Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 31

Væntir þú „þeirrar borgar sem hefur traustan grunn“?

Væntir þú „þeirrar borgar sem hefur traustan grunn“?

„Hann vænti þeirrar borgar sem hefur traustan grunn, þeirrar sem Guð hannaði og byggði.“ – HEBR. 11:10.

SÖNGUR 22 Ríki Guðs er stofnsett – komi það!

YFIRLIT *

1. Hvaða fórnir hafa margir fært og hvers vegna?

MILLJÓNIR þjóna Guðs nú á dögum hafa fært fórnir. Margir hafa valið að vera einhleypir. Hjón hafa frestað barneignum. Margar fjölskyldur hafa kosið að lifa einföldu lífi. Öll hafa þau tekið þessar ákvarðanir af sömu ástæðu – til að geta gert sem mest í þjónustunni við Jehóva. Þau eru ánægð og treysta því að Jehóva sjái þeim fyrir öllu sem þau þurfa. Og þau verða alls ekki fyrir vonbrigðum. Hvernig getum við verið viss um það? Vegna þess að Jehóva sá þjónum sínum til forna fyrir öllu sem þeir þurftu. Hann blessaði til dæmis Abraham, ,föður allra sem trúa‘. – Rómv. 4:11.

2. (a) Hvers vegna var Abraham fús til að yfirgefa Úr, samanber Hebreabréfið 11:8–10, 16? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

2 Abraham yfirgaf fúslega þægilegt líf í borginni Úr. Hvers vegna? Vegna þess að hann vænti „þeirrar borgar sem hefur traustan grunn“. (Lestu Hebreabréfið 11:8–10, 16.) Hver er þessi „borg“? Hvaða erfiðleika þurfti Abraham að takast á við meðan hann beið þess að hún yrði byggð? Og hvernig getum við líkt eftir Abraham og þeim sem fylgja fordæmi hans nú á dögum?

HVER ER ,BORGIN SEM HEFUR TRAUSTAN GRUNN‘?

3. Hvaða „borgar“ vænti Abraham?

3 Borgin sem Abraham vænti er ríki Guðs. Jesús Kristur og 144.000 andasmurðir þjónar Guðs mynda ríkið. Páll vísaði til þessa ríkis sem „borgar hins lifandi Guðs, hinnar himnesku Jerúsalem“. (Hebr. 12:22; Opinb. 5:8–10; 14:1) Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja um að þetta ríki kæmi og að vilji Guðs yrði gerður á jörð eins og á himni. – Matt. 6:10.

4. Hvað vissi Abraham um borgina, eða ríkið, sem Guð hafði lofað, samanber 1. Mósebók 17:1, 2, 6?

4 Vissi Abraham í smáatriðum hvernig ríki Guðs yrði? Nei. Í aldaraðir var það ,heilagur leyndardómur‘. (Ef. 1:8–10; Kól. 1:26, 27) En hann vissi að einhverjir afkomendur sínir yrðu konungar vegna þess að Jehóva hafði lofað honum því. (Lestu 1. Mósebók 17:1, 2, 6.) Abraham hafði svo sterka trú á loforð Guðs að það var eins og hann sæi hinn smurða, eða Messías, sem átti eftir að verða konungur í ríki Guðs. Þess vegna gat Jesús sagt Gyðingum: „Abraham faðir ykkar hlakkaði mikið til að sjá minn dag og hann sá hann og gladdist.“ (Jóh. 8:56) Abraham vissi greinilega að afkomendur sínir ættu eftir að mynda ríki sem Jehóva stæði á bak við, og hann var fús til að bíða eftir að Jehóva efndi loforð sitt.

Hvernig sýndi Abraham að hann treysti loforðum Jehóva? (Sjá 5. grein.)

5. Hvernig vitum við að Abraham vænti „þeirrar borgar“ sem Guð hannaði?

5 Hvernig sýndi Abraham að hann vænti „þeirrar borgar“, eða þess ríkis, sem Guð hannaði? Hann lifði hirðingjalífi og valdi að setjast hvergi að til lengri tíma. Hann varð því ekki þegn neins jarðnesks ríkis eða konungs. Þar að auki reyndi hann ekki að stofna eigið ríki heldur hlýddi hann Jehóva og beið eftir að hann efndi loforð sitt. Þannig sýndi hann einstakt traust til Jehóva. Skoðum suma af þeim erfiðleikum sem Abraham þurfti að takast á við og hvað við getum lært af fordæmi hans.

