Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 40

Verum önnum kafin á hinum allra síðustu dögum

Verum önnum kafin á hinum allra síðustu dögum

„Verið staðföst, óbifanleg, síauðug í verki Drottins.“ – 1. KOR. 15:58.

SÖNGUR 58 Leitum að friðarins vinum

YFIRLIT *

1. Hvað sannfærir okkur um að við lifum á „hinum síðustu dögum“?

FÆDDISTU eftir 1914? Þá hefurðu lifað alla þína ævi „á síðustu dögum“ þessa heimskerfis. (2. Tím. 3:1) Við höfum öll heyrt um þá atburði sem Jesús spáði fyrir að yrðu á þessum tíma. Það yrðu stríð, matvælaskortur, jarðskjálftar, drepsóttir, vaxandi lögleysi og ofsóknir á hendur þjóna Jehóva. (Matt. 24:3, 7–9, 12; Lúk. 21:10–12) Við sjáum líka fólk haga sér eins og Páll postuli lýsti. (Sjá rammann „ Nú á dögum eru menn ...“) Sem tilbiðjendur Jehóva erum við sannfærð um að við lifum á „hinum síðustu dögum“. – Míka 4:1.

2. Hvaða spurningum þurfum við að fá svör við?

2 Þar sem svo langt er liðið frá 1914 hljótum við að lifa á allra „síðustu dögum“. Fyrst endirinn er svo nærri þurfum við að fá svör við nokkrum mikilvægum spurningum: Hvaða atburðir munu eiga sér stað í lok ,síðustu daga‘? Og hvað ætlast Jehóva til af okkur meðan við bíðum þessara atburða?

HVAÐ MUN EIGA SÉR STAÐ Í LOK ,HINNA SÍÐUSTU DAGA‘?

3. Hvaða yfirlýsingu munu þjóðarleiðtogar heimsins gefa út samkvæmt spádóminum í 1. Þessaloníkubréfi 5:1–3?

3 Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:1–3Páll nefnir ,dag Jehóva‘. Í þessum versum er átt við tímabilið sem hefst með árásinni á ,Babýlon hina miklu‘, heimsveldi falstrúarbragða, og lýkur með Harmagedónstríðinu. (Opinb. 16:14, 16; 17:5) Stuttu áður en þessi „dagur“ hefst lýsa þjóðirnar yfir: „Friður og engin hætta.“ (Sumar þýðingar segja: „Friður og öryggi.“) Þjóðarleiðtogar nota stundum svipað orðalag þegar þeir tala um að reyna að bæta sambandið þjóða á milli. * En þegar lýst verður yfir ,friði og engri hættu‘ eins og Biblían spáði verður annað upp á teningnum. Hvers vegna? Vegna þess að þá munu margir halda að þjóðarleiðtogum hafi tekist að gera heiminn öruggari. Sannleikurinn er hins vegar sá að þá mun þrengingin mikla hefjast og ,snöggleg tortíming‘ fylgja í kjölfarið. – Matt. 24:21.

Látum ekki blekkjast þegar þjóðarleiðtogar heimsins lýsa yfir ,friði og engri hættu‘. (Sjá 3.–6. grein.) *

4. (a) Hvað á eftir að koma í ljós varðandi yfirlýsinguna um ,frið og enga hættu‘? (b) Hvað vitum við nú þegar um hana?

4 Við vitum sumt um yfirlýsinguna um ,frið og enga hættu‘. En sumt vitum við ekki. Við vitum ekki hver aðdragandi hennar verður eða hvernig hún verður birt. Og við vitum ekki hvort gefin verður út bara ein stór yfirlýsing eða röð tilkynninga. En sama hvað gerist megum við ekki láta blekkjast og halda að þjóðarleiðtogum heimsins takist að koma á heimsfriði. Yfirlýsingin er táknið sem okkur hefur verið sagt að bíða eftir. Hún sýnir fram á að dagur Jehóva sé í þann mund að hefjast.

5. Hvernig hjálpar 1. Þessaloníkubréf 5:4–6 okkur að vera viðbúin degi Jehóva?

5 Lestu 1. Þessaloníkubréf 5:4–6Af hvatningu Páls sjáum við hvernig við getum verið viðbúin degi Jehóva. Við ættum ekki að ,sofa eins og aðrir‘. Við verðum að ,vaka‘ og vera á verði. Við þurfum til dæmis að gæta þess að hvika ekki frá hlutleysi okkar með því að taka á einhvern hátt þátt í málum af pólitískum toga. Ef við gerðum það ættum við á hættu að verða hluti „af heiminum“. (Jóh. 15:19) Við vitum að aðeins ríki Guðs getur komið á heimsfriði.

