Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 9

Leyfðu Jehóva að hughreysta þig

Leyfðu Jehóva að hughreysta þig

„Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína.“ – SÁLM. 94:19.

SÖNGUR 44 Bæn hins bágstadda

YFIRLIT *

1. Hvað getur valdið áhyggjum og hvaða áhrif getur það haft á okkur?

HEFURÐU einhvern tíma verið þjakaður af áhyggjum? * Kannski hefurðu áhyggjur vegna þess að það sem einhver sagði eða gerði særði þig. Eða kannski hefurðu áhyggjur vegna þess sem þú hefur sagt eða gert. Þér hafa kannski orðið á mistök og þú óttast að Jehóva muni aldrei fyrirgefa þér. Og til að bæta gráu ofan á svart hugsarðu kannski að þar sem þú ert gagntekinn af áhyggjum hlýturðu að hafa veika trú – þú hlýtur að vera slæm manneskja. En er það rétt?

2. Hvaða dæmi í Biblíunni sýna fram á að það að hafa áhyggjur er ekki merki um veika trú?

2 Skoðum nokkur dæmi í Biblíunni. Hanna, sem eignaðist spámanninn Samúel, hafði sterka trú. Hún var samt buguð af áhyggjum vegna þess að einhver í fjölskyldunni kom illa fram við hana. (1. Sam. 1:7) Páll postuli hafði líka sterka trú, en það sóttu á hann ,áhyggjur af öllum söfnuðunum‘. (2. Kor. 11:28) Davíð konungur hafði svo sterka trú að Jehóva hafði sérstakt dálæti á honum. (Post. 13:22) En Davíð syndgaði sem varð til þess að þungar áhyggjur helltust stundum yfir hann. (Sálm. 38:5) Jehóva hughreysti þau öll og sefaði áhyggjur þeirra. Lítum nú á hvað við getum lært af frásögum þeirra.

ÞAÐ SEM VIÐ LÆRUM AF HINNI TRÚFÖSTU HÖNNU

3. Hvernig getur tal annarra valdið okkur áhyggjum?

3 Við verðum kannski áhyggjufull þegar aðrir eru harðorðir eða óvinalegir við okkur. Það getur sérstaklega átt við ef sá sem særir okkur er náinn vinur okkar eða ættingi. Við gætum haft áhyggjur af því að vinskap okkar sé lokið. Stundum segja aðrir eitthvað í hugsunarleysi en okkur gæti fundist við hafa orðið fyrir sverðshöggi. (Orðskv. 12:18) Einhver gæti jafnvel sagt eitthvað sem hann veit að mun særa okkur. Ung systir fékk að finna fyrir því á eigin skinni. „Fyrir nokkrum árum,“ segir hún, „fór einhver sem ég taldi vera góða vinkonu að dreifa lygum um mig á netinu. Það særði mig og olli mér áhyggjum. Mér leið eins og ég hefði fengið rýting í bakið. Ég bara skildi ekki hvernig hún gat gert þetta.“ Ef náinn vinur eða ættingi hefur sært þig þá geturðu lært margt af Hönnu.

4. Hvaða erfiðleika þurfti Hanna að takast á við?

4 Hanna þurfti að takast á við mikla erfiðleika. Í mörg ár gat hún ekki eignast börn. (1. Sam. 1:2) Í menningarsamfélagi Ísraels var litið svo á að ófrjó kona hefði ekki blessun Guðs. Hanna skammaðist sín því mjög mikið. (1. Mós. 30:1, 2) Og það jók á vanlíðan hennar að maðurinn hennar átti aðra konu, Peninnu, sem fæddi honum börn. Peninna leit á Hönnu sem keppinaut og ,olli henni sárri gremju og skapraunaði henni‘. (1. Sam. 1:6) Hanna réð illa við þessa erfiðleika í fyrstu. Hún var í svo miklu uppnámi að ,hún grét og vildi ekki borða‘. Hún var „full örvæntingar“. (1. Sam. 1:7, 10) Hvað veitti Hönnu hughreystingu?

5. Hvernig hjálpaði bænin Hönnu?

5 Hanna úthellti tilfinningum sínum í bæn til Jehóva. Eftir að hún hafði farið með bæn sagði hún Elí æðstapresti frá aðstæðum sínum. Hann sagði við hana: „Farðu í friði. Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.“ Hvað gerðist síðan? ,Hún gekk leiðar sinnar, byrjaði aftur að borða og var ekki lengur döpur í bragði.‘ (1. Sam. 1:17, 18) Bænin hjálpaði Hönnu að endurheimta innri ró.

