Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 52

Hvernig geturðu unnið bug á depurð?

Hvernig geturðu unnið bug á depurð?

„Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ – SÁLM. 55:23.

SÖNGUR 33 Varpaðu áhyggjum þínum á Jehóva

YFIRLIT *

1. Hvaða áhrif getur depurð haft á okkur?

Á HVERJUM degi mætum við vandamálum og tökumst á við þau eftir bestu getu. En það er erfiðara að glíma við þau þegar við erum niðurdregin. Við þurfum því að líta á depurð sem óvelkominn gest sem rænir okkur sjálfstrausti, hugrekki og gleði. Í Orðskviðunum 24:10 segir: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ Já, depurð getur dregið úr okkur þann kraft sem við þurfum til að geta tekist á við erfiðleika lífsins með góðum árangri.

2. Hvað getur gert okkur niðurdregin og hvað skoðum við í þessari grein?

2 Það er margt sem getur gert okkur niðurdregin – það sem við glímum við innra með okkur og ytri áhrif. Ástæðurnar gætu verið ófullkomleiki okkar, veikleikar eða slæm heilsa. Við gætum einnig orðið niðurdregin af því að við höfum ekki fengið verkefni í þjónustu Jehóva sem okkur langar til að fá eða af því að fólk á starfssvæði okkar virðist ekki sýna áhuga á boðskapnum. Í þessari grein skoðum við sumt af því sem getur hjálpað okkur að takast á við depurð.

ÞEGAR VIÐ TÖKUMST Á VIÐ ÓFULLKOMLEIKA OG VEIKLEIKA

3. Hvað getur hjálpað okkur að sjá ófullkomleika okkar í réttu ljósi?

3 Það er auðvelt að sjá ófullkomleika okkar og veikleika í röngu ljósi. Okkur gæti þess vegna fundist veikleikar okkar koma í veg fyrir að Jehóva vilji hafa okkur í nýjum heimi sínum. Það getur verið mjög varasamt að hugsa þannig. Hvernig ættum við að líta á eigin ófullkomleika? Í Biblíunni segir að allir menn, nema Jesús Kristur, ,hafi syndgað‘. (Rómv. 3:23) En höfundur Biblíunnar einblínir ekki á mistök okkar eða væntir fullkomleika af okkur. Staðreyndin er sú að hann er elskuríkur faðir sem vill hjálpa okkur og hann er líka þolinmóður. Hann sér allt sem leggjum á okkur til að glíma við veikleika og lágt sjálfsmat, og hann er tilbúinn að hjálpa okkur. – Rómv. 7:18, 19.

Jehóva veit bæði um það góða sem við höfum gert og það góða sem við gerum nú. (Sjá 5. grein.) *

4, 5. Hvað hjálpaði tveim systrum að láta ekki depurð ná tökum á sér í samræmi við það sem segir í 1. Jóhannesarbréfi 3:19, 20?

4 Tökum Debóru og Maríu sem dæmi. * Debóra var oft niðurlægð þegar hún var barn. Henni var sjaldan hrósað. Hún hafði því mjög lélegt sjálfsálit þegar hún var orðin fullorðin. Þegar hún gerði smávægileg mistök fannst henni hún algerlega mislukkuð. Svipaða sögu er að segja af Maríu. Ættingjar hennar gerðu lítið úr henni. Fyrir vikið fannst henni hún vera einskis virði. Jafnvel eftir að hún skírðist fannst henni hún ekki vera nógu góð til að vera vottur Jehóva.

5 En þessar systur hættu ekki að þjóna Jehóva. Hvers vegna? Þær vörpuðu áhyggjum sínum á Jehóva í einlægri bæn. (Sálm. 55:23) Þær gerðu sér grein fyrir því að kærleiksríkur faðir okkar á himnum veit hvernig fortíð okkar og neikvæður hugsunarháttur hefur haft áhrif á okkur. Og hann sér einnig það góða sem býr í hjarta okkar – eiginleika sem við sjáum kannski ekki sjálf. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:19, 20.

6. Hvernig gæti þeim liðið sem gerir sömu mistökin aftur?

6 Sá sem reynir að losa sig við slæma og rótgróna ávana gæti orðið niðurdreginn ef honum mistekst það. Að sjálfsögðu er eðlilegt að fá samviskubit þegar við syndgum. (2. Kor. 7:10) Við ættum hins vegar ekki að fara út í öfgar, fordæma okkur sjálf og hugsa: „Ég er alveg ómögulegur. Jehóva getur aldrei fyrirgefið mér.“ Slík hugsun byggist ekki á sannleika Biblíunnar og gæti orðið til þess að við hættum að þjóna Jehóva. Munum það sem við lásum í Orðskviðunum 24:10 – depurð dregur úr okkur kraft. Leiðréttum frekar málin við Jehóva með því að leita til hans í bæn og biðja um miskunn. (Jes. 1:18) Þegar Jehóva sér einlæga iðrun þína fyrirgefur hann þér. Auk þess skaltu leita til öldunganna. Þeir munu þolinmóðir hjálpa þér að bæta samband þitt við Jehóva. – Jak. 5:14, 15.

