Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 4

Höldum áfram að rækta með okkur ástúð

Höldum áfram að rækta með okkur ástúð

„Sýnið hvert öðru bróðurkærleika og ástúð.“ – RÓMV. 12:10.

SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars

YFIRLIT *

1. Hvað sýnir að kærleiksleysi ríkir í mörgum fjölskyldum?

BIBLÍAN sagði fyrir að fólk yrði ,kærleikslaust‘ á síðustu dögum. (2. Tím. 3:1, 3) Við sjáum þennan spádóm rætast núna. Hjónaskilnaðir hafa til dæmis sundrað milljónum fjölskyldna. Fyrir vikið eru foreldrar reiðir hvort við annað og börnum finnst þau ekki elskuð. Jafnvel fólk sem tilheyrir sömu fjölskyldu og býr á sama heimili er ekki endilega náið. „Mamman, pabbinn og börnin tala ekki saman og nota mestallan tíma sinn í tölvuna, spjaldtölvuna, símann eða í tölvuleiki,“ segir fjölskylduráðgjafi nokkur. „Þau þekkjast varla þótt þau búi undir sama þaki.“

2, 3. (a) Hverjum ættum við að sýna ástúð samkvæmt Rómverjabréfinu 12:10? (b) Hvað skoðum við í þessari grein?

2 Við viljum ekki láta kærleiksleysi þessa heims móta okkur. (Rómv. 12:2) Við ættum öllu heldur að rækta með okkur ástúð, bæði í garð fjölskyldu okkar og bræðra og systra í söfnuðinum. (Lestu Rómverjabréfið 12:10.) Hvað er ástúð? Hún birtist í þeirri vináttu sem ríkir innan fjölskyldunnar þegar sambandið er náið og hlýlegt. Þetta er kærleikurinn sem við ættum að rækta til andlegrar fjölskyldu okkar, bræðra okkar og systra. Þegar við sýnum ástúð stuðlum við að einingu sem er mikilvægur þáttur í sannri tilbreiðslu. – Míka 2:12.

3 Við skulum nú skoða það sem við getum lært af fordæmum í Biblíunni um að rækta með okkur og sýna ástúð.

„JEHÓVA ER MJÖG UMHYGGJUSAMUR“

4. Hvernig hjálpar Jakobsbréfið 5:11 okkur að skilja hversu heitt Jehóva elskar okkur?

4 Biblían opinberar fallega eiginleika Jehóva. Hún segir til dæmis að ,Guð sé kærleikur‘. (1. Jóh. 4:8) Okkur langar þess vegna að vera vinir hans. En Biblían segir líka að Jehóva sé „mjög umhyggjusamur“. (Lestu Jakobsbréfið 5:11.) Það lýsir á fallegan hátt hversu innilega Jehóva elskar okkur.

5. Hvernig sýnir Jehóva miskunnsemi og hvernig getum við líkt eftir honum?

5 Tökum eftir að Jakobsbréfið 5:11 tengir umhyggjusemi Jehóva við annan eiginleika sem laðar okkur að honum – miskunnsemi hans. (2. Mós. 34:6) Jehóva sýnir okkur miskunn meðal annars með því að fyrirgefa okkur þegar við gerum mistök. (Sálm. 51:3) Samkvæmt Biblíunni felur miskunnsemi í sér fleira en fyrirgefningu. Hún er sterk tilfinning sem einhver finnur innra með sér þegar hann sér einhvern ganga í gegnum erfiðleika og hún knýr hann til að reyna að hjálpa honum. Jehóva segir að sterk löngun sín til að hjálpa okkur sé jafnvel sterkari en tilfinningar móður til barns síns. (Jes. 49:15) Þegar við eigum í erfiðleikum knýr miskunnsemi Jehóva hann til að hjálpa okkur. (Sálm. 37:39; 1. Kor. 10:13) Við getum sýnt bræðrum okkar og systrum miskunn með því að fyrirgefa þeim og vera ekki í nöp við þau þegar þau valda okkur vonbrigðum. (Ef. 4:32) En það er líka mikilvægt að sýna miskunnsemi með því að styðja trúsystkini í erfiðleikum þeirra. Þegar kærleikurinn knýr okkur til að sýna öðrum miskunnsemi líkjum við eftir Jehóva, bestu fyrirmyndinni um að sýna ástúð. – Ef. 5:1.

JÓNATAN OG DAVÍÐ BUNDUST NÁNUM VINÁTTUBÖNDUM

6. Hvernig sýndu Davíð og Jónatan hvor öðrum ástúð?

6 Í Biblíunni er að finna frásögur af ófullkomnu fólki sem sýndi ástúð. Tökum sem dæmi Jónatan og Davíð. Biblían segir: ,Jónatan vingaðist við Davíð. Jónatan elskaði hann eins og sjálfan sig‘. (1. Sam. 18:1) Davíð var valinn til að vera konungur eftir Sál. Sál varð öfundsjúkur út í hann og reyndi að drepa hann. En Jónatan sonur Sáls tók ekki þátt í tilraunum föður síns til að taka Davíð af lífi. Jónatan og Davíð lofuðu hvor öðrum að vera alltaf vinir og styðja hvor annan. – 1. Sam. 20:42.

