Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 16

Hlustum, kynnumst og sýnum umhyggju

Hlustum, kynnumst og sýnum umhyggju

„Hættið að dæma eftir ytra útliti. Dæmið heldur réttlátan dóm.“ – JÓH. 7:24.

SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu

YFIRLIT *

1. Hvað er sagt um Jehóva í Biblíunni sem er hughreystandi að vita?

MYNDIR þú vilja að fólk dæmdi þig eftir hörundslit þínum, andlitsfalli, líkamsgerð eða holdafari? Líklega ekki. Það er því hughreystandi til þess að vita að Jehóva dæmir okkur ekki eftir því sem aðrir geta séð. Þegar Samúel leit á syni Ísaí sá hann ekki það sem Jehóva sá. Jehóva hafði sagt Samúel að einn sona Ísaí yrði konungur Ísraels. En hver þeirra? Þegar Samúel sá Elíab, elsta son Ísaí, hugsaði hann: „Hér stendur Drottins smurði áreiðanlega frammi fyrir honum.“ Elíab var höfðinglegur að sjá. „En Drottinn sagði við Samúel: ,Horfðu ekki á hæð hans og glæsileik því að ég hef hafnað honum.‘“ Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Jehóva hélt áfram: „Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“ – 1. Sam. 16:1, 6, 7.

2. Hvers vegna ættum við ekki að dæma aðra eftir ytra útliti, samanber Jóhannes 7:24? Lýstu með dæmi.

2 Vegna ófullkomleikans eigum við það til að dæma aðra eftir ytra útliti. (Lestu Jóhannes 7:24.) En við lærum lítið um aðra með því einu að virða þá fyrir okkur. Það eru til dæmis takmörk fyrir því hvað góður læknir með mikla reynslu fær að vita um sjúkling aðeins með því að horfa á hann. Hann þarf að hlusta á hann af athygli til að þekkja sjúkrasögu hans, tilfinningalíf og sjúkdómseinkenni. Læknirinn sendir hann kannski í sneiðmyndatöku til að vita hvernig hann lítur út innvortis. Að öðrum kosti er hætta á að læknirinn greini hann ranglega. Á svipaðan hátt getum við ekki skilið trúsystkini okkar til fulls aðeins með því að líta á þau. Við þurfum að skyggnast undir yfirborðið til að sjá hvaða mann þau hafa að geyma. Við getum að vísu ekki lesið hjörtu og munum því aldrei skilja aðra jafn vel og Jehóva. En við getum gert okkar besta til að líkja eftir honum. Hvernig?

3. Hvernig geta frásögur Biblíunnar sem fjallað er um í þessari grein auðveldað okkur að líkja eftir Jehóva?

3 Hvernig kemur Jehóva fram við tilbiðjendur sína? Hann hlustar á þá. Hann tekur tillit til bakgrunns þeirra og aðstæðna. Og hann sýnir þeim umhyggju. Ræðum nú hvernig hann kom þannig fram við Jónas, Elía, Hagar og Lot. Síðan skoðum við hvernig við getum líkt eftir Jehóva í samskiptum okkar við bræður og systur.

HLUSTUM AF ATHYGLI

4. Hvers vegna gætum við dæmt Jónas ranglega?

4 Frá takmörkuðu sjónarhorni okkar gætum við ályktað að Jónas væri óáreiðanlegur og jafnvel ótrúr. Jehóva gaf honum skýr fyrirmæli um að boða dómsboðskap í Níníve. En hann hlýddi ekki heldur fór með skipi í þveröfuga átt og ,flúði frá Drottni‘. (Jónas 1:1–3) Hefðir þú gefið Jónasi annað tækifæri til að leysa þetta verkefni? Hugsanlega ekki. En Jehóva fannst Jónas eiga það skilið. – Jónas 3:1, 2.

5. Hvað fáum við að vita um Jónas í Jónasi 2:2, 3, 10?

5 Bæn Jónasar leiddi í ljós hvaða mann hann hafði að geyma. (Lestu Jónas 2:2, 3, 10.) Jónas bað örugglega oft til Jehóva. Bænin sem hann bað úr kviði fisksins auðveldar okkur að skilja að hann var ekki bara maður sem hljóp frá verkefni sínu. Bænin sýndi fram á að hann var auðmjúkur, þakklátur og staðráðinn í að hlýða Jehóva. Það er skiljanlegt að Jehóva skuli svara bæn hans og leyfa honum að vera spámaður áfram frekar en að einblína á mistök hans.

