Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Búðu þig núna undir betri heim sem er skammt undan.

Bráðum kemur paradís!

Bráðum kemur paradís!

Guð skapaði jörðina til að réttlátir gætu búið á henni að eilífu. (Sálmur 37:29) Hann setti fyrstu hjónin, Adam og Evu, í fallega Edengarðinn og fól þeim og afkomendum þeirra að rækta jörðina og gæta hennar. – 1. Mósebók 1:28; 2:15.

Núna er heimurinn langt frá því að vera sú paradís sem Guð ætlaði honum að vera. Guð hefur samt ekki skipt um skoðun. Hvernig hrindir hann upprunalegri fyrirætlun sinni í framkvæmd? Eins og við höfum séð í greinunum á undan ætlar Guð ekki að eyða jörðinni sjálfri. Hann mun leyfa trúföstum mönnum að búa á henni. Hvernig verður ástandið á jörðinni þegar Guð uppfyllir loforð sín?

Heimsstjórn

Bráðlega fer himnesk stjórn Guðs með völd yfir öllu mannkyninu. Þá verður jörðin ánægjulegur staður þar sem fólk býr í sátt og samlyndi og vinnur ánægjuleg og gefandi störf. Guð hefur falið Jesú Kristi að ríkja yfir jörðinni. Ólíkt mörgum stjórnendum nú á dögum mun Jesús hugsa um hag þegna sinna. Stjórn hans byggist á kærleika og hann verður góður, miskunnsamur og sanngjarn konungur. – Jesaja 11:4.

Eining um allan heim

Nýtt samfélag manna á jörðinni verður ekki sundrað vegna þjóðernis eða uppruna. Allt mannkynið verður sameinað. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Allir sem búa á jörðinni munu elska Guð og náungann. Þeir munu vinna saman í friði að því að annast heimili sitt, jörðina, en það var upprunaleg fyrirætlun Guðs. – Sálmur 115:16.

Líf í sátt og samlyndi við náttúruna

Þegar ríki Guðs tekur völdin yfir jörðinni mun skaparinn sjá til þess að veðurfarið verði í fullkomnu jafnvægi. (Sálmur 24:1, 2) Þegar Jesús var á jörðinni lægði hann hættulegan storm og sýndi þannig hvað hann er fær um að gera með mættinum sem Guð gefur honum. (Markús 4:39, 41) Enginn hefur ástæðu til að óttast náttúruhamfarir þegar Kristur fer með stjórn. Undir stjórn Guðsríkis mun maðurinn aftur lifa í sátt við náttúruna. – Hósea 2:20.

Fullkomin heilsa og meira en nóg af mat

Allir verða við fullkomna heilsu. Enginn verður veikur, gamall eða deyr. (Jesaja 35:5, 6) Fólk mun njóta þess að vera í jafn hreinu og fallegu umhverfi og fyrstu hjónin í Edengarðinum. Í nýja heiminum gefur jörðin af sér næga fæðu rétt eins og í Eden og allir jarðarbúar hafa meira en nóg. (1. Mósebók 2:9) Í paradís munu allir ,eta sig sadda af eigin brauði‘, rétt eins og Ísrael, þjóð Guðs til forna. – 3. Mósebók 26:4, 5.

Sannur friður og öryggi

Undir heimsstjórn Guðs munu allir njóta friðar og koma fram hver við annan af vinsemd og sanngirni. Það verða engin stríð, enginn misbeitir valdi og það verður engin þörf á að berjast fyrir nauðsynjum. Biblían lofar: „Þá munu menn sitja óhræddir, hver undir sínum vínviði eða fíkjutré.“ – Míka 4:3, 4.

Húsnæði og gefandi atvinna fyrir alla

Engin fjölskylda þarf að óttast að missa heimili sitt og öll vinna verður gefandi. Biblían segir að þeir sem lifa í nýjum heimi Guðs muni „ekki erfiða til einskis“. – Jesaja 65:21–23.

Besta menntunin

Biblían lofar: „Allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni.“ (Jesaja 11:9) Þeir sem tilheyra nýju samfélagi manna koma til með að læra af óendanlegri visku skaparans, Jehóva, og fræðast um fallegt sköpunarverk hans. Þeir munu ekki nota þekkinguna til að smíða vopn eða skaða aðra. (Jesaja 2:4) Þeir læra öllu heldur að búa saman í friði og gæta jarðarinnar. – Sálmur 37:11.

Eilíft líf

Guð gerði jörðina þannig að við gætum sem best notið lífsins alla daga. Hann ætlar mönnunum að lifa að eilífu á jörðinni. (Sálmur 37:29; Jesaja 45:18) Til að upphafleg fyrirætlun Guðs geti orðið að veruleika „mun hann afmá dauðann að eilífu“. (Jesaja 25:8) Biblían lofar: „Dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til.“ (Opinberunarbókin 21:4) Guð gefur öllum mönnum tækifæri til að lifa að eilífu, bæði þeim sem hann bjargar þegar hann eyðir þessum illa heimi og þeim ótalmörgu sem hann reisir upp frá dauðum í nýja heiminum. – Jóhannes 5:28, 29; Postulasagan 24:15.

Milljónir manna eru nú þegar að búa sig undir að lifa við stjórn Guðsríkis sem er skammt undan. Þrátt fyrir ófullkomleika reyna þeir að vera þess konar fólk sem Guð myndi vilja hafa í nýjum heimi sínum. Hvernig gera þeir það? Með því að fræðast um Jehóva Guð og þann sem hann sendi, Jesú Krist. – Jóhannes 17:3.

Kynntu þér hvernig þú getur lifað af endalok þessa heims og fengið að lifa í betri heimi sem er skammt undan. Þú getur fengið ókeypis biblíunámskeið hjá einhverjum af vottum Jehóva með hjálp bókarinnar Von um bjarta framtíð.