Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 23

„Við biðjum að nafn þitt helgist“

„Við biðjum að nafn þitt helgist“

„Jehóva, nafn þitt varir að eilífu.“ – SÁLM. 135:13, NW.

SÖNGUR 10 Lofum Jehóva

YFIRLIT *

1, 2. Hvað tvennt skiptir votta Jehóva miklu máli?

MJÖG mikilvæg mál blasa við okkur – það þarf að sýna fram á að Jehóva sé réttmætur drottinn alheims og helga nafn hans. Við sem erum vottar Jehóva höfum yndi af því að ræða þessi hrífandi mál. En erum við að ræða um tvennt ólíkt þegar við tölum um drottinvald Jehóva og það að helga nafn hans? Nei.

2 Við vitum öll að það þarf að hreinsa nafn Guðs af röngum sakargiftum. Við skiljum líka að sýna þarf fram á að Jehóva sé réttmætur drottinn alheims og stjórnarfar hans það besta sem völ er á. Hvort tveggja er afar mikilvægt.

3. Hvað endurspeglar nafnið Jehóva?

3 Sannleikurinn er sá að nafnið Jehóva endurspeglar allt sem varðar Guð okkar, þar á meðal stjórnarfar hans. Ef við segjum að ekkert sé mikilvægara en að hreinsa nafn Jehóva af röngum sakargiftum erum við líka að segja að það þurfi að sanna að stjórnarfar hans sé það besta sem völ er á. Nafn Jehóva er nátengt því hvernig hann stjórnar sem almáttugur drottinn alheims. – Sjá rammann „ Þættir í miklu deilumáli“.

4. Hvernig er nafni Guðs lýst í Sálmi 135:13 og hvaða spurningum leitum við svara við í þessari grein?

4 Nafnið Jehóva er einstakt. (Lestu Sálm 135:13.) Hvers vegna er nafn Guðs svona mikilvægt? Hvernig var fyrst kastað rýrð á það? Hvernig helgar Guð nafn sitt? Og hvernig getum við átt þátt í að verja það? Lítum nánar á málið.

NAFN SKIPTIR MÁLI

5. Hvaða spurningar gætu vaknað þegar talað er um að helga nafn Guðs?

5 „Við biðjum að nafn þitt helgist.“ (Matt. 6:9) Jesús sagði að þetta væri eitt það mikilvægasta sem hægt væri að biðja um. En hvað merkir það? Að helga eitthvað merkir að gera það heilagt og hreint. En sumum er kannski spurn hvort nafn Jehóva sé ekki nú þegar heilagt og hreint. Til að svara því þurfum við að skoða hvaða þýðingu nafn hefur.

6. Af hverju skiptir nafn miklu máli?

6 Nafn er annað og meira en stafaruna sem við sjáum á blaði eða segjum upphátt. Í Biblíunni segir: „Gott mannorð [„nafn“, NW] er dýrmætara en mikill auður.“ (Orðskv. 22:1; Préd. 7:1) Af hverju skiptir nafn svona miklu máli? Af því að það tengist mannorði, því hvernig aðrir hugsa um þann sem ber nafnið. Málið snýst ekki um það hvernig nafn er skrifað eða jafnvel borið fram heldur er aðalatriðið hvað menn sjá fyrir sér þegar þeir sjá eða heyra nafnið.

7. Hvernig hafa menn kastað rýrð á nafn Guðs?

7 Þegar fólk fer með lygar um Jehóva gerir það atlögu að mannorði hans. Með því að gera atlögu að mannorði hans er það að reyna að kasta rýrð á nafn hans. Fyrsta atlagan að nafni Guðs og mannorði var gerð við upphaf mannkynssögunnar. Hvað lærum við af frásögu Biblíunnar af þessum atburði?

HVERNIG VAR FYRST KASTAÐ RÝRÐ Á NAFNIÐ?

