Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 28

Höldum áfram að tilbiðja Jehóva þó að starfsemi okkar verði bönnuð

Höldum áfram að tilbiðja Jehóva þó að starfsemi okkar verði bönnuð

„Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“ – POST. 4:19, 20.

SÖNGUR 122 Verum staðföst og óbifanleg

YFIRLIT *

1, 2. (a) Hvers vegna ætti það ekki að koma okkur á óvart ef starfsemi okkar verður bönnuð? (b) Hvað ræðum við í þessari grein?

ÁRIÐ 2018 bjuggu meira en 223.000 boðberar fagnaðarerindisins í löndum þar sem starf okkar er bannað eða sætir verulegum hömlum. Það kemur ekki á óvart. Eins og við lærðum í greininni á undan búast sannkristnir menn við því að vera ofsóttir. (2. Tím. 3:12) Hvar sem við búum gætu yfirvöld skyndilega og óvænt bannað okkur að tilbiðja Jehóva, kærleiksríkan Guð okkar.

2 Ef yfirvöld í landinu þar sem þú býrð ákveða að banna tilbeiðsluna á Jehóva gætirðu spurt þig spurninga eins og þessara: Eru ofsóknir merki um að Guð hafi ekki lengur velþóknun á okkur? Getur bann stöðvað tilbeiðslu okkar á Jehóva? Ætti ég að flytjast til lands þar sem mér er frjálst að tilbiðja Guð? Í greininni ræðum við þessar spurningar. Við ræðum einnig hvernig við getum haldið áfram að þjóna Jehóva þegar starfsemi okkar er bönnuð og hvað við ættum að varast.

ERU OFSÓKNIR MERKI UM AÐ GUÐ HAFI EKKI LENGUR VELÞÓKNUN Á OKKUR?

3. Hvaða ofsóknir þurfti hinn trúfasti Páll postuli að þola eins og sjá má í 2. Korintubréfi 11:23–27 og hvað lærum við af reynslu hans?

3 Ef yfirvöld banna tilbeiðslu okkar gætum við ályktað ranglega að við njótum ekki velþóknunar Jehóva. En mundu að ofsóknir eru ekki merki um að Jehóva sé óánægður með okkur. Tökum Pál postula sem dæmi. Hann naut sannarlega velþóknunar Guðs. Hann fékk að skrifa 14 af bréfum Grísku ritninganna og var postuli heiðingja. Samt sem áður þurfti hann að þola harðar ofsóknir. (Lestu 2. Korintubréf 11:23–27.) Reynsla Páls sýnir okkur að Jehóva leyfir stundum að trúfastir þjónar hans séu ofsóttir.

4. Hvers vegna hatar heimurinn okkur?

4 Jesús sagði hvers vegna við mættum búast við ofsóknum. Hann sagði að við yrðum hötuð vegna þess að við erum ekki af heiminum. (Jóh. 15:18, 19) Ofsóknir eru ekki merki um að við höfum ekki velþóknun Jehóva. Þær gefa öllu heldur til kynna að við séum að gera það sem er rétt.

GETUR BANN STÖÐVAÐ TILBEIÐSLU OKKAR Á JEHÓVA?

5. Geta menn stöðvað tilbeiðsluna á Jehóva? Skýrðu svarið.

5 Mennskir andstæðingar geta ekki útrýmt tilbeiðslunni á almáttugum Guði. Margir hafa reynt það án árangurs. Hugleiddu það sem gerðist í síðari heimsstyrjöldinni. Á þeim tíma ofsóttu yfirvöld þjóna Guðs harðlega í mörgum löndum. Starfsemi Votta Jehóva var ekki aðeins bönnuð af nasistaflokknum í Þýskalandi heldur einnig af yfirvöldum í Ástralíu, Kanada og fleiri löndum. En taktu eftir hvað gerðist. Árið 1939, þegar stríðið braust út, voru 72.475 boðberar í heiminum. Vegna þess að Jehóva blessaði þjóna sína voru boðberar í heiminum í lok stríðsins, árið 1945, orðnir 156.299 talsins. Boðberafjöldinn hafði meira en tvöfaldast!

6. Hvaða jákvæðu áhrif geta ofsóknir haft? Lýstu með dæmi.

6 Ofsóknir geta verið okkur hvatning til að þjóna Jehóva enn betur frekar en að draga úr okkur kjark. Tökum sem dæmi hjón sem áttu ungan son og bjuggu í landi þar sem yfirvöld ákváðu að banna starfsemi okkar. Í stað þess að hörfa undan í ótta gerðust þau brautryðjendur. Konan hætti meira að segja í vel launaðri vinnu til að geta gert það. Maðurinn sagði að bannið hefði vakið forvitni hjá fólki um Votta Jehóva og honum fannst auðveldara að stofna biblíunámskeið. Bannið hafði einnig jákvæð áhrif á marga aðra. Öldungur í þessu sama landi sagði að margir sem voru hættir að þjóna Jehóva hefðu byrjað að mæta á samkomur og orðið virkir boðberar á ný.

