Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 5

Við förum með ykkur

Við förum með ykkur

„Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.“ – SAK. 8:23.

SÖNGUR 26 Þið gerðuð mér gott

YFIRLIT *

Aðrir sauðir („tíu menn“) telja það heiður að tilbiðja Jehóva ásamt hinum andasmurðu (,Gyðingi‘). (Sjá 1. og 2. grein.)

1. Hvað sagði Jehóva að myndi eiga sér stað á okkar tímum?

JEHÓVA sagði um okkar tíma: „Á þeim dögum munu tíu menn af öllum þjóðtungum grípa í kyrtilfald eins Gyðings og segja: ,Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.‘“ (Sak. 8:23) Gyðingurinn táknar þá sem Guð hefur smurt heilögum anda. Þeir eru einnig kallaðir „Ísrael Guðs“. (Gal. 6:16) Mennirnir tíu tákna þá sem eiga von um að lifa að eilífu á jörðinni. Þeir vita að Jehóva hefur blessað hina andasmurðu og telja það heiður að tilbiðja Jehóva ásamt þeim.

2. Hvernig fara mennirnir tíu með hinum andasmurðu?

2 Þó að það sé ekki hægt að þekkja alla andasmurða þjóna Guðs á jörðinni með nafni * geta þeir sem eiga von um að lifa á jörðinni ,farið með‘ hinum andasmurðu. Hvernig? Í Biblíunni segir að mennirnir tíu myndu „grípa í kyrtilfald eins Gyðings og segja: ,Við viljum fara með ykkur, við höfum heyrt að Guð sé með ykkur.‘“ Í versinu er talað um einn Gyðing. En „ykkur“ á við um fleiri en einn einstakling. Það þýðir að þessi Gyðingur er ekki bara einn einstaklingur heldur táknar hann alla sem eru andasmurðir. Þeir sem eru ekki smurðir heilögum anda þjóna Jehóva ásamt hinum andasmurðu. En þeir líta ekki á hina andasmurðu sem leiðtoga sína vegna þess að þeir skilja að Jesús er leiðtogi þeirra. – Matt. 23:10.

3. Hvaða spurningum er svarað í greininni?

3 Enn eru andasmurðir einstaklingar meðal þjóna Guðs og því gætu sumir velt fyrir sér: (1) Hvernig eiga hinir andasmurðu að líta á sjálfa sig? (2) Hvernig á að koma fram við þá sem neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? (3) Ættum við að hafa áhyggjur af því ef þeim fjölgar sem neyta brauðsins og vínsins? Þessum spurningum er svarað í greininni.

HVERNIG EIGA HINIR ANDASMURÐU AÐ LÍTA Á SJÁLFA SIG?

4. Hvaða viðvörun í 1. Korintubréfi 11:27–29 ættu þeir sem eru andasmurðir að taka alvarlega og hvers vegna?

4 Þeir sem eru andasmurðir ættu að taka alvarlega viðvörunina í 1. Korintubréfi 11:27–29. (Lestu.) Hvernig gæti sá sem er andasmurður neytt brauðsins og vínsins „á óverðugan hátt“ á minningarhátíðinni? Með því að borða brauðið og drekka vínið án þess að lifa í samræmi við réttlátar meginreglur Jehóva. (Hebr. 6:4–6; 10:26–29) Þeir sem eru andasmurðir gera sér grein fyrir að þeir þurfa að vera trúfastir „til að hljóta verðlaunin, líf á himnum sem Guð hefur kallað [þá] til fyrir milligöngu Krists Jesú“. – Fil. 3:13–16.

