Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 2

Það sem við getum lært af ,lærisveininum sem Jesús elskaði‘

Það sem við getum lært af ,lærisveininum sem Jesús elskaði‘

„Höldum áfram að elska hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði.“ – 1. JÓH. 4:7.

SÖNGUR 105 „Guð er kærleikur“

YFIRLIT *

1. Hvaða áhrif hefur kærleikur Guðs á þig?

„GUÐ er kærleikur,“ skrifaði Jóhannes postuli. (1. Jóh. 4:8) Þessi einfalda staðhæfing minnir okkur á einföld grundvallarsannindi: Guð, sem er uppspretta lífsins, er líka uppspretta kærleikans. Jehóva elskar okkur! Kærleikur hans hefur þau áhrif að okkur finnst við vera örugg, hamingjusöm og ánægð.

2. Hver eru tvö mestu boðorðin samkvæmt Matteusi 22:37–40 og hvers vegna gætum við átt erfitt með að hlýða síðara boðorðinu?

2 Það er ekki valfrjálst fyrir kristna menn að sýna kærleika. Það eru bein fyrirmæli. (Lestu Matteus 22:37–40.) Þegar við kynnumst Jehóva vel finnst okkur kannski auðvelt að fara eftir fyrra boðorðinu. Það er eðlilegt því að Jehóva er fullkominn. Hann er tillitssamur og mildur í samskiptum sínum við okkur. En við gætum átt erfitt með að fara eftir síðara boðorðinu. Hvers vegna? Vegna þess að bræður okkar og systur – sem eru náungar okkar og standa okkur hvað næst – eru ófullkomin. Þau geta stundum sagt eða gert eitthvað sem okkur finnst óvingjarnlegt eða tillitslaust. Jehóva vissi að við myndum eiga við þetta að etja svo að hann innblés sumum biblíuriturum að útskýra hvers vegna við eigum að sýna kærleika og hvernig við getum gert það. Jóhannes var einn þessara biblíuritara. – 1. Jóh. 3:11, 12.

3. Hvað lagði Jóhannes áherslu á?

3 Í ritum sínum leggur Jóhannes áherslu á að kristnir menn verði að sýna kærleika. Hann notar í frásögn sinni um ævi Jesú orðin „kærleikur“ og „elska“ oftar en hinir þrír guðspjallaritararnir samanlagt. Jóhannes var um tírætt þegar hann skrifaði bókina sem er nefnd eftir honum og bréfin þrjú. Þessi innblásnu rit sýna fram á að kærleikurinn þarf að endurspeglast í öllu sem við gerum. (1. Jóh. 4:10, 11) En Jóhannes þurfti tíma til að læra það.

4. Sýndi Jóhannes alltaf kærleika?

4 Sem ungur maður sýndi Jóhannes ekki alltaf kærleika. Einu sinni voru Jesús og lærisveinar hans á ferð til Jerúsalem og fóru um Samaríu. Íbúar í samversku þorpi neituðu að sýna þeim gestrisni. Hvernig brást Jóhannes við? Hann spurði hvort þeir ættu ekki að kalla eld niður af himni til að tortíma öllum þorpsbúum! (Lúk. 9:52–56) Við annað tækifæri sýndi Jóhannes hinum postulum ekki kærleika. Hann og Jakob bróðir hans fengu móður sína til að biðja Jesú um að veita sér mikilvægar stöður við hlið hans í Guðsríki. Hinir postularnir urðu bálreiðir þegar þeir komust að því hvað Jakob og Jóhannes höfðu gert. (Matt. 20:20, 21, 24) En Jesús elskaði Jóhannes þrátt fyrir öll hans mistök. – Jóh. 21:7.

5. Hvað skoðum við í þessari grein?

5 Í þessari grein skoðum við fordæmi Jóhannesar og sumt af því sem hann skrifaði um kærleikann. Þannig sjáum við hvernig við getum sýnt bræðrum okkar og systrum kærleika. Við sjáum líka hvernig sá sem sér fyrir fjölskyldu þarf að sýna að hann elski hana.

KÆRLEIKUR BIRTIST Í VERKUM

Jehóva sýndi að hann elskar okkur með því að senda son sinn til jarðar til að deyja fyrir okkur. (Sjá 6. og 7. grein.)