Hvernig getum við endurheimt og varðveitt innri frið líkt og Hanna? (Sjá 6.–10. grein.)

6. Hvað getum við lært um bæn af Hönnu og af Filippíbréfinu 4:6, 7?

6 Við getum endurheimt innri frið ef við höldum stöðugt áfram að biðja. Hanna talaði lengi við himneskan föður sinn í bæn. (1. Sam. 1:12) Við getum líka tekið okkur góðan tíma til að tala við Jehóva um það sem við höfum áhyggjur af, það sem veldur okkur ótta og um mistök okkar. Bænir okkar þurfa ekki að vera ljóðrænar eða málfarslega fullkomnar. Stundum eru þær jafnvel slitróttar vegna þess að við grátum og finnum til sársauka. En Jehóva verður aldrei þreyttur á að hlusta á okkur. Auk þess að segja honum frá vandamálum okkar verðum við að muna eftir því sem segir í Filippíbréfinu 4:6, 7. (Lestu.) Páll tekur sérstaklega fram að við ættum að tjá Jehóva þakklæti okkar í bæn. Við höfum svo margar ástæður til að þakka Jehóva. Við getum til dæmis þakkað honum fyrir þá gjöf sem lífið er, allt það fallega sem hann hefur gert, fyrir tryggan kærleika hans og fyrir þá dásamlegu von sem hann hefur gefið okkur. Hvað fleira getum við lært af Hönnu?

7. Hvað gerðu Hanna og maðurinn hennar reglulega?

7 Þrátt fyrir erfiðleika sína fór Hanna reglulega ásamt manni sínum til Síló á staðinn þar sem Jehóva var tilbeðinn. (1. Sam. 1:1–5) Það var við tjaldbúðina sem æðstipresturinn Elí uppörvaði Hönnu og sagðist vona að Jehóva myndi bænheyra hana. – 1. Sam. 1:9, 17.

8. Hvernig geta samkomurnar hjálpað okkur? Skýrðu svarið.

8 Við getum endurheimt innri frið ef við höldum áfram að sækja safnaðarsamkomur. Í upphafi samkomu er oft beðið til Jehóva um að andi hans sé með okkur á samkomunni. Friður er hluti af ávexti andans. (Gal. 5:22) Þegar við erum á samkomum, jafnvel þótt við séum undir álagi, gefum við Jehóva og trúsystkinum okkar tækifæri til að uppörva okkur og hjálpa okkur að endurheimta friðinn í huga okkar og hjarta. Bænin og samkomur eru mikilvægar leiðir til að fá hughreystingu frá Jehóva. (Hebr. 10:24, 25) Skoðum enn eitt sem við getum lært af Hönnu.

9. Hvað breyttist ekki hjá Hönnu en hvað breyttist?

9 Ástæðan fyrir áhyggjum Hönnu hvarf ekki strax. Þegar hún sneri heim eftir að hafa tilbeðið Jehóva í tjaldbúðinni þurfti hún eftir sem áður að búa undir sama þaki og Peninna. Og í Biblíunni kemur hvergi fram að framkoma Peninnu breyttist. Hanna hefur því líklega þurft að þola særandi tal hennar áfram. En hún gat endurheimt innri frið og varðveitt hann. Eftir að Hanna hafði lagt málin í hendur Jehóva var hún ekki lengur buguð af áhyggjum. Hún leyfði honum að hughreysta sig og sefa áhyggjur sínar. Nokkru síðar blessaði Jehóva hana og hún eignaðist börn. – 1. Sam. 1:19, 20; 2:21.

10. Hvað lærum við af fordæmi Hönnu?

10 Við getum endurheimt innri frið þótt vandamál okkar hverfi ekki. Sum vandamál hverfa ekki þótt við biðjum ákaft og mætum á samkomur að staðaldri. En við lærum af fordæmi Hönnu að ekkert getur komið í veg fyrir að Jehóva sefi hjarta okkar. Jehóva gleymir okkur aldrei og fyrr eða síðar umbunar hann okkur trúfestina. – Hebr. 11:6.