HVAÐA ERFIÐLEIKA ÞURFTI ABRAHAM AÐ TAKAST Á VIÐ?

6. Hvers konar borg var Úr?

6 Borgin sem Abraham yfirgaf var örugg og þægileg og íbúar hennar efnaðir og vel menntaðir. Hún var vel varin með háum múrum og voru síki á þrjá vegu umhverfis hana. Borgarbúar voru færir í skrift og reikningi. Og borgin virðist hafa verið miðstöð viðskipta því að fornleifafræðingar hafa fundið mörg skjöl á svæðinu sem tengdust viðskiptum. Fólk bjó í múrsteinshúsum þar sem veggirnir voru fínpússaðir og hvítkalkaðir. Sum þessara húsa voru 13 eða 14 herbergja með hellulögðum garði.

7. Hvers vegna þurfti Abraham að treysta að Jehóva verndaði hann og fjölskyldu hans?

7 Abraham þurfti að treysta að Jehóva verndaði hann og fjölskyldu hans. Hvers vegna? Abraham og Sara yfirgáfu öryggið og þægindin sem fylgdu því að búa í húsi í Úr til að búa í tjöldum í sveitum Kanaanslands. Fjölskyldan naut ekki lengur verndar innan borgarmúra og síkja heldur var hún berskjölduð fyrir árásum óvina.

8. Hvað þurfti Abraham eitt sinn að takast á við?

8 Abraham gerði vilja Guðs, en eitt sinn átti hann erfitt með að brauðfæða fjölskylduna. Hann bjó við hungursneyð í landinu sem Jehóva hafði sent hann til. Hungursneyðin var svo slæm að Abraham ákvað að flytjast tímabundið til Egyptalands með fjölskyldu sína. En í Egyptalandi tók faraó, æðsti valdhafi landsins, Söru frá honum til að eiga hana fyrir konu. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig Abraham leið þangað til Jehóva fékk faraó til að skila Söru aftur til hans. – 1. Mós. 12:10–19.

9. Hvaða erfiðleikar komu upp í fjölskyldu Abrahams?

9 Þar að auki komu upp alvarleg vandamál í fjölskyldu Abrahams. Sara konan hans gat ekki átt börn. Í marga áratugi þurftu þau að sætta sig við þau vonbrigði. Á endanum gaf Sara manni sínum ambáttina Hagar til að hún gæti alið þeim barn. En þegar Hagar varð ófrísk að Ísmael fór hún að fyrirlíta Söru. Ástandið varð svo slæmt að Sara flæmdi Hagar að heiman. – 1. Mós. 16:1–6.

10. Hvaða atvik varðandi Ísmael og Ísak reyndu á traust Abrahams til Jehóva?

10 Að lokum varð Sara ófrísk og fæddi Abraham son sem hann gaf nafnið Ísak. Abraham elskaði báða syni sína. En Ísmael kom illa fram við Ísak og því neyddist Abraham til að senda Ísmael og Hagar burt. (1. Mós. 21:9–14) Síðar bað Jehóva Abraham að fórna Ísak. (1. Mós. 22:1, 2; Hebr. 11:17–19) Í báðum tilfellum þurfti Abraham að treysta að Jehóva myndi á sínum tíma efna loforð sín varðandi syni hans.

11. Hvers vegna þurfti Abraham að bíða þolinmóður eftir Jehóva?

11 Allan þennan tíma þurfti Abraham að bíða þolinmóður eftir Jehóva. Hann var líklega yfir sjötugt þegar hann og fjölskylda hans yfirgáfu Úr. (1. Mós. 11:31–12:4) Og hann bjó í tjöldum víðs vegar um Kanaansland í um hundrað ár. Abraham varð 175 ára. (1. Mós. 25:7) En hann fékk ekki að sjá Jehóva efna loforð sitt um að gefa afkomendum hans landið. Og hann lifði það ekki að sjá „borgina“, ríki Guðs, stofnsetta. Samt segir í Biblíunni að Abraham hafi dáið „gamall og saddur lífdaga“. (1. Mós. 25:8) Hann varðveitti sterka trú og beið fúslega eftir Jehóva þrátt fyrir alla erfiðleikana. Hvers vegna gat hann haldið út? Vegna þess að Jehóva verndaði hann alla ævi og leit á hann sem vin sinn. – 1. Mós. 15:1; Jes. 41:8; Jak. 2:22, 23.