7. Hvers vegna ættum við ekki að vera niðurdregin þótt okkur reynist erfitt að gera það sem er rétt?

7 Jean-Luc, öldungur í Frakklandi, segir þeim sem berjast við veikleika: „Sá sem er réttlátur í augum Jehóva er ekki sá sem gerir aldrei mistök heldur sá sem sér eftir mistökum sínum og iðrast þeirra alltaf.“ (Rómv. 7:21–25) Álíttu þig ekki einskis virði ef þú ert að glíma við veikleika. Mundu að ekkert okkar getur áunnið sér réttláta stöðu frammi fyrir Guði. Við þurfum öll á einstakri góðvild hans að halda sem hann sýnir okkur með lausnarfórninni. – Ef. 1:7; 1. Jóh. 4:10.

8. Til hverra getum við leitað þegar við erum niðurdregin?

8 Við getum leitað til bræðra og systra – andlegrar fjölskyldu okkar – til að fá uppörvun. Þau eru eflaust tilbúin að hlusta á okkur þegar við þurfum að létta á hjarta okkar og segja eitthvað til að uppörva okkur. (Orðskv. 12:25; 1. Þess. 5:14) Joy, systir í Nígeríu sem hefur glímt við depurð, segir: „Ég veit ekki hvar ég væri án bræðra minna og systra. Þau eru sönnun fyrir því að Jehóva svarar bænum mínum. Ég hef jafnvel lært af þeim hvernig ég get uppörvað aðra sem eru niðurdregnir.“ Höfum samt hugfast að bræður okkar og systur vita ekki alltaf hvenær við þurfum á uppörvun að halda. Við gætum þess vegna þurft að eiga frumkvæðið að því að leita til þroskaðs trúsystkinis og biðja um hjálp.

ÞEGAR VIÐ GLÍMUM VIÐ SLÆMA HEILSU

9. Hvernig getur Sálmur 41:4 og 94:19 verið okkur til uppörvunar?

9 Leitum til Jehóva til að fá stuðning. Þegar okkur líður illa og sérstaklega ef við glímum við langvinn veikindi gæti okkur fundist erfitt að vera jákvæð. Þótt Jehóva lækni okkur ekki fyrir kraftaverk hughreystir hann okkur og gefur okkur þann styrk sem við þurfum til að halda út. (Lestu Sálm 41:4; 94:19.) Hann gæti til dæmis fengið trúsystkini til að hjálpa okkur við heimilisstörf eða innkaup. Hann gæti fengið þau til að biðja með okkur. Hann gæti einnig minnt okkur á eitthvað hughreystandi úr orði sínu, eins og þá yndislegu von að eignast fullkomið líf án veikinda og sársauka í komandi heimi. – Rómv. 15:4.

10. Hvernig tókst Isang á við depurð eftir að hafa lent í slysi?

10 Isang, sem býr í Nígeríu lenti í slysi og lamaðist. Læknirinn hans sagði að hann myndi aldrei geta gengið aftur. „Ég var sundurmarinn í hjarta og sundurkraminn í anda,“ sagði Isang. Leið honum þannig áfram? Nei! Hvað hjálpaði honum? „Við hjónin hættum aldrei að biðja til Jehóva og rannsaka orð hans,“ útskýrir hann. „Við vorum einnig staðráðin í að vera þakklát fyrir það góða sem við höfðum, eins og von okkar um líf í nýjum heimi Guðs.“

Jafnvel þeir sem eru líkamlegum takmörkum háðir geta notið árangurs og gleði í boðuninni. (Sjá 11.–13. grein.)

