Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 18

Kærleikur og réttlæti í kristna söfnuðinum

Kærleikur og réttlæti í kristna söfnuðinum

„Berið hvert annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.“ – GAL. 6:2.

SÖNGUR 12 Jehóva, hinn mikli Guð

YFIRLIT *

1. Hvað tvennt megum við vera viss um?

JEHÓVA GUÐ elskar þjóna sína. Það hefur hann alltaf gert og mun alltaf gera. Hann hefur líka mætur á réttlæti. (Sálm. 33:5) Við megum því vera viss um tvennt: (1) Það særir Jehóva að sjá þjóna sína beitta órétti. (2) Hann mun sjá til þess að réttlætinu verði fullnægt á þeim sem fara illa með þjóna hans. Í fyrstu greininni í þessari greinaröð * lærðum við að lögmálið sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni fyrir milligöngu Móse hafi verið byggt á kærleika. Það stuðlaði að réttlæti fyrir alla, ekki síst þá sem minna máttu sín. (5. Mós. 10:18) Lögmálið sýnir hve innilega Jehóva lætur sér annt um þjóna sína.

2. Hvaða spurningum fáum við svör við?

2 Móselögin féllu úr gildi þegar kristni söfnuðurinn var stofnsettur árið 33. Lögmálið var byggt á kærleika og stuðlaði að réttlæti. Myndu kristnir menn þá missa verndina sem lögmálið gaf? Alls ekki. Kristnir menn fengu nýtt lögmál. Í þessari grein byrjum við á að ræða hvað þetta nýja lögmál er og síðan fáum við svör við eftirfarandi spurningum: Hvers vegna getum við sagt að þetta lögmál sé byggt á kærleika? Hvers vegna má segja að það stuðli að réttlæti? Hvernig eiga þeir sem fara með umsjón að koma fram við aðra samkvæmt þessu lögmáli?

HVAÐ ER „LÖGMÁL KRISTS“?

3. Hvað hefur „lögmál Krists“, sem minnst er á í Galatabréfinu 6:2, að geyma?

3 Lestu Galatabréfið 6:2Kristnir menn eru bundnir ,lögmáli Krists‘. Jesús skrifaði ekki niður lista af lögum fyrir fylgjendur sína en hann gaf þeim leiðbeiningar, boð og meginreglur til að fara eftir. „Lögmál Krists“ hefur að geyma allt sem Jesús kenndi. Í næstu greinum ræðum við nánar um þetta lögmál.

4-5. Hvernig og hvenær kenndi Jesús?

4 Hvernig kenndi Jesús? Hann kenndi með því sem hann sagði. Orð hans voru kröftug því að hann kenndi sannleikann um Guð, fræddi fólk um hver væri tilgangur lífsins og benti á að ríki Guðs væri lausnin á öllum þjáningum manna. (Lúk. 24:19) Hann kenndi líka með fordæmi sínu. Hann sýndi fylgjendum sínum hvernig þeim bæri að lifa með því hvernig hann lifði sjálfur. – Jóh. 13:15.

5 Hvenær kenndi Jesús? Hann kenndi á meðan hann þjónaði hér á jörð. (Matt. 4:23) Hann kenndi fylgjendum sínum einnig stuttu eftir að hann var reistur upp. Til dæmis birtist hann hópi lærisveina sem voru ef til fleiri en 500 talsins og bauð þeim að ,gera fólk að lærisveinum‘. (Matt. 28:19, 20; 1. Kor. 15:6) Sem höfuð safnaðarins hélt Jesús áfram að leiðbeina lærisveinum sínum eftir að hann sneri aftur til himna. Í kringum árið 96 fól hann til dæmis Jóhannesi postula að hvetja hina smurðu og leiðbeina þeim. – Kól. 1:18; Opinb. 1:1.

6-7. (a) Hvar er kennsla Jesú skráð? (b) Hvernig beygjum við okkur undir lögmál Krists?

6 Hvar er kennsla Jesú skráð? Margt af því sem hann sagði og gerði hér á jörð er skráð í guðspjöllunum fjórum. Aðrar bækur Grísku ritninganna hjálpa okkur líka að skilja hugarfar Jesú því að þeir sem rituðu þær voru innblásnir af heilögum anda og höfðu „huga Krists“. – 1. Kor. 2:16.

7 Það sem við lærum: Kennsla Jesú er gagnleg á öllum sviðum lífsins. Lögmál Krists hefur því áhrif á allt sem við gerum heima fyrir, í vinnunni eða í skólanum og í söfnuðinum. Við lærum þetta lögmál með því að lesa Grísku ritningarnar og hugleiða það sem við lesum. Við beygjum okkur undir lögmál Krists með því að laga líf okkar að þeim leiðbeiningum, boðum og meginreglum sem er að finna í þessum innblásnu biblíubókum. Þegar við hlýðum lögmáli Krists hlýðum við Jehóva, elskuríkum Guði okkar, en allt sem Jesús kenndi kemur frá honum. – Jóh. 8:28.

