Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 36

Ert þú tilbúinn til að veiða menn?

Ert þú tilbúinn til að veiða menn?

„Vertu ekki hræddur. Héðan í frá skaltu veiða menn.“ – LÚK. 5:10.

SÖNGUR 73 Veittu okkur hugrekki

YFIRLIT *

1. Hvað bauð Jesús fjórum fiskimönnum að gera og hvernig brugðust þeir við boðinu?

LÆRISVEINARNIR Pétur, Andrés, Jakob og Jóhannes unnu við fiskveiðar. Ímyndaðu þér hve hissa þeir voru þegar Jesús bauð þeim: „Komið og fylgið mér og ég skal láta ykkur veiða menn.“ * Hvernig brugðust þeir við? Í Biblíunni segir: „Þeir yfirgáfu netin samstundis og fylgdu honum.“ (Matt. 4:18–22) Sú ákvörðun breytti lífi þeirra til frambúðar. Í stað þess að veiða fisk áttu þeir að „veiða menn“. (Lúk. 5:10) Nú á dögum býður Jesús einlægu fólki sem elskar sannleikann að gera það sama. (Matt. 28:19, 20) Hefur þú þegið boð Jesú um að veiða menn?

2. Af hverju ættum við að taka alvarlega ákvörðunina um að veiða menn og hvað getur hjálpað okkur að taka þessa ákvörðun?

2 Ef til vill hefurðu kynnt þér Biblíuna um tíma og gert breytingar í lífi þínu og ert nú kominn að því að ákveða hvort þú viljir verða boðberi fagnaðarboðskaparins. Ef þú hikar við að þiggja boð Jesú skaltu ekki láta það draga úr þér kjarkinn. Þú hikar líklega vegna þess að þú gerir þér grein fyrir hve mikilvæg þessi ákvörðun er. Biblían segir að vísu að Pétur og félagar hans hafi „samstundis“ yfirgefið netin. En þeir tóku þessa ákvörðun þó ekki í fljótfærni. Þeir höfðu kynnst Jesú og tekið við honum sem Messíasi meira en hálfu ári áður. (Jóh. 1:35–42) Þú hefur sennilega líka lært margt um Jehóva og Jesú og vilt halda áfram að taka framförum í trúnni. Þú ættir samt að reikna kostnaðinn áður en þú ákveður að verða boðberi. Hvað hjálpaði Pétri, Andrési og fleirum að gera það?

3. Hvað hjálpar þér að verða skilvirkur lærisveinn Krists?

3 Fyrstu lærisveinar Jesú voru ákafir og höfðu þekkingu, hugrekki og sjálfsaga. Þessir eiginleikar nýttust þeim án efa vel við að veiða menn. Í þessari grein ræðum við hvernig þú getur þroskað með þér þessa eiginleika til að verða skilvirkur lærisveinn Krists.

EFLDU HVÖT ÞÍNA OG ÁKAFA

Pétur og fleiri lærðu að veiða menn. Þetta mikilvæga starf heldur áfram nú á dögum. (Sjá 4. og 5. grein.)

4. Hvers vegna vann Pétur við fiskveiðar?

4 Pétur hafði fiskveiðar að atvinnu til að sjá fyrir fjölskyldu sinni. En hann virðist einnig hafa haft gaman af því að veiða. (Jóh. 21:3, 9–15) Hann lærði líka að hafa gaman af því að veiða menn. Og með hjálp Jehóva varð hann mjög fær í því. – Post. 2:14, 41.

5. Hvers vegna var Pétur hræddur samkvæmt Lúkasi 5:8–11 og hvað getur hjálpað okkur að sigrast á svipuðum tilfinningum?

5 Við boðum trúna vegna þess að við elskum Jehóva – það er aðalástæðan fyrir því að við sinnum þessu starfi. Kærleikurinn til Jehóva getur hjálpað okkur að segja öðrum frá honum þó að okkur finnist við kannski ekki hæf til þess. Þegar Jesús bauð Pétri að veiða menn sagði hann við hann: „Vertu ekki hræddur.“ (Lestu Lúkas 5:8–11.) Pétur óttaðist ekki hvað gæti gerst ef hann yrði lærisveinn. Honum var öllu heldur brugðið þegar Jesús hafði gefið þeim mikinn fiskafla fyrir kraftaverk og fannst hann óverður þess að fá að starfa með Jesú. Þér gæti hins vegar fundist yfirþyrmandi að hugsa um allt sem felst í því að vera lærisveinn Krists. Ef svo er skaltu styrkja kærleika þinn til Jehóva, Jesú og náungans. Það verður þér hvatning til að þiggja boð Jesú um að veiða menn. – Matt. 22:37, 39; Jóh. 14:15.

