Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 39

Veitum systrum okkar í söfnuðinum stuðning

Veitum systrum okkar í söfnuðinum stuðning

„Heill her kvenna flytur sigurfréttina.“ – SÁLM. 68:12.

SÖNGUR 137 Trúfastar konur og kristnar systur

YFIRLIT *

Ötular og kappsamar systur okkar taka þátt í samkomunum, boðuninni og viðhaldi ríkissalarins, og þær sýna trúsystkinum sínum persónulegan áhuga. (Sjá 1. grein.)

1. Hvernig styðja systur söfnuðinn, en hvað þurfa margar þeirra að takast á við? (Sjá mynd á forsíðu.)

VIÐ erum innilega þakklát að í söfnuðinum skuli vera margar duglegar systur. Þær taka til dæmis þátt í samkomunum og boðuninni og kenna fólki fagnaðarboðskapinn. Sumar hjálpa til við viðhald ríkissalarins og þær sýna trúsystkinum sínum persónulegan áhuga. Líf þeirra er þó ekki alltaf auðvelt. Sumar annast aldraða foreldra sína. Aðrar verða fyrir mótlæti frá einhverjum í fjölskyldunni. Og enn aðrar eru einstæðar mæður og leggja hart að sér til að sjá fyrir börnum sínum.

2. Hvers vegna ættum við að leggja okkur fram um að styðja systur okkar?

2 Hvers vegna ættum við að styðja trúsystur okkar? Vegna þess að konum er ekki alltaf sýnd sú virðing sem þær verðskulda. Auk þess hvetur Biblían okkur til að styðja við bakið á þeim. Páll postuli sagði til að mynda söfnuðinum í Róm að taka vel á móti Föbe og ,hjálpa henni með allt sem hún þurfti‘. (Rómv. 16:1, 2) Páll hafði verið farísei, en þeir litu á konur sem óæðri karlmönnum og komu fram við þær eftir því. En eftir að hann gerðist kristinn líkti hann eftir Jesú og sýndi konum virðingu og góðvild. – 1. Kor. 11:1.

3. Hvernig kom Jesús fram við konur og hvernig leit hann á konur sem gerðu vilja Guðs?

3 Jesús sýndi öllum konum virðingu. (Jóh. 4:27) Hann hafði ekki sama viðhorf til kvenna og trúarleiðtogar Gyðinga á hans dögum. Reyndar segir í einu biblíuskýringarriti: „Jesús sagði aldrei neitt sem endurspeglaði vanvirðingu í garð kvenna eða gerði lítið úr þeim.“ Jesús bar hins vegar sérstaka virðingu fyrir konum sem gerðu vilja föður hans. Það er eftirtektarvert að hann skyldi nefna bæði karla og konur þegar hann sagði hverja hann áleit hluta af andlegu fjölskyldu sinni. – Matt. 12:50.

4. Hvað er til umræðu í þessari grein?

4 Jesús var alltaf fús til að hjálpa konum sem þjónuðu Guði. Hann sýndi að hann mat þær mikils og tók upp hanskann fyrir þær. Ræðum nú hvernig við getum líkt eftir Jesú og sýnt systrum okkar umhyggju.

HJÁLPUM DÝRMÆTUM SYSTRUM OKKAR

5. Hvað getur gert sumum systrum erfitt fyrir að njóta uppbyggjandi félagsskapar?

5 Við þurfum öll á góðum félagsskap að halda, hvort sem við erum bræður eða systur. En stundum gæti systrum fundist erfitt að mæta þeirri þörf. Hvers vegna? Tökum eftir því sem nokkrar systur segja. „Ég er einhleyp og mér finnst oft eins og ég hafi engu hlutverki að gegna í söfnuðinum, að ég falli ekki inn í hópinn,“ segir Jordan. * Kristen er brautryðjandi sem fluttist annað til að geta gert meira í þjónustunni. Hún segir: „Maður getur fundið fyrir einmanaleika þegar maður kemur í nýjan söfnuð.“ Sumum bræðrum gæti líka liðið þannig. Þeim sem býr á trúarlega skiptu heimili gæti fundist erfitt að vera náinn fjölskyldu sinni en á sama tíma glímt við svipaðar tilfinningar gagnvart sinni andlegu fjölskyldu. Þeir sem eiga ekki heimangengt gætu verið einmana, og sömuleiðis þeir sem þurfa að annast veika ættingja. Annette segir: „Ég hafði ekki tækifæri til að þiggja heimboð bræðra og systra vegna þess að það var aðallega mín ábyrgð að annast móður mína.“

