Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 50

„Hvernig verða hinir dánu reistir upp?“

„Hvernig verða hinir dánu reistir upp?“

„Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?“ – 1. KOR. 15:55.

SÖNGUR 141 Lífið er kraftaverk

YFIRLIT *

1, 2. Af hverju ættu allir þjónar Guðs að hafa áhuga á upprisunni til himna?

FLESTIR þjónar Jehóva nú á dögum hafa von um að lifa að eilífu á jörðinni. En lítill hópur kristinna manna sem Jehóva hefur smurt með anda sínum á von um að vera reistur upp til lífs á himnum. Þeir sem tilheyra þessum hópi hafa mikinn áhuga á að vita hvernig líf þeirra verður í framtíðinni. En hvað um þá sem hafa jarðneska von? Eins og fram kemur í greininni mun upprisan til himna einnig hafa blessun í för með sér fyrir þá sem eiga von um að lifa að eilífu á jörðinni. Við ættum því að hafa áhuga á upprisunni til himna hvort sem við eigum von um að lifa á himnum eða jörð.

2 Guð innblés nokkrum lærisveinum Jesú á fyrstu öld að skrifa um upprisuna til himna. Jóhannes postuli skrifaði: „Nú erum við börn Guðs en það hefur enn ekki verið opinberað hvað við verðum. Við vitum að þegar hann opinberast verðum við eins og hann.“ (1. Jóh. 3:2) Andasmurðir kristnir menn vita því ekki hvernig þeir verða þegar þeir verða reistir upp til himna. En þegar þeir hljóta laun sín á himnum munu þeir sjá Jehóva. Í Biblíunni er upprisunni til himna ekki lýst í smáatriðum en Páll postuli gefur okkur einhverjar upplýsingar um hana. Hinir andasmurðu verða með Kristi þegar hann gerir „að engu allar stjórnir, yfirvöld og máttarvöld“. Þar á meðal er dauðinn, „síðasti óvinurinn“. Að lokum mun Jesús – ásamt meðstjórnendum sínum – skipa sig og allt annað undir Jehóva. (1. Kor. 15:24–28) Það verða heldur betur spennandi tímar! *

3. Hvað hjálpaði trú Páls á upprisuna honum að gera eins og fram kemur í 1. Korintubréfi 15:30–32?

3 Trú Páls á upprisuna hjálpaði honum að þola ýmsar raunir. (Lestu 1. Korintubréf 15:30–32.) Hann sagði við Korintumenn: „Dauðinn blasir við mér á hverjum degi.“ Páll sagði einnig: „Ég hef barist ... við villidýr í Efesus.“ Hann gæti hafa verið að vísa til þess að hafa barist við dýr á leikvangi í Efesus. (2. Kor. 1:8; 4:10; 11:23) Hann gæti einnig hafa verið að vísa til andstöðu frá Gyðingum og öðrum sem voru eins og „villidýr“. (Post. 19:26–34; 1. Kor. 16:9) Páll var í bráðri hættu hvort heldur var. En hann leit framtíðina samt björtum augum. – 2. Kor. 4:16–18.

Fjölskylda sem býr í landi þar sem hömlur eru á starfi okkar hvikar ekki frá tilbeiðslu sinni og hefur fulla trú á því að Guð veiti henni góða framtíð. (Sjá 4. grein.)

4. Hvernig hefur upprisuvonin styrkt trú þjóna Guðs nú á dögum? (Sjá mynd á forsíðu.)

4 Við lifum á hættulegum tímum. Sum trúsystkini okkar hafa orðið fórnarlömb glæpa. Önnur búa við stöðugt óöryggi á stríðshrjáðum svæðum. Og enn önnur hætta lífi sínu eða frelsi við að þjóna Jehóva í löndum þar sem boðun okkar sætir hömlum eða er bönnuð. En öll þessi trúsystkini okkar halda ótrauð áfram að tilbiðja Jehóva og eru okkur þannig góðar fyrirmyndir. Þau óttast ekki vegna þess að þau vita að Jehóva hefur eitthvað mun betra í vændum fyrir þau, jafnvel þó að þau láti lífið.

5. Hvaða hættulega viðhorf gæti grafið undan trú okkar á upprisuna?

5 Páll varaði bræður sína við hættulegu viðhorfi sumra: „Við skulum við borða og drekka því að á morgun deyjum við.“ Þetta viðhorf var þekkt jafnvel fyrir daga Páls. Hann gæti hafa verið að vísa í Jesaja 22:13 sem lýsir viðhorfi Ísraelsmanna. Í stað þess að styrkja kærleika sinn til Guðs sóttust þeir eftir að skemmta sér. Viðhorf þessara Ísraelsmanna var í raun að þeir þyrftu að lifa lífinu núna því að þeir gætu dáið hvenær sem er, og þetta viðhorf er líka algengt nú á dögum. Í Biblíunni er skráð hvernig fór fyrir Ísraelsmönnum vegna þess að þeir hugsuðu þannig. – 2. Kron. 36:15–20.

