Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Joseph F. Rutherford og aðrir bræður í heimsókn í Evrópu.

1920 – fyrir hundrað árum

1920 – fyrir hundrað árum

Í UPPHAFI árs 1920 fylltust þjónar Jehóva krafti og voru tilbúnir að sinna starfinu sem var fram undan. Árstextinn það ár var: „DROTTINN er styrkur minn og lofsöngur.“ – Sálm. 118:14, King James-biblían.

Jehóva styrkti þessa kappsömu boðbera. Það ár fjölgaði farandbóksölum, eða brautryðjendum, úr 225 í 350. Og í fyrsta skipti skiluðu yfir 8.000 boðberar starfsskýrslu til aðalstöðvanna. Jehóva blessaði þá og viðbrögðin voru gríðarleg.

ÞEIR VORU EINSTAKLEGA KAPPSAMIR

Þann 21. mars 1920 flutti Joseph F. Rutherford ræðuna „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja“, en hann fór með forystuna meðal Biblíunemendanna á þeim tíma. Biblíunemendurnir gerðu sitt ýtrasta til að bjóða áhugasömum á þennan viðburð. Þeir leigðu einn stærsta salinn fyrir stóra viðburði í New York-borg og dreifðu um 320.000 boðsmiðum.

Ræðan „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja“ auglýst í dagblaði.

Aðsóknin var framar öllum vonum. Yfir 5.000 manns fylltu leikhúsið og vísa þurfti 7.000 manns frá. Varðturninn kallaði viðburðinn „eina vel heppnuðustu samkomuna sem Alþjóðasamtök biblíunemenda hafa nokkurn tíma haldið“.

Biblíunemendurnir urðu þekktir fyrir að boða að ,milljónir núlifandi manna myndu aldrei deyja‘. Á þeim tíma skildu þeir ekki að boða þyrfti boðskap Guðsríkis í meiri mæli. En þeir voru einstaklega kappsamir. Ida Olmstead byrjaði að sækja samkomur árið 1902. Hún sagði: „Við vissum að allt mannkynið átti mikla blessun í vændum og sögðum öllum sem við hittum í boðuninni hús úr húsi frá þessum góðu fréttum.“

VIÐ BYRJUM SJÁLF AÐ FRAMLEIÐA RIT

Til að tryggja framboð á andlegri fæðu fóru bræðurnir á Betel sjálfir að prenta sum ritanna. Þeir keyptu búnað fyrir prentun og settu hann upp í leiguhúsnæði á Myrtle Avenue 35 í Brooklyn í New York í grennd við Betelheimilið.

Leo Pelle og Walter Kessler mættu til þjónustu á Betel í janúar  1920. „Þegar við komum,“ sagði Walter, „leit umsjónarmaður prentsmiðjunnar á okkur og sagði: ,Þið hafið einn og hálfan tíma fram að hádegismat.‘ Við vorum beðnir að sækja kassa með bókum úr kjallaranum.“

Leo sagði frá því sem gerðist næsta dag: „Við fengum það verkefni að þvo veggina á jarðhæð byggingarinnar. Það var óþrifalegasta verk sem ég hafði nokkurn tíma unnið. En þetta var verk Drottins og því var það þess virði.“

Prentvélin sem var notuð til að prenta Varðturninn.

Eftir fáeinar vikur var Varðturninn prentaður af duglegum sjálfboðaliðum. Sextíu þúsund eintök af tölublaðinu 1. febrúar 1920 voru prentuð í prentvélinni á annarri hæð. Á sama tíma settu bræðurnir upp prentvél sem þeir kölluðu „the Battleship“ (Herskipið) í kjallaranum. Fyrstu eintök af tímaritinu The Golden Age (nú Vaknið!), tölublað 14. apríl 1920, voru einnig prentuð. Jehóva blessaði augljóslega erfiði þessara fúsu verkamanna.

„Þetta var verk Drottins og því var það þess virði.“

„BÚUM SAMAN Í FRIÐI“

Nýju lífi var blásið í starfsemi og félagsskap trúfastra þjóna Guðs. Hins vegar höfðu sumir biblíunemendur yfirgefið söfnuðinn á raunartímunum á árunum 1917 til 1919. Hvað var hægt að gera til að hjálpa þeim?

Í Varðturninum 1. apríl 1920 birtist greinin „Búum saman í friði“. Þar var þessi hlýlega hvatning: „Við erum fullvissir ... að allir sem hafa anda Drottins ... eru tilbúnir að gleyma því sem er að baki ... búa saman í einingu og sækja fram sem samstilltur líkami.“

Margir brugðust vel við þessum vingjarnlegu orðum. Hjón nokkur skrifuðu: „Við sjáum nú að það voru mistök að sitja aðgerðalaus í meira en ár meðan aðrir sinntu boðuninni ... Við vonum að við látum aldrei afvegaleiðast aftur.“ Þessir verkamenn urðu virkir á ný og áttu mikið verk fyrir höndum.

VIÐ DREIFUM „ZG“

Þann 21. júní 1920 hófu Biblíunemendurnir mikið átak við að dreifa „ZG“, bókinni The Finished Mystery * í kilju. Þegar bókin var bönnuð árið 1918 var fjöldi eintaka af henni settur í geymslu.