6. Hvað annað hvetur okkur til að boða trúna?

6 Skoðum annað sem hvetur okkur til að boða trúna. Við viljum hlýða boði Jesú: „Farið því og gerið fólk ... að lærisveinum.“ (Matt. 28:19, 20) Við boðum líka trúna vegna þess að fólk er „hrjáð og hrakið“ og bráðvantar að kynnast sannleikanum um Guðsríki. (Matt. 9:36) Jehóva vill að alls konar fólk fái nákvæma þekkingu á sannleikanum og bjargist. – 1. Tím. 2:4.

7. Hvernig sýnir Rómverjabréfið 10:13–15 að boðunin er mikilvæg?

7 Að hugsa um hvernig boðun okkar getur bjargað fólki er okkur hvöt til að taka þátt í henni. Við „veiðum“ fólk til að bjarga lífi þess ólíkt fiskimönnum sem selja eða borða fiskinn sem þeir veiða. – Lestu Rómverjabréfið 10:13–15; 1. Tím. 4:16.

DÝPKAÐU ÞEKKINGU ÞÍNA

8, 9. Hvað þarf veiðimaður að vita og hvers vegna?

8 Á dögum Jesú þurfti fiskimaður í Ísrael að vita hvers konar fisk hann gat veitt. (3. Mós. 11:9–12) Hann þurfti líka að vita hvar fiskinn var að finna. Fiskar halda sig venjulega á svæðum þar sem þeir þrífast vel og þar sem er nóg æti. Skiptir máli hvenær menn fara til veiða? Taktu eftir hvað boðberi á eyju í Kyrrahafi sagði þegar hann bauð trúboða að fara með sér að veiða. Trúboðinn sagði: „Ég kem klukkan níu í fyrramálið.“ Bróðirinn svaraði: „Þú skilur þetta ekki. Við förum þegar það er besti tíminn til að fiska, ekki þegar það hentar okkur.“

9 Eins fóru þeir sem veiddu menn á fyrstu öld þangað sem „fenginn“ var að finna og á þeim tímum sem hann var þar. Fylgjendur Jesú boðuðu trúna til dæmis í musterinu og í samkunduhúsunum, hús úr húsi og á torginu. (Post. 5:42; 17:17; 18:4) Við þurfum líka að þekkja venjur þeirra sem búa á okkar starfssvæði. Við þurfum að vera sveigjanleg og boða trúna á stað og stund sem líklegast er að við hittum fólk. – 1. Kor. 9:19–23.

REYNDIR FISKIMENN ... 1. veiða á stað og stund sem líklegast er að finna veiði. (Sjá 8. og 9. grein.)

10. Hvaða verkfærum sér söfnuður Jehóva okkur fyrir?

10 Fiskimaður þarf að hafa réttan búnað og vita hvernig á að nota hann. Við þurfum líka réttu verkfærin í okkar starfi. Og við þurfum að kunna að nota þessi verkfæri. Jesús gaf lærisveinum sínum skýr fyrirmæli um hvernig þeir ættu að fara að því að veiða menn. Hann sagði þeim hvað þeir ættu að hafa meðferðis, hvar þeir ættu að boða trúna og hvað þeir ættu að segja. (Matt. 10:5–7; Lúk. 10:1–11) Núna sér söfnuður Jehóva okkur fyrir verkfærakistu með verkfærum sem hafa reynst vel. * Og okkur er kennt að nota þessi verkfæri. Þessi þjálfun veitir okkur bæði færni og öryggi til að boða trúna á árangursríkan hátt. – 2. Tím. 2:15.

REYNDIR FISKIMENN ... 2. eru þjálfaðir í að nota réttu veiðarfærin. (Sjá 10. grein.)