7. (a) Hvað lærum við af 3. Mósebók 26:36, 37? (b) Hvað ætlar þú að gera ef starfsemi okkar verður bönnuð?

7 Óvinir okkar banna tilbeiðsluna á Jehóva til að hræða okkur svo að við hættum að þjóna honum. Auk þess að banna starfsemi okkar gætu þeir dreift lygasögum, sent embættismenn til að gera leit á heimilum okkar, dregið okkur fyrir rétt eða jafnvel fangelsað einhver okkar. Þeir vonast til að skelfa okkur með því að setja nokkur okkar í fangelsi. Ef við leyfðum þeim að gera okkur óttaslegin gætum við jafnvel farið að „banna“ okkar eigin tilbeiðslu. Við viljum ekki verða eins og þeir sem lýst er í 3. Mósebók 26:36, 37. (Lestu.) Við leyfum ekki ótta að hægja á eða stöðva þjónustu okkar við Jehóva. Við treystum algerlega á Jehóva og leggjum ekki á flótta í hræðslu. (Jes. 28:16) Við leitum leiðsagnar Jehóva í bæn. Við vitum að Jehóva hjálpar okkur og þess vegna tekst ekki einu sinni áhrifamestu ríkisstjórnum manna að koma í veg fyrir að við tilbiðjum Guð okkar í trúfesti. – Hebr. 13:6.

ÆTTI ÉG AÐ FLYTJAST TIL ANNARS LANDS?

8, 9. (a) Hvaða ákvörðun þarf hver og einn að taka fyrir sig eða sína fjölskyldu? (b) Hvað getur hjálpað okkur að taka viturlega ákvörðun?

8 Ef yfirvöld þar sem þú býrð banna tilbeiðslu okkar gætirðu velt fyrir þér hvort þú ættir að flytjast til lands þar sem þér er frjálst að þjóna Jehóva. Það er persónuleg ákvörðun sem enginn annar getur tekið fyrir þig. Sumum gæti fundist hjálplegt að hugleiða það sem kristnir menn á fyrstu öld gerðu þegar þeir voru ofsóttir. Eftir að Stefán hafði verið grýttur til dauða fluttust lærisveinarnir í Jerúsalem víðsvegar um Júdeu og Samaríu og fóru jafnvel alla leið til Fönikíu, Kýpur og Antíokkíu. (Matt. 10:23; Post. 8:1; 11:19) Aðrir veita því kannski athygli að eftir að önnur ofsóknaralda herjaði á kristna menn á fyrstu öld ákvað Páll postuli að flytjast ekki frá þeim svæðum þar sem prédikunin mætti andstöðu. Hann stofnaði öllu heldur eigin öryggi í hættu til að boða fagnaðarerindið og styrkja trúsystkini í borgum þar sem miklar ofsóknir voru. – Post. 14:19–23.

9 Hvað lærum við af þessum frásögum? Höfuð fjölskyldunnar þarf að taka ákvörðun um hvort fjölskyldan flytur. Áður en hann tekur ákvörðun ætti hann að hugleiða vel og í bænarhug aðstæður fjölskyldu sinnar og hvaða áhrif flutningurinn gæti haft á hana. Í þessu máli verður hver og einn kristinn maður að „bera sína byrði“. (Gal. 6:5) Við ættum ekki að dæma aðra fyrir þá ákvörðun sem þeir taka.

HVERNIG GETUM VIÐ SINNT TILBEIÐSLUNNI ÞEGAR STARFSEMI OKKAR ER BÖNNUÐ?

10. Hvers konar leiðbeiningar veita deildarskrifstofan og öldungarnir?

10 Hvernig geturðu haldið áfram að tilbiðja Jehóva þegar starfsemi okkar er bönnuð? Deildarskrifstofan veitir öldungunum í söfnuðinum leiðbeiningar og hagnýt ráð um hvernig við fáum andlega næringu, hvernig við getum safnast saman til tilbeiðslu og hvernig við eigum að boða fagnaðarerindið. Ef deildarskrifstofan getur ekki haft samband við öldungana munu þeir hjálpa þér og söfnuðinum öllum að halda áfram að tilbiðja Jehóva. Þeir veita leiðbeiningar í samræmi við þá leiðsögn sem er að finna í Biblíunni og í ritum okkar. – Matt. 28:19, 20; Post. 5:29; Hebr. 10:24, 25.

