Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 47

Heldurðu áfram að gera nauðsynlegar breytingar?

Heldurðu áfram að gera nauðsynlegar breytingar?

„Að lokum, bræður og systur, verið alltaf glöð, gerið nauðsynlegar breytingar.“ – 2. KOR. 13:11.

SÖNGUR 54 „Þetta er vegurinn“

YFIRLIT *

1. Í hvaða skilningi erum við á ferðalagi eins og fram kemur í Matteusi 7:13, 14?

VIÐ erum öll á ferðalagi. Áfangastaðurinn, eða markmiðið, er nýi heimurinn undir kærleiksríkri stjórn Jehóva. Við reynum að fylgja veginum sem leiðir til lífsins á hverjum degi. En eins og Jesús sagði þá er vegurinn mjór og stundum er erfitt að fylgja honum. (Lestu Matteus 7:13, 14.) Við erum ófullkomin og þess vegna er auðvelt að villast af þessum vegi. – Gal. 6:1.

2. Hvað ræðum við um í þessari grein? (Sjá einnig rammann „ Auðmýkt auðveldar okkur að gera breytingar“.)

2 Við þurfum að vera fús til að gera breytingar á hugarfari okkar og hegðun til að halda okkur á mjóa veginum til lífsins. Páll postuli hvatti kristna menn í Korintu til að halda áfram að ,gera nauðsynlegar breytingar‘. (2. Kor. 13:11) Það á líka við um okkur. Í þessari grein ræðum við um hvernig Biblían getur hjálpað okkur að gera breytingar og hvernig þroskaðir vinir geta hjálpað okkur að halda okkur á veginum til lífsins. Við ræðum einnig um hvenær getur verið erfitt fyrir okkur að fylgja leiðbeiningum frá söfnuði Jehóva. Við skoðum hvernig auðmýkt auðveldar okkur að gera breytingar án þess að missa gleðina í þjónustunni við Jehóva.

LEYFÐU ORÐI GUÐS AÐ LEIÐRÉTTA ÞIG

3. Hvernig getur orð Guðs hjálpað okkur?

3 Það er ekki auðvelt að rannsaka eigin hugsanir og tilfinningar. Hjartað er svikult og það getur verið erfitt að vita hvað það reynir að fá okkur til að gera. (Jer. 17:9) Við eigum auðvelt með að blekkja sjálf okkur með „villandi rökum“. (Jak. 1:22) Við verðum því að nota orð Guðs til að rannsaka okkur. Orð Guðs sýnir okkur hvernig við erum hið innra, innstu „hugsanir og áform hjartans“. (Hebr. 4:12, 13) Segja má að Biblían sé eins og röntgenmyndavél sem gerir okkur kleift að sjá okkur að innan. En við þurfum að vera auðmjúk til að hafa gagn af ráðum úr Biblíunni eða frá fulltrúum Guðs.

4. Hvað sýnir að Sál konungur varð stoltur?

4 Saga Sáls konungs sýnir okkur hvað getur gerst ef okkur skortir auðmýkt. Sál varð svo stoltur að hann viðurkenndi ekki einu sinni fyrir sjálfum sér að hann þyrfti að gera breytingar á hugsun sinni og hegðun. (Sálm. 36:2, 3; Hab. 2:4) Þetta kom vel í ljós þegar Jehóva gaf honum ákveðnar leiðbeiningar um hvað hann ætti að gera eftir að hann sigraði Amalekíta. Sál hlýddi ekki Jehóva. Og hann viðurkenndi ekki mistök sín þegar Samúel spámaður bar þau upp á hann. Hann reyndi öllu heldur að réttlæta það sem hann gerði með því að gera lítið úr afleiðingum óhlýðninnar og kenna öðrum um. (1. Sam. 15:13–24) Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Sál gerði eitthvað þessu líkt. (1. Sam. 13:10–14) Hann hafði því miður leyft hjarta sínu að fyllast hroka. Hann leiðrétti ekki hugarfar sitt og því ávítaði Jehóva hann og hafnaði honum.

5. Hvað getum við lært af fordæmi Sáls?

5 Við getum spurt okkur eftirfarandi spurninga til að varast hrokafullt viðhorf Sáls: Reyni ég að réttlæta hugarfar mitt þegar ég les ráðleggingar úr orði Guðs? Geri ég lítið úr afleiðingum þess að óhlýðnast? Kenni ég öðrum um það sem ég geri? Ef við svörum einhverjum af þessum spurningum játandi þurfum við að gera breytingar á hugarfari okkar. Annars getur hjarta okkar fyllst hroka og Jehóva hafnað okkur sem vinum. – Jak. 4:6.

