Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 34

Hvernig getum við aðlagast nýjum verkefnum?

Hvernig getum við aðlagast nýjum verkefnum?

„Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki ykkar og kærleikanum sem þið auðsýnduð honum.“ – HEBR. 6:10.

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

YFIRLIT *

1–3. Hvers vegna þurfa boðberar í fullu starfi stundum að segja skilið við verkefni sín?

„ÞEGAR við höfðum notið þess að vera trúboðar í 21 ár voru foreldrar okkar beggja orðnir veikburða,“ segja Robert og Mary Jo. „Þó að við værum meira en fús til að annast þau var erfitt að yfirgefa svæðið sem okkur þótti orðið svo vænt um.“

2 „Við grétum þegar okkur varð ljóst að heilsan leyfði ekki að við snerum aftur til að sinna verkefni okkar,“ segja William og Terrie. „Draumur okkar um að þjóna Jehóva erlendis var liðinn.“

3 „Við vissum að andstæðingar okkar vildu loka deildarskrifstofunni þar sem ég starfaði,“ segir Aleksej. „Samt var áfall fyrir okkur þegar það gerðist og við þurftum að yfirgefa Betel.“

4. Hvaða spurningum er svarað í þessari grein?

4 Auk þess hefur fjöldi Betelíta og annarra sem þjóna í fullu starfi fengið ný verkefni. * Þessum trúföstu bræðrum og systrum finnst kannski erfitt að segja skilið við verkefni sem þeim líkar mjög vel við. Hvað getur hjálpað þeim að laga sig að breyttum aðstæðum? Og hvernig getur þú aðstoðað þau? Svörin við þessum spurningum geta auðveldað okkur öllum að takast á við breyttar aðstæður.

HVERNIG GETUM VIÐ TEKIST Á VIÐ BREYTINGAR?

Hvers vegna getur verið erfitt fyrir þá sem þjóna í fullu starfi að segja skilið við verkefni sitt? (Sjá 5. grein.) *

5. Hvaða áhrif geta breytingar á verkefnum haft á okkur?

5 Hvort sem við störfum á Betel eða úti á svæðinu getur okkur þótt afar vænt um fólkið og staðinn þar sem við störfum. Við getum því orðið sorgmædd ef við þurfum að hætta einhverra hluta vegna. Við söknum bræðra og systra og höfum áhyggjur af þeim, ekki síst ef við þurftum að fara út af ofsóknum. (Matt. 10:23; 2. Kor. 11:28, 29) Á nýjum stað getur auk þess verið erfitt að aðlagast menningunni. Það getur jafnvel verið erfitt þó að við séum að fara aftur á heimaslóðir. Robert og Mary Jo segja: „Við vorum orðin óvön eigin menningu og að boða trúna á móðurmálinu. Okkur fannst við vera eins og útlendingar.“ Sumir sem fá nýtt verkefni eru skyndilega með útgjöld sem þeir eru ekki vanir. Þeir geta fundið fyrir óöryggi og kjarkleysi. Hvað getur hjálpað þeim?

Það er mikilvægt að eiga náið samband við Jehóva og treysta á hann. (Sjá 6. og 7. grein.) *

6. Hvernig getum við varðveitt náið samband við Jehóva?

6 Varðveittu náið samband við Jehóva. (Jak. 4:8) Hvernig getum við það? Með því að leggja traust okkar á hann „sem heyrir bænir“. (Sálm. 65:3) „Úthell hjarta þínu fyrir honum,“ segir í Sálmi 62:9. Jehóva getur gert „langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum“. (Ef. 3:20) Hann sér okkur ekki aðeins fyrir því sem við biðjum um. Hann getur leyst vandamál okkar með því að gera eitthvað sem okkur hefði aldrei dottið í hug.

7. (a) Hvað hjálpar okkur að varðveita náið samband við Jehóva? (b) Hvað hlýst af því að halda áfram að þjóna Jehóva trúfastur samkvæmt Hebreabréfinu 6:10–12?