Aldursmunur kom ekki í veg fyrir að Jónatan og Davíð byndust nánum vináttuböndum. (Sjá 6.–9. grein.)

7. Hvað hefði getað komið í veg fyrir vináttu Jónatans og Davíðs?

7 Náin vinátta Jónatans og Davíðs er enn eftirtektarverðari þegar við höfum í huga ýmislegt sem hefði getað komið í veg fyrir hana. Jónatan var til dæmis um 30 árum eldri en Davíð. Jónatan hefði getað litið svo á að hann ætti fátt sameiginlegt með þessum sér yngri og óreyndari manni. En hann hugsaði ekki þannig heldur bar hann mikla virðingu fyrir Davíð.

8. Hver heldurðu að hafi verið ástæðan fyrir því að Jónatan var góður vinur Davíðs?

8 Jónatan hefði getað öfundað Davíð. Hann var sonur Sáls konungs og honum hefði getað fundist það réttur sinn að verða næsti konungur. (1. Sam. 20:31) En hann var auðmjúkur og trúr Jehóva. Þess vegna studdi hann heils hugar þá ákvörðun Jehóva að Davíð yrði næsti konungur. Hann sýndi líka Davíð hollustu, jafnvel þótt það vekti reiði Sáls. – 1. Sam. 20:32–34.

9. Leit Jónatan á Davíð sem keppinaut sinn? Skýrðu svarið.

9 Jónatan þótti mjög vænt um Davíð og leit þess vegna ekki á hann sem keppinaut. Jónatan var fær bogaskytta og hugrakkur hermaður. Hann og Sál faðir hans voru sagðir „skjótari en ernir“ og „sterkari en ljón“. (2. Sam. 1:22, 23) Þess vegna hefði hann getað gortað af eigin afrekum. En hann reyndi ekki að skara fram úr Davíð né var hann öfundsjúkur út í hann. Þvert á móti dáðist Jónatan að Davíð fyrir hugrekki hans og traust á Jehóva. Reyndar var það eftir að Davíð hafði drepið Golíat að Jónatan fór að elska Davíð eins og sjálfan sig. Hvernig getum við sýnt bræðrum okkar og systrum slíka ástúð?

HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT ÁSTÚÐ?

10. Hvað felur það í sér að ,elska hvert annað af öllu hjarta‘?

10 Biblían segir okkur að ,elska hvert annað af öllu hjarta‘. (1. Pét. 1:22) Jehóva er fyrirmynd okkar. Kærleikur hans er svo sterkur að ekkert getur fengið hann til að hætta að elska okkur svo framarlega sem við erum honum trú. (Rómv. 8:38, 39) Orðin „af öllu“ lýsa einhverjum sem leggur mikið á sig til að sýna kærleika. Stundum reynir á að sýna trúsystkini ástúð. Þegar einhver kemur okkur í uppnám þurfum við að halda áfram að ,umbera hvert annað í kærleika og gera okkar ýtrasta til að varðveita einingu andans í bandi friðarins‘. (Ef. 4:1–3) Þegar við leggjum okkur fram um að viðhalda „bandi friðarins“ einblínum við ekki á mistök trúsystkina okkar. Við reynum okkar besta til að líta þau sömu augum og Jehóva. – 1. Sam. 16:7; Sálm. 130:3.

Evodía og Sýntýke voru hvattar til að vera samlyndar. Það er ekki alltaf auðvelt að láta sér lynda við trúsystkini. (Sjá 11. grein.)

11. Hvers vegna getur stundum verið erfitt fyrir okkur að rækta með okkur ástúð?

11 Það er ekki alltaf auðvelt að sýna trúsystkinum okkar ástúð, sérstaklega þegar við erum meðvituð um galla þeirra. Þetta reyndist sumum frumkristnum mönnum erfitt. Evodíu og Sýntýke fannst líklega ekki erfitt að vinna „við hlið [Páls] við að boða fagnaðarboðskapinn“. En af einhverjum ástæðum kom þeim ekki alltaf vel saman. Páll hvatti þær þess vegna „til að vera samlyndar í þjónustu Drottins“. – Fil. 4:2, 3.

Ungir og eldri öldungar geta orðið nánir vinir. (Sjá 12. grein.)

12. Hvernig getum við ræktað með okkur ástúð í garð bræðra okkar og systra?

12 Hvernig getum við ræktað með okkur ástúð í garð bræðra okkar og systra? Þegar við kynnumst þeim betur finnst okkur ef til vill auðveldara að skilja þau og finna til ástúðar í garð þeirra. Aldur og bakgrunnur þarf ekki að vera nein hindrun. Munum að Jónatan var um 30 árum eldri en Davíð, en vinátta þeirra varð samt náin. Getur þú vingast við einhvern sem er þér eldri, eða yngri? Með því að gera það geturðu sýnt að þú ,elskir allt bræðrasamfélagið‘. – 1. Pét. 2:17.

