Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitin að sannleikanum

Leitin að sannleikanum

Það getur verið spurning um líf eða dauða að þekkja sannleikann. Hugsaðu þér til dæmis hve miklu það hefur breytt fyrir okkur að vita hvernig smitsjúkdómar breiðast út.

Um þúsundir ára vissi enginn hvernig smitsjúkdómar breiðast út og milljónir manna fórust af völdum farsótta og faraldra. En með tímanum gátu vísindamenn svarað því. Þeir uppgötvuðu að sýklar valda oft sjúkdómum, það er að segja örverur eins og bakteríur og veirur. Með þeirri vitneskju hafa menn getað meðhöndlað og komið í veg fyrir fjölda sjúkdóma. Milljarðar manna lifa þar af leiðandi lengur og við betri heilsu.

Hvað um önnur mikilvæg mál? Hvaða áhrif heldurðu að það geti haft á þig að finna svör við eftirfarandi spurningum?

  • Hver er Guð?

  • Hver er Jesús Kristur?

  • Hvað er ríki Guðs?

  • Hvernig verður framtíðin?

Milljónir manna hafa fengið svörin við þessum spurningum og það hefur bætt líf þeirra. Þú getur líka notið góðs af því að vita svörin.

ER HÆGT AÐ FINNA SANNLEIKANN?

Þú veltir kannski fyrir þér hvernig hægt sé að komast að sannleikanum um nokkurn hlut. Það virðist stöðugt erfiðara að komast að hinu sanna um svo margt. Hvers vegna?

Margir treysta ekki stjórnvöldum, fyrirtækjum eða fjölmiðlum til að segja sannleikann. Þeim finnst erfitt að greina á milli staðreynda og skoðana, hálfsanninda og hreinna lyga sem eru settar fram sem áreiðanlegar upplýsingar. Menn vantreysta hver öðrum og oft eru gefnar rangar upplýsingar. Þeir eru þess vegna oft ósammála um hvernig eigi að túlka staðreyndir og jafnvel hverjar staðreyndirnar séu.

Þrátt fyrir það er hægt að finna áreiðanleg svör við mikilvægustu spurningum lífsins. Þú getur gert það með sömu aðferð og þú notar til að leita svara við hversdagslegum spurningum.

LEIT ÞÍN AÐ SANNLEIKANUM

Á vissan hátt leitarðu að sannleika á hverjum degi. Tökum Jessicu sem dæmi. Hún segir: „Hnetuofnæmi dóttur minnar er svo alvarlegt að hnetuprótín í snefilmagni getur verið henni lífshættulegt.“ Jessica þarf að fullvissa sig um að matur sem hún kaupir sé ekki hættulegur fyrir dóttur hennar. „Til að byrja með les ég innihaldslýsingu vörunnar vandlega. Síðan geri ég frekari rannsóknir og hef jafnvel samband við framleiðanda vörunnar til að staðfesta að engin hætta sé á krosssmiti. Ég leita líka áreiðanlegra heimilda til að vita hvort fyrirtækið sé þekkt fyrir að fylgja öryggisreglum í framleiðslunni.“

Dagleg leit þín að sannleika skiptir kannski ekki eins miklu máli og hjá Jessicu. En þú getur farið eins að og hún til að finna svör við spurningum þínum:

  • Aflaðu þér upplýsinga.

  • Kannaðu málið frekar.

  • Gakktu úr skugga um að heimildirnar séu áreiðanlegar.

Þessi aðferð getur þar að auki auðveldað þér að finna áreiðanleg svör við stóru spurningunum í lífinu. Hvernig?

EINSTÖK BÓK SANNLEIKANS

Jessica notaði svipaða aðferð við að leita sannleikans í Biblíunni og við rannsóknir vegna ofnæmis dóttur sinnar. Hún segir: „Með því að lesa og rannsaka Biblíuna vandlega fann ég sannleikann sem hún hefur að geyma.“ Rétt eins og Jessica hafa milljónir manna fundið svör Biblíunnar við eftirfarandi spurningum:

  • Hvers vegna erum við til?

  • Hvað gerist við dauðann?

  • Hvers vegna þjáist fólk?

  • Hvernig ætlar Guð að binda enda á þjáningar?

  • Hvað gerir fjölskyldulífið farsælt?

Þú getur fundið áreiðanleg svör við þessum spurningum og fleirum með því að lesa Biblíuna og rannsaka hana nánar með hjálp www.pr418.com.