Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sjálfstjórn – mikilvæg til að hljóta velþóknun Jehóva

Sjálfstjórn – mikilvæg til að hljóta velþóknun Jehóva

„Þegar frændi minn fór að rífast við mig tók ég hann hálstaki og herti takið. Ég vildi drepa hann.“ – Paul.

„Heima við missti ég mig af minnsta tilefni. Ég eyðilagði húsgögn, leikföng, hvað sem ég komst yfir.“ – Marco.

Fæst okkar ganga svona langt. En það kemur fyrir okkur öll að við eigum erfitt með að stjórna skapinu. Það er aðallega vegna þess að við erfðum ófullkomnar tilhneigingar frá fyrsta manninum, Adam. (Rómv. 5:12) Rétt eins og Paul og Marco eiga sumir erfitt með að stjórna skapi sínu. Aðrir eiga erfitt með að hafa stjórn á hugsunum sínum. Þeir hugsa stöðugt um það sem þeir óttast og berjast oft við neikvæðar hugsanir. Enn aðrir gætu átt erfitt með að standast freistinguna til að drýgja kynferðislegt siðleysi eða til að misnota áfengi eða lyf.

Þeir sem reyna ekki að hafa stjórn á hugsunum sínum, löngunum og verkum geta eyðilagt líf sitt. En það er hægt að komast hjá því. Hvernig? Með því að tileinka sér sjálfstjórn. Það getur verið gagnlegt að skoða svörin við þessum þrem spurningum: (1) Hvað er sjálfstjórn? (2) Hvers vegna er hún nauðsynleg? (3) Hvernig getum við þroskað með okkur þennan eiginleika sem er hluti af ,ávexti andans‘? (Gal. 5:22, 23) Skoðum síðan hvað við getum gert þegar okkur tekst ekki að sýna sjálfstjórn.

HVAÐ ER SJÁLFSTJÓRN?

Sá sem sýnir sjálfstjórn lætur ekki undan hverri skyndihvöt. Hann talar hvorki né hegðar sér þannig að það sé Guði vanþóknanlegt.

Jesús sýndi sannarlega sjálfstjórn.

Jesús sýndi hvað sjálfstjórn felur í sér. Í Biblíunni segir: „Hann svaraði ekki með fúkyrðum þegar hann var smánaður. Hann hótaði ekki þegar hann þjáðist heldur fól sjálfan sig á hendur honum sem dæmir með réttlæti.“ (1. Pét. 2:23) Hann sýndi slíka sjálfstjórn þegar andstæðingar hans hæddust að honum meðan hann var á kvalastaurnum. (Matt. 27:39–44) Hann hafði líka sýnt einstaka stillingu þegar fjandsamir trúarleiðtogar reyndu að hanka hann á orðum hans. (Matt. 22:15–22) Og hvílíkt fordæmi sem hann setti þegar reiðir Gyðingar tóku upp steina til að grýta hann! Í stað þess að svara í sömu mynt „faldi [Jesús] sig og yfirgaf musterið“. – Jóh. 8:57–59.

Getum við líkt eftir fordæmi Jesú? Já, að vissu leyti. Pétur postuli skrifaði: „Kristur þjáðist fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til að þið skylduð feta náið í fótspor hans.“ (1. Pét. 2:21) Við getum líkt náið eftir sjálfstjórn Jesú þó að við séum ófullkomin. Hvers vegna er mikilvægt að við gerum það?

HVERS VEGNA ER NAUÐSYNLEGT AÐ SÝNA SJÁLFSTJÓRN?

Við verðum að sýna sjálfstjórn til að Jehóva hafi velþóknun á okkur. Við gætum glatað vináttunni við hann ef við höfum ekki taumhald á tali okkar og hegðun, jafnvel þótt við höfum þjónað honum trúfastlega í langan tíma.

Tökum Móse sem dæmi, en hann var „hógværari en nokkur annar á jörðinni“. (4. Mós. 12:3) Áratugum saman hafði hann hlustað á Ísraelsmenn kvarta. En einn daginn missti hann stjórn á skapi sínu. Hann reiddist þegar þeir kvörtuðu yfir vatnsskorti enn eina ferðina. Hann talaði hranalega til þeirra þegar hann sagði: „Hlýðið nú á, þverúðugu menn. Getum við látið vatn renna úr þessum kletti handa ykkur?“ – 4. Mós. 20:2–11.

Móse hafði ekki stjórn á sjálfum sér. Hann gaf ekki Jehóva heiðurinn af kraftaverkinu þegar fólkið fékk vatn. (Sálm. 106:32, 33) Fyrir vikið leyfði Jehóva honum ekki að ganga inn í fyrirheitna landið. (4. Mós. 20:12) Móse hefur líklega iðrast þess það sem eftir var ævinnar að hafa misst stjórn á skapi sínu. – 5. Mós. 3:23–27.