Við getum sýnt trúföstum systrum okkar ást og umhyggju rétt eins og Jesús gerði. (Sjá 6.–9. grein.) *

6. Hvernig hjálpaði Jesús Mörtu og Maríu eins og sjá má af Lúkasi 10:38–42?

6 Jesús varði tíma með systrum sínum í trúnni og hann var sannur vinur þeirra. Tökum sem dæmi vináttu hans við Maríu og Mörtu, en svo virðist sem þær hafi báðar verið einhleypar. (Lestu Lúkas 10:38–42.) Þeim leið augljóslega vel í návist Jesú vegna þess hvernig hann talaði og kom fram við þær. Maríu fannst ekki óþægilegt að sitja við fætur hans eins og lærisveinn. * Og Marta var ófeimin við að segja Jesú hvað henni lá á hjarta þegar systir hennar hjálpaði ekki til við matargerðina. Við þessar óformlegu aðstæður kenndi Jesús þeim báðum mikilvæg sannindi. Og hann sýndi að sér þótti vænt um þessar konur og bróður þeirra Lasarus með því að heimsækja þau líka við önnur tækifæri. (Jóh. 12:1–3) Það kemur því ekki á óvart að María og Marta skyldu leita til Jesú til að fá hjálp þegar Lasarus veiktist alvarlega. – Jóh. 11:3, 5.

7. Hvernig getum við verið systrum okkar hvatning?

7 Sumar systur fá aðallega tækifæri til að vera með trúsystkinum sínum á samkomum. Við viljum því nota þessi tækifæri til að taka vel á móti þeim, tala við þær og láta þær finna að okkur er annt um þær. Jordan, sem minnst er á fyrr í greininni, segir: „Ég kann virkilega að meta það þegar aðrir hrósa mér fyrir svörin mín, biðja mig um samstarf eða sýna mér á annan hátt að þeim þykir vænt um mig.“ Við verðum að sýna systrum okkar að þær eru okkur dýrmætar. „Ef ég missi af samkomu veit ég að bræður og systur senda mér skilaboð til að athuga hvernig mér líði,“ segir Kia. „Það fullvissar mig um að trúsystkinum mínum þykir vænt um mig.“

8. Á hvaða aðra vegu getum við líkt eftir Jesú?

8 Við getum líkt eftir Jesú með því að verja tíma með systrum okkar. Kannski gætum við boðið þeim í mat eða gert eitthvað annað skemmtilegt með þeim. Við slík tækifæri viljum við að umræðurnar séu uppbyggilegar. (Rómv. 1:11, 12) Öldungar ættu að hafa sama hugarfar og Jesús. Hann vissi að það gat reynst sumum erfitt að vera einhleypir en hann tók skýrt fram að varanleg hamingja byggist hvorki á því að giftast né eignast börn. (Lúk. 11:27, 28) Slík hamingja hlýst öllu heldur af því að setja þjónustuna við Jehóva í fyrsta sæti. – Matt. 19:12.

9. Hvað geta öldungar gert til að hjálpa systrum?

9 Öldungar þurfa öðrum fremur að koma fram við konur í söfnuðinum eins og þær séu systur sínar og mæður. (1. Tím. 5:1, 2) Það er mikilvægt að öldungar gefi sér tíma fyrir og eftir samkomur til að tala við systur. „Einn öldungur tók eftir að ég hafði mjög mikið á minni könnu og vildi vita hvernig dagskráin mín væri,“ segir Kristen. „Ég var mjög þakklát fyrir þann einlæga áhuga sem hann sýndi mér.“ Öldungar sýna að þeim er annt um trúsystur sínar þegar þeir gefa sér tíma til að tala reglulega við þær. * Annette, sem minnst er á fyrr í greininni, útskýrir hvers vegna það sé gott að tala reglulega við öldungana. Hún segir: „Ég kynnist þeim betur og þeir kynnast mér. Þar af leiðandi á ég auðveldara með að leita til þeirra þegar ég geng í gegnum erfiðleika.“