5. Hvernig eiga andasmurðir kristnir menn að líta á sjálfa sig?

5 Heilagur andi Jehóva hjálpar þjónum hans að vera hógværir en ekki stoltir. (Ef. 4:1–3; Kól. 3:10, 12) Þeim sem eru andasmurðir finnst þeir ekki vera betri en aðrir. Þeir vita að Jehóva gefur andasmurðu fólki ekkert endilega meira af heilögum anda en öðrum þjónum sínum. Þeim finnst þeir ekki hafa dýpri skilning á sannindum Biblíunnar en aðrir. Og þeir myndu aldrei segja öðrum að þeir séu líka andasmurðir og ættu að byrja að neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni. Þeir sýna öllu heldur auðmýkt og viðurkenna að það er aðeins Jehóva sem býður fólki að fara til himna.

6. Hvernig ætti framkoma hinna andasmurðu að vera, samanber 1. Korintubréf 4:7, 8?

6 Sá sem er andasmurður álítur það heiður að fá boð um að fara til himna en hann ætlast þó ekki til að aðrir sýni sér sérstaka virðingu. (Fil. 2:2, 3) Hann veit líka að þegar Jehóva kallaði hann fengu ekki allir aðrir að vita af því. Það kemur honum því ekki á óvart ef sumir efast í fyrstu um að hann hafi verið smurður heilögum anda. Hann veit að Biblían hvetur okkur til að vera ekki fljót að trúa þeim sem segist hafa fengið sérstaka ábyrgð frá Guði. (Opinb. 2:2) Sá sem er andasmurður vill ekki draga athygli að sjálfum sér með því að segja þeim sem hann hittir í fyrsta sinn að hann hafi fengið himneska köllun. Og hann myndi auðvitað ekki monta sig af því við aðra. – Lestu 1. Korintubréf 4:7, 8.

7. Hvað forðast hinir andasmurðu að gera og hvers vegna?

7 Þeim sem eru andasmurðir finnst þeir ekki eiga að verja tíma bara með öðrum sem hafa verið kallaðir, eins og þeir væru meðlimir í lokuðum klúbbi. Þeir leita ekki uppi aðra andasmurða í von um að ræða köllun sína við þá eða til að mynda lokaða biblíunámshópa. (Gal. 1:15–17) Það myndi valda sundrung innan safnaðarins og vinna gegn heilögum anda, en hann hjálpar þjónum Guðs að stuðla að friði og einingu. – Rómv. 16:17, 18.

HVERNIG Á AÐ KOMA FRAM VIÐ ÞÁ SEM ERU ANDASMURÐIR?

Við ættum ekki að koma fram við hina andasmurðu eða bræður sem fara með forystu eins og þeir væru stórstjörnur. (Sjá 8. grein.) *

8. Hvers vegna þurfum við að gæta að framkomu okkar við þá sem neyta brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

8 Hvernig eigum við að koma fram við andasmurða bræður og systur? Það væri rangt að dást of mikið að einhverjum, jafnvel þó að hann sé andasmurður bróðir Krists. (Matt. 23:8–12) Þegar Biblían talar um öldungana hvetur hún okkur til að ,líkja eftir trú þeirra‘ en hún segir ekki að við megum gera manneskju að leiðtoga okkar. (Hebr. 13:7) Biblían segir vissulega að sumir eigi að „vera í tvöföldum metum“. En það er vegna þess að þeir „veita góða forstöðu“ og „leggja hart að sér við að fræða og kenna“, ekki vegna þess að þeir eru andasmurðir. (1. Tím. 5:17) Andasmurðu fólki gæti fundist óþægilegt ef við hrósum því of mikið eða veitum því of mikla athygli. * Og það sem verra er, það gæti orðið stolt. (Rómv. 12:3) Ekkert okkar myndi vilja gera eitthvað sem yrði til þess að einum andasmurðra bræðra Krists yrði svo alvarlega á. – Lúk. 17:2.