Hvernig sýna þjónar Guðs trú og þolinmæði líkt og Abraham og Sara? (Sjá 12. grein.) *

12. Hverju bíðum við eftir og hvað ætlum við að skoða?

12 Rétt eins og Abraham bíðum við þeirrar borgar sem hefur traustan grunn. En við þurfum ekki að bíða eftir að hún verði byggð. Ríki Guðs var stofnsett árið 1914 og hefur nú þegar tekið við stjórn á himnum. (Opinb. 12:7–10) En við bíðum eftir að ríki Guðs taki stjórnina yfir allri jörðinni. Þangað til þurfum við að takast á við margar svipaðar aðstæður og Abraham og Sara þurftu að takast á við. Þjónar Jehóva nú á tímum hafa líkt eftir Abraham. Ævisögur í Varðturninum sýna að margir þjónar Guðs hafa sýnt trú og þolinmæði líkt og Abraham og Sara. Skoðum nokkrar þeirra og hvað við getum lært af þeim.

LÍKJUM EFTIR FORDÆMI ABRAHAMS

Bill Walden var fús til að færa fórnir og Jehóva blessaði hann.

13. Hvað getum við lært af bróður Bill Walden?

13 Verum fús til að færa fórnir. Til að geta einbeitt okkur fyrst og fremst að ríki Guðs þurfum við að líkja eftir Abraham sem var fús til að færa fórnir til að þóknast Guði. (Matt. 6:33; Mark. 10:28–30) Skoðum fordæmi bróður frá Bandaríkjunum að nafni Bill Walden. * Hann fór að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva árið 1942 þegar hann var við það að ljúka háskólanámi í byggingarverkfræði. Kennarinn hans var búinn að tryggja honum vinnu eftir útskriftina en Bill afþakkaði hana. Bill útskýrði fyrir honum að hann hefði ákveðið að þjóna Guði í ríkari mæli frekar en að fá vel launað starf. Stuttu síðar var Bill kallaður í herinn. Hann neitaði vinsamlega að gegna herþjónustu og var þar af leiðandi sektaður um 10.000 dollara og dæmdur í fimm ára fangelsi. Hann var leystur úr haldi eftir þrjú ár. Síðar var honum boðið að sækja Gíleaðskólann og hann þjónaði sem trúboði í Afríku. Bill giftist síðan Evu og þau þjónuðu saman í Afríku, en það kostaði þau ýmsar fórnir. Að lokum sneru þau aftur til Bandaríkjanna til að annast móður Bills. Hann sagði um ævi sína: „Ég fæ tár í augun þegar ég hugsa til þess stórkostlega heiðurs að Jehóva hefur getað notað mig í þjónustu sinni í meira en 70 ár. Ég þakka honum oft fyrir að hafa hjálpað mér að nota líf mitt til að þjóna honum.“ Getur þú lagt fyrir þig þjónustu í fullu starfi?

Elena og Aristoteles Apostolides fundu hvernig Jehóva styrkti þau.

14, 15. Hvað getum við lært af Aristoteles og Elenu?

14 Gerum ekki ráð fyrir að lífið verði laust við vandamál. Við lærum af sögu Abrahams að jafnvel þeir sem þjóna Jehóva alla ævi þurfa að takast á við erfiðleika. (Jak. 1:2; 1. Pét. 5:9) Aristoteles Apostolides * er dæmi um það. Hann lét skírast í Grikklandi 1946 og árið 1952 trúlofaðist hann systur að nafni Elena. Bæði höfðu þau það markmið að þjóna Jehóva af kappi. En Elena veiktist og var greind með heilaæxli. Æxlið var fjarlægt en kom aftur aðeins fáeinum árum eftir að þau giftu sig. Elena var skorin upp aftur en var eftir það lömuð að hluta og átti erfitt með tal. Hún hélt áfram að vera kappsöm í þjónustunni þrátt fyrir veikindi sín og ofsóknir yfirvalda á þeim tíma.

