Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

Ég lærði af góðu fordæmi annarra og hlaut ríkulega blessun fyrir

Ég lærði af góðu fordæmi annarra og hlaut ríkulega blessun fyrir

MÉR fannst boðunin erfið þegar ég var ungur. Eftir því sem ég varð eldri fannst mér ég ekki hæfur til að sinna þeim verkefnum sem mér voru falin. Ég ætla þess vegna að segja ykkur frá góðu fordæmi annarra sem hjálpuðu mér að sigrast á ótta mínum og þeirri dásamlegu blessun sem ég hef notið í 58 ára þjónustu í fullu starfi.

Ég fæddist í Quebec-borg í Quebec-fylki í Kanada þar sem töluð er franska. Þar ólst ég upp við mikla ást og hlýju hjá foreldrum mínum, Louis og Zéliu. Pabbi minn var feiminn að eðlisfari og hafði mikla ánægju af að lesa. Mér fannst gaman að skrifa og vonaðist til að verða blaðamaður einhvern daginn.

Þegar ég var 12 ára komu Rodolphe Soucy vinnufélagi pabba og vinur hans í heimsókn. Þeir voru vottar Jehóva. Ég vissi ekki mikið um vottana og hafði ekki sérstaklega mikinn áhuga á trú þeirra. En ég dáðist að því hvernig þeir svöruðu spurningum okkar á rökréttan hátt með hjálp Biblíunnar. Foreldrar mínir voru líka hrifnir. Við þáðum því biblíunámskeið.

Á þessum tíma var ég í kaþólskum skóla. Af og til sagði ég bekkjarfélögum mínum frá því sem ég var að læra í biblíunámi mínu. Kennararnir, sem voru prestar, komust að því um síðir. Í stað þess að nota Biblíuna til að afsanna það sem ég sagði sakaði einn þeirra mig um að vera uppreisnargjarn! Mér fannst það stressandi en það hafði líka blessun í för með sér því að ég gerði mér grein fyrir að trúarkennslan í skólanum var ekki í samræmi við það sem Biblían kennir. Ég áttaði mig á að ég væri á röngum stað. Ég fékk að skipta um skóla með leyfi foreldra minna.

ÉG LÆRÐI AÐ HAFA ÁNÆGJU AF BOÐUNINNI

Ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna en tók ekki miklum framförum því að ég var hræddur við að boða trúna hús úr húsi. Kaþólska kirkjan hafði mikil ítök og stóð gegn boðun okkar af hörku. Maurice Duplessis, þáverandi forsætisráðherra Quebec, átti náið samstarf við kirkjuna. Áreiti og jafnvel skrílsárásir á hendur vottanna áttu sér stað með stuðningi hans. Það kostaði mikið hugrekki að boða trúna á þessum tíma.

John Rae var bróðir sem hjálpaði mér að sigrast á ótta mínum, en hann hafði útskrifast með níunda nemendahópi Gíleaðskólans. John var mjög reyndur og þar auki mildur, hæverskur og þægilegur í viðmóti. Hann leiðbeindi mér sjaldan beint en ég lærði heilmikið af góðu fordæmi hans. John átti í basli með frönskuna. Ég fór því oft með honum í boðunina og hjálpaði honum með tungumálið. Að verja tíma með John hjálpaði mér að taka skýra afstöðu með sannleikanum. Ég lét skírast 26. maí 1951, en það var tíu árum eftir að ég hitti fyrst vottana.

Gott fordæmi Johns Raes (A) hjálpaði mér (B) að sigrast á ótta við að boða trúna hús úr húsi.

Meirihluti boðbera í litla söfnuðinum okkar í Quebec var brautryðjendur. Góð áhrif þeirra var mér hvatning til að gerast brautryðjandi. Þegar við boðuðum trúna í þá daga notuðum við bara Biblíuna. Við höfðum ekki rit meðferðis og þurftum því að nota hana á áhrifaríkan hátt. Ég lagði mig þess vegna fram um að vera vel heima í biblíuversum sem gátu nýst mér við að verja sannleikann. En margir neituðu að hlusta á nokkuð sem lesið var úr Biblíunni ef hún hafði ekki prentleyfi, eða opinbert leyfi, kaþólsku kirkjunnar.

Árið 1952 kvæntist ég Simone Patry, trúfastri systur í söfnuðinum. Við fluttumst til Montreal og eignuðumst Lise dóttur okkar áður en ár var liðið frá því að við giftumst. Þótt ég hætti sem brautryðjandi stuttu áður en við Simone gengum í hjónaband reyndum við að lifa einföldu lífi svo að við fjölskyldan gætum tekið sem mestan þátt í safnaðarlífinu.