Það er auðveldara að sýna samúð þegar við höfum allar staðreyndir. (Sjá 6. grein.) *

6. Hvers vegna er það vel þess virði að hlusta af athygli á trúsystkini?

6 Við þurfum að vera auðmjúk og þolinmóð til að geta hlustað af athygli á aðra. En það er þess virði að gera það af að minnsta kosti þrem ástæðum. Í fyrsta lagi eru minni líkur á að við verðum neikvæð í garð annarra. Í öðru lagi fáum við tækifæri til að skynja tilfinningar og hvatir trúsystkinis okkar og það auðveldar okkur að sýna samkennd. Og í þriðja lagi má vera að trúsystkini okkar læri eitthvað nýtt um sjálft sig þegar við leyfum því að tjá sig. Við mennirnir skiljum stundum ekki tilfinningar okkar til hlítar fyrr en við færum þær í orð. (Orðskv. 20:5) Öldungur í Asíu viðurkennir: „Ég hef gert þau mistök að hlusta ekki áður en ég tala. Ég sagði systur að hún þyrfti að bæta svör sín á samkomum. Seinna kom í ljós að hún á erfitt með lestur og þarf að leggja hart að sér til að svara á samkomum.“ Það er mikilvægt að öldungar þekki allar staðreyndir áður en þeir gefa leiðbeiningar. – Orðskv. 18:13.

7. Hvað getum við lært af því hvernig Jehóva kom fram við Elía?

7 Sumum bræðra okkar og systra finnst erfitt að tala um tilfinningar sínar vegna bakgrunns, menningar eða persónuleika. Hvernig getum við auðveldað þeim að segja okkur það sem liggur þeim á hjarta? Munum hvernig Jehóva kom fram við Elía. Elía sagði honum ekki strax hvernig sér liði þegar hann var á flótta undan Jesebel. Það liðu margir dagar áður en hann sagði himneskum föður sínum frá öllum tilfinningum sínum. Jehóva hlustaði af athygli. Síðan hughreysti hann Elía og fól honum mikilvæg verkefni. (1. Kon. 19:1–18) Það getur tekið tíma áður en bræður okkar og systur treysta okkur nógu vel til að segja okkur hvernig þeim líður. En ef við líkjum eftir Jehóva og erum þolinmóð ávinnum við okkur með tímanum traust þeirra og fáum tækifæri til að heyra hvernig þeim er innanbrjósts. Og þegar þau eru tilbúin að tjá sig skulum við hlusta af athygli.

KYNNUMST BRÆÐRUM OKKAR OG SYSTRUM

8. Hvernig hjálpaði Jehóva Hagar samkvæmt 1. Mósebók 16:7–13?

8 Hagar þjónustustúlka Saraí hagaði sér heimskulega eftir að hún var orðin eiginkona Abrams. Hún varð ófrísk og fór að líta niður á Saraí sem átti engin börn. Samband Saraí og Hagar varð það slæmt að Hagar flúði. (1. Mós. 16:4–6) Frá ófullkomnu sjónarhorni okkar lítur hún kannski út fyrir að hafa verið illgjörn kona sem átti ekki betra skilið. En þannig leit Jehóva ekki á Hagar. Hann sendi engil sinn til hennar. Engillinn hjálpaði henni að leiðrétta hugarfar sitt og blessaði hana. Hagar gerði sér grein fyrir að Jehóva hafði fylgst með henni og gjörþekkti aðstæður hennar. Henni fannst svo mikið til koma að hún kallaði hann „alsjáandi Guð ... hann sem sá mig“. – Lestu 1. Mósebók 16:7–13.

9. Til hvers tók Guð tillit í samskiptum sínum við Hagar?

9 Hverju tók Jehóva eftir hjá Hagar? Hann þekkti bakgrunn hennar og vissi um allt sem hún hafði gengið í gegnum. (Orðskv. 15:3) Hagar var Egypti en bjó á heimili Hebrea. Fannst henni hún stundum vera út undan? Saknaði hún fjölskyldu sinnar og heimalands? Hún var ekki eina eiginkonan sem Abram átti. Á tímabili áttu sumir trúfastir þjónar Jehóva fleiri en eina konu. En það var ekki í samræmi við upphaflega fyrirætlun Jehóva. (Matt. 19:4–6) Það kemur því ekki á óvart að slíkar aðstæður skyldu ýta undir afbrýðisemi og gremju. Jehóva afsakaði ekki að Hagar sýndi Saraí óvirðingu en við getum verið viss um að hann tók tillit til bakgrunns hennar og aðstæðna.

