Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 44

Bindumst sterkum vináttuböndum áður en endirinn kemur

Bindumst sterkum vináttuböndum áður en endirinn kemur

„Vinur lætur aldrei af vináttu sinni.“ – ORÐSKV. 17:17.

SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu

YFIRLIT *

Við þurfum á góðum vinum að halda í „þrengingunni miklu“. (Sjá 2. grein.) *

1, 2. Hvað hjálpar okkur að takast á við erfiðleika samkvæmt því sem segir í 1. Pétursbréfi 4:7, 8?

ÞAR sem langt er liðið á ,síðustu daga‘ gætum við þurft að þola mikla erfiðleika. (2. Tím. 3:1) Tökum dæmi frá landi í vestanverðri Afríku. Mikil ólga og múgárásir í kjölfar kosningaherferðar ollu sundrung í landinu. Í meira en hálft ár gátu bræður okkar og systur ekki farið frjáls ferða sinna vegna þess að þau bjuggu á átakasvæði. Hvað hjálpaði þeim í þessum erfiðleikum? Sumir fengu inni hjá trúsystkinum sem bjuggu á öruggara svæði. „Við þessar aðstæður var ég þakklátur að vera innan um vini,“ segir bróðir nokkur. „Við gátum uppörvað hvert annað.“

2 Þegar ,þrengingin mikla‘ skellur á verðum við þakklát að eiga góða vini sem elska okkur. (Opinb. 7:14) Það er því mikilvægt að við myndum sterk vináttubönd núna. (Lestu 1. Pétursbréf 4:7, 8.) Við getum lært margt af reynslu Jeremía, en vinir hans hjálpuðu honum að halda lífi tímabilið rétt fyrir eyðingu Jerúsalem. * Hvernig getum við líkt eftir Jeremía?

LÆRUM AF JEREMÍA

3. (a) Hvað hefði getað valdið því að Jeremía einangraði sig? (b) Hverju trúði Jeremía Barúk ritara sínum fyrir og hvaða áhrif hafði það?

3 Jeremía bjó um 40 ár meðal fólks sem var ótrútt, þar á meðal nágranna sinna og hugsanlega einhverra ættingja frá Anatót, heimabæ sínum. (Jer. 11:21; 12:6) En hann einangraði sig ekki. Þvert á móti tjáði hann Barúk, trúföstum ritara sínum, tilfinningar sínar. Við vitum líka hvernig honum leið því að við getum lesið um það í Biblíunni. (Jer. 8:21, 23; 20:14–18; 45:1) Við getum vel ímyndað okkur að þegar Barúk skrifaði niður viðburðaríka sögu Jeremía hafi þeir bundist nánum böndum sem einkenndust af innilegri væntumþykju og virðingu. – Jer. 20:1, 2; 26:7–11.

4. Hvað bað Jehóva Jeremía að gera og hvernig styrkti verkefnið vináttu Jeremía og Barúks?

4 Jeremía hafði sýnt hugrekki í mörg ár og varað Ísraelsmenn við því sem koma myndi yfir Jerúsalem. (Jer. 25:3) Þegar Jehóva reyndi eina ferðina enn að hvetja fólkið til að iðrast bað hann Jeremía að rita viðvörun á bókrollu. (Jer. 36:1–4) Jeremía og Barúk hafa án efa átt trústyrkjandi samræður meðan þeir unnu náið saman að verkefninu sem Guð hafði falið þeim, en það hefur líklega tekið einhverja mánuði.

5. Hvernig reyndist Barúk Jeremía góður vinur?

5 Þegar kom að því að opinbera innihald bókrollunnar þurfti Jeremía að treysta Barúk vini sínum fyrir að flytja boðskapinn. (Jer. 36:5, 6) Barúk sýndi hugrekki og sinnti þessu hættulega verkefni. Geturðu ímyndað þér hversu stoltur Jeremía hefur verið þegar Barúk fór í forgarð musterisins og gerði eins og honum hafði verið sagt? (Jer. 36:8–10) Höfðingjar Júda fréttu af því sem Barúk hafði gert og skipuðu honum að lesa fyrir sig upp úr bókrollunni. (Jer. 36:14, 15) Þeir ákváðu að segja Jójakím konungi frá því sem Jeremía hafði skrifað. Af tillitssemi við Barúk sögðu þeir við hann: „Farðu í felur ásamt Jeremía. Enginn má vita hvar þið eruð.“ (Jer. 36:16–19) Þetta var gott ráð!

