Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Það sem fólk segir um bænir

Það sem fólk segir um bænir

„Þegar ég bið til Guðs finnst mér hann halda í hönd mína og leiða mig þegar ég er ráðvillt.“ – MARÍA.

„Konan mín lést eftir að hafa barist við krabbamein í 13 ár. Ég bað til Guðs á hverjum degi og fann að hann hlustaði á mig í þjáningum mínum. Ég fann fyrir innri ró.“ – RAÚL.

„Bænin er dásamleg gjöf frá Guði til mannanna.“ – ARNE.

María, Raúl, Arne og margir aðrir líta á bænina sem einstaka gjöf. Með bæninni finnst þeim þau geta talað við Guð, þakkað honum og leitað hjálpar hans. Þau trúa heilshugar á loforð Biblíunnar varðandi bænina: „Við berum það traust til Guðs að hann heyri okkur, hvað sem við biðjum um samkvæmt vilja hans.“ – 1. Jóhannesarbréf 5:14.

Aftur á móti finnst mörgum erfitt að trúa því sem Biblían segir um bænina. Steve segir frá því hvernig hann leit á bænina: „Þegar ég var 17 ára létust þrír vinir mínir í tveim slysum. Einn þeirra lést í bílslysi og hinir tveir drukknuðu á sjó.“ Hvað gerði Steve? „Ég bað til Guðs um að fá svör við því hvers vegna þetta hafði gerst, en ég fékk ekkert svar. Ég spurði mig því hvers vegna ég ætti að biðja.“ Margir velta fyrir sér hvort það sé einhver tilgangur með því að biðja þegar þeir virðast ekki fá nein svör við bænum sínum.

Fólk efast líka um gildi bænarinnar af öðrum ástæðum. Sumir segja að þar sem Guð veit allt viti hann af þörfum okkar og vandamálum og þess vegna sé óþarfi að segja honum frá þeim.

Aðrir trúa að Guð vilji ekki hlusta á bænir þeirra vegna mistaka sem þeim urðu á áður. „Það sem háir mér mest,“ segir Jenny, „er að mér finnst ég einskis virði. Ég hef gert ýmislegt sem ég sé eftir og tel mér því trú um að ég eigi ekki skilið að Guð hlusti á mig.“

Hvernig lítur þú á bænina? Ef þú hefur haft svipaðar áhyggjur og efasemdir um bænina geturðu huggað þig við það að í Biblíunni er að finna áreiðanleg svör. Við getum treyst því sem Biblían segir um bænina. * Hún svarar spurningum eins og:

  • Hlustar Guð á bænir okkar?

  • Hvers vegna er sumum bænum ekki svarað?

  • Hvernig geturðu beðið þannig að Guð hlusti á þig?

  • Hvernig geta bænir hjálpað þér?

^ gr. 9 Í Biblíunni eru skráðar bænir margra þjóna Guðs, þar á meðal Jesú Krists. Í Hebresku Ritningunum, sem oft eru kallaðar Gamla testamentið, eru fleiri en 150 bænir.