ÞAÐ SEM VIÐ LÆRUM AF PÁLI POSTULA

11. Hvaða ástæður hafði Páll til að hafa áhyggjur?

11 Páll hafði margar ástæður til að hafa áhyggjur. Hann elskaði bræður sína og systur og vandamál þeirra hvíldu þess vegna þungt á honum. (2. Kor. 2:4; 11:28) Meðan Páll sinnti boðuninni lenti hann endurtekið í því að andstæðingar börðu hann og vörpuðu honum í fangelsi. Hann þurfti líka að þola annars konar erfiðleika sem ollu honum áhyggjum, eins og að „búa við þröngan kost“. (Fil. 4:12) Og við getum rétt ímyndað okkur að hann hafi kviðið fyrir að ferðast með skipi því að hann hafði á þessum tíma þegar beðið skipbrot þrisvar sinnum. (2. Kor. 11:23–27) Hvernig tókst Páll á við þessar áhyggjur?

12. Hvað dró úr áhyggjum Páls?

12 Páll hafði áhyggjur af því þegar bræður hans og systur áttu við erfiðleika að stríða en hann reyndi ekki að greiða úr öllum vandamálum þeirra sjálfur. Hann var hógvær og raunsær. Hann bað aðra um aðstoð við að annast söfnuðinn. Hann fól til dæmis áreiðanlegum mönnum eins og Tímóteusi og Títusi margvíslega ábyrgð. Aðstoð þeirra hefur án efa dregið úr áhyggjum Páls. – Fil. 2:19, 20; Tít. 1:1, 4, 5.

Hvað lærum við af Páli sem getur hjálpað okkur að bugast ekki af áhyggjum? (Sjá 13.–15. grein.)

13. Hvernig geta öldungar líkt eftir Páli?

13 Biddu aðra að hjálpa þér. Líkt og Páll hafa margir samúðarfullir öldungar áhyggjur af öðrum í söfnuðinum sem glíma við erfiðleika. En það eru takmörk fyrir því hvað einn öldungur getur gert. Hógvær og raunsær öldungur finnur sig knúinn til að biðja aðra hæfa menn að hjálpa sér. Hann þjálfar líka unga bræður til að aðstoða sig við að annast sauði Guðs. – 2. Tím. 2:2.

14. Hverju hafði Páll ekki áhyggjur af og hvað getum við lært af honum?

14 Viðurkenndu þörf þína á hughreystingu. Páll var auðmjúkur. Hann sóttist eftir hughreystingu frá trúsystkinum sínum og fékk hana. Hann hafði augljóslega ekki áhyggjur af því að vera talinn veiklyndur ef hann viðurkenndi að hann hefði fengið hughreystingu frá öðrum. Í bréfi sínu til Fílemons sagði hann: „Það gladdi mig mikið og hughreysti að heyra um kærleika þinn.“ (Fílem. 7) Páll nefndi nokkra aðra samstarfsmenn sem höfðu veitt honum mikla uppörvun á erfiðum tímum. (Kól. 4:7–11) Bræður okkar og systur styðja okkur fúslega þegar við viðurkennum auðmjúk að við þurfum á hughreystingu og hvatningu að halda.

15. Hvað veitti Páli huggun við íþyngjandi aðstæður?

15 Reiddu þig á orð Guðs. Páll vissi að hann gat sótt huggun í Ritningarnar. (Rómv. 15:4) Hann vissi líka að þær myndu gefa honum visku til að takast á við allar raunir. (2. Tím. 3:15, 16) Þegar hann var í fangelsi í Róm í annað sinn gerði hann sér grein fyrir að hann átti stutt eftir ólifað. Hvað gerði Páll við þessar íþyngjandi aðstæður? Hann bað Tímóteus að koma fljótt og taka með sér „bókrollurnar“. (2. Tím. 4:6, 7, 9, 13) Hvers vegna? Vegna þess að þær voru líklega hluti af Hebresku ritningunum sem Páll gat notað við sjálfsnám. Þegar við líkjum eftir Páli með því að lesa og hugleiða orð Jehóva reglulega notar hann það til að hughreysta okkur – óháð því hvaða erfiðleikum við stöndum frammi fyrir.

ÞAÐ SEM VIÐ LÆRUM AF DAVÍÐ KONUNGI

Hvað getur hjálpað okkur ef við syndgum alvarlega eins og sjá má af frásögu Davíðs? (Sjá 16.–19. grein.)

16. Hvaða erfiðleika kallaði Davíð yfir sjálfan sig?

16 Samviska Davíðs nagaði hann og ekki að ástæðulausu. Hann hafði framið hjúskaparbrot með Batsebu, séð til þess að maðurinn hennar yrði drepinn og reyndi um tíma að leyna glæpum sínum. (2. Sam. 12:9) Davíð hunsaði samvisku sína í fyrstu, en það skaðaði samband hans við Jehóva og hann þjáðist bæði tilfinningalega og líkamlega. (Sálm. 32:3, 4) Hvað hjálpaði Davíð að takast á við áhyggjurnar sem hann kallaði yfir sjálfan sig og hvað getur hjálpað okkur ef við brjótum alvarlega af okkur?

