Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 49

Að vinna hefur sinn tíma og að hvílast hefur sinn tíma

Að vinna hefur sinn tíma og að hvílast hefur sinn tíma

,Komið með mér á óbyggðan stað og þið getið hvílt ykkur aðeins.‘ – MARK. 6:31.

SÖNGUR 143 Vinnum, vökum og bíðum með gleði

YFIRLIT *

1. Hvaða viðhorf hafa margir til vinnu?

HVAÐA viðhorf hefur fólk til vinnu þar sem þú býrð? Í mörgum löndum vinnur fólk lengur og leggur meira á sig í vinnunni en nokkru sinni fyrr. Þeir sem vinna of mikið eru oft svo uppteknir að þeir hafa ekki tíma til að hvílast, verja tíma með fjölskyldunni eða hugsa um andlega þörf sína. (Préd. 2:23) Á hinn boginn langar suma alls ekki að vinna og þeir reyna að finna afsakanir til að sleppa við það. – Orðskv. 26:13, 14.

2, 3. Hvaða fordæmi setja Jehóva og Jesús varðandi vinnu?

2 Skoðum nú viðhorf Jehóva og Jesú til vinnu en það er ólíkt öfgafullu viðhorfi heimsins. Á því leikur enginn vafi að Jehóva hefur ánægju af vinnu. Jesús tók það skýrt fram þegar hann sagði: „Faðir minn vinnur enn og ég held einnig áfram að vinna.“ (Jóh. 5:17) Hugsaðu um allt það sem Guð gerði þegar hann skapaði ótal andaverur og feiknastóran alheiminn. Við sjáum líka mikla fjölbreytni í því sem Guð skapaði hér á fallegu jörðinni okkar. Sálmaritarinn sagði réttilega: „Hversu mörg eru verk þín, Drottinn? Þú vannst þau öll af speki. Jörðin er full af því sem þú hefur skapað.“ – Sálm. 104:24.

3 Jesús líkti eftir föður sínum. Sonurinn, persónugervingur viskunnar, var við hlið Guðs „þegar hann þandi út himininn“. Þá var hann með Jehóva í ráðum. (Orðskv. 8:27–31) Miklu seinna, þegar hann var á jörðinni, vann hann einstakt starf. Það var honum eins og matur og allt sem hann gerði sannaði að Guð hafði sent hann. – Jóh. 4:34; 5:36; 14:10.

4. Hvað lærum við af Jehóva og Jesú varðandi hvíld?

4 Sýnir fordæmi Jehóva og Jesú varðandi vinnu að við þurfum ekki að hvílast? Alls ekki. Jehóva þreytist aldrei þannig að hann þarf ekki að hvíla sig eftir unnið verk. Samt segir Biblían að hann hafi ,hvílst og endurnærst‘ eftir að hann skapaði himinn og jörð. (2. Mós. 31:17) En það þýðir augljóslega að Jehóva hafi tekið sér hlé og gefið sér tíma til að njóta þess sem hann hafði gert. Og þótt Jesús hafi verið vinnusamur þegar hann var á jörðinni gaf hann sér tíma til að hvílast og borða með vinum sínum. – Matt. 14:13; Lúk. 7:34.

5. Hvað finnst mörgum erfitt?

5 Biblían hvetur þjóna Guðs til að vera vinnusamir. Þeir ættu að vera iðnir en ekki latir. (Orðskv. 15:19) Þú stundar ef til vill vinnu til að sjá fjölskyldu þinni farborða. Og það er á ábyrgð allra lærisveina Krists að boða fagnaðarboðskapinn. En þú þarft líka að fá næga hvíld. Finnst þér stundum erfitt að finna jafnvægið milli vinnu, boðunarinnar og hvíldar? Hvernig vitum við hversu mikið við þurfum að vinna og hversu mikið við þurfum að hvílast?