Tíu ár liðu áður en ég hugleiddi fyrir alvöru að byrja sem brautryðjandi á ný. Þegar ég var í Ríkisþjónustuskólanum fyrir öldunga á Betel í Kanada árið 1962 deildi ég herbergi með bróður Camille Ouellette. Brennandi áhugi hans á boðuninni snart mig djúpt – sérstaklega í ljósi þess að hann var fjölskyldufaðir. Það var nánast óþekkt í Quebec á þeim tíma að foreldrar væru brautryðjendur meðan þeir voru að ala upp barn. Það var samt markmið Camilles. Meðan við vorum saman hvatti hann mig til að hugsa um aðstæður mínar. Eftir aðeins nokkra mánuði áttaði ég mig á að ég gat byrjað aftur sem brautryðjandi. Sumum fannst sú ákvörðun ekki viturleg. En ég gerðist brautryðjandi, fullviss um að Jehóva myndi blessa viðleitni mína til að taka enn meiri þátt í boðuninni.

VIÐ SNÚUM AFTUR TIL QUEBEC-BORGAR SEM SÉRBRAUTRYÐJENDUR

Árið 1964 vorum við Simone útnefnd til að þjóna sem sérbrautryðjendur í Quebec-borg, heimabæ okkar. Og þar vorum við næstu árin. Um þetta leyti máttum við enn þola andstöðu, en þó ekki eins mikla og áður.

Síðdegis einn laugardaginn var ég handtekinn í Sainte-Marie, litlum bæ stutt frá Quebec-borg. Lögregluþjónn fór með mig á lögreglustöðina og setti mig á bak við lás og slá vegna þess að ég boðaði trúna hús úr húsi án leyfis. Síðan var ég leiddur fyrir dómara, Baillargeon að nafni, mann sem beygur stóð af. Hann spurði hver verjandi minn væri. Þegar ég nefndi Glen How, * sem var vottur og nafnkunnur lögfræðingur, sagði hann órólegur í bragði: „Ó nei, ekki hann!“ Glen How var þekktur í þá daga fyrir að ná góðum árangri sem verjandi vottanna. Skömmu síðar tilkynnti dómstóllinn mér að ákærurnar hefðu verið felldar niður.

Andstaðan gegn starfi okkar í Quebec gerði okkur líka erfitt fyrir að leigja hentugt húsnæði undir samkomur. Litli söfnuðurinn okkar gat bara fundið gamlan bílskúr þar sem var engin upphitun. Á köldum vetrardögum notuðu bræðurnir steinolíuofn til að kynda skúrinn og veita okkur yl. Við söfnuðumst oft í kringum hann nokkrum klukkustundum fyrir samkomu til að segja hvetjandi frásögur.

Það er dásamlegt að sjá þann góða árangur sem hefur orðið af boðuninni á liðnum árum. Á sjöunda áratug síðustu aldar voru aðeins nokkrir litlir söfnuðir í Quebec-borg og nágrenni, á Côte-Nord-svæðinu og á Gaspé-skaganum. Nú eru þar fjölmargir söfnuðir og trúsystkinin hittast á samkomum í fallegum ríkissölum.

OKKUR ER BOÐIÐ AÐ BYRJA Í FARANDSTARFI

Árið 1977 sat ég fund fyrir farandumsjónarmenn í Toronto í Kanada.

Árið 1970 var okkur Simone boðið að þjóna í farandstarfinu. Síðar, árið 1973, varð ég umdæmishirðir. Ég lærði margt á þessu tímabili af hæfum bræðrum eins og Laurier Saumur * og David Splane, * en þeir voru báðir í farandstarfi. Eftir hvert mót ræddum við David hvernig við gætum bætt kennslu okkar. Ég man eitt skipti þegar David sagði: „Léonce, ég hafði gaman af lokaræðunni þinni. Hún var góð. En ég hefði búið til þrjár ræður úr öllu þessu efni!“ Ég átti það til að hafa of margar upplýsingar í ræðunum mínum. Ég þurfti að læra að vera hnitmiðari.

Ég starfaði í ýmsum bæjum í austurhluta Kanada.

Umdæmishirðum var falið að uppörva farandhirða. En þannig var að margir boðberar í Quebec þekktu mig vel. Þeir vildu oft fara með mér í boðunina þegar ég heimsótti farandsvæðið. Það var ánægjulegt að vera með þeim í boðuninni en ég varði ekki nægum tíma með farandhirðinum. Eitt skiptið sagði kærleiksríkur farandhirðir við mig: „Það er gott að þú gefur bræðrum og systrum af tíma þínum en ekki gleyma að þetta er vikan mín. Ég þarf líka á hvatningu að halda.“ Þessar vingjarnlegu leiðbeiningar hjálpuðu mér að gæta jafnvægis.