METUM SYSTUR OKKAR AÐ VERÐLEIKUM

10. Hvað getur stuðlað að vellíðan systra okkar?

10 Við blómstrum, hvort sem við erum karlar eða konur, þegar aðrir taka eftir hæfileikum okkar og segja okkur að þeir kunni að meta það sem við leggjum á okkur. En það gæti dregið úr okkur kjarkinn ef aðrir líta á hæfileika okkar og verk sem sjálfsagðan hlut. Einhleyp brautryðjandasystir sem heitir Abigail viðurkennir að sér finnist stundum aðrir líta fram hjá sér. Hún segir að trúsystkini sín þekki sig ekki persónulega. Þau þekki bara systkini hennar eða foreldra og viti ekki annað um hana en að hún sé skyld þeim. „Stundum finnst mér enginn taka eftir mér,“ segir hún. Tökum nú eftir því sem systir að nafni Pam segir. Hún er einhleyp og þjónaði í mörg ár sem trúboði. En þar að kom að hún þurfti að snúa heim til að annast foreldra sína. Hún er komin yfir sjötugt og er enn brautryðjandi. Hún segir: „Það sem hefur styrkt mig hvað mest er þegar aðrir segja hversu vel þeir kunni að meta það sem ég legg á mig.“

11. Hvernig sýndi Jesús að hann mat að verðleikum konurnar sem fylgdu honum í þjónustu hans?

11 Jesús kunni að meta þá hjálp sem hann fékk frá trúföstum konum sem aðstoðuðu hann „með eigum sínum“. (Lúk. 8:1–3) Þær fengu ekki aðeins þann heiður að fá að aðstoða hann heldur opinberaði hann þeim líka mikilvæg sannindi um vilja Guðs. Hann sagði þeim til dæmis að hann myndi deyja og rísa síðan upp. (Lúk. 24:5–8) Hann bjó þessar konur undir þá erfiðleika sem þær myndu mæta, alveg eins og hann gerði fyrir postulana. (Mark. 9:30–32; 10:32–34) Það er athyglisvert að þótt postularnir hafi flúið þegar Jesús var handtekinn voru sumar kvennanna sem höfðu stutt hann viðstaddar þegar hann dó á kvalastaurnum. – Matt. 26:56; Mark. 15:40, 41.

12. Hvaða verkefni fól Jesús konum?

12 Jesús fól konum mikilvæg verkefni. Trúfastar konur voru til að mynda fyrstu vottarnir að upprisu hans. Hann bað þær að segja postulunum að hann hefði verið reistur upp frá dauðum. (Matt. 28:5, 9, 10) Og vera má að konur hafi verið viðstaddar þegar heilögum anda var úthellt á hvítasunnu árið 33. Þá hafa þessar nýsmurðu systur hugsanlega fengið fyrir kraftaverk hæfileikann til að tala erlend tungumál og segja öðrum frá ,stórfenglegum verkum Guðs‘. – Post. 1:14; 2:2–4, 11.

13. Hvað gera systur í þjónustu Jehóva, og hvernig getum við sýnt að við erum þakklát fyrir það sem þær gera?

13 Systur okkar eiga hrós skilið fyrir allt sem þær gera í þjónustu Jehóva. Þær taka meðal annars þátt í byggingar- og viðhaldsstarfi, starfa í erlendum tungumálahópum og vinna sjálfboðastarf á Betelheimilum. Þær taka þátt í hjálparstarfi, hjálpa til við að þýða ritin okkar og þjóna sem brautryðjendur og trúboðar. Líkt og bræður sækja systur Brautryðjendaskólann, Skólann fyrir boðbera Guðsríkis og Gíleaðskólann. Auk þess styðja konur eiginmenn sína svo að þeir geti annast alla þá ábyrgð sem þeir hafa í söfnuði Jehóva. Við höfum fengið þessa bræður „að gjöf“ en þeir gætu ekki annast verkefni sín fyllilega ef þeir nytu ekki stuðnings konu sinnar. (Ef. 4:8) Hvernig getur þú stutt þessar systur í starfi sínu?

