Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

„Hér erum við. Sendið okkur!“

„Hér erum við. Sendið okkur!“

ERTU að hugsa um að auka þjónustuna við Jehóva með því að flytjast þangað sem þörfin er meiri, kannski til annars lands? Þá gætirðu haft gagn af reynslu bróður Jacks og systur Marie-Line.

Jack og Marie-Line hafa þjónað Jehóva saman í fullu starfi frá árinu 1988. Þau eru þekkt fyrir einstaka aðlögunarhæfni og hafa þegið mörg verkefni á Gvadelúpeyjum og í Frönsku Gvæjana. Báðir staðir heyra nú undir deildarskrifstofuna í Frakklandi. Spyrjum Jack og Marie-Line nokkurra spurninga.

Hvað var ykkur hvatning til að byrja í fullu starfi?

Marie-Line: Ég ólst upp á Gvadelúpeyjum og sem krakki var ég oft heilu dagana í boðuninni með mömmu sem var kappsamur vottur. Ég elska fólk og byrjaði þess vegna sem brautryðjandi um leið og ég lauk skóla árið 1985.

Jack: Á unglingsárum var ég mikið með fólki sem þjónaði í fullu starfi og elskaði boðunina. Ég var aðstoðarbrautryðjandi í skólafríum. Um helgar tókum við mamma og annar bróðir stundum rútu á svæði þar sem brautryðjendurnir voru að starfa. Við boðuðum trúna með þeim allan daginn og fórum síðan niður á strönd í lok dags. Þetta voru stórskemmtilegir dagar!

Stuttu eftir að við Marie-Line gengum í hjónaband hugsaði ég með mér: „Við erum óbundin. Hví ekki að gera meira í þjónustunni?“ Ég gekk í lið með Marie-Line og gerðist brautryðjandi. Ári síðar, eftir að hafa sótt brautryðjendaskólann, vorum við útnefnd sérbrautryðjendur. Við fengum þónokkur ánægjuleg verkefni á Gvadelúpeyjum áður en okkur var boðið að flytjast til Frönsku Gvæjana.

Þið hafið fengið mörg verkefni á liðnum árum. Hvað hefur hjálpað ykkur að aðlagast nýjum aðstæðum?

Marie-Line: Bræðurnir á Betel í Frönsku Gvæjana vissu að uppáhaldsversið okkar er Jesaja 6:8. Þegar þeir hringdu í okkur byrjuðu þeir oft á að segja glettnislega: „Munið þið uppáhaldsversið ykkar?“ Við vissum að það þýddi að við fengjum nýtt verkefni og svöruðum þess vegna: „Hér erum við. Sendið okkur!“

Við reynum að bera ekki saman ný og gömul verkefni vegna þess að það gæti komið í veg fyrir að við kynnum að meta nýju verkefnin. Við tökum líka frumkvæðið í að kynnast bræðrum okkar og systrum.

Jack: Sumir bræður og systur sem vildu vel reyndu að sannfæra okkur um að vera um kyrrt því að þau vildu ekki að við færum. En þegar við vorum að fara frá Gvadelúpeyjum minnti einn bróðir okkur á orð Jesú í Matteusi 13:38: „Akurinn er heimurinn.“ Þegar við fáum nýtt verkefni minnum við okkur því á að sama hvar við erum þá erum við enn á sama akrinum. Fólkið á svæðinu er jú það sem skiptir mestu máli.

Þegar við komum á nýtt starfssvæði tökum við eftir að fólkið sem býr þar er nokkuð ánægt með lífið. Við reynum því að lifa eins og heimamenn. Maturinn er kannski öðruvísi en við erum vön. Við gerum viðeigandi varúðarráðstafanir en borðum samt það sem þeir borða og drekkum það sem þeir drekka. Við leggjum okkur fram um að tala jákvætt um öll verkefni okkar.

Marie-Line: Við lærum líka margt af bræðrum og systrum á hverjum stað. Ég man þegar við komum fyrst til Frönsku Gvæjana. Það var úrhellisrigning svo að við héldum að við þyrftum að bíða eftir að stytti upp áður en við gætum farið út að boða trúna. En þá sagði systir við mig: „Eigum við að skella okkur?“ „Hvernig?“ svaraði ég undrandi. Hún sagði: „Náðu í regnhlífina þína og síðan hjólum við.“ Þarna lærði ég að halda á regnhlíf meðan ég hjóla. Ef ég hefði ekki lært það hefði ég aldrei farið í boðunina á regntímabilum.