BYGGÐU UPP HUGREKKI

11. Af hverju þurfa þeir sem veiða menn að sýna hugrekki?

11 Þeir sem stunda fiskveiðar þurfa að sýna hugrekki. Þeir lenda stundum í ófyrirsjáanlegum aðstæðum. Þeir vinna oft á nóttinni og stormur getur skollið á fyrirvaralítið. Þeir sem veiða menn þurfa líka að sýna hugrekki. Þegar við byrjum að boða trúna og auðkenna okkur sem votta Jehóva getur fjölskyldan risið gegn okkur, vinirnir gert grín að okkur og sumir hafnað boðskapnum. En slíkur mótbyr kemur okkur ekki á óvart. Jesús sagði að hann myndi senda fylgjendur sína á fjandsamlegt svæði. – Matt. 10:16.

12. Hvað getur hjálpað okkur að byggja upp hugrekki, samanber Jósúa 1:7–9?

12 Hvernig geturðu byggt upp hugrekki? Þú þarft að vera fullviss um að Jesús haldi áfram að stýra boðuninni frá himni. (Jóh. 16:33; Opinb. 14:14–16) Þú þarft einnig að styrkja trú þína á loforð Jehóva um að hann sjái fyrir þér. (Matt. 6:32–34) Því sterkari sem trú þín er því hugrakkari verðurðu. Pétur og félagar hans sýndu sterka trú þegar þeir yfirgáfu lífsviðurværi sitt til að fylgja Jesú. Þú sýndir líka sterka trú þegar þú sagðir vinum þínum og fjölskyldu að þú hefðir byrjað að kynna þér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og sækja samkomur þeirra. Þú hefur án efa gert miklar breytingar á lífi þínu og hegðun til að fylgja réttlátum meginreglum Jehóva. Til þess þurfti líka trú og hugrekki. Þú getur verið viss um að „Drottinn, Guð þinn, er með þér hvert sem þú ferð“ þegar þú heldur áfram að byggja upp hugrekki. – Lestu Jósúa 1:7–9.

REYNDIR FISKIMENN ... 3. veiða hugrakkir við breytilegar aðstæður. (Sjá 11. og 12. grein.)

13. Hvernig getur bæn og hugleiðing hjálpað þér að byggja upp hugrekki?

13 Á hvaða aðra vegu geturðu byggt upp hugrekki? Biddu um kjark og hugrekki. (Post. 4:29, 31) Jehóva svarar bænum þínum og hann yfirgefur þig aldrei. Hann er alltaf tilbúinn að styðja þig. Þú getur einnig hugleitt hvernig Jehóva hefur bjargað þjónum sínum fyrr á tímum. Hugsaðu auk þess um það hvernig hann hefur hjálpað þér að takast á við erfiðleika og gefið þér styrkt til að gera breytingar á lífi þínu. Sá sem leiddi þjóð sína í gegnum Rauðahafið getur vissulega hjálpað þér að vera lærisveinn Krists. (2. Mós. 14:13) Vertu öruggur eins og sálmaritarinn sem sagði: „Drottinn er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gert mér?“ – Sálm. 118:6.

14. Hvað lærðir þú af reynslu Masae og Tomoyo?

14 Önnur leið til að byggja upp hugrekki er að kynna sér hvernig Jehóva hefur hjálpað fólki sem er óframfærið að eðlisfari að byggja upp hugrekki. Tökum sem dæmi systur sem heitir Masae. Hún var feimin og hélt að hún gæti aldrei boðað trúna. Tilhugsunin um að tala við ókunnuga var eins og hár veggur sem hún hélt að hún kæmist aldrei yfir. Hún lagði sig því sérstaklega fram um að dýpka kærleika sinn til Guðs og til náungans. Hún hugsaði um hvað tíminn væri orðinn naumur og bað um sterkari löngun til að boða trúna. Hún sigraðist á óttanum og varð meira að segja brautryðjandi. Jehóva getur líka hjálpað nýjum boðberum að sýna hugrekki. Systir að nafni Tomoyo er dæmi um það. Í fyrsta sinn sem hún boðaði trúna hús úr húsi öskraði fyrsti húsráðandinn sem hún hitti: „Ég vil ekki sjá votta Jehóva!“ og skellti hurðinni. Þetta hræddi ekki Tomoyo heldur sagði hún við samstarfsfélaga sinn: „Heyrðirðu þetta? Ég sagði ekki orð og hún vissi að ég væri vottur Jehóva. Ég er svo ánægð!“ Tomoyo er núna brautryðjandi.