6. Hvernig hefur Jehóva sýnt að hann elskar okkur?

6 Við hugsum gjarnan um kærleika sem hlýjar tilfinningar sem við tjáum með fallegum orðum. En til að kærleikurinn sé ósvikinn þarf hann að koma fram í verkum. (Samanber Jakobsbréfið 2:17, 26.) Jehóva elskar okkur. (1. Jóh. 4:19) Og hann tjáir kærleika sinn með fallegum orðum sem við lesum í Biblíunni. (Sálm. 25:10; Rómv. 8:38, 39) En það er ekki bara vegna þess sem hann segir að við erum sannfærð um að hann elski okkur heldur vegna þess sem hann gerir. Jóhannes skrifaði: „Kærleikur Guðs til okkar birtist í því að hann sendi einkason sinn í heiminn til að við fengjum líf fyrir atbeina hans.“ (1. Jóh. 4:9) Jehóva leyfði að ástkær sonur sinn þjáðist og dæi í okkar þágu. (Jóh. 3:16) Er nokkur vafi á að Jehóva elskar okkur?

7. Hvernig sýndi Jesús að hann elskar okkur?

7 Jesús fullvissaði lærisveina sína um að sér þætti vænt um þá. (Jóh. 13:1; 15:15) Hann sýndi hversu heitt hann elskaði þá og okkur, bæði með því sem hann sagði og því sem hann gerði. „Enginn á meiri kærleika,“ sagði Jesús, „en sá sem leggur lífið í sölurnar fyrir vini sína.“ (Jóh. 15:13) Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að hugleiða það sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir okkur?

8. Hvað segir í 1. Jóhannesarbréfi 3:18 að við eigum að gera?

8 Við sýnum að við elskum Jehóva og Jesú með því að hlýða þeim. (Jóh. 14:15; 1. Jóh. 5:3) Og Jesús gaf okkur þau fyrirmæli að við ættum að elska hvert annað. (Jóh. 13:34, 35) Það er ekki nóg að við tjáum kærleika okkar til trúsystkina í orðum. Við þurfum líka að sýna að við elskum þau. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:18.) Hvað getum við gert til að sýna að við elskum trúsystkini okkar?

ELSKUM BRÆÐUR OKKAR OG SYSTUR

9. Hvað knúði kærleikurinn Jóhannes til að gera?

9 Jóhannes hefði getað verið áfram hjá föður sínum og aflað peninga við fiskveiðar. En þess í stað notaði hann það sem eftir var langrar ævi sinnar til að hjálpa öðrum að kynnast sannleikanum um Jehóva og Jesú. Það var ekki auðvelt líf sem Jóhannes valdi. Hann þurfti að þola ofsóknir og þegar hann var orðinn aldraður maður undir lok fyrstu aldar var hann sendur í útlegð. (Post. 3:1; 4:1–3; 5:18; Opinb. 1:9) Jafnvel þegar hann var í fangelsi fyrir að tala um Jesú sýndi hann að honum var umhugað um aðra. Þegar hann var til dæmis á eyjunni Patmos skráði hann opinberunina sem hann hafði fengið og lét senda hana til safnaðanna til að láta þá vita það ,sem átti að gerast bráðlega‘. (Opinb. 1:1) Hann skrifaði síðan guðspjallið um líf og starf Jesú, líklega eftir að hann var leystur úr útlegðinni á Patmos. Hann skrifaði líka þrjú bréf til að hvetja og styrkja trúsystkini sín. Hvernig getur þú líkt eftir fórnfýsi Jóhannesar?

10. Hvernig geturðu sýnt að þú elskir fólk?

10 Þú getur sýnt að þú elskir fólk með því hvernig þú kýst að lifa lífinu. Heimur Satans reynir að fá þig til að eyða öllum tíma þínum og orku í sjálfan þig og sækjast eftir fé og frama. En fórnfúsir boðberar Guðsríks um heim allan verja eins miklum tíma og þeir geta í að boða fagnaðarboðskapinn og hjálpa fólki að nálgast Jehóva. Sumir geta jafnvel sinnt boðuninni og kennslunni í fullu starfi.

Við sýnum að við elskum trúsystkini okkar og fjölskyldu með því sem við gerum fyrir þau. (Sjá 11. og 17. grein.) *

11. Hvernig sýna margir trúfastir boðberar að þeir elska Jehóva og trúsystkini sín?

11 Margir trúfastir þjónar Guðs þurfa að vinna fulla vinnu til að sjá fyrir sér og sínum. En þeir styðja söfnuð Guðs á hvern þann hátt sem þeir geta. Sumir geta hjálpað til við neyðaraðstoð, aðrir taka þátt í byggingarstarfi og allir geta stutt alþjóðastarfið með fjárframlögum. Þeir gera þetta vegna þess að þeir elska Guð og náungann. Í hverri viku sýnum við bræðrum okkar og systrum að við elskum þau með því að sækja samkomur og taka þátt í þeim. Við mætum á þessar samkomur þótt við séum þreytt. Við tökum þátt í umræðunum þótt við séum taugaóstyrk. Og við hvetjum aðra fyrir og eftir samkomur þótt við höfum okkar eigin vandamál. (Hebr. 10:24, 25) Við erum sannarlega þakklát fyrir allt sem bræður okkar og systur leggja á sig!