11. Hvernig tókst Cindy að viðhalda gleðinni þrátt fyrir erfið veikindi?

11 Cindy sem býr í Mexíkó greindist með banvænan sjúkdóm. Hvernig tókst hún á við aðstæður sínar? Hún hafði það að markmiði þegar hún var í meðferð að tala um trú sína á hverjum degi. Hún segir: „Það hjálpaði mér að einbeita mér að öðrum í stað þess að hugsa um aðgerðina, sársaukann eða hversu ömurlega mér leið. Það sem ég gerði: Þegar ég talaði við lækna og hjúkrunarfólk spurði ég um fjölskyldur þeirra. Síðan spurði ég hvers vegna þau hefðu valið svona krefjandi starf. Þá var auðvelt að velja umræðuefni sem þau gætu haft áhuga á. Nokkrir minntust á að það væri óvenjulegt að sjúklingur spyrði hvernig þeir hefðu það. Og margir þökkuðu mér fyrir að sýna umhyggju. Sumir gáfu mér jafnvel heimilisfang sitt eða símanúmer. Á þessum erfiða tíma í lífi mínu hefur Jehóva gefið mér svo mikla innri gleði að það kom jafnvel sjálfri mér á óvart.“ – Orðskv. 15:15.

12, 13. Hvernig hafa aldraðir og þeir sem glíma við veikindi eða fötlun tekið þátt í boðuninni og með hvaða árangri?

12 Þeir sem glíma við veikindi eða fötlun gætu verið niðurdregnir vegna þess að þeir geta ekki gert eins mikið í boðuninni og þeir vildu. Margir hafa samt fundið leiðir til að boða trúna. Systir að nafni Laurel í Bandaríkjunum var bundin stállunga í 37 ár! Hún fékk krabbamein, þurfti að gangast undir stórar aðgerðir og var með langvinna húðsjúkdóma. En þessir gríðarlegu erfiðleikar komu ekki í veg fyrir að hún boðaði trúna. Hún talaði við hjúkrunarfræðinga og aðra sem önnuðust hana. Með hvaða árangri? Hún hjálpaði að minnsta kosti 17 manns að komast til nákvæmrar þekkingar á Biblíunni! *

13 Richard, öldungur í Frakklandi, kom með góða hugmynd fyrir þá sem eiga ekki heimangengt eða eru á hjúkrunarheimili. „Ég mæli með því að hafa fáein rit uppi við. Ritin geta vakið forvitni fólks og komið af stað samræðum. Þetta getur reynst kærum bræðrum okkar og systrum hvatning sem komast ekki lengur hús úr húsi.“ Þeir sem eiga ekki heimangengt geta líka tekið þátt í boðuninni með því að skrifa bréf og hringja til fólks.

ÞEGAR VIÐ FÁUM EKKI VERKEFNI SEM OKKUR LANGAR TIL AÐ FÁ

14. Hvernig er Davíð okkur gott fordæmi til eftirbreytni?

14 Aldur okkar, heilsa eða eitthvað annað gæti komið í veg fyrir að við eigum kost á að fá ákveðin verkefni í söfnuðinum. Þá gætum við lært af fordæmi Davíðs konungs. Þegar Davíð var sagt að hann hefði ekki verið valinn til að byggja musteri Guðs – nokkuð sem hann hafði innilega vonast til að gera – studdi hann af heilum hug þann sem Guð valdi til verksins. Davíð gaf jafnvel rausnarlegt framlag til verksins. Hann er okkur sannarlega frábært fordæmi til eftirbreytni. – 2. Sam. 7:12, 13; 1. Kron. 29:1, 3–5.

15. Hvernig vann Hugues bug á depurð?

15 Vegna heilsuvandamála hætti Hugues, bróðir í Frakklandi, að þjóna sem öldungur. Hann var ekki einu sinni fær um að gera einföld heimilisstörf. Hann segir: „Í fyrstu fannst mér ég einskis virði og var mjög niðurdreginn. En með tímanum sá ég að ég þurfti að sætta mig við takmörk mín og var ánægður með það sem ég gat gert í þjónustu Jehóva. Ég er staðráðinn í að gefast ekki upp. Líkt og Gídeon og hans þrjú hundruð menn – sem voru allir þreyttir – held ég áfram að berjast.“ – Dóm. 8:4.

16. Hvað getum við lært af englunum?

16 Trúfastir englar eru góðar fyrirmyndir. Þegar Akab konungur var við völd bauð Jehóva englunum að koma með hugmyndir til að blekkja hinn illa konung. Þó nokkrir englar komu með tillögur. En Guð valdi einn engil og sagði honum að tillaga hans myndi ganga upp. (1. Kon. 22:19–22) Urðu hinir trúföstu englarnir fyrir vonbrigðum og hugsuðu: „Ég hefði ekki átt að leggja vinnu í þetta“? Við höfum enga ástæðu til að ætla það. Englarnir eru vissulega auðmjúkir og vilja að Jehóva fái allan heiður. – Dóm. 13:16–18; Opinb. 19:10.