Sjá 12. grein. *

13. Hvers vegna erum við ef til vill ekki jafn náin öllum í söfnuðinum?

13 Þýðir það að við finnum til ástúðar í garð trúsystkina okkar að við séum jafn nánir vinir allra í söfnuðinum? Nei, það væri ekki raunhæft. Það er ekkert óeðlilegt við það að eiga nánari vináttu við þá sem eru með svipuð áhugamál og við. Jesús leit á alla postula sína sem vini en hann var sérstaklega náinn Jóhannesi. (Jóh. 13:23; 15:15; 20:2) Hann mismunaði samt ekki postulum sínum. Þegar Jóhannes og Jakob bróðir hans báðu um mikilvæga stöðu í ríki Guðs svaraði Jesús: „Það er ekki mitt að ákveða hver situr mér til hægri handar eða vinstri.“ (Mark. 10:35–40) Við ættum að líkja eftir Jesú og forðast að koma betur fram við nána vini okkar en aðra. (Jak. 2:3, 4) Slíkt myndi ýta undir sundrung sem á ekki heima í söfnuði Guðs. – Júd. 17–19.

14. Hvað hjálpar okkur að forðast samkeppnisanda samkvæmt Filippíbréfinu 2:3?

14 Þegar við sýnum hvert öðru ástúð verndum við söfnuðinn gegn samkeppnisanda. Munum að Jónatan reyndi ekki að keppa við Davíð né verða konungur í hans stað. Við getum öll líkt eftir Jónatan. Lítum ekki á trúsystkini okkar sem keppinauta vegna hæfileika þeirra. ,Verum heldur auðmjúk og lítum á aðra sem okkur meiri.‘ (Lestu Filippíbréfið 2:3.) Höfum í huga að allir í söfnuðinum hafa eitthvað fram að færa. Þegar við erum auðmjúk tökum við eftir góðum eiginleikum trúsystkina okkar og njótum gagns af trúfesti þeirra. – 1. Kor. 12:21–25.

15. Hvað lærirðu af reynslu Tönyu og fjölskyldu hennar?

15 Þegar við verðum fyrir óvæntum prófraunum hughreystir Jehóva okkur með þeirri ástúð sem bræður og systur okkar sýna og þeirri aðstoð sem við fáum frá þeim. Skoðum það sem henti fjölskyldu eftir að hún hafði verið viðstödd dagskrá laugardagsins á alþjóðamóti árið 2019 í Bandaríkjunum sem bar stefið „Kærleikurinn bregst aldrei“. „Við vorum á leiðinni á hótelið,“ segir Tanya, þriggja barna móðir, „þegar bílstjóri á öðrum bíl missti stjórnina, ók yfir á okkar akrein og klessti á okkur. Enginn slasaðist en við fengum áfall, fórum út úr bílnum og stóðum á hraðbrautinni. Einhver kallaði til okkar frá vegkantinum og bað okkur að koma í bílinn sinn til að vera örugg. Hann var bróðir okkar og var líka að koma frá mótinu. En hann var ekki sá eini sem stoppaði. Fimm mótsgestir frá Svíþjóð gerðu það líka. Systurnar föðmuðu okkur dóttur mína hlýlega en við þurftum virkilega á því að halda. Ég fullvissaði þau um að það yrði allt í lagi með okkur en þau vildu ekki yfirgefa okkur. Þau voru áfram með okkur og gengu úr skugga um að við hefðum allt sem við þurftum, jafnvel eftir að sjúkraflutningafólkið kom á staðinn. Við fundum allan tímann fyrir kærleika Jehóva í þessari eldraun. Þessi reynsla styrkti kærleika okkar til bræðra okkar og systra og dýpkaði kærleikann og þakklætið til Jehóva.“ Manst þú eftir að hafa þurft á hjálp að halda og trúsystkini sýndi þér ástúð?

16. Hvers vegna ættum við að sýna hvert öðru ástúð?

16 Hugsaðu um hvað hlýst af því þegar við sýnum hvert öðru ástúð. Við hughreystum bræður okkar og systur þegar þau þurfa á því að halda. Við eflum eininguna sem ríkir meðal þjóna Guðs. Við sýnum fram á að við erum lærisveinar Jesú og það getur laðað hjartahreint fólk að sannri tilbeiðslu. Umfram allt heiðrum við Jehóva sem er „faðir innilegrar samúðar og Guð allrar huggunar“. (2. Kor. 1:3) Megum við öll halda áfram að rækta með okkur og sýna ástúð.

SÖNGUR 130 Fyrirgefum fúslega

^ gr. 5 Jesús sagði að lærisveinar sínir myndu þekkjast á kærleikanum sem þeir bera hver til annars. Við reynum öll að fara eftir þessu boði. Við getum styrkt kærleikann til trúsystkina okkar með því að rækta með okkur ástúð – kærleikann sem ríkir innan fjölskyldunnar þegar sambandið er náið. Þessi grein hjálpar okkur að styrkja kærleikann til bræðra okkar og systra í söfnuðinum.

^ gr. 55 MYNDIR: Ungur öldungur sem nýtur góðs af reynslu eldri öldungs fær hlýjar móttökur á heimili hans. Þeir og eiginkonur þeirra sýna hvert öðru kærleika og örlæti.