9. Hvernig getum við sýnt þeim sem eru andasmurðir virðingu?

9 Hvernig getum við sýnt þeim virðingu sem Jehóva hefur kallað? Við myndum ekki spyrja þá hvernig þeir hafi fengið köllun sína. Það er persónulegt mál sem við höfum ekki rétt á að vita um. (1. Þess. 4:11; 2. Þess. 3:11) Við ættum ekki heldur að gera ráð fyrir að maki þeirra, foreldrar eða aðrir ættingjar séu einnig andasmurðir. Maður erfir ekki von um líf á himni frá fjölskyldu sinni. Guð gefur þessa von. (1. Þess. 2:12) Við ættum einnig að forðast að spyrja spurninga sem gætu verið særandi. Við myndum til dæmis ekki spyrja eiginkonu andasmurðs bróður hvernig henni finnist sú tilhugsun að lifa að eilífu á jörð án hans. Við getum treyst því fullkomlega að Jehóva „seður allt sem lifir með blessun“ í nýja heiminum. – Sálm. 145:16.

10. Hvernig er það okkur til verndar að forðast að „dást að áberandi mönnum“?

10 Það er okkur einnig til verndar að koma ekki fram við þá sem eru andasmurðir eins og þeir séu mikilvægari en aðrir. Hvernig? Í Biblíunni segir að sumir andasmurðir myndu ekki vera trúfastir allt til enda. (Matt. 25:10–12; 2. Pét. 2:20, 21) En ef við forðumst að „dást að áberandi mönnum“ munum við aldrei fylgja mönnum, ekki einu sinni þeim sem eru andasmurðir, vel þekktir eða hafa þjónað Jehóva lengi. (Júd. 16, neðanmáls) Þá missum við ekki trúna á Jehóva eða hættum að þjóna honum þó að þeir reynist ótrúir eða yfirgefi söfnuðinn.

ÞURFUM VIÐ AÐ HAFA ÁHYGGJUR AF FJÖLDA ÞEIRRA SEM NEYTA BRAUÐSINS OG VÍNSINS?

11. Hvaða breyting hefur orðið á fjölda þeirra sem neytir brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni?

11 Í mörg ár fækkaði þeim sem neyttu brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni. En á síðustu árum hefur þeim stöðugt fjölgað. Þurfum við að hafa áhyggjur af því? Nei. Skoðum nokkur atriði sem er gott að hafa í huga.

12. Hvers vegna ættum við ekki að hafa áhyggjur af fjölda þeirra sem neytir brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni?

12 „Jehóva þekkir þá sem tilheyra honum.“ (2. Tím. 2:19) Ólíkt Jehóva vita þeir sem sjá um að telja á minningarhátíðinni ekki hverjir eru í raun andasmurðir. Talan nær því einnig yfir þá sem halda að þeir séu andasmurðir en eru það ekki. Til dæmis hafa sumir byrjað að neyta brauðsins og vínsins en hætt því síðar. Aðrir eiga kannski við geðræn eða tilfinningaleg vandamál að stríða sem veldur því að þeir halda að þeir eigi að ríkja með Kristi á himnum. Það er augljóst að við vitum ekki nákvæmlega hve margir andasmurðir eru eftir á jörðinni.

13. Segir Biblían hve margir hinna andasmurðu verða á jörðinni þegar þrengingin mikla hefst?

13 Andasmurt fólk mun búa víða um heim þegar Jesús kemur til að kalla það til himna. (Matt. 24:31) Biblían segir að á síðustu dögum verði enn einhverjir af hinum andasmurðu eftir á jörðinni. (Opinb. 12:17) En hún segir ekki hve margir þeirra verða eftir þegar þrengingin mikla hefst.

Hvernig ættum við að bregðast við ef einhver neytir brauðsins og vínsins á minningarhátíðinni? (Sjá 14. grein.)