17. Hvað ættum við að gera ef við erum niðurdregin af því að við fáum ekki ákveðin verkefni í þjónustu Jehóva?

17 Höfum hugfast að við höfum þann heiður að bera nafn Guðs og boða ríki hans. Við fáum verkefni og við missum verkefni, en það eru ekki þau sem gera okkur dýrmæt í augum Guðs. Það er auðmýkt sem gerir okkur dýrmæt í augum Jehóva og bræðra okkar og systra. Biddu því Jehóva að hjálpa þér að vera auðmjúkur. Hugsaðu um alla þá sem sýndu auðmýkt og sagt er frá í Biblíunni. Þjónaðu bræðrum þínum og systrum fúslega á hvern þann hátt sem þú getur. – Sálm. 138:6; 1. Pét. 5:5.

ÞEGAR FÓLK VIRÐIST EKKI HAFA ÁHUGA Á FAGNAÐARBOÐSKAPNUM

18, 19. Hvernig geturðu haft ánægju af boðuninni þótt fólk virðist ekki hafa áhuga á boðskapnum?

18 Hefur þér fundist letjandi þegar fólk á starfssvæðinu virðist ekki hafa áhuga á boðskapnum eða þegar fáir eru heima? Hvað getum við þá gert til að viðhalda gleðinni eða auka hana? Nokkrar góðar tillögur er að finna í rammanum „ Leiðir til að bæta þjónustu þína“. Einnig er mikilvægt að hafa rétt viðhorf til boðunarinnar. Hvað felur það í sér?

19 Munum að meginástæðan fyrir boðun okkar er að kunngera nafn Guðs og segja fólki frá ríki hans. Jesús gaf skýrt til kynna að fáir myndu finna veginn til lífsins. (Matt. 7:13, 14) Þegar við boðum trúna njótum við þess heiðurs að vinna með Jehóva, Jesú og englunum. (Matt. 28:19, 20; 1. Kor. 3:9; Opinb. 14:6, 7) Jehóva leitar að fólki sem vill þjóna honum. (Jóh. 6:44) Sá sem vill ekki hlusta á boðskap okkar núna gæti verið tilbúinn til þess næst þegar við bönkum upp á hjá honum.

20. Hvað getur Jeremía 20:8, 9 kennt okkur varðandi það að berjast gegn depurð?

20 Við getum lært margt af Jeremía spámanni. Honum var úthlutað mjög erfiðu starfssvæði. Fólk móðgaði hann og hæddist að honum „allan daginn“. (Lestu Jeremía 20:8, 9.) Eitt sinn var hann svo niðurdreginn að hann var við það að gefast upp. En hann gerði það ekki. Hvers vegna? Orð Jehóva var eins og eldur í hjarta Jeremía svo að hann gat ekki þagað! Hið sama á við um okkur þegar við fyllum huga okkar og hjarta af orði Guðs. Það er enn ein ástæða til að lesa daglega í Biblíunni og hugleiða efni hennar. Þá njótum við meiri gleði og þjónusta okkar getur orðið árangursríkari. – Jer. 15:16.

21. Hvernig getum við unnið í baráttunni við depurð sama hver ástæðan fyrir henni kann að vera?

21 „Depurð getur verið öflugt vopn í höndum Satans,“ segir Debóra sem minnst er á fyrr í greininni. En Jehóva Guð er langtum öflugri en Satan og öll hans vopn. Þegar þú ert niðurdreginn af einhverri ástæðu skaltu því sárbæna Jehóva um stuðning. Hann hjálpar þér að takast á við ófullkomleika þinn og veikleika. Hann styður þig í veikindum. Hann hjálpar þér að sjá verkefni í þjónustunni í réttu ljósi. Og hann hjálpar þér að hafa jákvætt viðhorf til boðunarinnar. Umfram allt skaltu varpa áhyggjum þínum á himneskan föður þinn. Með hans hjálp geturðu unnið í baráttunni við depurð.

SÖNGUR 41 Heyr mínar bænir

^ gr. 5 Við getum öll orðið niðurdregin. Í þessari grein skoðum við ákveðnar aðferðir til að takast á við depurð. Eins og við munum sjá getum við sigrast á depurð með hjálp Jehóva.

^ gr. 4 Sumum nöfnum hefur verið breytt.

^ gr. 12 Hægt er að lesa ævisögu Laurel Nisbet í Vaknið! í apríl 1993.

^ gr. 69 MYND: Systir ein var döpur um tíma en hún rifjar upp fyrri daga í þjónustunni og biður til Jehóva. Hún er fullviss um að hann muni eftir því sem hún hefur gert og því sem hún gerir núna.