LÖGMÁL BYGGT Á KÆRLEIKA

8. Á hvaða grunni er lögmál Krists byggt?

8 Fólk finnur til öryggis ef það býr í vel byggðu húsi á traustum grunni. Eins finna þeir til öryggis sem fara eftir góðum lögum byggðum á traustum grunni. Lögmál Krists er byggt á besta grunni sem hugsast getur – kærleika. Hvers vegna er hægt fullyrða það?

Við förum eftir ,lögmáli Krists‘ þegar við komum fram við aðra af kærleika. (Sjá 9.-14. grein.) *

9-10. Hvaða dæmi sýna að kærleikur knúði Jesú og hvernig getum við líkt eftir honum?

9 Í fyrsta lagi byggði Jesús allt sem hann gerði á kærleika. Kærleikur sýnir sig í samúð, eða innilegri umhyggju. Jesús var knúinn af slíkri umhyggju til að kenna mannfjölda, lækna sjúka, gefa svöngum að borða og reisa upp látna. (Matt. 14:14; 15:32-38; Mark. 6:34; Lúk. 7:11-15) Þó að það tæki mikinn tíma og orku að sinna öðrum á þennan hátt var hann fús til að setja þarfir annarra ofar sínum eigin. Umfram allt sýndi hann kærleika sinn með því að gefa líf sitt í þágu annarra. – Jóh. 15:13.

10 Það sem við lærum: Við líkjum eftir Jesú með því að taka þarfir annarra fram yfir okkar eigin. Við getum einnig líkt eftir honum með því að rækta með okkur innilega umhyggju fyrir fólki á svæðinu. Þegar umhyggja fyrir öðrum knýr okkur til að boða og kenna fagnaðarerindið fylgjum við lögmáli Krists.

11-12. (a) Hvað sýnir að Jehóva er innilega annt um okkur? (b) Hvernig getum við líkt eftir kærleika Jehóva?

11 Í öðru lagi birti Jesús kærleika föður síns. Á meðan Jesús þjónaði hér á jörð sýndi hann hve innilega annt Jehóva er um þjóna sína. Meðal annars kenndi Jesús að hvert og eitt okkar væri dýrmætt í augum föður okkar á himnum. (Matt. 10:31) Jehóva þráir að taka á móti týndum sauðum sem iðrast og snúa aftur til safnaðarins. (Lúk. 15:7, 10) Jehóva sýndi og sannaði kærleika sinn til okkar með því að gefa son sinn sem lausnargjald í okkar þágu. – Jóh. 3:16.

12 Það sem við lærum: Hvernig getum við líkt eftir kærleika Jehóva? (Ef. 5:1, 2) Með því að meta bræður okkar og systur mikils og taka ánægð á móti týndum sauðum sem snúa aftur til Jehóva. (Sálm. 119:176) Við sýnum og sönnum að við elskum trúsystkini okkar með því að gefa af tíma okkar og kröftum, sérstaklega þegar þau eru þurfandi. (1. Jóh. 3:17) Við förum eftir lögmáli Krists með því að koma fram við aðra af ást og umhyggju.

13-14. (a) Hvaða boðorð gaf Jesús fylgjendum sínum í Jóhannesi 13:34, 35 og hvers vegna var það nýtt? (b) Hvernig fylgjum við nýja boðorðinu?

13 Í þriðja lagi bauð Jesús fylgjendum sínum að sýna fórnfúsan kærleika. (Lestu Jóhannes 13:34, 35.) Boð Jesú var nýtt vegna þess að það krafðist kærleika í annarri mynd en lögmálið sem Guð gaf Ísrael. Við eigum að elska trúsystkini okkar eins og Jesús elskaði okkur. Til þess þarf fórnfúsan kærleika. * Við eigum að elska bræður okkar og systur jafnvel meira en okkur sjálf. Við eigum að elska þau það mikið að við séum fús til að deyja fyrir þau, eins og Jesús gerði fyrir okkur.

14 Það sem við lærum: Hvernig fylgjum við nýja boðorðinu? Einfaldlega með því að færa fórnir fyrir bræður okkar og systur. Við erum ekki bara fús til að fórna lífi okkar fyrir þau heldur líka að færa smærri fórnir. Við getum til dæmis lagt lykkju á leið okkar til að taka eldri bróður eða systur með á samkomu, verið fús til að fórna einhverju sem okkur líkar til að gleðja trúsystkini eða tekið okkur frí úr vinnu til að hjálpa til eftir hamfarir. Þannig getum við fylgt lögmáli Krists og stuðlað að því að hver og einn í söfnuðinum finni til öryggis.