12. Á hvaða annan hátt sýndi Jóhannes að hann elskaði trúsystkini sín?

12 Jóhannes sýndi að hann elskaði trúsystkini sín bæði með því að hrósa þeim og með því að gefa þeim leiðbeiningar. Í bréfum sínum hrósar hann þeim til dæmis fyrir trú þeirra og góð verk en hann gefur þeim líka beinskeyttar leiðbeiningar varðandi synd. (1. Jóh. 1:8–2:1, 13, 14) Við ættum líka að hrósa bræðrum okkar og systrum fyrir það góða sem þau gera. En ef einhver er farinn að þróa með sér rangt viðhorf eða gera eitthvað sem gæti stofnað sambandi hans við Jehóva í hættu væri það kærleiksríkt af okkur að benda honum vingjarnlega á það sem hann þarf að heyra. Það þarf hugrekki til að gefa vini leiðbeiningar en Biblían segir að sannir vinir brýni, eða leiðrétti, hver annan. – Orðskv. 27:17.

13. Hvað ættum við ekki að gera?

13 Stundum sýnum við að við elskum trúsystkini okkar með því sem við gerum ekki. Við erum til dæmis ekki fljót að móðgast vegna þess sem þau segja. Skoðum atvik sem átti sér stað á meðan Jesús var á jörðinni. Hann sagði lærisveinum sínum að þeir yrðu að borða hold hans og drekka blóð hans til að hljóta líf. (Jóh. 6:53–57) Margir lærisveina hans voru svo hneykslaðir á því sem hann sagði að þeir yfirgáfu hann. En það gerðu ekki sannir vinir hans, ekki heldur Jóhannes. Þeir sýndu honum tryggð. Þeir skildu ekki það sem Jesús sagði og það kom þeim sennilega á óvart. En trúfastir vinir Jesú gerðu samt sem áður ekki ráð fyrir að það sem hann sagði væri rangt og þeir hneyksluðust ekki. Þeir treystu honum vegna þess að þeir vissu að hann talaði sannleika. (Jóh. 6:60, 66–69) Það er ákaflega mikilvægt að við móðgumst ekki auðveldlega vegna þess sem vinir okkar segja. Öllu heldur gefum við þeim tækifæri til að útskýra hvað þeir meina. – Orðskv. 18:13; Préd. 7:9.

14. Hvers vegna ættum við ekki að leyfa hatri að grafa um sig í hjörtum okkar?

14 Jóhannes brýndi líka fyrir okkur að hata ekki bræður okkar og systur. Ef við förum ekki eftir þessum leiðbeiningum gefum við Satan færi á okkur. (1. Jóh. 2:11; 3:15) Það henti suma í lok fyrstu aldar. Satan gerði allt sem hann gat til að ýta undir hatur og sundrung meðal þjóna Guðs. Á þeim tíma sem Jóhannes skrifaði bréfin sín höfðu menn með sama hugarfar og Satan laumað sér inn í söfnuðinn. Díótrefes olli til dæmis alvarlegri sundrung í einum söfnuði. (3. Jóh. 9, 10) Hann sýndi farandumsjónarmönnum á vegum stjórnandi ráðs óvirðingu. Hann reyndi jafnvel að víkja fólki úr söfnuðinum sem var gestrisið við þá sem honum líkaði ekki við. Hvílíkur hroki! Satan reynir enn sitt ýtrasta til að ná tökum á fólki Guðs og sundra því. Leyfum hatri aldrei að sundra okkur.

ELSKUM FJÖLSKYLDU OKKAR

Jesús fól Jóhannesi að annast efnislegar og andlegar þarfir móður sinnar. Höfuð fjölskyldunnar þarf líka að annast þarfir fjölskyldu sinnar. (Sjá 15. og 16. grein.)

