Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Á heimurinn eftir að líða undir lok?

Á heimurinn eftir að líða undir lok?

Þú kannast kannski við að Biblían talar um heimsendi. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Er átt við að mannkynið muni farast? Verður jörðin líflaus eyðimörk eða verður henni gereytt?

BIBLÍAN SVARAR BÁÐUM ÞESSUM SPURNINGUM NEITANDI.

Hvað líður ekki undir lok?

MANNKYNIÐ

Biblían segir: Guð „skapaði [jörðina] ekki sem auðn heldur gerði hana byggilega“. – JESAJA 45:18.

JÖRÐIN

Biblían segir: „Ein kynslóð fer, önnur kemur en jörðin stendur að eilífu.“ – PRÉDIKARINN 1:4.

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ? Samkvæmt Biblíunni munu menn alltaf búa á jörðinni og henni verður aldrei eytt. Hvað er þá átt við með heimsendi?

HUGLEIDDU ÞETTA: Biblían líkir endi þessa heims við það sem gerðist á dögum Nóa. Þá var jörðin ,full af ranglæti‘. (1. Mósebók 6:13) En Nói var réttlátur maður. Guð verndaði því Nóa og fjölskyldu hans en eyddi ranglátu fólki í flóði. Biblían segir að ,þáverandi heimur hafi farist í vatnsflóði‘. (2. Pétursbréf 3:6) Það var endir heims. En hverju var eytt? Ranglátu fólki á jörðinni, ekki jörðinni sjálfri. Þegar Biblían talar um heimsendi er því ekki verið að tala um að jörðin farist heldur er átt við endalok ranglátra á jörðinni og þess kerfis sem þeir hafa komið á fót.

Hvað mun líða undir lok?

ERFIÐLEIKAR OG ILLSKA

Biblían segir: „Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn, ef þú leitar hans er hann ekki að finna. En hinir hógværu fá landið til eignar og gleðjast yfir miklu gengi.“ – SÁLMUR 37:10, 11.

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ? Nóaflóðið afmáði ekki illskuna í eitt skipti fyrir öll. Eftir flóðið varð lífið aftur erfitt af völdum óguðlegra manna. En bráðlega bindur Guð enda á alla illsku. Þá verður „hinn óguðlegi horfinn“ eins og segir í sálminum. Guð notar ríki sitt til að binda enda á illsku, en það er heimsstjórn sem ríkir frá himni yfir réttlátu samfélagi manna.

HUGLEIDDU ÞETTA: Munu þeir sem ríkja yfir jörðinni núna taka Guðsríki fagnandi? Biblían gefur til kynna að þeir geri það ekki. Þeir sýna þá heimsku að standa á móti ríki Guðs. (Sálmur 2:2) Hvernig fer að lokum? Ríki Guðs kemur í stað allra mannlegra stjórna og mun „standa sjálft að eilífu“. (Daníel 2:44) En hvers vegna þurfa stjórnir manna að taka enda?

Mannlegar stjórnir ÞURFA AÐ ENDA

Biblían segir: „Enginn maður ræður för sinni, enginn stýrir skrefum sínum á göngunni.“ – JEREMÍA 10:23.

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ? Mennirnir voru ekki skapaðir til að ráða yfir sér sjálfir. Þeim gengur illa að fara með stjórn yfir öðrum og leysa vandamál þeirra.

HUGLEIDDU ÞETTA: Í Britannica Academic kemur fram að engin ein stjórn virðist geta „leyst alþjóðavanda á borð við fátækt, hungur, sjúkdóma, náttúruhamfarir, styrjaldir eða annað ofbeldi“. Í ritinu segir áfram: „Sumir ... telja að aðeins heimsstjórn geti náð marktækum árangri gegn þessum vandamálum.“ En jafnvel þó að allar stjórnir manna sameinuðust væri heiminum enn stjórnað af ófullkomnum mönnum sem eru ekki færir um að leysa vandamálin sem minnst var á. Ríki Guðs er eina stjórnin sem hefur mátt til að leysa öll vandamál heimsins fyrir fullt og allt.

Samkvæmt Biblíunni þarf gott fólk því ekki að óttast heimsendi – endi þessa illa heimskerfis sem við búum við núna. Hann er öllu heldur tilhlökkunarefni því að þessum gamla illa heimi verður skipt út fyrir stórfenglegan nýjan heim Guðs.

Hvenær gerist þetta? Í næstu grein er bent á svar Biblíunnar.