6. Hvernig brugðust Jeremía og Barúk við andstöðu?

6 Jójakím konungur varð svo reiður þegar hann heyrði það sem Jeremía hafði skrifað að hann brenndi bókrolluna og fyrirskipaði að Jeremía og Barúk yrðu handteknir. En Jeremía lét það ekki hræða sig. Hann tók aðra bókrollu og færði Barúk. Jeremía las fyrir boðskap Jehóva og Barúk skrifaði „allt það sem staðið hafði á bókinni sem Jójakím Júdakonungur hafði brennt“. – Jer. 36:26–28, 32.

7. Hvað hefur líklega hlotist af því að Jeremía og Barúk unnu saman?

7 Þeir sem ganga saman í gegnum erfiðleika mynda oft náin tengsl. Við getum því vel ímyndað okkur að Jeremía og Barúk hafi kynnst betur og orðið nánari vinir þegar þeir unnu að því að endurrita boðskapinn í nýja bókrollu í stað þeirrar sem hinn illi Jójakím konungur eyðilagði. Hvernig getum við haft gagn af fordæmi þessara trúföstu manna?

OPINSKÁ OG EINLÆG TJÁSKIPTI

8. Hvað gæti komið í veg fyrir að við eignumst nána vini og hvers vegna ættum við ekki að gefast upp?

8 Okkur gæti fundist erfitt að opna okkur fyrir öðrum ef einhver hefur sært okkur eða móðgað. (Orðskv. 18:19, 24) Eða kannski finnst okkur við ekki hafa nægan tíma eða orku til að rækta náin tengsl við aðra. En við ættum ekki að gefast upp. Við verðum að læra núna að treysta trúsystkinum okkar fyrir hugsunum okkar og tilfinningum ef við viljum að þau standi við bakið á okkur þegar erfiðleika ber að garði. Það er mikilvægt skref í áttina að sannri vináttu. – 1. Pét. 1:22.

9. (a) Hvernig sýndi Jesús að hann treysti vinum sínum? (b) Hvernig geta opinská tjáskipti styrkt samband þitt við aðra? Nefndu dæmi.

9 Jesús sýndi að hann treysti vinum sínum með því að tala frjálslega og opinskátt við þá. (Jóh. 15:15) Við getum líkt eftir honum með því að segja öðrum frá því sem gleður okkur og því sem veldur okkur áhyggjum og vonbrigðum. Hlustaðu vel þegar einhver talar við þig. Þá gætirðu komist að raun um að þið hugsið svipað og hafið svipaðar tilfinningar og markmið. Cindy er systir á þrítugsaldri. Hún vingaðist við Marie-Louise sem er brautryðjandi á sjötugsaldri. Þær boða trúna saman alla fimmtudagsmorgna og tala opinskátt hvor við aðra um ýmis mál. „Ég nýt þess að ræða mikilvæg og alvarleg mál við trúsystkini því að það hjálpar mér að kynnast þeim betur og skilja,“ segir Cindy. Vinátta þrífst þegar andrúmsloftið er hlýlegt og tjáskiptin góð. Vináttubönd þín við aðra styrkjast líklega ef þú tekur frumkvæðið að því að eiga opinskáar og hlýlegar samræður við þá líkt og Cindy. – Orðskv. 27:9.

VINNUM SAMAN

Góðir vinir vinna saman í boðuninni. (Sjá 10. grein.)

10. Hvað getur hlotist af því að vinna með trúsystkinum okkar, samanber Orðskviðina 27:17?

10 Þegar við vinnum með trúsystkinum okkar og tökum eftir góðum eiginleikum þeirra lærum við af þeim og verðum nánari þeim rétt eins og í tilfelli Jeremía og Barúks. (Lestu Orðskviðina 27:17.) Hvernig líður þér til dæmis þegar þú ert í boðuninni og hlustar á trúsystkini verja trú sína af hugrekki eða tala af innilegri sannfæringu um Jehóva og vilja hans? Þér fer líklega að þykja enn vænna um trúsystkini þitt.

11, 12. Hvernig styrkir það vináttuböndin að vinna með trúsystkinum okkar í boðuninni? Nefndu dæmi.