LÖGMÁL SEM STUÐLAR AÐ RÉTTLÆTI

15-17. (a) Hvernig kom réttlætiskennd Jesú fram í verki? (b) Hvernig getum við líkt eftir Jesú?

15 Orðið „réttlæti“ eins og það er notað í Biblíunni merkir að gera af óhlutdrægni það sem Guð telur rétt. Hvers vegna má segja að lögmál Krists stuðli að réttlæti?

Jesús var kurteis og vingjarnlegur við konur, þar á meðal við þær sem aðrir litu niður á. (Sjá 16. grein.) *

16 Fyrst skulum við hugleiða hvernig réttlætiskennd Jesú kom fram í því sem hann gerði. Á hans dögum hötuðu trúarleiðtogar Gyðinga þá sem voru ekki Gyðingar, fyrirlitu almenning og lítilsvirtu konur. En Jesús fór ekki í manngreinarálit og var sanngjarn við alla. Hann tók á móti þeim sem komu til hans í trú þó að þeir væru ekki Gyðingar. (Matt. 8:5-10, 13) Hann boðaði öllum fagnaðarerindið án fordóma, jafnt ríkum sem fátækum. (Matt. 11:5; Lúk. 19:2, 9) Hann var aldrei hranalegur eða móðgandi í samskiptum sínum við konur. Hann var öllu heldur kurteis og vingjarnlegur, þar á meðal við þær sem aðrir litu niður á. – Lúk. 7:37-39, 44-50.

17 Það sem við lærum: Við líkjum eftir Jesú með því að fara ekki í manngreinarálit og boða trúna öllum sem vilja hlusta, óháð efnahag þeirra eða trú. Bræður fylgja fordæmi hans með því að koma fram við konur af virðingu. Þannig getum við fylgt lögmáli Krists.

18-19. Hvað kenndi Jesús um réttlæti og hvað lærum við af því?

18 Hugleiðum það sem Jesús kenndi um réttlæti. Hann kenndi fylgjendum sínum meginreglur sem myndu hjálpa þeim að koma fram við aðra af sanngirni. Tökum gullnu regluna sem dæmi. (Matt. 7:12) Við viljum öll að komið sé fram við okkur af sanngirni. Þess vegna ættum við að vera sanngjörn við aðra. Það getur verið þeim hvatning til að vera sanngjarnir við okkur. En hvað ef við höfum verið beitt órétti? Jesús kenndi fylgjendum sínum líka að treysta því að Jehóva myndi „rétta hlut [þeirra] sem hrópa til hans dag og nótt“. (Lúk. 18:6, 7) Þetta er í raun loforð. Réttlátur Guð okkar tekur eftir þeim erfiðleikum sem við verðum fyrir nú á síðustu dögum og á sínum tíma réttir hann hlut okkar. – 2. Þess. 1:6.

19 Það sem við lærum: Ef við förum eftir meginreglunum sem Jesús kenndi komum við fram við aðra af sanngirni. Og ef við höfum verið beitt órétti í heimi Satans getur það veitt okkur huggun að vita að Jehóva mun rétta hlut okkar.

HVERNIG EIGA ÞEIR SEM FARA MEÐ UMSJÓN AÐ KOMA FRAM VIÐ AÐRA?

20-21. (a) Hvernig eiga þeir sem fara með umsjón að koma fram við aðra? (b) Hvernig getur eiginmaður sýnt fórnfúsan kærleika og hvernig á faðir að koma fram við börnin sín?

20 Hvernig eiga þeir sem eru undir lögmáli Krists og fara með umsjón að koma fram við aðra? Lögmál Krists er byggt á kærleika og þess vegna eiga þeir að virða þá sem þeir hafa umsjón með og koma fram við þá á kærleiksríkan hátt. Þeir þurfa að hafa í huga að Kristur vill að allt sem við gerum einkennist af kærleika.

21 Í fjölskyldunni. Eiginmaður á að elska konu sína „eins og Kristur elskaði kirkjuna“. (Ef. 5:25, 28, 29) Hann á að líkja eftir fórnfúsum kærleika Krists með því að taka þarfir og langanir konu sinnar fram yfir sínar eigin. Sumum mönnum getur fundist erfitt að sýna slíkan kærleika, kannski vegna þess að þeir voru ekki aldir upp við að meta mikils sanngirni og kærleika. Það getur verið erfitt fyrir þá að uppræta slæmar venjur en það er nauðsynlegt til að fylgja lögmáli Krists. Eiginmaður sem sýnir fórnfúsan kærleika ávinnur sér virðingu konu sinnar. Faðir sem elskar börnin sín myndi aldrei beita þau andlegu eða líkamlegu ofbeldi. (Ef. 4:31) Öllu heldur finna börnin til öryggis þegar hann sýnir þeim að hann metur þau mikils og elskar þau. Slíkur faðir ávinnur sér ást og traust barna sinna.