7 Varðveittu náið samband við Jehóva með því að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða það sem þú lest. Fyrrverandi trúboði segir: „Hafðu góða reglu á tilbeiðslustund fjölskyldunnar og undirbúningi fyrir samkomur, rétt eins og þú varst vanur að gera.“ Taktu líka eins mikinn þátt í boðuninni og þú getur með nýja söfnuðinum. Jehóva gleymir ekki þeim sem halda áfram að þjóna honum trúfastir, jafnvel þó að þeir geti ekki gert eins mikið og áður. – Lestu Hebreabréfið 6:10–12.

8. Hvernig getur 1. Jóhannesarbréf 2:15–17 hjálpað okkur að lifa einföldu lífi?

8 Lifðu einföldu lífi. Leyfðu ekki áhyggjum í heimi Satans að trufla þig í þjónustunni við Jehóva. (Matt. 13:22) Láttu ekki undan þrýstingi frá heiminum eða vinum og ættingjum sem reyna í góðri trú að fá þig til að tryggja þér fjárhagslegt öryggi í þessum heimi. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 2:15–17.) Treystu á Jehóva. Hann lofar að sjá fyrir andlegum, tilfinningalegum og efnislegum þörfum okkar „þegar við erum hjálparþurfi“. – Hebr. 4:16; 13:5, 6.

9. Hvers vegna er mikilvægt að koma sér ekki í óþarfar skuldir, samanber Orðskviðina 22:3, 7, og hvað getur hjálpað okkur að taka skynsamlegar ákvarðanir?

9 Varastu að koma þér í óþarfar skuldir. (Lestu Orðskviðina 22:3, 7.) Það getur verið dýrara en maður reiknaði með að flytja og auðvelt að koma sér í skuldir. Til að halda skuldum í lágmarki skaltu varast að taka lán fyrir því sem þú þarft ekki nauðsynlega. Þegar maður er undir miklu tilfinningaálagi, eins og til dæmis ef maður þarf að annast veika ástvini, getur verið erfitt að ákveða hve stórt lán er skynsamlegt að taka. Ef það á við um þig skaltu muna að „bæn og beiðni“ getur hjálpað þér að taka skynsamlegar ákvarðanir. Jehóva getur svarað bænum þínum með því að gefa þér frið sem ,varðveitir hjarta þitt og hugsanir‘ og hjálpar þér að hugsa málin yfirvegað. – Fil. 4:6, 7; 1. Pét. 5:7.

10. Hvernig getum við eignast nýja vini?

10 Haltu góðu sambandi við fjölskyldu og vini. Talaðu við góða vini um hvernig þér líður og um það sem þú ert að kljást við, sérstaklega þá sem hafa staðið í sömu sporum. Það getur bætt líðan þína. (Préd. 4:9, 10) Þú átt enn vinina sem þú eignaðist á meðan þú sinntir fyrri verkefnum. En núna þarftu líka að eignast vini á nýja staðnum. Mundu að þú þarft að vera vinur til að eignast vini. Hvernig geturðu farið að því? Segðu öðrum frá reynslu þinni í þjónustu Jehóva svo að þeir sjái gleðina sem hann hefur gefið þér. Og þó að sumir í söfnuðinum skilji ekki eldmóð þinn fyrir þjónustu í fullu starfi getur verið að aðrir hafi áhuga á henni og að þeir verði góðir vinir þínir. Gættu þess samt að draga ekki of mikla athygli að því sem þú hefur afrekað eða einblína á neikvæðar tilfinningar.

11. Hvernig geturðu haldið hjónabandinu farsælu?

11 Kenndu ekki maka þínum um ef þið þurfið að hætta þjónustu í fullu starfi vegna veikinda hans. Þú ættir ekki heldur að vera með sektarkennd og finnast þú hafa brugðist maka þínum ef þú missir heilsuna. Hafðu í huga að þið eruð „einn maður“ og hétuð frammi fyrir Jehóva að hugsa um hag hvort annars í blíðu og stríðu. (Matt. 19:5, 6) Og ef þið hættuð í fullu starfi vegna þess að þið áttuð óvænt von á barni þurfið þið að tryggja að barnið skilji að það er mikilvægara en verkefnið ykkar var. Fullvissið barnið um að þið lítið á það sem umbun frá Guði. (Sálm. 127:3–5) En segið barninu samt frá því hvað verkefni ykkar var stórkostleg lífsreynsla. Það getur orðið því hvatning til að nota líf sitt í ánægjulegri þjónustu fyrir Jehóva, rétt eins og þið gerðuð.