Þið hafið flust um 15 sinnum. Hvaða ráð getið þið gefið öðrum?

Marie-Line: Það getur reynt á að flytja. En það er mikilvægt að finna stað þar sem manni getur liðið vel eftir að hafa verið í boðuninni.

Jack: Ég mála vanalega veggina þegar við flytjum í nýtt húsnæði. Bræðurnir á deildarskrifstofunni sögðu stundum þegar þeir vissu að við myndum ekki vera í langan tíma á nýjum stað: „Jack, ekki hafa fyrir því að mála í þetta skipti.“

Marie-Line er snillingur í að pakka. Hún setur allt í kassa og merkir þá baðherberginu, svefnherberginu, eldhúsinu og svo framvegis. Þegar við síðan komum á nýjan stað getum við sett kassana strax á rétta staði. Hún gerir lista yfir innihald kassanna þannig að við getum auðveldlega fundið það sem við þurfum.

Marie-Line: Þar sem við höfum lært að vera vel skipulögð getum við hafist handa við verkefni okkar fljótt.

Hvernig skipuleggið þið tíma ykkar til að ,gera þjónustu ykkar góð skil‘? – 2. Tím. 4:5.

Marie-Line: Við hvílum okkur á mánudögum og undirbúum okkur fyrir samkomur. Það sem eftir er vikunnar förum við í boðunina.

Jack: Við þurfum að uppfylla vissa tímakröfu en við einblínum ekki á það. Líf okkar snýst um boðunina. Frá því að við förum að heiman og þar til við komum aftur heim reynum við að ræða við alla sem við hittum.

Marie-Line: Ég tek til dæmis alltaf með mér smárit þegar við förum í lautarferð. Sumir koma til okkar og biðja um rit, jafnvel þótt við höfum ekki sagt þeim að við séum vottar Jehóva. Þess vegna pössum við upp á klæðaburð okkar og hegðun. Fólk tekur eftir slíku.

Jack: Við reynum líka að gefa góða mynd af söfnuðinum með því að vera góðir grannar. Ég tíni upp rusl, fer út með ruslið og raka grasið fyrir utan heimili okkar. Þetta fer ekki fram hjá nágrönnunum. Og sumir þeirra hafa spurt um biblíu.

Þið hafið oft boðað trúna á afskekktum svæðum. Er einhver þessara ferða sérstaklega eftirminnileg?

Jack: Í Gvæjana er erfitt að ná til sumra svæða. Á einni viku þurfum við oft að ferðast 600 kílómetra á lélegum vegum. Heimsókn okkar til St. Élie í Amasonskógi er eftirminnileg. Það tók okkur marga klukkutíma að komast þangað á torfærubíl og vélknúnum kanó. Flestir sem bjuggu þar voru gullleitarmenn. Sumir gáfu okkur litla gullmola í framlag af þakklæti fyrir ritin okkar. Um kvöldið sýndum við eitt af myndböndum safnaðarins. Margir heimamenn komu.

Marie-Line: Fyrir nokkrum árum var Jack beðinn að flytja ræðuna á minningarhátíðinni í Camopi. Til að komast þangað ferðuðumst við fjóra klukkutíma með vélknúnum kanó á ánni Oyapock. Það var spennandi.

Jack: Þegar lítið vatn er í ánni geta flúðirnar verið hættulegar. Þær eru í öllu sínu veldi tilkomumikil sjón. Sá sem stýrir bátnum þarf að vita hvað hann er að gera. En þetta var frábær reynsla. Við vorum aðeins sex vottar viðstaddir minningarhátíðina en um 50 aðrir gestir komu líka, þar á meðal nokkrir amerískir indíánar.

Marie-Line: Þetta er dæmi um auðgandi lífsreynslu sem getur beðið þeirra sem vilja gera meira fyrir Jehóva. Maður verður að treysta á hann í svona aðstæðum og það er trústyrkjandi. Við sjáum hönd Jehóva oft að verki.

Þið hafið lært nokkur tungumál. Eigið þið auðvelt með að læra tungumál?