6. Hvað viljum við hjálpa öðrum að gera og hvers vegna?

6 Auk þess að halda okkur vakandi viljum við vekja fólk til meðvitundar um það sem Biblían sagði að myndi gerast í heiminum. Munum að þegar þrengingin mikla hefst verður of seint fyrir fólk að snúa sér til Jehóva. Þess vegna er boðun okkar svo áríðandi! *

VERUM ÖNNUM KAFIN VIÐ BOÐUNINA

Í boðun okkar sýnum við fólki að aðeins ríki Guðs getur fært heiminum ósvikinn frið og öryggi. (Sjá 7.–9. grein.)

7. Hvað ætlast Jehóva til að við gerum núna?

7 Jehóva ætlast til að við séum önnum kafin við boðunina þann stutta tíma sem eftir er áður en „dagur“ hans rennur upp. Við verðum að vera „síauðug í verki Drottins“. (1. Kor. 15:58) Jesús sagði fyrir hvað lærisveinar sínir myndu gera. Þegar hann greindi frá öllum þeim þýðingarmiklu atburðum sem myndu eiga sér stað á hinum síðustu dögum bætti hann við: „Fyrst á að prédika öllum þjóðum fagnaðarerindið.“ (Mark. 13:4, 8, 10; Matt. 24:14) Hugsaðu þér! Í hvert sinn sem þú ferð í boðunina tekurðu þátt í að uppfylla þennan biblíuspádóm.

8. Hvernig miðar boðun Guðsríkis stöðugt áfram?

8 Hver hefur árangurinn af boðun Guðsríkis verið? Ár eftir ár hefur þessu starfi stöðugt miðað áfram. Hugsum til dæmis um fjölgun boðbera Guðsríkis um heim allan á hinum síðustu dögum. Árið 1914 voru 5.155 boðberar í 43 löndum. Nú eru þeir um 8,5 milljónir í 240 löndum! En verki okkar er þó ekki lokið. Við verðum að halda áfram að boða ríki Guðs sem einu lausnina á vandamálum mannkyns. – Sálm. 145:11–13.

9. Hvers vegna verðum við að halda áfram að boða ríki Guðs?

9 Við hættum ekki að boða Guðsríki fyrr en Jehóva segir að starfinu sé lokið. Hversu mikinn tíma hefur fólk eftir til að kynnast Jehóva Guði og Jesú Kristi? (Jóh. 17:3) Það vitum við ekki. En við vitum að fram að þrengingunni miklu geta allir sem hafa rétt hugarfar tekið við fagnaðarboðskapnum. (Post. 13:48) Hvernig getum við hjálpað þessu fólki áður en það verður um seinan?

10. Hvernig hjálpar Jehóva okkur að kenna fólki sannleikann?

10 Fyrir milligöngu safnaðarins sér Jehóva okkur fyrir öllu því sem við þurfum til að kenna fólki sannleikann. Við fáum til dæmis þjálfun í hverri viku á samkomunni í miðri viku. Á samkomunni lærum við hvað við getum sagt þegar við hittum fólk í fyrsta sinn og næstu skipti eftir það. Og okkur er kennt að halda biblíunámskeið. Söfnuður Jehóva hefur einnig séð okkur fyrir hjálpargögnunum í verkfærakistunni okkar. Þau hjálpa okkur að ...

  • hefja samræður,

  • örva áhuga fólks,

  • vekja löngun fólks til að vita meira,

  • kenna sannleikann á biblíunámskeiðum og

  • bjóða fólki að skoða vefsíðuna okkar og koma í ríkissalinn.

Það er auðvitað ekki nóg að hafa þessi hjálpargögn. Við þurfum að nota þau. * Ef við skiljum til dæmis eftir smárit eða tölublað hjá einhverjum sem við höfum átt skemmtilegt samtal við getur hann lesið sjálfur þangað til við höfum tækifæri til að hitta hann aftur. Það er ábyrgð okkar allra að vera önnum kafin við boðun Guðsríkis í hverjum mánuði.

11. Hvers vegna var ákveðið að bjóða upp á biblíunámskeið á netinu?

11 Biblíunámskeið á netinu, sem finna má á jw.org®, er annað dæmi um hvernig Jehóva hjálpar fólki að kynnast sannleikanum. Hvers vegna var ákveðið að bjóða upp á þetta námskeið? Í hverjum mánuði leita tugir þúsunda manna um heim allan að biblíunámskeiði á netinu. Á námskeiðinu á vefsíðu okkar fær fólk tækifæri til að kynnast sannleikanum í orði Guðs. Sumir sem við tölum við hika kannski við að þiggja biblíunámskeið. Þá skaltu sýna þeim þennan möguleika á vefsíðunni okkar eða senda þeim slóðina á námskeiðið. *

12. Hvað lærir maður á biblíunámskeiðinu á netinu?

12 Á biblíunámskeiðinu er tekið fyrir efni eins og: Biblían og höfundur hennar, persónur sem eru áberandi í Biblíunni og vonin sem Biblían veitir. Eftirfarandi spurningum er svarað:

  • Hvernig getur Biblían hjálpað manni?