HVERNIG GETA AÐRIR HJÁLPAÐ?

12. (a) Hvernig getum við hjálpað þeim sem þjóna í fullu starfi að halda því áfram? (b) Hvernig getum við auðveldað þeim að aðlagast nýjum aðstæðum?

12 Margir söfnuðir og einstaklingar eiga hrós skilið fyrir að hjálpa bræðrum og systrum sem þjóna í fullu starfi að halda áfram að sinna verkefni sínu. Þeir hvetja þau til að halda áfram, styrkja þau efnislega eða aðstoða við að annast ættingja heima fyrir. (Gal. 6:2) Ef þeim sem þjóna í fullu starfi eru falin ný verkefni í söfnuðinum þínum skaltu ekki telja það merki um að þeim hafi mistekist í fyrra verkefni sínu eða hafi gert eitthvað af sér. * Hjálpaðu þeim heldur að aðlagast breytingunum. Taktu vel á móti þeim og hrósaðu þeim fyrir erfiði sitt, jafnvel þó að heilsan hamli þeim að gera eins mikið og áður. Kynnstu þeim og lærðu af þekkingu þeirra og reynslu.

13. Hvernig getum við aðstoðað þá sem hafa fengið ný verkefni?

13 Bræður og systur sem hafa fengið ný verkefni gætu til að byrja með þurft aðstoð þína við að mæta ýmsum þörfum, eins og að komast á milli staða og finna húsnæði og vinnu. Þú gætir líka þurft að hjálpa þeim að afla sér nýjustu upplýsinga um tryggingar, skattamál og þess háttar. En mikilvægast er að þú reynir að skilja aðstæður þeirra. Kannski eru þau að glíma við eigin veikindi eða annarra í fjölskyldunni. Þau gætu líka verið að syrgja ástvin. * Og kannski sakna þau samverunnar með andlegu fjölskyldunni í fyrra verkefni sínu, jafnvel þó að þau tali ekki um það. Þetta geta verið flóknar tilfinningar sem tekur tíma að vinna úr.

14. Hvernig hjálpuðu boðberar systur nokkurri að aðlagast nýju svæði?

14 Stuðningur þinn og fordæmi getur hjálpað þeim að aðlagast nýjum aðstæðum. Systir sem þjónaði í mörg ár erlendis segir: „Ég stýrði biblíunámskeiðum á hverjum degi í fyrra verkefni mínu. Á nýja staðnum var hins vegar varla hægt að opna Biblíuna eða sýna myndskeið í boðuninni. En boðberar buðu mér með í endurheimsóknir og biblíunámskeið. Ég varð jákvæðari gagnvart svæðinu þegar ég fylgdist með þessum kappsömu og hugrökku trúsystkinum halda árangursrík biblíunámskeið. Ég lærði að hefja samræður á nýja svæðinu. Þetta hjálpaði mér að endurheimta gleðina.“

HALTU ÁFRAM AÐ GERA ÞITT BESTA

Leitið leiða til að færa út kvíarnar innan heimasvæðisins. (Sjá 15. og 16. grein.) *

15. Hvernig getur þér farnast vel í nýju verkefni?

15 Þér getur farnast vel í nýja verkefninu. Líttu ekki á breytingar sem merki um að þú hafir staðið þig illa eða sért minna virði en áður. Hafðu augun opin fyrir því hvernig Jehóva hjálpar þér og haltu áfram að boða trúna. Líktu eftir trúföstum kristnum mönnum á fyrstu öld. „Þeir sem dreifst höfðu fóru víðs vegar og fluttu fagnaðarerindið.“ (Post. 8:1, 4) Ef þú leggur þig fram við að boða trúna sérðu líklega árangur af erfiði þínu. Sem dæmi má nefna brautryðjendur sem voru reknir úr landi. Þeir fluttu þá til nágrannalands þar sem var einnig mikil þörf á boðberum sem töluðu tungumálið. Innan nokkurra mánaða voru nýir ört stækkandi hópar mótaðir.