Öllum boðberum, ekki aðeins farandbóksölum, var boðið að taka þátt í dreifa bókinni. Búið var til kjörorð til að hvetja alla til að setja dreifingarátakið í forgang. Edmund Hooper minntist þess að í þessu átaki tóku margir boðberar þátt í boðuninni hús úr húsi í fyrsta sinn. Hann bætti við: „Við vorum farnir að skilja hvað fólst í þessu starfi sem átti eftir vaxa í umfangi langt fram úr okkar björtustu vonum.“

BOÐUNIN Í EVRÓPU ENDURSKIPULÖGÐ

Þar sem erfitt hafði verið að halda sambandi við biblíunemendur í öðrum löndum meðan fyrri heimsstyrjöldin geisaði vildi bróðir Rutherford hvetja bræðurna þar og endurskipuleggja boðunina. Þann 12. ágúst 1920 lögðu hann og fjórir aðrir bræður upp í langt ferðalag um Bretland, meginland Evrópu og Mið-Austurlönd.

Bróðir Rutherford í Egyptalandi.

Meðan Rutherford var í Bretlandi héldu Biblíunemendurnir þrjú mót og 12 opinberar samkomur. Áætlað var að 50.000 manns hefðu verið viðstaddir. Í Varðturninum var stiklað á stóru eftir heimsóknina og sagt: „Trúsystkinin voru endurnærð og uppörvuð. Kærleiksbönd þeirra og eining í starfi styrktist og mörg döpur hjörtu urðu aftur glöð.“ Í París flutti bróðir Rutherford aftur ræðuna „Milljónir núlifandi manna munu aldrei deyja“. Salurinn var fullur þegar hann byrjaði ræðuna og þrjú hundruð manns vildu fá að vita meira.

Ræðan sem var flutt í Royal Albert Hall í Lundúnum auglýst á auglýsingarspjaldi.

Í vikunum á eftir heimsóttu nokkrir bræður Aþenu, Kairó og Jerúsalem. Til að fylgja áhuganum eftir sem fólk sýndi á þessum stöðum lét bróðir Rutherford setja upp birgðageymslu með ritum í bænum Ramallah sem er stutt frá Jerúsalem. Hann fór síðan aftur til Evrópu og kom á fót deildarskrifstofu sem myndi hafa umsjón með starfinu í Mið-Evrópu og gerði ráðstafanir til að rit yrðu prentuð þar.

ÓRÉTTLÆTI AFHJÚPAÐ

Haustið 1920 gáfu Biblíunemendurnir út The Golden Age nr. 27, sérútgáfu sem afhjúpaði ofsóknir á hendur biblíunemendunum árið 1918. Prentvélin „Herskipið“, sem minnst er á fyrr í greininni, var keyrð allan sólarhringinn til að prenta yfir fjórar milljónir eintaka af ritinu.

Lögreglumynd af Emmu Martin.

Lesendur fengu að vita um sérstakt mál systur okkar, Emmu Martin, sem var farandbóksali í San Bernardino í Kaliforníu. Þann 17. mars 1918 var hún viðstödd fámenna samkomu ásamt þremur bræðrum, E. Hamm, E. J. Sonnenburg og E. A. Stevens.

Meðal áheyrenda var maður sem ekki var kominn til að læra um Biblíuna. „Ég fór á þessa samkomu ... að beiðni skrifstofu ríkissaksóknara,“ sagði hann þegar hann bar vitni fyrir dómi. „Markiðið var að afla sönnunargagna.“ Hann fann „sönnunargögnin“ sem hann leitaði, eintak af bókinni The Finished Mystery. Fáeinum dögum seinna voru þau Emma og bræðurnir þrír handtekin. Þau voru ákærð fyrir að brjóta gegn njósnalögunum með því að dreifa bannaðri bók.

Emma og vinir hennar voru fundin sek og dæmd í þriggja ára fangelsi. Þau voru send í fangelsi 17. maí 1920 eftir að allir möguleikar til áfrýjunar höfðu verið fullnýttir. En aðstæður breyttust fljótlega til hins betra.

Þann 20. júní 1920 sagði bróðir Rutherford frá reynslu þeirra á móti í San Francisco. Mótsgestirnir voru hneykslaðir á meðferðinni sem þessi trúsystkini fengu og sendu forseta Bandaríkjanna símskeyti. Í skeytinu stóð: „Við álítum sakfellinguna ... á frú Martin ... samkvæmt njósnalögunum óréttláta ... verknað fulltrúa yfirvalda þegar þeir nýttu vald sitt til að ... veiða í gildru ... frú Martin ... nota fölsuð sönnunargögn til að koma sök á hana í því skyni að fá hana hneppta í fangelsi ... svívirðilegan og fordæmum hann.“

Daginn eftir ógilti Woodrow forseti dómana í málum systur Martin og bræðranna Hamm, Sonnenburg og Stevens. Óréttlátri fangelsisvist þeirra var lokið.

Í lok ársins 1920 höfðu biblíunemendurnir margt til að gleðjast yfir. Starfseminni á aðalstöðvunum óx fiskur um hrygg og biblíunemendurnir boðuðu í meiri mæli en nokkru sinni fyrr að ríki Guðs væri eina lausnin á vandamálum mannkyns. (Matt. 24:14) Næsta ár, árið 1921, myndi það starf að boða sannleikann um Guðsríki ná nýjum hæðum.

^ gr. 18 Bókin The Finished Mystery var 7. bindi bókaraðarinnar Studies in the Scriptures. „ZG“ var bókin í kiljuformi en hún var prentuð sem tölublað tímaritsins Varðturninn (þá nefnt Zion’s Watch Tower eða Varðturn Síonar), 1. mars 1918. „Z“ stóð fyrir Zion’s Watch Tower og „G“, sjöundi stafurinn í enska stafrófinu, var skírskotun til 7. bindisins.