ÞROSKAÐU MEÐ ÞÉR SJÁLFSAGA

15. Hvað er sjálfsagi og af hverju er hann mikilvægur fyrir þjóna Guðs?

15 Fiskimenn sem ná góðum árangri eru agaðir. Sjálfsaga hefur verið lýst sem því „að geta komið í verk því sem gera þarf“. Þeir sem vinna við fiskveiðar verða að hafa sjálfsaga til að vakna snemma, vinna þangað til verkefnið er búið og halda áfram þrátt fyrir slæmt veður. Við þurfum líka að hafa sjálfsaga til að sýna þolgæði og klára verkefni okkar. – Matt. 10:22.

16. Hvernig getum við þroskað með okkur sjálfsaga?

16 Við fáum sjálfsagann ekki í arf. Flest höfum við öllu heldur tilhneigingu til að vilja reyna sem minnst á okkur. Við þurfum að hafa stjórn á sjálfum okkur til að geta sýnt sjálfsaga. Við þurfum því þjálfun í að gera það sem okkur finnst erfitt. Jehóva hjálpar okkur til þess með heilögum anda sínum. – Gal. 5:22, 23.

17. Hvernig lýsir Páll postuli því sem hann þurfti að gera til að þroska með sér sjálfsaga í 1. Korintubréfi 9:25–27?

17 Páll postuli hafði sjálfsaga. En hann viðurkenndi að hann þyrfti að ,beita sig hörðu‘ til að gera það sem er rétt. (Lestu 1. Korintubréf 9:25–27.) Hann hvatti aðra til að sýna sjálfsaga og gera allt „á sómasamlegan og skipulegan hátt“. (1. Kor. 14:40) Við þurfum að sýna sjálfaga til að viðhalda góðri andlegri dagskrá sem felur meðal annars í sér að taka reglulega þátt í að boða fagnaðarboðskapinn og kenna fólki. – Post. 2:46.

DRAGÐU ÞAÐ EKKI Á LANGINN

18. Hvað þarf til að Jehóva telji okkur árangursrík?

18 Sá sem vinnur við fiskveiðar metur árangurinn eftir aflanum. En við metum árangur okkar ekki eftir fjölda þeirra sem við hjálpum inn í söfnuðinn. (Lúk. 8:11–15) Jehóva telur okkur árangursrík ef við höldum áfram að boða fagnaðarboðskapinn og kenna öðrum vegna þess að þá hlýðum við honum og syni hans. – Mark. 13:10; Post. 5:28, 29.

19, 20. Hvaða sérstöku hvöt höfum við til að boða trúna núna?

19 Í sumum löndum mega menn aðeins veiða fisk á vissum tíma ársins. Þar liggur fiskimönnum meira á eftir því sem minna er eftir af veiðitímabilinu. Við sem veiðum menn höfum aukna hvöt til að boða trúna þar sem endir þessa heims nálgast óðum. Það er mjög lítill tími eftir til að taka þátt í þessu starfi sem bjargar lífum. Ekki bíða með að taka þátt í þessu mikilvæga starfi þar til aðstæður þínar eru fullkomnar. – Préd. 11:4.

20 Leggðu þig fram núna um að efla hvöt þína og ákafa, dýpka þekkingu þína á Biblíunni, byggja upp hugrekki og þroska með þér sjálfsaga. Þú upplifir gleði Jehóva ef þú slæst í hópinn með þeim meira en átta milljón boðberum sem veiða menn. (Neh. 8:10) Vertu ákveðinn í að taka eins mikinn þátt í þessu starfi og þú getur þangað til Jehóva segir að því sé lokið. Í næstu grein ræðum við um þrennt sem við getum gert til að styrkja þann ásetning okkar að halda áfram að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið.

SÖNGUR 66 Boðið fagnaðarboðskapinn

^ gr. 5 Jesús bauð auðmjúkum og duglegum fiskimönnum að verða lærisveinar sínir. Nú á dögum býður Jesús fólki með sömu eiginleika að veiða menn. Í þessari grein ræðum við hvað biblíunemendur sem hika við að þiggja boð Jesú þurfa að gera.

^ gr. 1 ORÐASKÝRING: Með orðasambandinu „veiða menn“ er átt við það að boða fagnaðarboðskapinn og kenna fólki svo að það geti orðið lærisveinar Krists.

^ gr. 10 Sjá greinina „Kennið sannleikann“ í Varðturninum október 2018, bls. 11–16.