11 Skoðum tvö dæmi sem sýna fram á að samstarf í boðuninni tengir fólk nánari böndum. Adeline, sem er 23 ára, bað Candice vinkonu sína að boða trúna með sér á svæði sem er sjaldan farið yfir. „Við vildum verða kappsamari í boðuninni og hafa meiri ánægju af henni,“ segir hún. „Við þurftum báðar á hvatningu að halda.“ Hvaða gagn höfðu þær af því að boða trúna saman? „Í lok hvers dags,“ segir Adeline, „ræddum við hvernig okkur leið, hvað snerti okkur við samtölin sem við áttum við fólk og hvernig við fundum fyrir handleiðslu Jehóva í boðuninni. Við höfðum báðar ánægju af þessum samræðum okkar og kynntumst enn betur.“

12 Laïla og Marianne eru einhleypar systur frá Frakklandi. Þær fóru í fimm vikna boðunarferð til Bangui, fjölmennrar höfuðborgar Mið-Afríkulýðveldisins. Laïla segir: „Það komu stundum upp erfiðleikar milli okkar Marianne en vinátta okkar styrktist vegna þess að tjáskiptin voru góð og okkur þótti vænt hvorri um aðra. Virðing mín fyrir Marianne jókst þegar ég tók eftir hversu sveigjanleg hún var, hversu vænt henni þótti um heimamenn og hve áköf hún var í boðuninni.“ Þú þarft ekki að flytjast til útlanda til að upplifa þetta. Í hvert sinn sem þú starfar með bróður eða systur á svæðinu þar sem þú býrð færðu tækifæri til að kynnast honum eða henni betur og styrkja vináttuböndin.

EINBLÍNUM Á HIÐ JÁKVÆÐA OG FYRIRGEFUM ÖÐRUM

13. Hvað gerist stundum þegar við vinnum náið með trúsystkinum okkar?

13 Þegar við vinnum náið með bræðrum okkar og systrum tökum við ekki bara eftir góðum eiginleikum þeirra heldur líka stundum göllum þeirra. Hvað getur hjálpað okkur að takast á við það? Skoðum aftur frásöguna af Jeremía. Hvað auðveldaði honum að sjá hið góða í fari annarra og líta fram hjá göllum þeirra?

14. Hvað lærði Jeremía um Jehóva og hvernig hjálpaði það honum?

14 Jeremía skrifaði bókina sem ber nafn hans og að öllum líkindum fyrri og síðari konungabók. Þegar hann sinnti þessu verkefni gerði hann sér án efa enn betur grein fyrir miskunnsemi Jehóva í garð ófullkominna manna. Hann vissi til dæmis að þegar Akab konungur iðraðist illskuverka sinna ákvað Jehóva að fjölskylda hans myndi ekki deyja meðan hann lifði. (1. Kon. 21:27–29) Jeremía vissi einnig að Manasse syndgaði jafnvel enn meir gegn Jehóva en Akab. En Jehóva fyrirgaf Manasse vegna þess að hann iðraðist. (2. Kon. 21:16, 17; 2. Kron. 33:10–13) Þessar frásögur hljóta að hafa hjálpað Jeremía að líkja eftir þolinmæði og miskunn Guðs í samskiptum sínum við nána vini sína. – Sálm. 103:8, 9.

15. Hvernig líkti Jeremía eftir þolinmæði Jehóva þegar Barúk missti einbeitinguna?

15 Skoðum hvernig Jeremía kom fram við Barúk þegar hann missti einbeitinguna um tíma meðan hann sinnti verkefni sínu. Í stað þess að gefast fljótt upp á vini sínum hjálpaði Jeremía Barúk með því að færa honum hlýlegan en beinskeyttan boðskap Guðs. (Jer. 45:1–5) Hvað getum við lært af þessari frásögu?

Góðir vinir fyrirgefa fúslega hver öðrum. (Sjá 16. grein.)

16. Hvað þurfum við að gera til að viðhalda vináttunni við aðra eins og sjá má af Orðskviðunum 17:9?

16 Við getum auðvitað ekki ætlast til fullkomnunar af bræðrum okkar og systrum. Þegar við höfum myndað náinn vinskap við einhvern þurfum við að leggja hart að okkur til að viðhalda vináttuböndunum. Ef vinum okkar verða á mistök gætum við þurft að gefa þeim ráð byggð á orði Guðs og við ættum að vera hreinskilin en hlýleg þegar við gerum það. (Sálm. 141:5) Og ef þeir særa okkur ættum við að fyrirgefa þeim. Þegar við höfum fyrirgefið megum við ekki freistast til að minnast aftur á málið seinna, hvorki við þá né aðra. (Lestu Orðskviðina 17:9.) Það er afar mikilvægt á þessum erfiðu tímum að við einblínum á hið góða í fari bræðra okkar og systra frekar en veikleika þeirra. Með því að gera það styrkjum við vináttuna við þau. Og við þurfum á nánum vinum að halda í þrengingunni miklu.

