:2, 11, 19) Eins eru niðurbrotin trúsystkini okkar verðmæt í augum Jehóva.

21. Hvað bíður iðrunarlausra ofbeldismanna og hvað ættum við öll að vera staðráðin í að gera þangað til?

21 Þegar við hughreystum aðra minnum við þá á að Jehóva elskar þá. Og við megum aldrei gleyma að Jehóva er líka réttlátur Guð. Ekkert illskuverk fer fram hjá honum. Jehóva sér allt og hann sér til þess að iðrunarlausum ofbeldismönnum verði refsað. (4. Mós. 14:18) Þangað til skulum við gera allt sem við getum til að sýna þeim kærleika sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi. Það er hughreystandi að vita að Jehóva muni í eitt skipti fyrir öll græða þá sem Satan og illur heimur hans hefur leikið grátt. Bráðlega munu þessar sáru minningar ekki koma nokkrum í hug framar. – Jes. 65:17.

SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars

^ gr. 5 Þeir sem hafa verið beittir kynferðisofbeldi sem börn glíma oft við eftirköst þess í mörg ár. Í þessari grein fáum við hjálp til að skilja hvers vegna. Einnig er rætt um hverjir geti hughreyst fórnarlömb kynferðisofbeldis. Að lokum er bent á hvernig við getum hughreyst þau.

^ gr. 11 Sá sem hefur verið beittur kynferðisofbeldi ákveður sjálfur hvort hann leiti sér aðstoðar sérfræðinga.

^ gr. 76 MYND: Þroskuð systir hughreystir niðurbrotna systur.

^ gr. 78 MYND: Tveir öldungar heimsækja systurina. Hún hefur beðið þroskuðu systurina að vera með.