8. Hvað vissu Adam og Eva og hvaða spurningar vakna?

8 Adam og Eva vissu að Guð hét Jehóva og þau þekktu ýmis mikilvæg sannindi um hann. Þau vissu að hann var skaparinn sem hafði gefið þeim lífið, paradísina sem var heimili þeirra og fullkominn maka. (1. Mós. 1:26–28; 2:18) En myndu þau hugleiða allt það góða sem Jehóva hafði gert fyrir þau? Myndu þau styrkja kærleikann og þakklætið til hans sem bar nafnið Jehóva? Því var svarað þegar óvinur Guðs lagði prófraun fyrir þau.

9. Hvað sagði Jehóva fyrstu hjónunum samkvæmt 1. Mósebók 2:16, 17 og 3:1–5 og hvernig rangsneri Satan sannleikanum?

9 Lestu 1. Mósebók 2:16, 17 og 3:1–5Satan notaði höggorm sem málpípu og spurði Evu: „Er það satt að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?“ Spurningin fól í sér dulbúna lygi sem eitraði huga Evu. Guð hafði sagt að þau hjónin mættu borða ávexti allra trjáa í garðinum með einni undantekningu. Fjölbreytnin sem stóð þeim til boða hlýtur að hafa verið gríðarleg. (1. Mós. 2:9) Jehóva er örlátur Guð. Hann hafði hins vegar bannað Adam og Evu að borða ávöxtinn af einu ákveðnu tré. Með spurningu sinni rangsneri Satan sannleikanum. Hann ýjaði að því að Guð væri ekki örlátur. Eva velti kannski fyrir sér hvort Guð meinaði henni um eitthvað gott.

10. Hvernig rægði Satan Jehóva umbúðalaust og hvaða afleiðingar hafði það?

10 Eva hlýddi Jehóva enn sem komið var. Hún svaraði Satan með því að endurtaka skýr fyrirmæli Jehóva og bætti við að þau Adam mættu ekki einu sinni snerta tréð. Hún vissi að Guð hafði varað þau við að þau myndu deyja ef þau óhlýðnuðust. En Satan svaraði: „Sannið til, þið munuð ekki deyja.“ (1. Mós. 3:2–4) Satan fór ekkert kringum hlutina lengur heldur rægði Jehóva umbúðalaust. Hann sagði Evu beinlínis að Jehóva væri lygari. Þannig gerði hann sig að djöfli, það er að segja rógbera. Eva lét algerlega blekkjast og trúði Satan. (1. Tím. 2:14) Hún treysti honum betur en Jehóva og það varð til þess að hún tók verstu ákvörðun sem hugsast gat. Hún ákvað að óhlýðnast Jehóva og fór að borða ávöxtinn sem Jehóva hafði bannað henni að borða. Síðan gaf hún Adam ávöxt. – 1. Mós. 3:6.

11. Hvernig hefðu foreldrar mannkyns getað brugðist við lygi Satans, en hvað gerðu þeir?

11 Veltu fyrir þér eitt andartak hvernig Eva hefði átt að svara Satan. Hugsaðu þér að hún hefði sagt eitthvað þessu líkt: „Ég veit ekki hver þú ert en ég þekki Jehóva föður minn og ég elska hann og treysti honum. Hann hefur gefið okkur Adam allt sem við höfum. Hvernig vogarðu þér að tala illa um hann? Hypjaðu þig!“ Það hefði glatt Jehóva ákaflega að heyra trygga og kærleiksríka dóttur sína segja þetta. (Orðskv. 27:11) En Eva elskaði ekki Jehóva nógu heitt og hið sama er að segja um Adam. Fyrir vikið brugðust þau föður sínum í stað þess að verja nafn hans fyrir rógburði Satans.

12. Hvernig sáði Satan efasemdum í huga Evu og hvað gerðu Adam og Eva ekki?

12 Eins og fram hefur komið byrjaði Satan á því að sá efasemdum í huga Evu. Hún var ekki lengur viss um að sá sem bar nafnið Jehóva væri góður faðir. Þau Adam og Eva vörðu ekki nafn og mannorð Jehóva. Þar með voru þau berskjölduð þegar Satan lagði til að þau gerðu uppreisn gegn föður sínum. Satan beitir svipuðum brögðum nú á dögum. Hann gerir atlögu að nafni Jehóva með því að rægja það. Ef menn trúa lygum Satans er auðvelt fyrir hann að fá þá til að hafna réttlátri stjórn Jehóva.