14. Hvað gera skynsamir öldungar, samanber Sálm 68:12?

14 Skynsamir öldungar gera sér grein fyrir að systur eru „heill her“ fúsra verkamanna og oft mjög færar í að boða fagnaðarboðskapinn. (Lestu Sálm 68:12.) Öldungar vilja þess vegna læra af reynslu þeirra. Abigail, sem minnst er á fyrr í greininni, kann að meta það þegar bræður spyrja hana álits varðandi áhrifaríkar leiðir til að hefja samræður við fólk á starfssvæðinu. Hún segir: „Það minnir mig á að ég hef hlutverki að gegna í söfnuði Jehóva.“ Auk þess vita öldungar að trúfastar og þroskaðar systur geta með góðum árangri aðstoðað yngri systur sem ganga í gegnum erfiðleika. (Tít. 2:3–5) Systur okkar eiga sannarlega skilið að vera metnar að verðleikum!

TÖKUM UPP HANSKANN FYRIR SYSTUR

15. Hvenær gætu systur þurft á hjálp að halda?

15 Systur gætu þurft á einhverjum að halda til að tala máli sínu þegar þær standa frammi fyrir vissum erfiðleikum. (Jes. 1:17) Ekkja eða fráskilin systir gæti til dæmis þurft að eiga málsvara sem gæti hjálpað henni með sumt sem maðurinn hennar var vanur að sjá um. Eldri systir gæti þurft hjálp til að tala við lækna. Og kannski þyrfti að taka upp hanskann fyrir brautryðjandasystur sem tekur þátt í verkefnum á vegum safnaðarins en er gagnrýnd fyrir að vera ekki eins mikið í boðuninni og aðrir brautryðjendur. Á hvaða aðra vegu getum við hjálpað trúsystrum okkar? Lítum aftur á fordæmi Jesú.

16. Hvernig kom Jesús Maríu til varnar eins og sjá má af Markúsi 14:3–9?

16 Jesús var fljótur að taka upp hanskann fyrir systur sínar í trúnni þegar þær voru misskildar. Hann kom til dæmis Maríu til varnar þegar Marta gagnrýndi hana. (Lúk. 10:38–42) Og hann varði Maríu öðru sinni þegar aðrir ávíttu hana þegar þeim fannst hún hafa tekið slæma ákvörðun. (Lestu Markús 14:3–9.) Jesús vissi hvaða hvatir María hafði, hrósaði henni og sagði: „Það var gott verk sem hún vann í mína þágu ... Hún gerði það sem hún gat.“ Hann spáði jafnvel að sagt yrði frá því sem hún gerði ,um allan heim þar sem fagnaðarboðskapurinn yrði boðaður‘, rétt eins og í þessari grein. Það er eftirtektarvert að Jesús skuli hafa notað tækifærið til að segja að fagnaðarboðskapurinn yrði boðaður um allan heim þegar hann hrósaði Maríu fyrir að sýna óeigingirni. Það hlýtur að hafa verið hughreystandi fyrir hana eftir að hafa verið ranglega dæmd!

17. Hvenær gætum við þurft að taka upp hanskann fyrir systur okkar? Nefndu dæmi.

17 Tekur þú upp hanskann fyrir trúsystur þínar þegar þær þurfa á því að halda? Ímyndum okkur eftirfarandi aðstæður: Sumir boðberar taka eftir að systir á trúarlega skiptu heimili kemur oft seint á samkomur og fer strax að samkomu lokinni. Þeir taka einnig eftir að börnin hennar koma sjaldan með á samkomur. Þeir gagnrýna hana því að þeim finnst að hún ætti að vera ákveðnari við manninn sinn sem er ekki vottur. En sannleikurinn er sá að hún er að gera sitt besta. Hún ræður ekki dagskrá sinni að öllu leyti og það er ekki hún sem á síðasta orðið í málum sem varða börnin. Hvað getur þú gert? Ef þú hrósar systurinni og segir frá því sem hún gerir vel gæti það orðið til þess að stöðva neikvætt tal.

18. Á hvaða fleiri vegu getum við hjálpað trúsystrum okkar?