6. Hvaða áhrif ætti upprisuvonin að hafa á val okkar á vinum?

6 Við vitum að Jehóva ætlar að reisa upp látna og það ætti að hafa áhrif á val okkar á vinum. Kristnir menn í Korintu þurftu að forðast að umgangast þá sem höfnuðu upprisunni. Við getum dregið lærdóm af því. Ekkert gott hlýst af því að verja miklum tíma með þeim sem hugsa ekki um framtíðina heldur bara að skemmta sér. Það getur haft slæm áhrif á viðhorf og venjur kristins manns að umgangast slíka einstaklinga. Hann gæti farið að temja sér að gera það sem Guð hatar. Páll gaf því þessa sterku hvatningu: „Takið sönsum. Gerið það sem er rétt og hættið að syndga.“ – 1. Kor. 15:33, 34.

HVERS KONAR LÍKAMI?

7. Hvers kunna sumir að hafa spurt varðandi upprisuna eins og sjá má af 1. Korintubréfi 15:35–38?

7 Lestu 1. Korintubréf 15:35–38Sá sem vildi draga upprisuna í efa gæti hafa spurt: „Hvernig verða hinir dánu reistir upp?“ Það er skynsamlegt að skoða svar Páls vegna þess að margt fólk nú á dögum hefur sínar eigin skoðanir um líf eftir dauðann. En hvað kennir Biblían?

Páll notaði líkingu um fræ og plöntu til að lýsa því hvernig Guð getur fengið þeim sem hann reisir upp líkama við hæfi. (Sjá 8. grein.)

8. Hvaða líking getur hjálpað okkur að skilja upprisuna til himna?

8 Þegar einhver deyr rotnar líkami hans. En sá sem skapaði alheiminn úr engu getur reist hann upp og gefið honum líkama við hæfi. (1. Mós. 1:1; 2:7) Páll notaði líkingu til að sýna fram á að Guð þyrfti ekki að reisa menn upp í sama líkama. Hugsaðu um „bert frækornið“, eða „fræ“ af plöntu. Þegar frækorni er sáð spírar það og verður að nýrri plöntu. Plantan sem vex er gerólík frækorninu. Páll notaði þessa líkingu til að sýna fram á að skapari okkar getur gefið mönnum „líkama eins og honum þóknast“.

9. Hvað segir 1. Korintubréf 15:39–41 um mismunandi líkama?

9 Lestu 1. Korintubréf 15:39–41Páll benti á fjölbreytileika sköpunarinnar. Til dæmis eru líkamar búfjár, fugla og fiska ólíkir. Hann benti á að við tökum eftir mun á sólinni og tunglinu á himnum. Og hann sagði: „Ljómi einstakra stjarna er jafnvel mismunandi.“ Þó að við sjáum það kannski ekki með berum augum eru til stjörnur sem vísindamenn kalla rauða risa, hvíta dverga og gular stjörnur eins og sólin okkar. Páll sagði líka að það væru til „himneskir líkamar og jarðneskir líkamar“. Hvað átti hann við með því? Á jörðinni höfum við líkama úr holdi en á himnum eru andlegir líkamar eins og líkamar englanna.

10. Hvers konar líkama fá þeir sem verða reistir upp til himna?

10 Taktu eftir hvað Páll sagði næst: „Eins er með upprisu hinna dánu. Það sem er sáð er forgengilegt en það sem rís upp er óforgengilegt.“ Við vitum að þegar einhver deyr rotnar líkami hans og verður aftur að mold. (1. Mós. 3:19) Hvernig getur þá líkami sem ,rís upp verið óforgengilegur‘? Páll var ekki að tala um mann sem er reistur upp til lífs á jörðinni eins og þeir sem Elía, Elísa og Jesús reistu upp. Páll átti við einstakling sem yrði reistur upp með himneskan líkama, það er að segja ,andlegan líkama‘. – 1. Kor. 15:42–44.

11, 12. Hvaða breytingu upplifði Jesús þegar hann var reistur upp og hvernig upplifa hinir andasmurðu eitthvað svipað?

11 Þegar Jesús var á jörðinni var hann með líkama úr holdi. En þegar hann var reistur upp varð hann „lífgefandi andi“ og fór aftur til himna. Á sama hátt yrðu andasmurðir kristnir menn reistir upp til að lifa á himnum. Páll sagði: „Eins og við líkjumst þeim sem var myndaður úr mold munum við einnig líkjast hinum himneska.“ – 1. Kor. 15:45–49.

12 Það er mikilvægt að muna að Jesús var ekki reistur upp í mannlegum líkama. Undir lok ræðu sinnar útskýrði Páll hvers vegna: „Hold og blóð getur ekki erft ríki Guðs“ á himnum. (1. Kor. 15:50) Postularnir og aðrir andasmurðir yrðu ekki reistir upp til himna með forgengilega líkama úr holdi og blóði. Hvenær myndu þeir fá upprisu? Páll undirstrikaði að þessi upprisa yrði í framtíðinni, ekki um leið og þeir dæju. Þegar Páll skrifaði 1. Korintubréf voru sumir lærisveinanna þegar dánir, þar á meðal Jakob. (Post. 12:1, 2) Aðrir postular og andasmurðir kristnir menn áttu enn eftir að deyja. – 1. Kor. 15:6.