Kynnumst bræðrum okkar og systrum betur. (Sjá 10.–12. grein.) *

10. Hvernig getum við kynnst bræðrum okkar og systrum betur?

10 Við getum líkt eftir Jehóva með því að reyna að skilja hvert annað. Kynnstu bræðrum þínum og systrum betur. Talaðu við þau fyrir og eftir samkomur, boðaðu trúna með þeim og bjóddu þeim í mat ef þú hefur möguleika á því. Þá kemstu kannski að því að systir sem virðist kuldaleg er í rauninni bara feimin, að bróðir sem er efnaður er ekki upptekinn af efnislegum hlutum heldur er hann örlátur eða að systir og börn hennar sem koma oft seint á samkomur eru að glíma við andstöðu. (Job. 6:29, NW) Við ættum auðvitað ekki að ,blanda okkur í málefni annarra‘. (1. Tím. 5:13) En það er gagnlegt að vita eitthvað um trúsystkini okkar og þær aðstæður sem hafa mótað þau.

11. Hvers vegna er mikilvægt að öldungar þekki bræður sína og systur vel?

11 Öldungar þurfa öðrum fremur að þekkja bakgrunn bræðra og systra í sinni umsjá. Tökum sem dæmi bróður sem heitir Artur og var farandhirðir. Hann og annar öldungur heimsóttu systur sem virtist feimin og hlédræg. „Við fengum að vita að maðurinn hennar lést nokkrum árum eftir að þau gengu í hjónaband,“ segir Artur. „Líf hennar var erfitt en hún kenndi dætrum sínum tveim að elska Jehóva og þjóna honum trúfastlega. Nú er sjón hennar farin að daprast og hún á við þunglyndi að stríða. En hún elskar Jehóva og hefur sterka trú. Við komumst að raun um að við getum lært margt af góðu fordæmi þessarar systur.“ (Fil. 2:3) Þessi farandhirðir líkti eftir Jehóva. Jehóva þekkir trúfasta þjóna sína og þær þjáningar sem þeir þurfa að þola. (2. Mós. 3:7) Öldungar sem þekkja bræður sína og systur vel eru betur í stakk búnir til að hjálpa þeim.

12. Hvernig naut systir sem heitir Yip Yee góðs af því að kynnast systur í söfnuðinum?

12 Þú átt auðveldara með að sýna trúsystkini sem fer í taugarnar á þér samkennd ef þú þekkir bakgrunn þess. Yip Yee sem býr í Asíu segir: „Systir í söfnuðinum mínum talaði mjög hátt. Mér fannst hún ekki kunna neina mannasiði. En þegar við vorum saman í boðuninni komst ég að því að hún var vön að hjálpa foreldrum sínum að selja fisk á markaðinum. Hún þurfti að tala hátt til að laða að viðskiptavini.“ Yip Yee bætir við: „Ég áttaði mig á því að ég þarf að þekkja bakgrunn trúsystkina minna til að skilja þau.“ Við þurfum að hafa fyrir því að kynnast trúsystkinum okkar betur. En þegar þú ferð eftir hvatningu Biblíunnar og gerir rúmgott í hjarta þínu líkirðu eftir Jehóva sem elskar „alls konar fólk“. – 1. Tím. 2:3, 4; 2. Kor. 6:11–13.

SÝNUM UMHYGGJU

13. Hvað gerðu englarnir þegar Lot fór hægt að öllu og hvers vegna eins og fram kemur í 1. Mósebók 19:15, 16?

13 Á tvísýnum tíma í lífi sínu var Lot tregur til að fylgja leiðsögn Jehóva. Tveir englar komu til hans og sögðu honum að fara með fjölskylduna út úr Sódómu. Hvers vegna? Þeir sögðu: „Við munum tortíma þessum stað.“ (1. Mós. 19:12, 13) Næsta morgun voru Lot og fjölskylda hans enn heima hjá sér. Englarnir ráku á eftir Lot. En hann „fór hægt að öllu“. Við gætum álitið að Lot væri kærulaus eða jafnvel óhlýðinn. En Jehóva gafst ekki upp á honum. Hann bar umhyggju fyrir honum. Englarnir tóku því í hönd hans, konu hans og dætra og leiddu þau út úr borginni. – Lestu 1. Mósebók 19:15, 16.