  • Hverjir eru Jehóva, Jesús og englarnir?

  • Hvers vegna skapaði Guð mennina?

  • Hvers vegna eru þjáningar og illska í heiminum?

Einnig er rætt hvernig Jehóva mun ...

  • binda enda á þjáningar og dauða,

  • reisa dána upp til lífs á ný og

  • láta Guðsríki koma í stað ríkisstjórna manna sem hafa allar brugðist.

13. Kemur biblíunámskeið á netinu í stað námskeiðs með aðstoð leiðbeinanda? Skýrðu svarið.

13 Biblíunámskeið á netinu kemur ekki í staðinn fyrir námskeið með aðstoð leiðbeinanda. Jesús hefur veitt okkur þann heiður að gera fólk að lærisveinum. Við vonum að áhugasamir nýti sér kennsluna á netinu, kunni að meta það sem þeir læra og fái löngun til að vita meira. Þá þiggja þeir kannski biblíunámskeið. Í lok hvers námshluta getur lesandi óskað eftir aðstoð við biblíunám. Á vefsíðunni okkar fáum við daglega yfir 230 beiðnir um biblíunámskeið hvaðanæva úr heiminum. Kennsla með aðstoð leiðbeinanda er mikilvæg!

HÖLDUM ÁFRAM AÐ GERA FÓLK AÐ LÆRISVEINUM

14. Hvað leggjum við okkur fram um að gera í samræmi við leiðbeiningar Jesú í Matteusi 28:19, 20 og hvers vegna?

14 Lestu Matteus 28:19, 20Þegar við höldum biblíunámskeið verðum við að leggja okkur fram um að gera menn ,að lærisveinum ... og kenna þeim að halda allt það sem [Jesús] hefur boðið‘. Við þurfum að hjálpa þeim að skilja hversu mikilvægt það er fyrir þá að taka afstöðu með Jehóva og ríki hans. Það gerum við þegar við hvetjum fólk til að fara eftir því sem það lærir, vígja líf sitt Jehóva og láta skírast og tileinka sér þannig sannleikann. Það er eina leiðin til að lifa af dag Jehóva. – 1. Pét. 3:21.

15. Hvað höfum við ekki tíma til að gera og hvers vegna?

15 Eins og fram hefur komið er mjög stutt í endalok þessa heimskerfis. Við höfum því engan tíma til að halda áfram að kenna fólki sem ætlar sér augljóslega ekki að verða lærisveinar Krists. (1. Kor. 9:26) Starf okkar er áríðandi! Enn þurfa margir að heyra boðskapinn um ríkið áður en það verður um seinan.

HÖLDUM OKKUR FRÁ ÖLLU SEM TENGIST FALSTRÚ

16. Hvað verðum við öll að gera samkvæmt Opinberunarbókinni 18:2, 4, 5, 8? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

16 Lestu Opinberunarbókina 18:2, 4, 5, 8. Í þessum versum er bent á annað sem Jehóva ætlast til af tilbiðjendum sínum. Allir sannkristnir menn verða að vera algerlega aðgreindir frá Babýlon hinni miklu. Biblíunemandi tilheyrði kannski falstrúarhópi áður en hann kynntist sannleikanum. Hann sótti kannski trúarsamkomur og tók þátt í starfsemi hópsins eða styrkti hann með fjárframlögum. Áður en biblíunemandi getur orðið óskírður boðberi þarf hann að slíta öll tengsl við falstrúarbrögð. Hann þarf að segja sig skriflega eða á annan hátt úr trúfélaginu og öllum öðrum hópum sem tengjast Babýlon hinni miklu. *

17. Hvers konar vinnu verður kristinn maður að forðast og hvers vegna?

17 Sannkristinn maður þarf að fullvissa sig um að vinnan hans tengist ekki Babýlon hinni miklu á nokkurn hátt. (2. Kor. 6:14–17) Hann myndi til dæmis ekki vera starfsmaður kirkju. Vottur sem er starfsmaður fyrirtækis myndi ekki heldur vilja vinna meiri háttar verk á húsnæði sem er notað undir falstrú. Og ef hann rekur eigið fyrirtæki myndi hann sannarlega ekki gera tilboð í verk eða semja um verkefni fyrir fyrirtæki eða stofnun sem er hluti af Babýlon hinni miklu. Hvers vegna tökum við svona einarða afstöðu? Vegna þess að við viljum ekki eiga neinn þátt í verkum og syndum trúarhópa eða trúfélaga þar sem þau eru óhrein í augum Guðs. – Jes. 52:11. *