16. Hvernig geturðu fundið gleði af nýju verkefni?

16 „Gleði Drottins er styrkur ykkar.“ (Neh. 8:10) Gleðin þarf fyrst og fremst að byggjast á sambandi okkar við Jehóva en ekki á verkefni okkar, þó að við höfum mjög gaman af því. Haltu því áfram að eiga náið samband við Jehóva og treysta á leiðsögn hans, visku og stuðning. Mundu að þú lærðir að meta fyrra verkefni þitt mikils vegna þess að þú lagðir þig fram um að hjálpa fólki. Leggðu þig líka fram á nýja staðnum og sjáðu hvernig Jehóva hjálpar þér að meta verkefni þitt mikils. – Préd. 7:10.

17. Hvað ættum við að hafa hugfast varðandi verkefni okkar í þjónustu Jehóva?

17 Höfum hugfast að þjónusta okkar við Jehóva er eilíf en núverandi verkefni okkar er tímabundið. Eflaust eigum við öll eftir að fá önnur verkefni í nýja heiminum. Aleksej, sem minnst var á í byrjun greinarinnar, telur að breytingarnar núna búi hann undir nýja heiminn. Hann segir: „Ég trúði alltaf á Jehóva og nýja heiminn, en hvort tveggja var frekar fjarlægt mér. En núna er Jehóva mjög náinn vinur minn og nýi heimurinn er eins og næsti viðkomustaður á ferð minni.“ (Post. 2:25) Höldum áfram að ganga með Jehóva, hvert sem verkefni okkar er. Hann yfirgefur okkur aldrei. Hann hjálpar okkur að finna gleði þegar við gerum okkar besta í þjónustunni við hann – hvar sem við þjónum honum. – Jes. 41:13.

SÖNGUR 90 Gefum gætur hvert að öðru

^ gr. 5 Stundum þurfa bræður og systur sem þjóna í fullu starfi að segja skilið við verkefni sín eða þeim eru falin ný verkefni. Í þessari grein er rætt um áskoranir sem þau þurfa oft að takast á við og hvað getur hjálpað þeim að aðlagast nýjum aðstæðum. Einnig er fjallað um hvað aðrir geta gert til að styðja þau og hvetja. Auk þess skoðum við meginreglur sem geta hjálpað okkur öllum að takast á við breytingar.

^ gr. 4 Eins hafa margir eldri bræður sem sinna ábyrgðarstörfum falið yngri bræðrum verkefni sín. Sjá greinarnar „Eldri bræður – Jehóva metur hollustu ykkar mikils“ í Varðturninum september 2018 og „Varðveitum innri frið þegar aðstæður breytast“ í Varðturninum október 2018.

^ gr. 12 Öldungar safnaðarins sem þeir tilheyrðu ættu að senda kynningarbréf eins fljótt og hægt er svo að það dragist ekki að þeir geti haldið áfram að starfa sem brautryðjendur, öldungar eða safnaðarþjónar.

^ gr. 13 Sjá greinaröðina „Hjálp fyrir syrgjendur“ í Vaknið! nr. 3 2018.

^ gr. 57 MYND: Hjón sem hafa verið trúboðar erlendis kveðja söfnuðinn grátandi þegar þau þurfa að yfirgefa svæðið.

^ gr. 59 MYND: Í heimalandi þeirra gefast þau ekki upp á að biðja Jehóva að hjálpa sér að takast á við áskoranir sem mæta þeim.

^ gr. 61 MYND: Með hjálp Jehóva þjóna þessi sömu hjón aftur í fullu starfi. Þau nota tungumálakunnáttuna frá trúboðsstarfi sínu til að boða innflytjendum fagnaðarerindið á svæði nýja safnaðarins.