Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Í Orðskviðunum 24:16 segir: „Sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur.“ Er þarna átt við einhvern sem syndgar endurtekið en fær fyrirgefningu Guðs?

Reyndar er ekki átt við það. Versið lýsir öllu heldur einhverjum sem stendur endurtekið frammi fyrir mótlæti eða vandamálum en stendur aftur upp í þeim skilningi að hann nær sér aftur.

Skoðum versið í samhengi: „Rangláti maður, sit ekki um bústað hins réttláta og spilltu ekki heimkynnum hans því að sjö sinnum fellur hinn réttláti og stendur upp aftur en hinir ranglátu hrasa og tortímast. Gleðstu ekki yfir falli óvinar þíns og hjarta þitt fagni ekki þótt hann hrasi.“ – Orðskv. 24:15–17.

Sumir hafa talið að vers 16 vísi til einhvers sem syndgar en iðrast og öðlast aftur gott samband við Guð. Tveir breskir prestar hafa sagt að prédikarar fyrr og nú hafi oft skýrt þetta vers þannig. Þeir segja líka að það myndi þýða að „góður maður gæti syndgað alvarlega án þess nokkurn tíma að glata kærleika sínum til Guðs en standa upp aftur í hvert skipti með því að iðrast.“ Þessi hugmynd gæti höfðað til einhvers sem langar ekki að berjast gegn syndinni. Hann gæti ímyndað sér að Guð fyrirgefi sér alltaf jafnvel þótt hann syndgi endurtekið.

En það er ekki það sem er átt við í versi 16.

Hebreska orðið sem er þýtt „fellur“ og „falli“ í 16. og 17. versi er notað í fleiri en einni merkingu. Það getur vísað til þess að falla í bókstaflegri merkingu – naut sem fellur á veginum, einhver sem fellur ofan af þaki, eða smásteinn sem fellur á jörðina. (5. Mós. 22:4, 8; Amos 9:9) Orðið er líka notað í óeiginlegri merkingu eins og eftirfarandi dæmi sýnir: „Drottinn stýrir skrefum mannsins þegar hann hefur þóknun á vegferð hans. Þó að hann hrasi fellur hann ekki flatur því að Drottinn heldur í hönd hans.“ – Sálm. 37:23, 24; Orðskv. 11:5; 13:17, NW; 17:20.

En veitum athygli því sem prófessor Edward H. Plumptre segir: „Hebreska orðið fyrir [fall] er aldrei notað um að falla í þeirri merkingu að syndga.“ Þess vegna skýrir annar fræðimaður vers 16 svona: „Það væri tilgangslaust að koma illa fram við fólk Guðs vegna þess að því mun alltaf vegna vel – ólíkt hinum illu.“

Orðskviðirnir 24:16 fjalla því um að standa frammi fyrir vandamálum eða erfiðleikum, jafnvel aftur og aftur, en ekki það að „falla“ í siðferðilegum skilningi með því að syndga. Í þessum illa heimi getur réttlátur maður þurft að glíma við vanheilsu eða önnur vandamál. Hann gæti jafnvel þurft að þola ofsóknir af hendi yfirvalda vegna trúar sinnar. En hann getur treyst því að Guð styðji sig og hjálpi sér að halda út og sigra í baráttunni. Hefurðu ekki tekið eftir að allt fer gjarnan vel hjá þjónum Guðs? Hvers vegna? Við getum verið viss um að „Drottinn styður alla þá sem hníga og reisir upp alla niðurbeygða“. – Sálm. 41:2–4; 145:14–19.

„Hinn réttláti“ gleðst ekki yfir óförum annarra. En það hughreystir hann að vita að „réttlátum mönnum, sem óttast Guð, vegnar vel“. – Préd. 8:11–13; Job. 31:3–6; Sálm. 27:5, 6.