15 Aristoteles annaðist konu sína í 30 ár. Á þessum tíma þjónaði hann sem öldungur, var í mótsnefndum og aðstoðaði við að reisa mótshöll. Árið 1987 slasaðist Elena þegar hún var að boða trúna. Hún var í dái í þrjú ár áður en hún lést. Aristoteles segir í lok ævisögu sinnar: „Á liðnum árum hafa erfiðleikar, vandamál og ófyrirséðar aðstæður kallað á heilmikla seiglu og úthald. En Jehóva hefur alltaf gefið mér þann styrk sem ég hef þurft til að sigrast á erfiðleikunum.“ (Sálm. 94:18, 19) Jehóva elskar þá heitt sem þjóna honum eftir bestu getu þrátt fyrir erfiðleika.

Audrey Hyde gat verið jákvæð með því að einbeita sér að framtíðinni.

16. Hvaða góða ráð gaf bróðir Knorr konunni sinni?

16 Einbeitum okkur að framtíðinni. Abraham einbeitti sér að blessuninni sem Jehóva lofaði honum. Það hjálpaði honum að þola erfiðleika lífsins. Systir Audrey Hyde reyndi að hafa sama jákvæða hugarfar þó að Nathan H. Knorr, fyrri eiginmaður hennar, létist úr krabbameini og Glenn Hyde, seinni eiginmaður hennar, fengi alzheimers-sjúkdóminn. * Hún segir að það sem Knorr sagði henni nokkrum vikum áður en hann lést hafi hjálpað sér. „Nathan minnti mig á að von okkar er örugg eftir að við deyjum og að þá þurfum við aldrei aftur að þjást,“ segir hún. „Síðan hvatti hann mig og sagði: ,Einbeittu þér að framtíðinni því að þar eru launin.‘ ... Og hann bætti við: ,Vertu upptekin og reyndu að verja lífi þínu í að hjálpa öðrum. Þannig finnurðu gleði.‘“ Það er mjög gott ráð að vera upptekinn við að gera öðrum gott og að ,gleðjast í voninni‘. – Rómv. 12:12.

17. (a) Hvers vegna höfum við ríka ástæðu til að einbeita okkur að framtíðinni? (b) Hvernig hjálpar Míka 7:7 okkur að gleðjast yfir þeirri margvíslegu blessun sem bíður okkar?

17 Nú höfum við enn ríkari ástæðu en nokkru sinni fyrr til að einbeita okkur að framtíðinni. Ástand heimsins sýnir greinilega að við lifum á allra síðustu dögum þessarar heimsskipanar. Innan skamms þurfum við ekki lengur að bíða eftir að sú borg sem hefur traustan grunn taki völdin yfir allri jörðinni. Hluti af þeirri margvíslegu blessun sem við munum njóta er að fá að sjá látna ástvini okkar reista upp frá dauðum. Þá launar Jehóva Abraham trúfestina og þolinmæðina með því að reisa hann og fjölskyldu hans upp til lífs á ný hér á jörð. Munt þú upplifa þetta? Þú getur það ef þú ert fús til að færa fórnir í þágu ríkis Guðs eins og Abraham, heldur trú þinni sterkri þrátt fyrir erfiðleika og lærir að bíða þolinmóður eftir Jehóva. – Lestu Míka 7:7.

SÖNGUR 74 Takið undir sönginn um ríkið

^ gr. 5 Að bíða eftir að loforð rætist getur reynt á þolinmæðina – og stundum líka trúna. Hvernig getur fordæmi Abrahams gert okkur enn ákveðnari í að bíða þolinmóð eftir að loforð Jehóva rætist? Og hvernig eru sumir þjónar Jehóva nú á dögum okkur góð fyrirmynd?

^ gr. 14 Ævisaga bróður Aristoteles Apostolides er í Varðturninum á ensku 1. febrúar 2002, bls. 24–28.

^ gr. 56 MYND: Eldri hjón halda áfram að þjóna Jehóva trúfastlega þrátt fyrir erfiðleika. Þau halda trúnni sterkri með því að einbeita sér að framtíðarloforðum Jehóva.