Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 20

Hver er „konungur norðursins“ núna?

Hver er „konungur norðursins“ núna?

„Þá mun hann mæta örlögum sínum og enginn verður til hjálpar.“ – DAN. 11:45.

SÖNGUR 95 Ljósið verður bjartara

YFIRLIT *

1, 2. Hvað skoðum við í þessari grein?

VIÐ sjáum skýrar en nokkurn tíma fyrr að við lifum við lok síðustu daga þessarar heimsskipanar. Bráðlega eyða Jehóva og Jesús Kristur öllum stjórnum sem rísa gegn ríki Guðs. Þangað til það gerist halda konungur norðursins og konungur suðursins áfram að berjast hvor gegn öðrum og gegn þjónum Guðs.

2 Í þessari grein skoðum við spádóminn í Daníel 11:40–12:1. Við berum kennsl á núverandi konung norðursins og ræðum hvers vegna við getum mætt erfiðleikunum fram undan af öryggi.

NÝR KONUNGUR NORÐURSINS KEMUR FRAM

3, 4. Hver er konungur norðursins núna? Skýrðu svarið.

3 Eftir að Sovétríkin féllu árið 1991 veittist þjónum Guðs á þessu víðlenda svæði „dálítil hjálp“ – þeir fengu frelsi um stund. (Dan. 11:34, Biblían 1981) Þar af leiðandi gátu þeir boðað trúna að vild og áður en langt um leið var boðberafjöldinn í þessum fyrrverandi kommúnistaríkjum kominn í nokkur hundruð þúsund. En smám saman urðu Rússland og bandamenn þess konungur norðursins. Eins og fram kom í síðustu grein þarf ríki að gera þrennt til að vera konungur norðursins eða konungur suðursins: (1) Hafa bein áhrif á þjóna Guðs, (2) sýna með framkomu sinni að það sé óvinur Jehóva og þjóna hans og (3) berjast við keppinaut sinn.

4 Hvers vegna getum við sagt að Rússland og bandamenn þess séu konungur norðursins núna? (1) Þau hafa haft bein áhrif á þjóna Guðs með því að banna boðunina og ofsækja hundruð þúsunda bræðra og systra sem búa á yfirráðasvæði þeirra. (2) Þetta sýnir að þau hata Jehóva og þjóna hans. (3) Þau hafa keppst um völdin við konung suðursins, ensk-ameríska heimsveldið. Skoðum hvernig Rússland og bandamenn þess hafa reynst vera konungur norðursins.

KONUNGUR NORÐURSINS OG KONUNGUR SUÐURSINS HALDA ÁFRAM AÐ BERJAST

5. Hvaða tímabil er talað um í Daníel 11:40–43 og hvað gerist á því tímabili?

5 Lestu Daníel 11:40–43Þessi hluti spádómsins fjallar um tíma endalokanna. Versin beina athyglinni að baráttu konungs norðursins og konungs suðursins. Daníel sagði fyrir að konungur suðursins myndi „snúast gegn“ konungi norðursins á tíma endalokanna. – Dan. 11:40.

6. Hvernig hafa konungarnir tveir snúist hvor gegn öðrum?

6 Konungur norðursins og konungur suðursins halda áfram að berjast um heimsyfirráð. Skoðum til dæmis hvað gerðist eftir síðari heimsstyrjöldina þegar Sovétríkin og bandamenn þeirra náðu yfirráðum yfir stórum hluta Evrópu. Konungur suðursins kom því á hernaðarbandalagi við aðrar þjóðir gegn konungi norðursins með því að stofna Atlantshafsbandalagið, eða NATO. Konungur norðursins heldur áfram að berjast við konung suðursins með kostnaðarsömu vígbúnaðarkapphlaupi. Hann barðist óbeint við keppinaut sinn í staðbundnum átökum og uppreisnum í Afríku, Asíu og Rómönsku Ameríku. Undanfarin ár hafa Rússar og bandamenn þeirra aukið áhrif sín. Þeir hafa einnig átt í nethernaði við konung suðursins. Konungarnir hafa báðir sakað hinn um að nota spilliforrit til að skaða hagkerfi sín og stjórnmálakerfi. Eins og Daníel spáði heldur konungur norðursins áfram að ráðast á þjóna Guðs. – Dan. 11:41.

KONUNGUR NORÐURSINS RÆÐST INN Í „LANDIÐ FAGRA“

7. Hvað er „landið fagra“?

7 Í Daníel 11:41 segir að konungur norðursins muni ráðast inn í „landið fagra“. Hvaða land er það? Til forna var Ísraelsland talið ,bera af öllum löndum‘. (Esek. 20:6) Það var einstaklega dýrmætt vegna þess að þar var sönn tilbeiðsla stunduð. Frá hvítasunnu árið 33 hefur þetta „land“ ekki verið neitt ákveðið land á jörðinni, enda getur það ekki verið því að þjónar Jehóva eru dreifðir um allan heim. „Landið fagra“ nú á dögum er starfsvettvangur þjóna Jehóva, sem felur í sér tilbeiðslu þeirra á Jehóva á samkomum og í boðuninni.