15. Hvað þarf höfuð fjölskyldunnar að muna?

15 Það er mikilvægt að höfuð fjölskyldunnar sýni henni kærleika með því að sjá fyrir efnislegum þörfum hennar. (1. Tím. 5:8) En fjölskyldufaðirinn þarf að muna að efnislegir hlutir geta ekki fullnægt andlegri þörf fjölskyldunnar. (Matt. 5:3) Jesús setti höfði fjölskyldunnar gott fordæmi. Í Jóhannesarguðspjalli segir frá því að hann hafi enn hugsað um hag fjölskyldunnar þegar hann hékk deyjandi á kvalastaurnum. Jóhannes stóð við hlið Maríu móður Jesú þegar hann var tekinn af lífi. Jafnvel þótt Jesús væri sárkvalinn gerði hann ráðstafanir til að Jóhannes annaðist Maríu. (Jóh. 19:26, 27) Jesús átti systkini sem hefðu eflaust séð um efnislegar þarfir Maríu. En ekkert þeirra virðist hafa verið orðið lærisveinn Jesú á þeim tíma. Jesús vildi tryggja að séð væri bæði fyrir efnislegum og andlegum þörfum Maríu.

16. Hvaða ábyrgð þurfti Jóhannes að axla?

16 Jóhannes þurfti að axla mikla ábyrgð. Hann var postuli og tók því forystuna í boðuninni. Ef hann var giftur þurfti hann bæði að sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldunnar og annast andlega þörf hennar. (1. Kor. 9:5) Hvaða lærdóm getur höfuð fjölskyldunnar dregið af þessu?

17. Hvers vegna er mikilvægt að höfuð fjölskyldunnar sinni andlegri þörf hennar?

17 Trúbróðir sem hefur fyrir fjölskyldu að sjá kann að hafa margvíslega ábyrgð. Hann þarf til dæmis að vera duglegur í vinnunni til að hegðun hans heiðri Jehóva. (Ef. 6:5, 6; Tít. 2:9, 10) Og hann hefur kannski mörg verkefni í söfnuðinum, eins og til dæmis að hvetja og annast bræður og systur og taka forystu í boðuninni. En hann þarf jafnframt að lesa reglulega í Biblíunni með konu sinni og börnum. Þau meta mikils viðleitni hans bæði til að hugsa um efnislegar og tilfinningalegar þarfir þeirra og hjálpa þeim að halda áfram að þjóna Jehóva. – Ef. 5:28, 29; 6:4.

,VERIÐ STÖÐUG Í KÆRLEIKA MÍNUM‘

18. Hvað var Jóhannes viss um?

18 Jóhannes lifði langa og viðburðaríka ævi. Hann þurfti að glíma við margs konar erfiðleika sem hefðu getað veikt trú hans. En hann gerði alltaf sitt besta til að hlýða fyrirmælum Jesú, þar á meðal boðorðinu um að elska bræður sína og systur. Fyrir vikið gat Jóhannes verið viss um að Jehóva og Jesús elskuðu hann og að þeir gæfu honum kraft til að þola alla erfiðleika. (Jóh. 14:15–17; 15:10; 1. Jóh. 4:16) Ekkert sem Satan eða heimur hans gerði gat hindrað Jóhannes í að finna til kærleika, tjá hann með orðum og sýna hann í verki.

19. Hvað erum við hvött til að gera í 1. Jóhannesarbréfi 4:7 og hvers vegna?

19 Líkt og Jóhannes búum við í heimi sem er undir stjórn Satans, en hann er andstyggilegur guð þessa heims. (1. Jóh. 3:1, 10) Hann vill að við hættum að elska trúsystkini okkar, en hann getur ekki fengið okkur til þess nema við leyfum honum það. Verum staðráðin í að elska bræður okkar og systur, tjá kærleikann með orðum og sýna hann í verki. Þá njótum við þeirrar ánægju að vera í fjölskyldu Jehóva og lífið verður virkilega þess virði að lifa því. – Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:7.

SÖNGUR 88 Vísaðu mér veg þinn

^ gr. 5 Jóhannes postuli er mjög líklega „lærisveinninn sem Jesús elskaði“. (Jóhannes 21:7) Hann hlýtur því, jafnvel sem ungur maður, að hafa búið yfir mörgum góðum eiginleikum. Mörgum árum seinna fól Jehóva honum að skrifa heilmikið um kærleikann. Í þessari grein skoðum við sumt af því sem Jóhannes skrifaði og ræðum um það sem við getum lært af fordæmi hans.

^ gr. 59 MYND: Fjölskyldufaðir sem hefur margt á sinni könnu tekur þátt í að veita neyðaraðstoð, styður alþjóðastarfið með frjálsum framlögum og býður öðrum að vera með í tilbeiðslustund fjölskyldunnar.