AÐ NÁ RÉTTU JAFNVÆGI

6. Hvernig sýnir Markús 6:30–34 að Jesús gætti jafnvægis varðandi vinnu og hvíld?

6 Það er mikilvægt að hafa rétt viðhorf til vinnu. Salómon konungur skrifaði undir innblæstri: „Sérhver hlutur ... hefur sinn tíma.“ Hann talaði um að gróðursetja, byggja, gráta, hlæja, dansa og fleira. (Préd. 3:1–8) Hvíld og vinna eru greinilega mikilvægur hluti af lífinu. Jesús gætti jafnvægis þegar vinna og hvíld var annars vegar. Einu sinni þegar lærisveinarnir sneru til baka úr boðunarferð höfðu þeir verið svo uppteknir að þeir ,höfðu ekki einu sinni haft næði til að borða‘. Jesús sagði: „Komið með mér á óbyggðan stað þar sem við getum verið einir og þið getið hvílt ykkur aðeins.“ (Lestu Markús 6:30–34.) Jesús og lærisveinarnir fengu ekki alltaf þá hvíld sem þeir vildu en Jesús vissi að þeir þyrftu allir á henni að halda.

7. Hvaða gagn höfum við af því að skoða lögin um hvíldardaginn?

7 Við þurfum öll að hvílast eða gera okkur dagamun af og til. Það má sjá af ráðstöfun sem Guð gerði fyrir fólk sitt til forna – vikulega hvíldardeginum. Við erum ekki undir Móselögunum en við getum haft gagn af því að hugleiða það sem skrifað er um hvíldardaginn. Það getur hjálpað okkur að átta okkur á hvort við höfum rétt viðhorf til vinnu og hvíldar.

HVÍLDARDAGURINN – TÍMI FYRIR HVÍLD OG TILBEIÐSLU

8. Til hvers var hvíldardagurinn samkvæmt 2. Mósebók 31:12–15?

8 Biblían segir að Guð hafi tekið sér hlé eftir sex „daga“ sköpun á jörðinni. (1. Mós. 2:2) Jehóva nýtur þess samt að vinna og „vinnur enn“ við önnur verk. (Jóh. 5:17) Ráðstöfunin um vikulega hvíldardaginn líkist hvíldardegi Jehóva sem er lýst í fyrstu Mósebók. Guð sagði að hvíldardagurinn væri tákn milli sín og Ísraels. Dagurinn var „algjör hvíldardagur, helgaður Drottni“. (Lestu 2. Mósebók 31:12–15.) Bannið við vinnu náði til allra, þar á meðal barna, þræla og jafnvel húsdýra. (2. Mós. 20:10) Það gaf fólki tækifæri til að hugsa um andleg mál.

9. Hvaða ranga viðhorf höfðu sumir til hvíldardagsins á dögum Jesú?

9 Þjóð Guðs naut góðs af hvíldardeginum en á dögum Jesú voru margir trúarleiðtogar öfgafullir og settu strangar reglur um hvernig ætti að halda hann. Þeir fullyrtu að það væri jafnvel bannað að tína fáein kornöx eða lækna veikan mann. (Mark. 2:23–27; 3:2–5) Slíkt viðhorf endurspeglaði ekki hugsun Guðs og Jesús upplýsti alla um það sem vildu hlusta.

Fjölskylda Jesú notaði hvíldardaginn til að styrkja sambandið við Guð. (Sjá 10. grein.) *