17. Hvernig má sjá af Sálmi 51:3–6 að Davíð iðraðist einlæglega?

17 Biddu um fyrirgefningu. Davíð leitaði að lokum til Jehóva í bæn. Hann iðraðist einlæglega og játaði syndir sínar. (Lestu Sálm 51:3–6.) Það varð honum mikill léttir! (Sálm. 32:1, 2, 4, 5) Ef þú syndgar alvarlega skaltu ekki reyna að fela það. Játaðu heldur syndir þínar fyrir Jehóva í bæn. Það dregur úr kvíða vegna samviskubits og þú verður rólegri. En ef þú vilt endurheimta vináttuna við Jehóva er ekki nóg að biðja.

18. Hvernig brást Davíð við aga?

18 Þiggðu aga. Jehóva sendi spámanninn Natan til að fletta ofan af synd Davíðs. Davíð réttlætti ekki sjálfan sig eða reyndi að gera lítið úr synd sinni. Hann viðurkenndi strax synd sína og að hann hefði fyrst og fremst syndgað gegn Jehóva, auk þess að syndga gegn manni Batsebu. Davíð tók við ögun frá Jehóva og Jehóva fyrirgaf honum. (2. Sam. 12:10–14) Ef við syndgum alvarlega þurfum við að tala við þá sem Jehóva hefur útnefnt til að annast okkur. (Jak. 5:14, 15) Og við verðum að forðast þá tilhneigingu að réttlæta sjálf okkur. Því fyrr sem við þiggjum aga og breytum í samræmi við hann því fyrr endurheimtum við innri frið og gleði.

19. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

19 Vertu staðráðinn í að endurtaka ekki sömu mistökin. Davíð konungur vissi að hann þyrfti á hjálp Jehóva að halda ef hann vildi forðast að endurtaka sömu syndirnar. (Sálm. 51:9, 12, 14) Eftir að Davíð hafði fengið fyrirgefningu Jehóva var hann staðráðinn í að forðast rangar hugsanir. Hann gat því endurheimt innri frið.

20. Hvernig getum við sýnt þakklæti okkar fyrir fyrirgefningu Jehóva?

20 Við sýnum að við kunnum að meta að Jehóva skuli fyrirgefa okkur þegar við biðjum hann um fyrirgefningu, þiggjum aga og leggjum hart að okkur til að endurtaka ekki sömu mistökin. Þegar við gerum það endurheimtum við okkar innri frið. James, bróðir sem syndgaði alvarlega, þekkir það af eigin raun. Hann segir: „Þegar ég sagði öldungunum frá synd minni fannst mér eins og þungu fargi væri létt af mér. Ég fór að finna fyrir hugarfriði á ný.“ Það er mjög uppörvandi að vita að Jehóva er „nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta, hann hjálpar þeim sem hafa sundurkraminn anda“. – Sálm. 34:19.

21. Hvernig getum við leyft Jehóva að sefa áhyggjur okkar?

21 Eftir því sem endirinn færist nær munum við líklega hafa enn fleiri ástæður til að hafa áhyggjur. Leitaðu til Jehóva um leið og áhyggjur skjóta upp kollinum. Vertu iðinn við sjálfsnám. Lærðu af Hönnu, Páli og Davíð. Biddu himneskan föður þinn að hjálpa þér að koma auga á orsökina fyrir áhyggjum þínum. (Sálm. 139:23) Leyfðu honum að bera byrðar þínar, sérstaklega þær sem þú hefur litla eða enga stjórn á. Þegar þú gerir það geturðu tekið undir með sálmaskáldinu sem söng til Jehóva: „Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín sál mína.“ – Sálm. 94:19.

SÖNGUR 4 Jehóva er minn hirðir

^ gr. 5 Öll höfum við áhyggjur af og til vegna vandamála sem við þurfum að glíma við. Í greininni skoðum við þrjú dæmi um þjóna Guðs á biblíutímanum sem tókust á við áhyggjur. Einnig er rætt hvernig Jehóva hughreysti þá og sefaði áhyggjur þeirra.

^ gr. 1 ORÐASKÝRING: Áhyggjur geta stafað af fjárhagserfiðleikum, veikindum, vandamálum í fjölskyldunni eða öðrum vandamálum. Við gætum einnig haft áhyggjur af fyrri mistökum eða einhverju sem við höldum að gæti gerst í framtíðinni.