14. Hvernig velur Jehóva fólk í hóp hinn andasmurðu samanber Rómverjabréfið 9:11, 16?

14 Jehóva ákveður hvenær hann velur fólk í hóp hinna andasmurðu. (Rómv. 8:28–30) Jehóva byrjaði að velja hina andasmurðu eftir upprisu Jesú. Svo virðist sem allir sannkristnir menn á fyrstu öld hafi verið andasmurðir. Á næstu öldum fylgdu fæstir Kristi sem sögðust vera kristnir. En Jehóva hélt samt áfram að smyrja þá fáu sem voru sannkristnir. Þeir voru eins og hveitið sem Jesús sagði að myndi vaxa innan um illgresið. (Matt. 13:24–30) Á hinum síðustu dögum hefur Jehóva haldið áfram að velja fólk í hóp hinna 144.000. * Ef Guð ákveður að velja einhvern rétt áður en endirinn kemur ættum við auðvitað ekki að efast um visku hans. (Lestu Rómverjabréfið 9:11, 16.) * Við megum ekki vera eins og verkamennirnir sem Jesús lýsti í einni af dæmisögum sínum. Þeir kvörtuðu yfir því hvernig húsbóndi þeirra kom fram við þá sem byrjuðu að vinna undir lok vinnudagsins. – Matt. 20:8–15.

15. Eru allir þeir sem eru andasmurðir hluti af ,trúa og skynsama þjóninum‘ sem minnst er á í Matteusi 24:45–47? Skýrðu svarið.

15 Þeir sem hafa von um að lifa á himni eru ekki allir hluti af ,trúa og skynsama þjóninum‘. (Lestu Matteus 24:45–47.) Rétt eins og á fyrstu öld hafa Jehóva og Jesús falið fáeinum bræðrum að kenna fjöldanum nú á dögum. Aðeins fáeinir andasmurðir kristnir menn á fyrstu öld fengu það verkefni að skrifa Grísku ritningarnar. Nú á dögum er aðeins fáeinum andasmurðum kristnum mönnum falin sú ábyrgð að gefa þjónum Guðs „mat á réttum tíma“.

16. Hvað hefur þú lært af þessari grein?

16 Hvað höfum við lært af þessari grein? Jehóva hefur ákveðið að gefa langflestum þjónum sínum von um eilíft líf á jörð en þeim fáu sem eiga að ríkja með Kristi von um líf á himni. Jehóva umbunar öllum þjónum sínum – bæði Gyðingnum og mönnunum tíu – og hann ætlast til að þeir séu trúfastir og hlýði sömu lögum. Allir verða að sýna auðmýkt. Allir verða að þjóna honum í einingu. Allir verða að stuðla að friði í söfnuðinum. Endirinn færist nær og við skulum öll halda áfram að þjóna Jehóva og fylgja Kristi sem „ein hjörð“. – Jóh. 10:16.

^ gr. 5 Í ár verður minningarhátíðin um dauða Krists haldin þriðjudaginn 7. apríl. Hvernig ættum við að líta á þá sem neyta brauðsins og vínsins á því kvöldi? Þurfum við að hafa áhyggjur ef þeim fjölgar sem neyta brauðsins og vínsins? Þessum spurningum er svarað í greininni, en hún byggist á grein sem birtist í Varðturninum í janúar 2016.

^ gr. 2 Samkvæmt Sálmi 87:5, 6 getur verið að Guð muni í framtíðinni opinbera nöfn allra þeirra sem ríkja með Jesú á himni. – Rómv. 8:19.

^ gr. 8 Sjá rammann „Kærleikurinn ,hegðar sér ekki ósæmilega‘“ í Varðturninum janúar 2016.

^ gr. 14 Þó að það segi í Postulasögunni 2:33 að Jesús úthelli heilögum anda er það Jehóva sem býður hverjum og einum.

^ gr. 14 Hægt er að fá frekari upplýsingar í „Spurningum frá lesendum“ í Varðturninum 1. október 2007.

SÖNGUR 34 Göngum fram í ráðvendni

^ gr. 56 MYND: Ímyndaðu þér að fulltrúi frá aðalstöðvunum og kona hans séu umkringd fólki sem tekur myndir af þeim á umdæmismóti. Hvílík óvirðing!