JEHÓVA HELGAR NAFN SITT

13. Hvernig er kjarninn í boðskap Biblíunnar dreginn saman í Esekíel 36:23?

13 Lætur Jehóva slíkan róg yfir sig ganga? Nei. Hann hefur gert ráðstafanir til að hreinsa nafn sitt af þeim óhróðri sem var borinn á það í Eden. Það er rauði þráðurinn í Biblíunni. (1. Mós. 3:15) Við getum orðað það þannig að kjarninn í boðskap Biblíunnar sé þessi: Jehóva helgar nafn sitt fyrir atbeina ríkis síns í höndum sonar síns og kemur aftur á friði og réttlæti á jörð. Biblían varpar ljósi á hvernig Jehóva kemur því til leiðar að nafn hans helgist. – Lestu Esekíel 36:23.

14. Hvernig hafa viðbrögð Jehóva við uppreisninni í Eden helgað nafn hans?

14 Satan hefur gert sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir að vilji Jehóva nái fram að ganga. En honum hefur mistekist æ ofan í æ. Af Biblíunni má sjá hvernig Jehóva hefur látið til sín taka og það sannar að enginn jafnast á við hann. Uppreisn Satans og allra sem standa með honum hefur vissulega valdið Jehóva miklum sársauka. (Sálm. 78:40, Biblían 1981) Hann hefur þó brugðist við árásum Satans með visku, þolinmæði og réttlæti. Hann hefur einnig sýnt á ótal vegu að hann er almáttugur. Síðast en ekki síst endurspeglast kærleikur hans í öllu sem hann gerir. (1. Jóh. 4:8) Jehóva hefur unnið þrotlaust að því að helga nafn sitt.

Satan laug að Evu og hefur haldið áfram að rægja Jehóva allar götur síðan. (Sjá 9., 10. og 15. grein.) *

15. Hvernig kastar Satan rýrð á Jehóva nú á tímum og hvaða afleiðingar hefur það?

15 Satan heldur áfram að kasta rýrð á nafn Jehóva. Hann fær fólk til að efast um að Jehóva sé máttugur, réttlátur, vitur og kærleiksríkur. Hann reynir til dæmis að telja fólki trú um að Jehóva sé ekki skapari alheims. Ef fólk trúir á annað borð að Guð sé til reynir Satan að telja því trú um að lífsreglur hans séu strangar og ósanngjarnar. Hann kennir fólki jafnvel að Jehóva sé harðbrjósta og grimmur Guð sem kvelji fólk í logum helvítis. Ef fólk trúir þessum rógi aukast líkurnar á að það stígi næsta skref – að hafna réttlátri stjórn hans. Satan hættir ekki rógsherferð sinni fyrr en hann er gersigraður. Hann reynir líka að vinna þig á sitt band. Tekst honum það?

HLUTVERK ÞITT Í DEILUMÁLINU MIKLA

16. Hvað getur þú gert sem Adam og Evu mistókst?

16 Jehóva leyfir ófullkomnum mönnum að eiga þátt í að helga nafn hans. Þú getur gert það sem Adam og Evu mistókst. Heimurinn sem þú býrð í er fullur af fólki sem rægir Jehóva og lastar nafn hans en þú hefur tækifæri til að verja Jehóva og segja fólki að hann sé heilagur, réttlátur, góður og kærleiksríkur. (Jes. 29:23) Þú getur stutt stjórn hans. Þú getur bent á að hún sé eina stjórnin sem er réttlát og að hún ein geti fært öllu sköpunarverkinu hamingju og frið. – Sálm. 37:9, 37; 146:5, 6, 10.