DAUÐINN SIGRAÐUR

13. Hvað átti að einkenna „nærveru“ Jesú?

13 Jesús og Páll spáðu báðir fyrir um sérstakan tíma – nærveru Krists. Nærvera hans átti að einkennast af stríðum, jarðskjálftum, drepsóttum og öðrum slæmum atburðum á heimsvísu. Við höfum séð þennan biblíuspádóm rætast síðan 1914. Og það yrði annað mikilvægt tákn. Jesús sagði að fagnaðarboðskapurinn um stofnsett ríki Guðs yrði boðaður ,um alla jörðina til að allar þjóðir fengju að heyra hann, og síðan kæmi endirinn‘. (Matt. 24:3, 7–14) Páll sagði að við „nærveru Drottins“ yrðu andasmurðir kristnir menn sem hefðu „sofnað dauðasvefni“ reistir upp. – 1. Þess. 4:14–16; 1. Kor. 15:23.

14. Hvað upplifa andasmurðir kristnir menn sem deyja á meðan nærvera Krists stendur yfir?

14 Andasmurðir kristnir menn sem deyja núna eru þegar í stað reistir upp til lífs á himnum. Páll bendir á það í 1. Korintubréfi 15:51, 52: „Við munum ekki öll sofna dauðasvefni en við munum öll umbreytast á svipstundu, á augabragði, við síðasta lúðurþytinn.“ Þetta er að rætast núna. Þegar þessir bræður Krists rísa upp verður gleði þeirra fullkomin. Þeir verða „alltaf með Drottni“. – 1. Þess. 4:17.

Þeir sem umbreytast „á augabragði“ munu ásamt Jesú gersigra þjóðirnar. (Sjá 15. grein.)

15. Hvaða verkefni bíður þeirra sem umbreytast „á augabragði“?

15 Biblían upplýsir okkur um hvað þeir sem umbreytast „á augabragði“ muni gera á himnum. Jesús segir við þá: „Þeim sem sigrar og vinnur sömu verk og ég allt til enda mun ég gefa vald yfir þjóðunum. Hann mun ríkja yfir þeim eins og hirðir með járnstaf svo að þær mölbrotna eins og leirker. Faðir minn hefur gefið mér þetta vald.“ (Opinb. 2:26, 27) Þeir fylgja foringja sínum í verkefninu sem þeir eiga fyrir höndum – að ríkja yfir þjóðunum með járnstaf. – Opinb. 19:11–15.

16. Hvernig mun mörgum mönnum takast að sigra dauðann?

16 Það er greinilegt að hinir andasmurðu munu sigra dauðann. (1. Kor. 15:54–57) Upprisa þeirra gerir þeim kleift að eiga þátt í að afmá alla illsku af jörðinni í Harmagedónstríðinu sem er fram undan. Milljónir annarra þjóna Guðs „koma úr þrengingunni miklu“ og lifa af inn í nýja heiminn. (Opinb. 7:14) Þeir sem lifa af á jörðinni verða vitni að öðrum sigri yfir dauðanum þegar milljarðar manna sem hafa dáið verða reistir upp. Ímyndaðu þér gleðina sem mun ríkja þegar þessum sigri verður náð! (Post. 24:15) Og allir þeir sem sýna Jehóva algera trúfesti munu sigra dauðann sem við fengum í arf. Þeir fá þá eilíft líf.

17. Hvað ættum við að gera núna með 1. Korintubréf 15:58 í huga?

17 Allir þjónar Jehóva nú á dögum ættu að vera þakklátir fyrir hughreystandi orð Páls til Korintumanna um upprisuna. Við höfum fulla ástæðu til að taka til okkar hvatninguna frá Páli um að vera upptekin „í verki Drottins“ núna. (Lestu 1. Korintubréf 15:58.) Ef við gerum alltaf okkar besta í þessu verki getum við hlakkað til ánægjulegs lífs í framtíðinni. Það verður dásamlegra en nokkuð sem við getum ímyndað okkur. Það mun vissulega staðfesta að erfiði okkar fyrir Drottinn var ekki til einskis.

SÖNGUR 140 Loksins eilíft líf

^ gr. 5 Seinni hluti 15. kafla 1. Korintubréfs fjallar um upprisuna, sérstaklega upprisu andasmurðra. En það sem Páll skrifaði er líka mikilvægt fyrir aðra sauði. Í þessari grein sjáum við hvernig upprisuvonin ætti að hafa áhrif á líf okkar núna og gefa okkur ástæðu til að hlakka til framtíðarinnar.

^ gr. 2Spurningar frá lesendum“ í þessu blaði fjalla um það sem Páll sagði í 1. Korintubréfi 15:29.