Hvaða lærdóm getum við dregið af þessu? Þótt við höfum verið lengi í sannleikanum ættum við aldrei að tala af vanvirðingu við þá sem fara í taugarnar á okkur eða þurfa á leiðréttingu að halda. (Ef. 4:32; Kól. 3:12) Eftir því sem við eldumst gætum við að vísu átt erfiðara með að sýna þolinmæði. En munum eftir Móse. Við myndum aldrei vilja setja blett á áralanga þjónustu okkar vegna augnabliksskorts á sjálfstjórn. Hvað getum við gert til að þroska með okkur þennan mikilvæga eiginleika?

HVERNIG GETUM VIÐ ÞROSKAÐ MEÐ OKKUR SJÁLFSTJÓRN?

Biddu um heilagan anda. Hvers vegna? Vegna þess að sjálfstjórn er hluti af ávexti anda Guðs. Og Jehóva gefur þeim heilagan anda sem biðja um hann. (Lúk. 11:13) Með anda sínum getur Jehóva gefið okkur þann kraft sem við þurfum. (Fil. 4:13) Hann getur líka hjálpað okkur að tileinka okkur aðra eiginleika sem eru hluti af ávexti andans, eins og kærleika en hann auðveldar okkur að sýna sjálfstjórn. – 1. Kor. 13:5.

Forðastu hvaðeina sem gæti gert þér erfitt fyrir að sýna sjálfstjórn.

Forðastu hvaðeina sem gæti gert þér erfitt fyrir að sýna sjálfstjórn. Haltu þig til dæmis frá vefsíðum og afþreyingarefni sem inniheldur ranga hegðun. (Ef. 5:3, 4) Við verðum reyndar að forðast allt sem gæti freistað okkar til að gera rangt. (Orðskv. 22:3; 1. Kor. 6:12) Ef einhver finnur að kynferðislegur óhreinleiki freistar sín gæti hann þurft að sneiða alfarið hjá rómantískum bókum og kvikmyndum.

Okkur gæti fundist erfitt að fylgja þessum leiðbeiningum. En ef við leggjum okkur fram gefur Jehóva okkur þann kraft sem við þurfum á að halda. (2. Pét. 1:5–8) Hann hjálpar okkur að hafa stjórn á hugsunum okkar, tali og hegðun. Paul og Marco, sem áður var minnst á, eru skýrt dæmi um það en þeir lærðu báðir að hafa stjórn á skapi sínu. Tökum annan bróður sem dæmi. Hann missti oft stjórn á sér í umferðinni og lenti jafnvel í útistöðum við aðra. Hvað gerði hann í málinu? „Ég leitaði til Jehóva í innilegri bæn á hverjum degi. Ég las greinar um sjálfstjórn og lagði á minnið biblíuvers sem gætu hjálpað mér. Þó að ég hafi unnið í þessu í mörg ár finnst mér enn þá gott að byrja hvern dag á því að minna mig á að halda ró minni. Og ég reyni að vera snemma á ferðinni til að komast hjá því að lenda í tímapressu.“

ÞEGAR OKKUR TEKST EKKI AÐ SÝNA SJÁLFSTJÓRN

Stundum tekst okkur ekki að sýna sjálfstjórn. Þegar það gerist gætum við skammast okkar svo mikið að við hikum við að leita til Jehóva í bæn. En það er þá sem við þurfum mest á bæninni að halda. Leitaðu þess vegna strax til Jehóva. Biddu hann um fyrirgefningu og hjálp, og vertu staðráðinn í að gera ekki sömu mistök aftur. (Sálm. 51:11–13) Jehóva hafnar ekki einlægri beiðni þinni um miskunn. (Sálm. 102:18) Blóð sonar hans „hreinsar okkur af allri synd,“ minnir Jóhannes postuli okkur á. (1. Jóh. 1:7; 2:1; Sálm. 86:5) Munum að Jehóva segir þjónum sínum að fyrirgefa öðrum aftur og aftur. Við megum því vera viss um að hann gerir það sama fyrir okkur. – Matt. 18:21, 22; Kól. 3:13.

Jehóva var misboðið þegar Móse missti um stund stjórn á skapi sínu í eyðimörkinni. En hann fyrirgaf honum. Og orð Guðs segir að Móse sé okkur fyrirmynd til eftirbreytni vegna einstakrar trúar sinnar. (5. Mós. 34:10; Hebr. 11:24–28) Jehóva leyfði Móse ekki að ganga inn í fyrirheitna landið en hann hlakkar til að reisa hann upp til eilífs lífs í paradís á jörð. Við getum átt sömu von ef við leggjum okkur í líma við að þroska með okkur þann mikilvæga eiginleika sem sjálfstjórn er. – 1. Kor. 9:25.