8. Hvernig hefur konungur norðursins ráðist inn í „landið fagra“?

8 Á hinum síðustu dögum hefur konungur norðursins ítrekað ráðist inn í „landið fagra“. Hann réðst til að mynda inn í það þegar Þýskaland undir stjórn nasista var konungur norðursins með því að ofsækja og drepa þjóna Guðs, sérstaklega í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir síðari heimsstyrjöldina þegar Sovétríkin voru konungur norðursins réðst hann inn í „landið fagra“ með því að ofsækja þjóna Guðs og senda þá í útlegð.

9. Hvernig hafa Rússland og bandamenn þess ráðist inn í „landið fagra“ á undanförnum árum?

9 Á undanförnum árum hafa Rússland og bandamenn þess einnig ráðist inn í „landið fagra“. Hvernig? Árið 2017 bannaði núverandi konungur norðursins starfsemi þjóna Jehóva og fangelsaði suma af bræðrum okkar og systrum. Hann bannaði einnig ritin okkar, þar á meðal Nýheimsþýðingu Biblíunnar. Auk þess gerði hann deildarskrifstofu okkar í Rússlandi upptæka sem og ríkissali og mótshallir. Árið 2018, eftir þessar aðgerðir, tilkynnti hið stjórnandi ráð að Rússland og bandamenn þess væru konungur norðursins. En jafnvel þó að þjónar Jehóva séu ofsóttir grimmilega reyna þeir ekki með nokkru móti að grafa undan stjórnum manna eða breyta þeim. Þeir fylgja heldur því ráði Biblíunnar að biðja fyrir „öllum sem eru háttsettir“, ekki síst þegar slíkir ráðamenn taka ákvarðanir sem geta haft áhrif á frelsi til að tilbiðja Jehóva. – 1. Tím. 2:1, 2.

MUN KONUNGUR NORURSINS SIGRA KONUNG SUÐURSINS?

10. Mun konungur norðursins sigra konung suðursins? Skýrðu svarið.

10 Spádómurinn í Daníel 11:40–45 beinir athyglinni fyrst og fremst að konungi norðursins. Þýðir það að hann muni sigra konung suðursins? Nei. Konungur suðursins verður enn þá „lifandi“ þegar Jehóva og Jesús eyða öllum mannlegum stjórnum í Harmagedónstríðinu. (Opinb. 19:20) Hvers vegna getum við verið viss um það? Skoðum hvað spádómar Daníelsbókar og Opinberunarbókarinnar gefa til kynna.

Í Harmagedónstríðinu mun ríki Guðs, sem er líkt við stein, binda enda á stjórnir manna sem þetta stóra líkneski stendur fyrir. (Sjá 11. grein.)

11. Hvað gefur Daníel 2:43–45 til kynna? (Sjá mynd á forsíðu.)

11 Lestu Daníel 2:43–45Daníel spámaður lýsir röð mannlegra stjórna sem hafa haft áhrif á þjóna Guðs. Þeim er lýst sem hlutum af risastóru líkneski úr mismunandi málmum. Síðustu stjórninni er lýst sem fótum líkneskisins, en þeir eru úr járni og leir. Fæturnir tákna ensk-ameríska heimsveldið. Spádómurinn gefur til kynna að ensk-ameríska heimsveldið verði enn við lýði þegar ríki Guðs eyðir stjórnum manna.

12. Hvað táknar sjöunda höfuð villidýrsins og hvers vegna er mikilvægt að vita það?

12 Jóhannes postuli lýsir einnig röð heimsvelda sem hafa haft áhrif á þjóna Jehóva. Jóhannes lýsir þessum stjórnum sem villidýri með sjö höfuð. Sjöunda höfuðið táknar ensk-ameríska heimsveldið. Það er mikilvægt að vita þetta vegna þess að það eru ekki fleiri höfuð á villidýrinu. Sjöunda höfuðið verður enn við lýði þegar Kristur og himneskar hersveitir hans eyða því ásamt villidýrinu í heild. * – Opinb. 13:1, 2; 17:13, 14.

HVAÐ GERIR KONUNGUR NORÐURSINS Í NÁINNI FRAMTÍÐ?

13, 14. Hver er „Góg í landinu Magóg“ og hvað kann að espa hann upp í að ráðast á þjóna Guðs?

13 Spádómur sem Esekíel skráði gefur nokkra innsýn í hvað getur gerst á síðustu dögum konungs norðursins og konungs suðursins. Það virðist sem spádómarnir í Esekíel 38:10–23; Daníel 2:43–45; 11:44–12:1 og Opinberunarbókinni 16:13–16, 21 fjalli um sömu atburði og tíma. Ef það er rétt má reikna með eftirfarandi framvindu mála.

