Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sinntu verkefni þínu sem allra best

Sinntu verkefni þínu sem allra best

HVERNIG líður þér þegar þú færð hlýlegt bréf frá góðum vini? Lærisveinninn Tímóteus fékk slíkt bréf frá Páli postula og við þekkjum það í Biblíunni sem 2. Tímóteusarbréf. Tímóteus hefur án efa farið á rólegan stað til að lesa bréfið frá kærum vini sínum. Hann hefur ef til vill hugsað: „Hvernig gengur hjá Páli? Gefur hann mér ráð sem hjálpa mér að annast verkefni mín? Geta þau hjálpað mér að boða trúna og kenna öðrum?“ Eins og við munum sjá fékk Tímóteus svör við þessum spurningum ásamt fleiru í þessu dýrmæta bréfi. Í þessari grein skoðum við nokkur gagnleg ráð sem er að finna í bréfinu.

,ÉG ER ÞOLGÓÐUR Í ÖLLU‘

Þegar Tímóteus byrjaði að lesa bréfið skildi hann strax hversu annt Páli var um sig. Páll kallar hann hlýlega „elskað barn“ sitt. (2. Tím. 1:2) Þótt Tímóteus væri líklega á fertugsaldri þegar hann fékk bréfið um árið 65 var hann þegar reyndur öldungur í söfnuðinum. Hann hafði unnið með Páli í yfir tíu ár og lært margt.

Það hlýtur að hafa uppörvað Tímóteus mikið að fá að vita að Páll var trúfastur þrátt fyrir erfiðleika. Hann var fangi í Róm og yrði fljótlega tekinn af lífi. (2. Tím. 1:15, 16; 4:6–8) Tímóteus gat skynjað hugrekki Páls af orðunum: ,Ég er þolgóður í öllu.‘ (2. Tím. 2:8–13) Þolgæði Páls getur veitt okkur styrk, rétt eins og Tímóteusi.

,GLÆDDU MEÐ ÞÉR GJÖFINA‘

Páll hvatti Tímóteus til að líta á verkefni sitt í þjónustu Guðs sem mjög dýrmætt. Hann vildi að Tímóteus ,glæddi með sér gjöfina sem hann fékk frá Guði‘. (2. Tím. 1:6) Páll notaði gríska orðið khaʹri·sma fyrir „gjöf“. Það vísar til gjafar sem maður hefur ekki unnið fyrir og fær endurgjaldslaust. Tímóteus hafði fengið þessa gjöf þegar honum var falið að þjóna söfnuðinum á sérstakan hátt. – 1. Tím. 4:14.

Hvað átti Tímóteus að gera við þessa gjöf? Þegar hann las orðið „glæða“ gæti hann hafa hugsað um eld á ísraelsku heimili sem varð oft að glóandi kolum. Blása þurfti í glæðurnar til að ná fram loga og meiri hita. Gríska sögnin (a·na·zo·py·reʹo) sem Páll notaði merkir samkvæmt orðabók að ,tendra á ný, glæða, lífga við‘. Í óeiginlegri merkingu getur það þýtt að verða áhugasamur og kappsamur gagnvart verkefni. Páll var í raun að ráðleggja Tímóteusi að sinna verkefni sínu sem allra best. Við þurfum að gera slíkt hið sama og annast verkefni okkar af kappi.

„VARÐVEITTU ÞAÐ GÓÐA“

Þegar Tímóteus hélt áfram að lesa bréfið frá kærum vini sínum rakst hann á annað orðasamband sem myndi hjálpa honum að ná árangri í starfi sínu. Páll skrifaði: „Varðveittu það góða sem þér var trúað fyrir, með hjálp heilags anda sem býr í okkur.“ (2. Tím. 1:14) Hverju hafði Tímóteusi verið trúað fyrir? Í versinu á undan nefnir Páll ,heilnæmu orðin‘, sannleikann sem er að finna í Ritningunum. (2. Tím. 1:13) Sem þjónn Guðs átti Tímóteus að boða sannleikann bæði í söfnuðinum og utan hans. (2. Tím. 4:1–5) Hann hafði líka verið útnefndur öldungur til að gæta hjarðar Guðs. (1. Pét. 5:2) Tímóteus gat varðveitt það sem honum hafði verið trúað fyrir – sannleikann sem hann átti að kenna – með því að reiða sig á orð Jehóva og heilagan anda hans. – 2. Tím. 3:14–17.

Okkur hefur einnig verið trúað fyrir sannleikanum sem við kennum öðrum. (Matt. 28:19, 20) Við munum alltaf meta að verðleikum traustið sem okkur er sýnt ef við erum stöðug í bæninni og gerum það að venju okkar að lesa í orði Guðs og hugleiða það sem við lesum. (Rómv. 12:11, 12; 1. Tím. 4:13, 15, 16) Sumir hafa líka það verkefni að vera öldungar í söfnuðinum eða þjóna í fullu starfi. Það ætti að gera okkur auðmjúk að hafa verið sýnt slíkt traust og vekja hjá okkur þá tilfinningu að við séum háð hjálp Guðs. Við getum varðveitt það sem okkur hefur verið trúað fyrir með því að vera þakklát fyrir það og reiða okkur á hjálp Jehóva til að annast það.

,FELDU ÞAÐ TRÚFÖSTUM MÖNNUM‘

Verkefnin sem Tímóteusi hafði verið falin snertu ekki hann einan. Hann átti líka að þjálfa aðra. Þess vegna hvatti Páll hann: „Það sem þú heyrðir frá mér ... skaltu fela trúföstum mönnum sem verða síðan hæfir til að kenna öðrum.“ (2. Tím. 2:2) Tímóteus átti að kenna trúbræðrum sínum það sem hann hafði sjálfur lært. Það er mikilvægt að allir umsjónarmenn í söfnuðinum leggi sig fram um að gera slíkt hið sama. Góður umsjónarmaður lætur ekki öfund hindra sig í að miðla öðrum af þekkingu sinni um ákveðin verkefni. Öllu heldur þjálfar hann aðra til að þeir geti líka annast verkefnin. Hann óttast ekki að þeir muni skyggja á sig ef þeir hafa meiri þekkingu en hann eða eru færari. Umsjónarmaður kennir því ekki bara undirstöðuatriðin sem varða ákveðið verkefni. Hann vill hjálpa þeim sem hann þjálfar að öðlast dómgreind og skilning svo að þeir verði þroskaðir kristnir menn. Þessir ,trúföstu menn‘ sem hann hefur kennt verða þá betur í stakk búnir til að hjálpa söfnuðinum.

Tímóteusi þótti eflaust vænt um hlýlegt bréfið frá Páli. Við getum auðveldlega séð hann fyrir okkur lesa þessar verðmætu leiðbeiningar aftur og aftur og hugleiða hvernig hann gæti nýtt sér þær í verkefnum sínum.

Við viljum líka fara eftir þessum leiðbeiningum. Hvernig? Við getum lagt okkur fram um að glæða með okkur gjöf okkar, varðveita það sem okkur hefur verið trúað fyrir og miðla öðrum af þekkingu okkar og reynslu. Þá getum við ,gert þjónustu okkar góð skil‘, rétt eins og Páll benti Tímóteusi á að gera. – 2. Tím. 4:5.