14. Hvaða ástæður gætu hafa verið fyrir því að Jehóva sýndi Lot samkennd?

14 Kannski voru ýmsar ástæður fyrir því að Jehóva hafði samkennd með Lot. Hann var ef til vill tregur til að yfirgefa heimili sitt vegna þess að hann óttaðist fólkið sem bjó fyrir utan borgina. Það voru líka aðrar hættur. Hann vissi líklega um jarðbiksgryfjurnar í nálægum dal sem tveir konungar höfðu fallið ofan í. (1. Mós. 14:8–12) Lot var eiginmaður og faðir og hlýtur að hafa haft áhyggjur af fjölskyldu sinni. Hann var auk þess efnaður og hefur því hugsanlega átt fallegt hús í Sódómu. (1. Mós. 13:5, 6) Auðvitað afsakaði ekkert af þessu að Lot hlýddi ekki Jehóva strax. En Jehóva einblíndi ekki á mistök Lots. Hann áleit hann ,réttlátan mann‘. – 2. Pét. 2:7, 8.

Þegar við hlustum á aðra skiljum við betur hvernig við getum sýnt þeim umhyggju. (Sjá 15., 16. grein.) *

15. Hvað ættum við að gera frekar en að dæma aðra?

15 Gerðu þitt besta til að skilja tilfinningar annarra í stað þess að dæma þá. Systir að nafni Veronica gerði það. „Ein systir virtist alltaf vera í vondu skapi,“ segir hún. „Hún einangraði sig. Ég var stundum hrædd við að tala við hana. En ég hugsaði að ég hefði sjálf þurft á vini að halda ef ég væri í hennar sporum. Ég ákvað því að spyrja hana hvernig henni liði. Hún fór að tjá sig og sagði mér að lokum hvernig henni væri innanbrjósts. Nú skil ég hana miklu betur.“

16. Hvers vegna ættum við að biðja Jehóva um hjálp til að rækta með okkur samúð?

16 Enginn nema Jehóva skilur okkur til fulls. (Orðskv. 15:11) Biddu hann þess vegna að hjálpa þér að líta aðra sömu augum og hann og skilja hvernig þú getur sýnt umhyggju. Bænin hjálpaði systur sem heitir Anzhela að sýna meiri samúð. Henni kom ekki vel saman við eina systur í söfnuðinum. Anzhela viðurkennir: „Það hefði verið hægðarleikur að falla í þá gryfju að gagnrýna systurina og forðast hana. En ég bað Jehóva að hjálpa mér að skilja hana.“ Bænheyrði Jehóva Anzhelu? Hún heldur áfram: „Við fórum saman í boðunina og töluðum síðan saman svo klukkustundum skipti. Ég hlustaði samúðarfull á hana. Nú þykir mér vænna um hana en áður og er staðráðin í að styðja hana.“

17. Hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?

17 Við megum ekki velja úr þá bræður og systur sem okkur finnst eiga skilið innilega umhyggju okkar. Öll þurfa þau að takast á við vandamál líkt og Jónas, Elía, Hagar og Lot. Sumir þurfa kannski að takast á við vandamál sem þeir hafa sjálfir kallað yfir sig. En við höfum öll einhvern tíma valdið sjálfum okkur erfiðleikum. Það er því ekki nema sanngjarnt að Jehóva skuli fara fram á að við sýnum hvert öðru samkennd. (1. Pét. 3:8) Þegar við hlýðum Jehóva stuðlum við að einingunni í stórkostlegri fjölskyldu okkar sem teygir anga sína út um allan heim. Verum þess vegna staðráðin í að hlusta á bræður okkar og systur, kynnast þeim og sýna þeim umhyggju.

SÖNGUR 87 Komið og endurnærist

^ gr. 5 Við erum ófullkomin og því stundum fljót að mynda okkur skoðun á öðrum og hvötum þeirra. En Jehóva „horfir á hjartað“. (1. Sam. 16:7) Í þessari grein skoðum við hvernig Jehóva sýndi þeim Jónasi, Elía, Hagar og Lot innilega umhyggju. Það getur hjálpað okkur að líkja eftir honum í samskiptum við bræður okkar og systur.

^ gr. 52 MYNDIR: Eldri bróðir er pirraður vegna þess að ungur bróðir kemur of seint á samkomu. Hann kemst síðan að því að bróðirinn lenti í umferðaróhappi og kom þess vegna of seint.

^ gr. 54 MYNDIR: Umsjónarmanni starfshóps finnst systir vera kuldaleg. Hann uppgötvar síðan að hún er bara feimin og á erfitt með að vera innan um fólk sem hún þekkir lítið.

^ gr. 56 MYNDIR: Þegar systir kynnist annarri systur betur kemst hún að raun um að hún er ekki mislynd og áhugalaus um aðra eins og hún hélt þegar þær hittust fyrst í ríkissalnum.