18 Við getum sýnt trúsystrum okkar hversu vænt okkur þykir um þær með því að bjóða þeim aðstoð af ýmsu tagi. (1. Jóh. 3:18) Annette, sem annaðist veika móður sína, segir: „Sum trúsystkini leystu mig stundum af eða færðu okkur mat. Mér fannst ég því elskuð og hluti af söfnuðinum.“ Jordan fékk einnig aðstoð. Bróðir gaf henni ráð um viðhald á bílnum. Hún segir: „Það er gott að vita að bræður og systur láta sig varða öryggi mitt.“

19. Á hvaða fleiri vegu geta öldungar stutt systur?

19 Öldungar reyna sömuleiðis að annast þarfir systra. Þeir vita að það skiptir Jehóva máli hvernig komið sé fram við þær. (Jak. 1:27) Þeir líkja þess vegna eftir sanngirni Jesú og búa ekki til reglur þegar það á betur við að sýna góðvild og skilning. (Matt. 15:22–28) Systur finna að Jehóva og söfnuðinum er annt um þær þegar öldungar leggja sig fram um að hjálpa þeim. Kia er systir sem þurfti að flytjast búferlum. Þegar umsjónarmaður starfshóps hennar frétti af því sá hann strax til þess að hún fengi aðstoð. „Það var gríðarlegur léttir,“ segir Kia. „Öldungarnir uppörvuðu mig og hjálpuðu og sýndu mér þannig að ég væri mikilvægur hluti af söfnuðinum og ekki ein á báti þegar ég stend frammi fyrir erfiðum aðstæðum.“

ALLAR TRÚSYSTUR OKKAR ÞURFA Á STUÐNINGI OKKAR AÐ HALDA

20, 21. Hvernig getum við sýnt að við metum allar trúsystur okkar að verðleikum?

20 Í söfnuðum okkar eru ótal dæmi um dugmiklar systur sem eiga stuðning okkar skilinn. Eins og við höfum lært af fordæmi Jesú getum við hjálpað þeim með því að verja tíma með þeim og kynnast þeim. Við getum sýnt að við kunnum að meta það sem þær gera í þjónustu Guðs. Og við getum tekið upp hanskann fyrir þær þegar þörf er á.

21 Í lok bréfs síns til kristinna manna í Róm nefnir Páll postuli níu kristnar konur með nafni. (Rómv. 16:1, 3, 6, 12, 13, 15) Þeim hefur án efa fundist uppörvandi að heyra kveðjur hans og hrós. Við skulum sömuleiðis veita systrum í söfnuðinum okkar stuðning. Þannig sýnum við að okkur þykir innilega vænt um þær og að við erum þakklát að þær skuli tilheyra okkar andlegu fjölskyldu.

SÖNGUR 136 Jehóva launi þér að fullu

^ gr. 5 Systur í söfnuðinum standa frammi fyrir ýmsum erfiðleikum. Í þessari grein skoðum við hvernig við getum stutt trúsystur okkar með því að líkja eftir fordæmi Jesú. Við getum dregið lærdóm af því að Jesús varði tíma með konum, mat þær mikils og tók upp hanskann fyrir þær.

^ gr. 5 Sumum nöfnum er breytt.

^ gr. 6 Í einu skýringarriti segir: „Lærisveinar sátu við fætur kennara sinna. Lærisveinar sem tóku nám sitt alvarlega bjuggu sig undir það að verða kennarar, en það var staða sem var ekki ætluð konum. Flestir karlmenn meðal Gyðinga hefðu því hneykslast á því að sjá Maríu sitja við fætur Jesú og drekka í sig kennslu hans.“

^ gr. 9 Öldungar sýna aðgát þegar þeir aðstoða systur. Öldungur ætti til dæmis ekki að vera einn þegar hann heimsækir systur.

^ gr. 65 MYND: Bróðir hjálpar tveim systrum að skipta um dekk á bílnum, annar bróðir heimsækir heilsuveila systur og sá þriðji tekur ásamt konu sinni þátt í fjölskyldunámi systur einnar og dóttur hennar. Allir þessir bræður bera hag trúfastra systra fyrir brjósti rétt eins og Jesús.