6. Lýstu muninum á Sál konungi og Davíð konungi.

6 Taktu eftir þeim mikla mun sem var á Sál konungi og Davíð konungi, arftaka hans. Davíð hafði „yndi af leiðsögn Drottins“. (Sálm. 1:1–3) Hann vissi að Jehóva frelsar þá sem eru auðmjúkir en stendur gegn hrokafullum. (2. Sam. 22:28) Davíð leyfði því leiðsögn Guðs að breyta hugarfari sínu. Hann orti: „Ég lofa Drottin sem gefur mér ráð, jafnvel um nætur er ég áminntur hið innra.“ – Sálm. 16:7.

ORÐ GUÐS

Orð Guðs varar okkur við þegar við erum að fara út af sporinu. Ef við erum auðmjúk leyfum við orði Guðs að leiðrétta ranga hugsun hjá okkur. (Sjá 7. grein.)

7. Hvað gerum við ef við erum auðmjúk?

7 Ef við erum auðmjúk leyfum við orði Guðs að leiðrétta ranga hugsun hjá okkur áður en hún leiðir til rangrar breytni. Biblían verður þá eins og rödd sem segir: „Þetta er vegurinn, farið hann.“ Hún varar okkur við þegar við erum að fara út af sporinu. (Jes. 30:21) Það gagnast okkur á ýmsa vegu að hlusta á Jehóva. (Jes. 48:17) Til dæmis verðum við ekki fyrir þeim óþægindum að þurfa að fá leiðréttingu frá öðrum. Og við nálgumst Jehóva enn meira því að við skynjum að hann kemur fram við okkur eins og börn sem hann elskar. – Hebr. 12:7.

8. Hvernig getum við notað orð Guðs sem spegil eins og fram kemur í Jakobsbréfinu 1:22–25?

8 Orð Guðs getur verið eins og spegill. (Lestu Jakobsbréfið 1:22–25.) Við lítum flest í spegil á morgnana áður en við förum að heiman. Þannig getum við séð hvort við þurfum að laga eitthvað áður en aðrir sjá okkur. Eins er með biblíulestur okkar. Þegar við lesum daglega í Biblíunni komum við auga á hvernig við getum gert breytingar á hugarfari okkar. Mörgum finnst gagnlegt að lesa dagstextann á hverjum morgni áður en þeir fara að heiman. Þeir leyfa því sem þeir lesa að hafa áhrif á hugarfar sitt. Síðan reyna þeir yfir daginn að sjá hvernig þeir geta farið eftir ráðleggingunum í orði Guðs. Þar að auki þurfum við að hafa það að venju að lesa í orði Guðs á hverjum degi og hugsa um það sem við lesum. Þó að þetta virki ekki flókið er þetta eitt af því mikilvægasta sem við getum gert til að halda okkur á mjóa veginum til lífsins.

HLUSTAÐU Á ÞROSKAÐA VINI

ÞROSKAÐIR VINIR

Þroskaðir vinir í söfnuðinum gefa okkur kannski vingjarnlega viðvörun. Erum við þakklát fyrir að vinir okkar skyldu hafa hugrekki til að tala við okkur? (Sjá 9. grein.)

9. Hvenær gæti vinur þurft að leiðrétta þig?

9 Hefurðu einhvern tíma byrjað að gera eitthvað sem skaðaði samband þitt við Jehóva? (Sálm. 73:2, 3) Hafði þroskaður vinur þá hugrekki til að leiðrétta þig? Hlustaðir þú á hann og fórst eftir ráðum hans? Ef svo er gerðirðu vel og ert án efa þakklátur fyrir að vinur þinn skyldi vara þig við. – Orðskv. 1:5.