Jack: Nei, alls ekki. Ég lærði þessi tungumál vegna þess að það var nauðsynlegt. Ég stýrði Varðturnsnáminu á sranantongó * jafnvel áður en ég hafði fengið að lesa biblíulestur. Ég spurði bróður hvernig ég stóð mig. „Við skildum ekki öll orðin en þú stóðst þig mjög vel,“ sagði hann. Börnin hjálpuðu mér mikið. Þau létu mig vita þegar ég gerði mistök ólíkt fullorðna fólkinu. Ég lærði margt af þeim.

Marie-Line: Á einu svæði hélt ég biblíunámskeið á frönsku, portúgölsku og sranantongó. Ein systir mælti með að ég byrjaði á erfiðasta málinu og endaði á því sem ég kunni best. Ég skildi fljótt að það var skynsamlegt.

Einu sinni byrjaði ég á að halda námskeið á sranantongó og hélt síðan annað á portúgölsku. Þegar seinna námið byrjaði sagði systirin sem var með mér: „Marie-Line, við erum með smá vandamál.“ Ég áttaði mig á að ég var að tala sranantongó en ekki portúgölsku við brasilíska konu.

Trúsystkinin sem hafa starfað með ykkur elska ykkur innilega. Hvernig hafið þið farið að því að mynda svona nána vináttu við þau?

Jack: Í Orðskviðunum 11:25 segir: „Örlátur maður hlýtur ríkulega umbun.“ Við hikum ekki við að gefa öðrum af sjálfum okkur. Sumir bræður hafa sagt við mig varðandi viðhald ríkissalarins: „Látum boðberana gera þetta.“ En ég hef þá svarað: „Sjáðu til, ég er líka boðberi. Ef það þarf að gera eitthvað þá vil ég vera á staðnum.“ Við minnum okkur oft á að þótt við þurfum öll tíma út af fyrir okkur viljum við ekki að það komi í veg fyrir að við gerum öðrum gott.

Marie-Line: Við leggjum okkur fram um að sýna bræðrum og systrum okkar persónulegan áhuga. Þá vitum við hvenær þau þurfa einhvern til að líta eftir börnunum eða sækja þau í skólann. Við getum síðan endurskipulagt okkur til að geta hjálpað til. Við höfum myndað náin vináttubönd við aðra vegna þess að við höfum verið fús til að aðstoða þá þegar þeir þurftu á því að halda.

Hvaða blessun hafið þið hlotið fyrir að þjóna þar sem þörfin er meiri?

Jack: Þjónusta í fullu starfi hefur auðgað líf okkar. Við höfum oft verið í nálægð við náttúruna og getað notið fjölbreytileikans í sköpunarverki Jehóva. Stundum hefur reynt á. En við höfum hugarró því að við vitum að fólk Jehóva styður við bakið á okkur hvar sem við erum.

Þegar ég var ungur sat ég í fangelsi í Frönsku Gvæjana vegna þess að ég vildi ekki víkja frá hlutleysi mínu. Aldrei hvarflaði að mér að ég myndi einn daginn snúa þangað aftur sem trúboði og fá að heimsækja fanga sem fulltrúi safnaðarins. Jehóva hefur vissulega blessað okkur, hann er svo örlátur!

Marie-Line: Ekkert gleður mig meira en að gefa af sjálfri mér. Við erum ánægð að vera í þjónustu Jehóva. Það hefur einnig styrkt hjónaband okkar. Stundum spyr Jack hvort við getum boðið hjónum í mat sem þurfa á uppörvun að halda. „Ég var einmitt að hugsa það sama,“ segi ég yfirleitt. Svona virkar þetta.

Jack: Ég greindist með blöðruhálskrabbamein fyrir nokkrum árum. Jafnvel þótt Marie-Line vilji ekki heyra það hef ég sagt við hana: „Ef ég dey á morgun, elskan, þá dey ég ekki ,í hárri elli‘. En ég myndi deyja sáttur, vitandi að líf mitt hefur snúist um það sem skiptir máli, að þjóna Jehóva.“ – 1. Mósebók 25:8.

Marie-Line: Jehóva hefur komið okkur á óvart og falið okkur verkefni sem við hefðum aldrei ímyndað okkur að við fengjum. Líf okkar hefur sannarlega verið gott. Við berum fullt traust til Guðs og hvert sem söfnuður hans biður okkur um að fara þá förum við þangað.

^ gr. 32 Sranantongó er blanda af ensku, hollensku, portúgölsku og afrískum tungumálum sem þrælar þróuðu með sér.