10. Hvað má læra um viðhorf Jesú til hvíldardagsins í Matteusi 12:9–12?

10 Jesús og fylgjendur hans voru Gyðingar og héldu hvíldardaginn eins og Móselögin kváðu á um. * En Jesús sýndi í orði og verki að hvíldardagsákvæðið væri sanngjarnt og að leyfilegt væri að gera öðrum gott á hvíldardegi. Hann sagði berum orðum: ,Það er leyfilegt að gera góðverk á hvíldardegi.‘ (Lestu Matteus 12:9–12.) Hann áleit það ekki brot á hvíldardagsákvæðinu að gera öðrum gott. Hann sýndi fram á að hann skildi mikilvæga ástæðu þess að Guð sagði þjónum sínum að halda hvíldardaginn. Þar sem þeir tóku sér frí frá daglegu amstri gátu þeir einbeitt sér að tilbeiðslunni á Guði. Jesús ólst upp í fjölskyldu sem hlýtur að hafa notað hvíldardaginn til að styrkja sambandið við Guð. Við sjáum það af því sem við lesum um Jesú þegar hann var í Nasaret, heimbæ sínum: „Hann fór í samkunduhúsið á hvíldardegi eins og hann var vanur og stóð upp til að lesa.“ – Lúk. 4:15–19.

HVERT ER VIÐHORF ÞITT TIL VINNU?

11. Hver setti Jesú gott fordæmi varðandi vinnu?

11 Jósef kenndi Jesú fóstursyni sínum trésmíði og fræddi hann um viðhorf Guðs til vinnu. (Matt. 13:55, 56) Jesús hlýtur að hafa séð Jósef leggja hart að sér dag eftir dag til að sjá fyrir stórri fjölskyldu. Það er áhugavert að Jesús skyldi síðar segja: „Verkamaðurinn er verður launa sinna.“ (Lúk. 10:7) Jesús þekkti sannarlega vel til erfiðisvinnu.

12. Hvert var viðhorf Páls til vinnu samkvæmt Biblíunni?

12 Svipaða sögu má segja af Páli postula. Aðalverkefni hans var að segja fólki frá Jesú og boðskap hans. En hann vann líka til að sjá sér farborða. Þessaloníkumenn vissu af „erfiði og striti“ Páls, að hann vann „dag og nótt“ til að „vera ekki fjárhagsleg byrði“ á neinum. (2. Þess. 3:8; Post. 20:34, 35) Vera má að Páll hafi vísað í vinnu sína við tjaldgerð. Meðan hann var í Korintu dvaldi hann hjá Akvílasi og Priskillu og „vann með þeim en þau voru tjaldgerðarmenn“. Þegar Páll sagðist vinna „dag og nótt“ átti hann ekki við að hann ynni myrkranna á milli. Hann tók sér til dæmis frí frá tjaldgerðinni á hvíldardeginum. Það gaf honum tækifæri til að ræða við Gyðinga sem voru líka í fríi. – Post. 13:14–16, 42–44; 16:13; 18:1–4.

13. Hvað lærum við af fordæmi Páls?

13 Páll postuli var góð fyrirmynd. Hann stundaði atvinnu af nauðsyn en gætti þess samt að taka reglulega þátt „í því heilaga starfi að flytja fagnaðarboðskap Guðs“. (Rómv. 15:16; 2. Kor. 11:23) Hann hvatti aðra til að gera slíkt hið sama. Akvílas og Priskilla voru þar af leiðandi ,samstarfsmenn hans í þjónustu Krists‘. (Rómv. 12:11; 16:3) Páll hvatti Korintumenn til að vera ,alltaf önnum kafnir í verki Drottins‘. (1. Kor. 15:58; 2. Kor. 9:8) Jehóva innblés jafnvel Páli að skrifa: „Ef einhver vill ekki vinna á hann ekki heldur að fá að borða.“ – 2. Þess. 3:10.

14. Hvað átti Jesús við með því sem hann sagði í Jóhannesi 14:12?

14 Nú á síðustu dögum er ekkert annað starf mikilvægara en að boða trúna og gera fólk að lærisveinum. Jesús sagði reyndar fyrir að lærisveinar sínir myndu vinna enn meiri verk en hann. (Lestu Jóhannes 14:12.) Hann átti ekki við að þeir myndu gera kraftaverk eins og hann. Öllu heldur myndu fylgjendur hans boða trúna í fleiri löndum og ná til fleira fólks en hann og starf þeirra myndi spanna lengra tímabil.

15. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur og hvers vegna?