10. Hvernig ættirðu að bregðast við ef vinur leiðréttir þig?

10 Í orði Guðs erum við minnt á þetta: „Vel meint eru vinar sárin.“ (Orðskv. 27:6) Hvað þýðir það? Lýsum því með dæmi: Hugsaðu þér að þú standir við gangbraut við stóra umferðargötu þegar síminn truflar þig. Þú gengur út á götuna án þess að líta upp. Vinur þinn grípur þá í handlegginn á þér og kippir þér til baka upp á gangstétt. Hann grípur svo fast í þig að þú færð marblett, en snör viðbrögð hans bjarga þér frá því að verða fyrir bíl. Þú ert kannski aumur í handleggnum í nokkra daga. En myndirðu móðgast við vin þinn fyrir að hafa gripið í þig? Auðvitað ekki! Þú værir honum þakklátur. Á svipaðan hátt gætirðu orðið sár ef vinur þinn benti þér á að orð þín eða verk væru ekki í samræmi við réttlátar meginreglur Guðs. En taktu ráðum hans ekki illa og vertu ekki móðgaður. Það væri heimskulegt. (Préd. 7:9) Vertu öllu heldur þakklátur fyrir að vinur þinn skyldi hafa haft hugrekki til að tala við þig.

11. Hvað gæti orðið til þess að einhver hafnaði góðum ráðum frá vini?

11 Hvað gæti orðið til þess að einhver hafnaði góðum ráðum frá kærleiksríkum vini? Stolt. Þeir sem eru stoltir vilja „heyra það sem kitlar eyrun“. Þeir ,hætta að hlusta á sannleikann‘. (2. Tím. 4:3, 4) Þeir líta of stórt á sjálfa sig og eigin skoðanir. Páll postuli skrifaði: „Sá sem heldur sig vera eitthvað en er þó ekkert blekkir sjálfan sig.“ (Gal. 6:3) Salómon konungur lýsti þessu vel: „Betri er fátækur unglingur og vitur en gamall konungur, sé hann heimskur og taki ekki fortölum.“ – Préd. 4:13.

12. Hvað lærum við af fordæmi Péturs í Galatabréfinu 2:11–14?

12 Taktu eftir hvernig Pétur brást við þegar Páll leiðrétti hann fyrir framan aðra. (Lestu Galatabréfið 2:11–14.) Pétur hefði getað tekið því illa sem Páll sagði og einblínt á hvernig hann sagði það og hvar hann valdi að segja það. En Pétur var skynsamur. Hann tók við leiðréttingunni og varð ekki gramur út í Pál heldur talaði síðar um hann sem ,elskaðan bróður‘. – 2. Pét. 3:15.

13. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við gefum öðrum ráð?

13 Hvað ættirðu að hafa í huga ef þér finnst þú þurfa að gefa vini ráð? Áður en þú talar við vin þinn skaltu spyrja þig hvort þú sért „um of réttlátur“. (Préd. 7:16) Sá sem er um of réttlátur dæmir aðra ekki eftir mælikvarða Jehóva heldur sínum eigin. Og hann sýnir líklega ekki mikla miskunn. Ef þér finnst enn þá að þú þurfir að tala við vin þinn eftir að hafa hugsað málið skaltu útskýra vel hvert vandamálið er og nota viðhorfsspurningar til að hjálpa vini þínum að átta sig á mistökum sínum. Gættu þess að það sem þú segir sé byggt á Biblíunni og hafðu í huga að vinur þinn er ábyrgur frammi fyrir Jehóva en ekki þér. (Rómv. 14:10) Reiddu þig á viskuna í orði Guðs og líktu eftir samkennd Jesú þegar þú gefur öðrum ráð. (Orðskv. 3:5; Matt. 12:20) Hvers vegna ættirðu að gera það? Vegna þess að Jehóva dæmir okkur á sama hátt og við dæmum aðra. – Jak. 2:13.

FYLGDU LEIÐBEININGUM FRÁ SÖFNUÐI GUÐS

SÖFNUÐUR GUÐS

Söfnuður Guðs sér okkur fyrir ritum, myndböndum og samkomum sem hjálpa okkur að fylgja ráðunum í orði Guðs. Stjórnandi ráð gerir stundum breytingar á því hvernig starfsemi okkar er skipulögð. (Sjá 14. grein.)

14. Hverju sér söfnuður Guðs okkur fyrir?

14 Jehóva leiðbeinir okkur á veginum til lífsins fyrir milligöngu safnaðar síns á jörðinni. Söfnuðurinn sér okkur fyrir myndböndum, ritum og samkomum sem eru algerlega byggð á Biblíunni og hjálpa okkur öllum að fylgja ráðunum í orði Guðs. Stjórnandi ráð reiðir sig á leiðsögn heilags anda þegar það tekur ákvarðanir um hvernig best sé að fara að í boðuninni. Samt sem áður endurskoðar það reglulega ákvarðanir sínar til að athuga hvort einhverju þurfi að breyta. Hvers vegna? Vegna þess að „sviðsmynd þessa heims breytist“ og söfnuður Guðs þarf að aðlaga sig nýjum aðstæðum. – 1. Kor. 7:31.