22. Hverjum tilheyra ,sauðirnir‘ samkvæmt 1. Pétursbréfi 5:1-3 og hvernig á að annast þá?

22 Í söfnuðinum. Öldungar þurfa að hafa hugfast að þeir eiga ekki ,sauðina‘. (Jóh. 10:16; lestu 1. Pétursbréf 5:1-3.) Þeim er sagt: „Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur.“ Það minnir öldunga á að sauðirnir tilheyra Jehóva og að hann vill að hugsað sé um þá af kærleika og mildi. (1. Þess. 2:7, 8) Öldungar sem sinna af kærleika ábyrgð sinni sem hirðar öðlast velþóknun Jehóva. Þeir ávinna sér líka kærleika og virðingu bræðra og systra.

23-24. (a) Hvaða hlutverki gegna öldungar í að taka á alvarlegum brotum? (b) Hvað þurfa öldungar að hugsa um þegar þeir taka á slíkum málum?

23 Hvaða hlutverki gegna öldungar í að taka á alvarlegum brotum? Það er ólíkt hlutverki dómara og öldunga í Ísrael til forna. Undir lögmálinu sem Guð gaf þeim dæmdu dómarar og öldungar ekki aðeins í málum sem sneru að tilbeiðslunni heldur einnig í ágreiningsmálum og sakamálum. En hlutverk öldunga undir lögmáli Krists er að dæma um brot sem snerta tilbeiðsluna á Jehóva. Þeir vita að Guð hefur gefið veraldlegum yfirvöldum leyfi til að dæma í lagalegum ágreiningsmálum og sakamálum, þar á meðal er vald til að refsa mönnum með sektum eða fangelsun. – Rómv. 13:1-4.

24 Hvernig taka öldungar á brotum sem snerta tilbeiðsluna? Þeir nota Biblíuna til að rannsaka mál og dæma í þeim. Þeir hafa í huga að lögmál Krists er byggt á kærleika. Kærleikur fær þá til að spyrja sig hvað þurfi að gera til að hjálpa þeim í söfnuðinum sem eru fórnarlömb afbrotsins. Og kærleikur knýr öldungana til að spyrja sig hvort afbrotamaðurinn hafi iðrast og hvort þeir geti hjálpað honum að endurheimta samband sitt við Jehóva.

25. Um hvað er rætt í næstu grein?

25 Við erum innilega þakklát fyrir að vera undir lögmáli Krists. Ef við leggjum okkur öll fram um að fara eftir því stuðlum við að því að allir í söfnuðinum finni að þeir séu mikils metnir, elskaðir og óhultir. En við lifum í heimi þar sem „vondir menn ... magnast í vonskunni“. (2. Tím. 3:13) Við verðum því að vera á verði. Hvernig getur söfnuðurinn endurspeglað réttlæti Guðs þegar taka þarf á kynferðisofbeldi gegn börnum? Því er svarað í næstu grein.

SÖNGUR 15 Fögnum frumburði Jehóva

^ gr. 5 Þessi grein og næstu tvær eru hluti af greinaröð sem fjallar um hvers vegna við getum treyst því að Jehóva sé Guð kærleika og réttlætis. Hann vill að þjónar sínir njóti réttlætis og hann hughreystir þá sem hafa verið beittir órétti í þessum illa heimi.

^ gr. 1 Sjá greinina „Kærleikur og réttlæti í Ísrael til forna“ í Varðturninum febrúar 2019.

^ gr. 13 ORÐASKÝRING: Fórnfús kærleikur fær okkur til að taka þarfir og velferð annarra fram yfir okkar eigin. Við erum tilbúin að fórna einhverju eða neita okkur um eitthvað öðrum til gagns.

^ gr. 61 MYND: Jesús fylgist með ekkju sem hefur misst einkason sinn. Hann kennir í brjósti um hana og reisir unga manninn upp.

^ gr. 63 MYND: Jesús borðar heima hjá farísea sem heitir Símon. Kona, sem er ef til vill vændiskona, er nýbúin að þvo fætur Jesú með tárum, þurrka þá með hári sínu og smyrja þá með olíu. Símoni mislíkar það sem konan gerir en Jesús kemur henni til varnar.