15 Ef þú ert í vinnu skaltu spyrja þig eftirfarandi spurninga: Er ég þekktur á vinnustað mínum fyrir dugnað? Klára ég vinnuna á réttum tíma og geri ég eins vel og ég get? Ef þú getur svarað þessu játandi ávinnurðu þér líklega traust vinnuveitandans. Og fólk á vinnustaðnum þínum hlustar ef til vill frekar á fagnaðarboðskapinn. Spyrðu þig líka varðandi boðun þína og kennslu: Er ég þekktur fyrir að leggja mig fram í boðuninni? Undirbý ég mig vel fyrir boðunina? Fer ég fljótlega aftur til þeirra sem sýna áhuga? Og tek ég reglulega þátt í ýmsum þáttum boðunarinnar? Ef þú svarar játandi muntu hafa ánægju af boðuninni.

HVERT ER VIÐHORF ÞITT TIL HVÍLDAR?

16. Hvert var viðhorf Jesú og postulanna til hvíldar og hvernig er það ólíkt viðhorfi margra nú á dögum?

16 Jesús vissi að hann og postularnir þyrftu að hvíla sig af og til. Margt fólk var hins vegar eins og ríki maðurinn í dæmisögu Jesú og hið sama er uppi á teningnum nú á dögum. Maðurinn sagði við sjálfan sig: „Taktu það rólega, borðaðu, drekktu og njóttu lífsins.“ (Lúk. 12:19; 2. Tím. 3:4) Honum fannst mestu máli skipta að slappa af og njóta lífsins. Jesús og postularnir létu líf sitt hins vegar ekki snúast um eigin þægindi.

Rétt viðhorf til vinnu og hvíldar hjálpar okkur að einbeita okkur að því að gera það sem er gott og endurnærandi. (Sjá 17. grein.) *

17. Hvernig notum við frítíma okkar?

17 Við reynum að líkja eftir Jesú og notum frítíma okkar ekki eingöngu til að hvílast heldur líka til að gera gott með því að boða öðrum trúna og sækja samkomur. Okkur finnst reyndar svo mikilvægt að gera fólk að lærisveinum og sækja samkomur að við leggjum okkur í líma við að sinna þessum þáttum þjónustunnar reglulega. (Hebr. 10:24, 25) Þótt við séum á ferðalagi reynum við að halda í þá venju að sækja samkomur þar sem við erum og leitum tækifæra til að ræða við þá sem við hittum. – 2. Tím. 4:2.

18. Hvað vill konungur okkar Jesús Kristur að við gerum?

18 Við erum þakklát að konungur okkar Jesús Kristur skuli vera sanngjarn og hjálpa okkur að hafa rétt viðhorf til vinnu og hvíldar. (Hebr. 4:15) Hann vill að við fáum næga hvíld. Hann vill líka að við leggjum okkur fram um að sjá okkur farborða og taka þátt í því ánægjulega starfi að gera fólk að lærisveinum. Í næstu grein ræðum við hlutverk Jesú í frelsun okkar undan þjakandi þrælkun.

SÖNGUR 38 Hann mun styrkja þig

^ gr. 5 Biblían kennir okkur að leggja rétt mat á vinnu og hvíld. Í þessari grein skoðum við hvíldardaginn sem Ísraelsmenn þurftu að halda vikulega, en það getur hjálpað okkur að kanna hvert viðhorf okkar er til vinnu og hvíldar.

^ gr. 10 Lærisveinarnir virtu hvíldardaginn svo mikils að þeir gerðu hlé á greftrun Jesú þar til hvíldardagurinn var liðinn. – Lúk. 23:55, 56.

^ gr. 55 MYND: Jósef fer með fjölskyldu sína í samkunduhúsið á hvíldardegi.

^ gr. 57 MYND: Faðir sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá notar frítíma sinn til að sinna ýmsum þáttum þjónustunnar, líka þegar fjölskyldan er í fríi.