18. Hvernig hélt bróðir nokkur sig við meginreglur Biblíunnar þegar vinnan var annars vegar?

18 Fyrir mörgum árum var öldungur sem rak eigið fyrirtæki beðinn af verktaka að taka að sér smá smíðavinnu í kirkjunni í heimabæ öldungsins. Verktakinn vissi að bróðirinn hafði aldrei viljað vinna við kirkjur. En nú átti verktakinn í erfiðleikum með að finna einhvern í verkið. Engu að síður hélt bróðirinn sig við meginreglur Biblíunnar og hafnaði verkinu. Viku síðar var birt mynd í bæjarblaðinu af trésmið sem festi kross á kirkjuna. Ef bróðir okkar hefði hvikað frá afstöðu sinni hefði myndin í blaðinu getað verið af honum. Hugsaðu þér hvernig það hefði skaðað orðspor hans meðal trúsystkina hans. Og hugsaðu þér hvernig Jehóva myndi líða.

HVAÐ HÖFUM VIÐ LÆRT?

19, 20. (a) Hvað höfum við lært hingað til? (b) Hvað fleira þurfum við að vita?

19 Samkvæmt biblíuspádómi á næsti stóri atburður sér stað þegar þjóðarleiðtogar heimsins lýsa yfir ,friði og engri hættu‘. Jehóva hefur látið okkur vita að þeim takist ekki að koma á sönnum og varanlegum friði. Hvað ættum við að gera áður en þessi atburður á sér stað og snögg tortíming fylgir í kjölfarið? Jehóva vill að við séum önnum kafin við að boða Guðsríki og að við leggjum okkur fram um að gera fólk að lærisveinum. Auk þess verðum við að halda okkur algerlega frá falstrúarbrögðum. Það felur í sér að segja sig úr öllum félögum eða stofnunum sem tengjast Babýlon hinni miklu og forðast sömuleiðis atvinnu sem tengist henni.

20 Fleiri atburðir munu eiga sér stað á hinum allra „síðustu dögum“. Og það er fleira sem Jehóva ætlast til af okkur. Hvað er það og hvernig getum við búið okkur undir allt sem gerist í náinni framtíð? Það fáum við að vita í næstu grein.

SÖNGUR 71 Við erum hersveit Jehóva

^ gr. 5 Bráðlega heyrum við þjóðarleiðtoga heimsins lýsa yfir að þeir hafi náð að koma á friði og öryggi. Það merkir að þrengingin mikla sé í þann mund að hefjast. Hvað ætlast Jehóva til að við gerum fram að því? Við fáum svar við þeirri spurningu í greininni.

^ gr. 3 Svo dæmi sé tekið má lesa á vefsíðu Sameinuðu þjóðanna að markmið þeirra sé „að viðhalda friði og öryggi í heiminum“.

^ gr. 6 Sjá greinina „Dómar Guðs – gefur hann alltaf næga viðvörun?“ í þessu tölublaði.

^ gr. 23 Sjá greinina „Kennið sannleikann“ í Varðturninum október 2018 til að vita meira um hvernig nota má hjálpargögnin í verkfærakistunni okkar.

^ gr. 11 Námskeiðið er til á ensku og portúgölsku og væntanlegt á fleiri tungumálum.

^ gr. 16 Við þurfum líka að halda okkur frá félögum sem bjóða upp á frístundastarf eða starfrækja sumarbúðir fyrir börn og unglinga en hafa einhver tengsl við falstrú, eins og til dæmis félögin KFUM (Kristilegt félag ungra manna) og KFUK (Kristilegt félag ungra kvenna). Þótt einhverjar deildir KFUM og KFUK kunni að fullyrða að starfsemi þeirra sé ekki trúarleg koma þessi félög samt á framfæri hugmyndum og markmiðum sem eru af trúarlegum toga.

^ gr. 17 Nánari umfjöllun um afstöðu Biblíunnar til vinnu sem gæti tengt kristinn mann við trúarstofnanir má finna í „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum 1. maí 1999.

^ gr. 83 MYND: Fastagestir á kaffihúsi fylgjast með fréttatilkynningu í sjónvarpi þar sem lýst er yfir ,friði og engri hættu‘. Vottahjón sem hafa tekið sér hlé frá boðuninni láta ekki blekkjast af þessari tilkynningu.