14 Einhvern tíma eftir að þrengingin mikla hefst mynda ,konungar allrar heimsbyggðarinnar‘ bandalag þjóða. (Opinb. 16:13, 14; 19:19) Biblían kallar þetta bandalag „Góg í landinu Magóg“. (Esek. 38:2) Það gerir allsherjarárás á þjóna Guðs til að reyna að tortíma þeim endanlega. Hver verður kveikjan að árásinni? Jóhannes postuli talaði um þennan tíma. Hann sá óvenjustór högl dynja á óvinum Guðs. Þessi táknræna haglhríð stendur hugsanlega fyrir harðan dómsboðskap sem þjónar Jehóva boða. Þessi boðskapur kann að vera það sem espar Góg í Magóg upp í að ráðast á þjóna Guðs til að tortíma þeim öllum. – Opinb. 16:21.

15, 16. (a) Í hvaða atburði vísar Daníel 11:44, 45 hugsanlega? (b) Hvernig fer fyrir konungi norðursins og öðrum sem eru hluti af Góg í Magóg?

15 Þessi harði boðskapur og lokaárás óvina Guðs vísar hugsanlega í sömu atburði og talað er um í Daníel 11:44, 45. (Lestu.) Daníel segir að „fréttir að austan og norðan“ komi konungi norðursins úr jafnvægi og að hann leggi af stað „í mikilli bræði“. Konungur norðursins ætlar sér að „eyða og tortíma mörgum“. Þessir ,mörgu‘ virðast vera þjónar Jehóva. * Ef til vill er Daníel þarna að lýsa allsherjarárásinni á þjóna Guðs.

16 Þessi árás konungs norðursins og annarra þjóða heims vekur mikla reiði hjá hinum almáttuga og hrindir af stað Harmagedónstríðinu. (Opinb. 16:14, 16) Þá verður konungi norðursins og öðrum þjóðum sem eru hluti af Góg í Magóg tortímt og „enginn verður til hjálpar“. – Dan. 11:45.

Jesús Kristur og himneskar hersveitir hans tortíma illum heimi Satans og bjarga þjónum Guðs í Harmagedónstríðinu. (Sjá 17. grein.)

17. Hver er Míkael „leiðtoginn mikli“ sem talað er um í Daníel 12:1 og hvað gerir hann?

17 Strax í næsta versi í Daníelsbók eru nánari upplýsingar um hvernig konungi norðursins og bandamönnum hans verður tortímt og hvernig okkur verður bjargað. (Lestu Daníel 12:1.) Hvað þýðir þetta vers? Míkael er annað nafn á ríkjandi konungi okkar, Jesú Kristi. Hann hefur verndað þjóna Guðs frá því að Guðsríki var stofnsett á himnum árið 1914. Í náinni framtíð eyðir hann óvinum sínum í Harmagedónstríðinu. Þetta er það síðasta sem gerist á tímabilinu sem Daníel kallar mestu ,hörmungatíma‘ sögunnar. Spádómur Jóhannesar í Opinberunarbókinni kallar þetta tímabil ,þrenginguna miklu‘. – Opinb. 6:2; 7:14.

MUN NAFN ÞITT STANDA ,SKRÁÐ Í BÓKINNI‘?

18. Hvers vegna getum við horft örugg til framtíðarinnar?

18 Við getum horft örugg til framtíðarinnar vegna þess að bæði Daníel og Jóhannes staðfesta að þeir sem þjóna Jehóva og Jesú muni lifa af þessa mestu hörmungatíma sögunnar. Daníel segir að þeir sem lifa af hafi nafn sitt ,skráð í bókinni‘. (Dan. 12:1) Hvernig getum við fengið nafn okkar skráð í þessa bók? Við verðum að gefa skýrt merki um að við trúum á Jesú sem er lamb Guðs. (Jóh. 1:29) Við verðum að láta skírast til tákns um að við séum vígð Guði. (1. Pét. 3:21) Og við verðum að sýna að við styðjum Guðsríki með því að leggja okkur fram við að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva.

19. Hvað ættum við að gera núna og hvers vegna?

19 Núna er rétti tíminn til að styrkja traust okkar til Jehóva og safnaðar hans sem samanstendur af trúföstum þjónum hans. Núna er rétti tíminn til að styðja ríki Guðs. Ef við gerum það verður okkur bjargað þegar Guðsríki tortímir konungi norðursins og konungi suðursins.

SÖNGUR 149 Sigursöngur

^ gr. 5 Hver er „konungur norðursins“ núna og hvernig mun hann mæta örlögum sínum? Að vita það getur styrkt trú okkar og búið okkur undir erfiðleika nánustu framtíðar.

^ gr. 15 Frekari upplýsingar er að finna í Varðturninum 15. maí 2015, bls. 29–30.