Árið 1976 varð ég óvænt fyrir hörmulegri lífsreynslu þegar Simone, ástkær eiginkonan mín, veiktist alvarlega og dó. Hún var mér góður lífsförunautur vegna þess hve hún var fórnfús og elskaði Jehóva. Það hjálpaði mér að takast á við sorgina að vera önnum kafinn við boðunina og ég þakka Jehóva fyrir þann kærleiksríka stuðning sem hann sýndi mér á þessum erfiða tíma. Seinna kvæntist ég Carolyn Elliott, kappsömum enskumælandi brautryðjanda sem hafði komið til Quebec til að þjóna þar sem þörfin var meiri. Carolyn hefur þægilegt viðmót og einlægan áhuga á öðrum, sérstaklega þeim sem eru feimnir eða einmana. Hún var mér mikil hjálparhella þegar hún þjónaði með mér í farandstarfinu.

VIÐBURÐARÍKT ÁR

Í janúar 1978 var ég beðinn um að kenna í fyrsta bekk brautryðjendaskólans í Quebec. Ég var mjög taugaóstyrkur vegna þess að ég hafði ekki frekar en nemendurnir séð námsskrána áður. Þetta var í fyrsta sinn sem ég var kennari en sem betur fer voru margir reyndir brautryðjendur í bekknum. Þótt ég hafi verið leiðbeinandinn lærði ég margt af nemendunum.

Seinna sama ár var haldið alþjóðamót á Ólympíuleikvanginum í Montreal. Þetta var stærsta mót sem hefur verið haldið í Quebec en mótsgestir voru fleiri en 80.000. Ég fékk það verkefni að ræða við fréttamenn um mótið og var himinlifandi að sjá mikla og jákvæða umfjöllun í fjölmiðlum en þeir birtu rúmar 20 klukkustundir af sjónvarps- og útvarpsviðtölum auk hundruða blaðagreina á prenti. Þarna var dregin upp mjög jákvæð mynd af söfnuði Votta Jehóva sem náði til margra.

NÝTT VERKEFNI Á ÖÐRU SVÆÐI

Árið 1996 breyttust aðstæður mínar til muna. Frá því að ég lét skírast hafði ég þjónað í Quebec þar sem franska var töluð en nú var mér falið að þjóna í Toronto og nágrenni þar sem fólk talaði ensku. Mér fannst ég ekki hæfur og ég kveið fyrir að flytja ræður á ensku því að ég kunni hana ekki vel. Ég þurfti að biðja oftar og reiða mig enn betur á Jehóva.

Þegar ég lít til baka sé ég að árin tvö sem ég þjónaði í Toronto og nágrenni voru dásamlegur tími. Carolyn var þolinmóð að hjálpa mér að tala ensku af meira öryggi og trúsystkinin veittu mér stuðning og hvatningu. Áður en langt um leið höfðum við eignast marga vini.

Föstudagskvöldið í vikunni sem haldið var svæðismót boðaði ég oft trúna í klukkustund þótt það væri mikið að gera við undirbúning fyrir mótið. Sumir veltu því ef til vill fyrir sér hvers vegna ég færi í boðunina svona stuttu fyrir mótið. En góð samtöl í boðuninni voru hressandi. Boðunin hefur enn þessi áhrif á mig.

Árið 1998 vorum við Carolyn send aftur til Montreal sem sérbrautryðjendur. Um árabil skipulagði ég boðun á opinberum stöðum og átti samstarf við fjölmiðla til að brjóta niður fordóma í garð Votta Jehóva. Við Carolyn njótum nú þess að boða trúna útlendingum sem hafa nýlega flust til Kanada og eru margir hverjir tilbúnir að fræðast um Biblíuna.

Við Carolyn eiginkona mín.

Þegar ég hugsa um þau 68 ár sem ég hef verið skírður þjónn Jehóva sé ég að ég hef hlotið mikla blessun. Það hefur veitt mér mikla gleði að læra að meta boðunina og hjálpa mörgum að kynnast sannleikanum. Eftir að Lise dóttir mín og eiginmaður hennar höfðu komið börnum sínum á legg gerðust þau brautryðjendur. Það yljar mér um hjartarætur að sjá hve kappsöm hún er í boðuninni. Ég er mjög þakklátur fyrir trúsystkini sem voru mér góðar fyrirmyndir og gáfu mér ráð sem hjálpuðu mér að styrkja samband mitt við Jehóva og annast ýmis verkefni á vegum safnaðarins. Mér er ljóst að við getum sinnt trúfastlega verkefni sem okkur er falið því aðeins að við reiðum okkur á máttugan heilagan anda Jehóva. (Sálm. 51:13) Ég þakka Jehóva að hann skuli hafa veitt mér þann heiður að mega lofa nafn hans. – Sálm. 54:8.

^ gr. 16 Ævisaga W. Glens Hows, „The Battle Is Not Yours, but God’s“, birtist í Vaknið! á ensku 22. apríl 2000.

^ gr. 20 Ævisaga Lauriers Saumurs, „I Found Something Worth Fighting For“, birtist í Varðturninum á ensku 15. nóvember 1976.

^ gr. 20 David Splane situr í stjórnandi ráði Votta Jehóva.