15. Hverju hafa sumir boðberar þurft að aðlagast?

15 Við erum án efa fús til að taka við leiðbeiningum byggðum á Biblíunni varðandi kenningar eða siðferðismál. En hvað gerum við þegar söfnuðurinn gerir breytingar sem hafa áhrif á aðra þætti lífs okkar? Til dæmis hefur kostnaður við að byggja og viðhalda tilbeiðslustöðum okkar hækkað verulega á undanförnum árum. Stjórnandi ráð hefur því gefið þær leiðbeiningar að nýta skuli ríkissali eins vel og hægt er. Þar af leiðandi hafa söfnuðir verið sameinaðir og sumir ríkissalir seldir. Peningarnir hafa verið notaðir til að byggja ríkissali þar sem mesta þörfin er á þeim. Það gæti verið erfitt fyrir þig að aðlagast nýjum aðstæðum ef þú býrð þar sem ríkissalir hafa verið seldir og söfnuðir sameinaðir. Nú er lengra fyrir suma boðbera að sækja samkomur. Aðrir sem hafa unnið hörðum höndum við að byggja ríkissal eða halda honum við velta kannski fyrir sér hvers vegna eigi að selja hann. Þeim gæti fundist þeir hafa notað tíma sinn og krafta til einskis. En þeir styðja samt þetta nýja fyrirkomulag og eiga hrós skilið fyrir það.

16. Hvernig hjálpa ráðin í Kólossubréfinu 3:23, 24 okkur að halda gleðinni?

16 Við höldum gleði okkar ef við minnum okkur á að við erum að vinna fyrir Jehóva og að hann leiðir söfnuð sinn. (Lestu Kólossubréfið 3:23, 24.) Davíð konungur gaf gott fordæmi þegar hann gaf framlög til byggingar musterisins. Hann sagði: „Hver er ég og hver er lýður minn, að vér vorum færir um að gefa slíkar gjafir? Því að allt er frá þér og vér höfum fært þér það sem vér höfum þegið úr hendi þér.“ (1. Kron. 29:14) Þegar við gefum framlög erum við einnig að gefa Jehóva af því sem hann hefur gefið okkur. En Jehóva kann að meta það þegar við gefum af tíma okkar, kröftum og efnum til að styðja það verk sem hann vill láta vinna. – 2. Kor. 9:7.

HALTU ÞIG Á MJÓA VEGINUM

17. Hvers vegna ættirðu ekki að missa kjarkinn þó að þú þurfir að gera einhverjar breytingar?

17 Við þurfum öll að feta náið í fótspor Jesú til að halda okkur á mjóa veginum til lífsins. (1. Pét. 2:21) Ekki láta það draga úr þér kjarkinn þó að þér finnist þú þurfa að gera einhverjar breytingar. Það getur verið góðs viti – merki um að þú sért vakandi fyrir leiðsögn Jehóva. Hafðu í huga að þar sem við erum ófullkomin ætlast Jehóva ekki til að við líkjum fullkomlega eftir Jesú.

18. Hvað þurfum við að gera til að ná markmiði okkar?

18 Einbeitum okkur öll að því sem fram undan er og verum fús til að gera breytingar á hugarfari okkar og hegðun. (Orðskv. 4:25; Lúk. 9:62) Höldum áfram að vera auðmjúk, ,vera alltaf glöð og gera nauðsynlegar breytingar‘. (2. Kor. 13:11) Ef við gerum það verður „Guð kærleikans og friðarins“ með okkur. Þá náum við ekki aðeins á áfangastað okkar heldur njótum einnig ferðalagsins.

SÖNGUR 34 Göngum fram í ráðvendni

^ gr. 5 Sum okkar eiga kannski erfitt með að gera breytingar á hugarfari sínu og hegðun. Í þessari grein er rætt um hvers vegna við þurfum öll að gera breytingar og hvernig við getum gert þær með gleði.

^ gr. 76 MYND: Yngri bróðirinn segir frá því hvað gerðist eftir að hann tók slæma ákvörðun. Eldri bróðirinn (hægra megin) hlustar rólegur og metur hvort hann þurfi að gefa honum ráð.