11. Hvers vegna geturðu verið viss um að þú fáir alltaf andlega næringu og hvað geturðu gert til að passa upp á biblíuna þína og önnur rit?

11 Jehóva hefur lofað að þjónar hans fái næga andlega fæðu. (Jes. 65:13, 14; Lúk. 12:42–44) Þú getur því verið viss um að söfnuður hans geri allt sem hægt er til að veita þér þá uppörvun sem þú þarft á að halda. En hvað getur þú gert? Þegar starfsemi okkar er bönnuð skaltu finna góðan stað til að fela biblíuna þína og önnur biblíutengd rit sem þú kannt að eiga. Passaðu að skilja þetta dýrmæta efni ekki eftir þar sem það gæti auðveldlega fundist, hvort sem það er í prentuðu eða rafrænu formi. Við þurfum hvert og eitt að gera það sem við getum til að halda okkur andlega sterkum.

Með hjálp Jehóva getum við óhrædd safnast saman til tilbeiðslu. (Sjá 12. grein.) *

12. Hvernig geta öldungarnir skipulagt samkomur sem draga ekki athygli að okkur?

12 Hvað um samkomurnar? Öldungarnir gera ráðstafanir svo að við getum sótt samkomur án þess að það dragi óæskilega athygli að okkur. Þeir gætu ákveðið að láta okkur hittast í minni hópum og líklega munu þeir oft breyta stað og stund samkomunnar. Þú getur stuðlað að öryggi þeirra sem mæta á samkomurnar með því að tala lágt þegar þú kemur og ferð. Þú gætir einnig þurft að klæða þig þannig að það dragi ekki athygli að þér.

Við höldum áfram að boða trúna þó að yfirvöld banni okkur það. (Sjá 13. grein.) *

13. Hvað getum við lært af trúsystkinum okkar í Sovétríkjunum?

13 Hvað varðar boðunina eru aðstæður mismunandi frá einum stað til annars. En við elskum Jehóva og njótum þess að segja öðrum frá ríki hans. Við finnum því einhverja leið til að boða trúna. (Lúk. 8:1; Post. 4:29) Sagnfræðingurinn Emily B. Baran sagði um boðun votta Jehóva í Sovétríkjunum: „Þegar ríkið sagði vottum Jehóva að þeir mættu ekki boða öðrum trú sína hófu þeir samræður við nágranna sína, samstarfsfélaga og vini. Þegar þeir lentu í vinnubúðum vegna þessa töluðu þeir við samfanga sína.“ Trúsystkini okkar í Sovétríkjunum hættu ekki að boða trúna þó að starfsemi okkar væri bönnuð. Leggðu þig fram um að gera hið sama ef starfsemi okkar verður bönnuð þar sem þú býrð.

HVAÐ ÞURFUM VIÐ AÐ VARAST?

Við þurfum að gera okkur grein fyrir hvenær er mikilvægt að þegja. (Sjá 14. grein.) *

14. Hvaða viðvörun fáum við í Sálmi 39:2?

14 Vertu gætinn með upplýsingar. Þegar starfsemi okkar er bönnuð verðum við að gera okkur grein fyrir hvenær sé ,tími til að þegja‘. (Préd. 3:7) Við verðum að fara varlega með viðkvæmar upplýsingar eins og nöfn trúsystkina okkar, staðina þar sem við söfnumst saman, hvernig við boðum trúna og hvernig við fáum andlega fæðu. Við myndum ekki segja yfirvöldum frá þessu og ekki heldur vinum eða ættingjum sem vilja vel, hvort sem þeir búa í sama landi og við eða ekki. Ef við gerðum það myndum við stofna trúsystkinum okkar í hættu. – Lestu Sálm 39:2.

15. Hvað reynir Satan að gera okkur og hvernig ættum við að bregðast við?

15 Leyfðu smávægilegum málum ekki að valda sundrung. Satan veit að sundrað heimili fær ekki staðist. (Mark. 3:24, 25) Hann reynir stöðugt að valda sundrung meðal okkar. Hann vonast til að við förum að berjast hvert gegn öðru í stað þess að berjast gegn honum.