17. Hvernig kunngerði Jesús nafn föður síns?

17 Við líkjum eftir Jesú Kristi þegar við verjum nafn Jehóva. (Jóh. 17:26) Jesús kunngerði nafn föður síns bæði með því að nota það og verja mannorð hans. Farísearnir drógu upp þá mynd af Jehóva að hann væri harðneskjulegur, kröfuharður, fjarlægur og miskunnarlaus. Jesús andmælti því. Hann sýndi fólki fram á að Jehóva væri sanngjarn, þolinmóður, kærleiksríkur og fús til að fyrirgefa. Hann hjálpaði fólki að kynnast honum með því að endurspegla eiginleika hans fullkomlega dag frá degi. – Jóh. 14:9.

18. Hvernig getum við hrakið lygar og róg um Jehóva?

18 Líkt og Jesús getum við sagt fólki frá því sem við vitum um Jehóva og kennt hve kærleiksríkur og góður Guð hann er. Með því að gera það hrekjum við lygar og róg um hann. Við helgum nafn Jehóva með því að sýna fólki fram á að það sé heilagt. Við getum einnig líkt eftir Jehóva, jafnvel þó að við séum ófullkomin. (Ef. 5:1, 2) Þegar við sýnum með orðum okkar og verkum hvernig Jehóva er í raun og veru eigum við þátt í að helga nafn hans. Við hreinsum nafn Jehóva af ósönnum ákærum þegar við hjálpum fólki að losa sig við ranghugmyndir um hann. * Við sýnum líka fram á að ófullkomnir menn geta verið trúir Guði. – Job. 27:5, NW.

Við viljum sýna biblíunemendum okkar fram á að Jehóva sé góður og kærleiksríkur. (Sjá 18. og 19. grein.) *

19. Hvert á að vera meginmarkmið okkar þegar við kennum fólki, samanber Jesaja 63:7?

19 Lítum á annað sem við getum gert til að helga nafn Jehóva. Þegar við kennum fólki sannleika Biblíunnar leggjum við oft áherslu á drottinvald Jehóva, að hann sé réttmætur drottinn alheims, og það er fullkomlega rétt. En þó að það sé mikilvægt að beina athygli nemenda okkar að lögum Guðs er meginmarkmið okkar að þeir læri að elska Jehóva föður okkar og vera honum trúir. Þess vegna þurfum við að leggja áherslu á aðlaðandi eiginleika Jehóva og draga fram hvernig persóna það er sem ber nafnið Jehóva. (Lestu Jesaja 63:7.) Þegar við kennum með þeim hætti læra nemendur okkar að elska Jehóva og hlýða honum af því að þá langar til að vera honum trúir.

20. Um hvað er rætt í næstu grein?

20 Hvernig getum við fullvissað okkur um að hegðun okkar og kennsla gefi rétta mynd af nafni Jehóva og laði fólk að honum? Því er svarað í næstu grein.

SÖNGUR 2 Þú heitir Jehóva

^ gr. 5 Hvaða mikilvæga mál blasir við englum og mönnum? Hvers vegna er þetta svona mikilvægt mál og hvaða þátt eigum við í að útkljá það? Við styrkjum sambandið við Jehóva ef við vitum svörin við þessum spurningum og öðrum sem tengjast þessu máli.

^ gr. 18 Í ritum okkar hefur stundum komið fram að það þurfi ekki að réttlæta nafn Jehóva vegna þess að enginn hafi véfengt rétt hans til að bera nafnið. Á ársfundinum 2017 var varpað skýrara ljósi á þetta mál. Fundarstjórinn sagði: „Það er ekki rangt að biðja þess að nafn Jehóva réttlætist því að það þarf að hreinsa mannorð hans.“ – Sjá mánaðarþáttinn í janúar 2018 á jw.org®. Veldu BÓKASAFN > SJÓNVARP VOTTA JEHÓVA.

^ gr. 62 MYND: Satan rægði Guð og sagði Evu að Guð væri lygari. Í aldanna rás hefur hann haldið á lofti röngum hugmyndum eins og þeirri að Guð sé grimmur og hafi ekki skapað mennina.

^ gr. 64 MYND: Bróðir leggur áherslu á eiginleika Guðs þegar hann kennir biblíunemanda.