SÝNUM TRYGGAN KÆRLEIKA

17. Hvernig reyndist Jeremía sannur vinur á erfiðum tímum?

17 Jeremía spámaður reyndist sannur vinur á erfiðum tímum. Það sýndi sig eftir að Ebed Melek hirðmaður konungs bjargaði Jeremía frá því að deyja í brunni með leðju í botninum. Ebed Melek óttaðist að höfðingjarnir myndu gera sér mein. Jeremía ákvað að sitja ekki bara þegjandi þegar hann heyrði af því og vona að vinur sinn myndi spjara sig upp á eigin spýtur. Þótt Jeremía væri í fangelsi gerði hann það sem hann gat til að uppörva Ebed Melek vin sinn og sagði honum frá hughreystandi loforði Jehóva. – Jer. 38:7–13; 39:15–18.

Góðir vinir hjálpa trúsystkinum sínum þegar þau þarfnast hjálpar. (Sjá 18. grein.)

18. Hvað ættum við að gera þegar trúsystkini okkar gengur í gegnum raunir, samanber Orðskviðina 17:17?

18 Bræður okkar og systur ganga í gegnum ýmiss konar erfiðleika. Margir þjást til dæmis í kjölfar náttúruhamfara eða hörmunga af völdum manna. Við slíkar aðstæður eru sumir í aðstöðu til að opna heimili sitt fyrir þeim. Aðrir geta veitt fjárhagslegan stuðning. En öll getum við beðið Jehóva að hjálpa bræðrum okkar og systrum. Ef við komumst að því að bróðir okkar eða systir er niðurdregin vitum við kannski ekki hvað við eigum að segja eða gera. En allir geta lagt eitthvað af mörkum. Við getum til dæmis gefið okkur tíma til að vera með trúsystkini okkar. Við getum hlustað og reynt að sýna skilning þegar það talar. Og við getum sagt því frá hughreystandi biblíuversi sem er í uppáhaldi hjá okkur. (Jes. 50:4) Það sem mestu máli skiptir er að þú sért til staðar fyrir vini þína þegar þeir þurfa á þér að halda. – Lestu Orðskviðina 17:17.

19. Hvernig mun það að bindast bræðrum og systrum sterkum vináttuböndum núna hjálpa okkur í framtíðinni?

19 Það er mikilvægt að mynda sterk vináttubönd við bræður okkar og systur núna og rækta vináttuna við þau. Hvers vegna? Vegna þess að andstæðingar okkar munu setja fram villandi upplýsingar og beita lygum til að valda sundrung meðal okkar. Þeir munu reyna að snúa okkur hvert gegn öðru. En þeim tekst ekki ætlunarverk sitt. Þeir geta ekki rofið kærleiksbönd okkar. Hvað sem þeir reyna geta þeir ekki spillt vináttuböndunum sem við höfum myndað. Þau vara ekki aðeins meðan þessi heimsskipan stendur heldur um alla eilífð!

SÖNGUR 24 Göngum á fjall Jehóva

^ gr. 5 Eftir því sem endirinn færist nær þurfum við öll að styrkja samband okkar við bræður og systur. Í þessari grein ræðum við hvað við getum lært af reynslu Jeremía. Einnig verður rætt hvernig það mun hjálpa okkur á erfiðum tímum að styrkja vináttubönd við trúsystkini okkar núna.

^ gr. 2 Atburðirnir í bók Jeremía eru ekki settir fram í tímaröð.

^ gr. 57 MYNDIR: Myndin sýnir hvaða aðstæður gætu skapast í „þrengingunni miklu“. Bræður og systur leita skjóls á háalofti bróður. Það veitir þeim huggun að vera saman á þessum erfiðu tímum. Næstu þrjár myndir sýna hvernig þessi sömu trúsystkini höfðu myndað sterk vináttubönd áður en þrengingin mikla hófst.