16. Hvernig setti systir Gertrud Pötzinger okkur gott fordæmi?

16 Jafnvel þroskaðir kristnir einstaklingar þurfa að gæta þess að falla ekki í þessa gryfju. Skoðum dæmi tveggja andasmurðra systra, Gertrud Pötzinger og Elfriede Löhr. Þær voru ásamt öðrum systrum í fangabúðum nasista. Gertrud varð afbrýðisöm þegar Elfriede flutti hvetjandi ræður fyrir hinar systurnar í búðunum. Seinna skammaðist Gertrud sín og sárbændi Jehóva um hjálp. Hún skrifaði: „Við þurfum að læra að sætta okkur við það þegar aðrir eru færari en við eða fá meiri ábyrgð.“ Hvernig sigraðist hún á afbrýðiseminni? Gertrud einblíndi á góða eiginleika Elfriede og vinsamlegt viðmót hennar. Þannig eignaðist hún aftur gott samband við hana. Þær lifðu báðar af fangabúðavistina og þjónuðu Jehóva trúfastar þar til þær luku jarðnesku lífi sínu. Ef við leggjum okkur fram um að yfirstíga vandamál sem upp koma milli okkar og trúsystkina okkar leyfum við engu að valda sundrung okkar á meðal. – Kól. 3:13, 14.

17. Hvers vegna þurfum við að varast að taka málin í eigin hendur?

17 Varastu að taka málin í eigin hendur. Við komumst hjá vandamálum með því að fylgja leiðbeiningunum sem við fáum frá traustum og ábyrgum bræðrum. (1. Pét. 5:5) Tökum dæmi: Í landi þar sem starf okkar er bannað höfðu bræður í ábyrgðarstöðu veitt þær leiðbeiningar að boðberar ættu ekki að dreifa prentuðum ritum í boðuninni. En einum brautryðjanda fannst hann vita betur og dreifði ritum. Hvað hlaust af því? Stuttu eftir að hann og aðrir höfðu boðað trúna óformlega voru þeir yfirheyrðir af lögreglunni. Embættismenn höfðu greinilega elt þá og fundið ritin. Hvað lærum við af þessu? Við þurfum að fara eftir leiðbeiningum þó að okkur finnist við vita betur. Jehóva blessar okkur alltaf þegar við vinnum vel með þeim bræðrum sem hann hefur útnefnt til að fara með forystuna á meðal okkar. – Hebr. 13:7, 17.

18. Hvers vegna ættum við ekki að setja óþarfar reglur?

18 Settu ekki óþarfar reglur. Ef öldungar setja óþarfar reglur leggja þeir byrði á aðra. Bróðir Juraj Kaminský segir frá því sem átti sér stað á meðan á banninu stóð í Tékkóslóvakíu: „Eftir að bræður í ábyrgðarstöðum og margir öldungar höfðu verið handteknir settu sumir þeirra sem fóru með forystu í söfnuðunum og farandsvæðunum boðberunum hegðunarreglur og gerðu lista yfir hvað mátti gera og hvað ekki.“ Jehóva hefur ekki gefið okkur leyfi til að taka persónulegar ákvarðanir fyrir aðra. Sá sem setur óþarfar reglur er ekki að vernda trúsystkini sín heldur er hann að reyna að drottna yfir trú þeirra. – 2. Kor. 1:24.

HÆTTUM ALDREI AÐ TILBIÐJA JEHÓVA

19. Hvernig getur 2. Kroníkubók 32:7, 8 veitt okkur hugrekki hvað sem Satan reynir?

19 Erkióvinur okkar, Satan djöfullinn, hættir ekki að ofsækja trúfasta þjóna Jehóva. (1. Pét. 5:8; Opinb. 2:10) Satan og fulltrúar hans reyna að banna okkur að tilbiðja Jehóva. Það er þó engin ástæða til að lamast af ótta. (5. Mós. 7:21) Jehóva er með okkur og hann heldur áfram að styðja okkur þó að starfsemi okkar verði bönnuð. – Lestu 2. Kroníkubók 32:7, 8.

20. Hvað ert þú ákveðinn í að gera?

20 Verum jafn ákveðin og bræður okkar á fyrstu öld sem sögðu við stjórnendur síns tíma: „Dæmið sjálfir hvort það sé rétt í augum Guðs að hlýðnast ykkur fremur en honum. Við getum ekki annað en talað það sem við höfum séð og heyrt.“ – Post. 4:19, 20.

SÖNGUR 73 Veittu okkur hugrekki

^ gr. 5 Hvað eigum við að gera ef yfirvöld banna okkur að tilbiðja Jehóva? Í þessari grein fáum við gagnleg ráð um hvað við eigum að gera og hvað við eigum að varast svo að við getum haldið áfram að tilbiðja Guð okkar.

^ gr. 59 MYND: Allar myndirnar sýna votta sem þjóna í löndum þar sem hömlur eru á starfsemi okkar. Á þessari mynd er lítill hópur sem hittist til að halda samkomu í geymslu hjá bróður.

^ gr. 61 MYND: Systir (til vinstri) leitar að tækifæri til að ræða um andleg mál þegar hún á vinsamlegar samræður við konu.

^ gr. 63 MYND: Bróðir sem er yfirheyrður af lögreglunni neitar að veita upplýsingar um söfnuðinn.