Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 5

„Kristur er höfuð hvers manns“

„Kristur er höfuð hvers manns“

„Kristur er höfuð hvers manns.“ – 1. KOR. 11:3.

SÖNGUR 12 Jehóva, hinn mikli Guð

YFIRLIT *

1. Hvaða þættir eru líklegir til að hafa áhrif á viðhorf karlmanns til forystu?

HVAÐ heldur þú að forysta feli í sér, til dæmis innan fjölskyldunnar? Sumir karlmenn leyfa hefð, menningu eða fjölskyldubakgrunni að ákveða hvernig þeir koma fram við eiginkonu sína og börn. Taktu eftir hvað Yanita, systir sem býr í Evrópu, segir: „Þar sem ég bý ríkir það rótgróna viðhorf að konur séu lægra settar en karlmenn og að líta eigi á þær sem þjóna.“ Og bróðir sem heitir Luke og býr í Bandaríkjunum segir: „Sumir feður kenna sonum sínum að konur eigi að sjást en ekki heyrast og að skoðanir þeirra séu ekki mikilvægar.“ En Jehóva vill ekki að menn komi þannig fram við eiginkonur sínar. (Samanber Markús 7:13.) Hvernig getur karlmaður þá lært að fara rétt með forystu í fjölskyldunni?

2. Hvað þarf höfuð fjölskyldunnar að vita og hvers vegna?

2 Til að fara rétt með forystu í fjölskyldunni verður karlmaður að skilja hvers Jehóva krefst af honum. Hann þarf einnig að skilja hvers vegna Jehóva hefur falið sumum vald yfir öðrum og hvernig hann getur líkt eftir fordæmi Jehóva og Jesú. Hvers vegna er mikilvægt að karlmaður viti þetta? Vegna þess að Jehóva hefur falið höfði fjölskyldunnar ákveðið vald og væntir þess að rétt sé farið með það. – Lúk. 12:48b.

HVAÐ FELUR FORYSTA Í SÉR?

3. Hvað lærum við um forystu af því sem Biblían segir í 1. Korintubréfi 11:3?

3 Lestu 1. Korintubréf 11:3Versið lýsir fyrirkomulaginu sem Jehóva hefur í alheimsfjölskyldu sinni. Forysta felur í sér tvö grundvallaratriði – vald og ábyrgð. Jehóva er höfuðið og fer með æðsta valdið og öll börn hans á himni og jörðu eru ábyrg gagnvart honum. (Rómv. 14:10; Ef. 3:14, 15) Jehóva hefur gefið Jesú vald yfir söfnuðinum en hann er ábyrgur gagnvart Jehóva fyrir því hvernig hann kemur fram við okkur. (1. Kor. 15:27) Jehóva hefur einnig gefið eiginmanni vald yfir eiginkonu sinni og börnum en hann er ábyrgur gagnvart bæði Jehóva og Jesú fyrir því hvernig hann kemur fram við fjölskylduna sína. – 1. Pét. 3:7.

4. Hvaða vald hafa Jehóva og Jesús?

4 Þar sem Jehóva er höfuð alheimsfjölskyldu sinnar hefur hann vald til að setja börnum sínum reglur og sjá til þess að þeim sé framfylgt. (Jes. 33:22) Sem höfuð kristna safnaðarins hefur Jesús einnig rétt til að setja reglur og framfylgja þeim. – Gal. 6:2; Kól. 1:18–20.

5. Hvaða vald hefur höfuð kristinnar fjölskyldu og að hvaða leyti er valdið takmarkað?

5 Rétt eins og Jehóva og Jesús hefur sá sem er höfuð kristinnar fjölskyldu rétt til að taka ákvarðanir í eigin fjölskyldu. (Rómv. 7:2; Ef. 6:4) Vald hans er hins vegar takmarkað. Reglurnar sem hann setur ættu til dæmis að vera byggðar á meginreglunum í orði Guðs. (Orðskv. 3:5, 6) Og hann hefur ekki vald til að setja þeim reglur sem eru ekki í fjölskyldunni hans. (Rómv. 14:4) Eftir að synir hans og dætur eru orðin fullorðin og flutt að heiman virða þau hann áfram en hann er ekki lengur höfuð þeirra. – Matt. 19:5.

AF HVERJU HEFUR JEHÓVA FALIÐ SUMUM FORYSTUHLUTVERK?

6. Af hverju hefur Jehóva falið sumum forystuhlutverk?

6 Jehóva kom á fyrirkomulaginu um forystu vegna þess að hann elskar fjölskyldu sína. Það er gjöf frá honum. Forysta í fjölskyldu Jehóva gerir henni kleift að búa við frið, röð og reglu. (1. Kor. 14:33, 40) Án skýrrar forystu myndi ríkja óreiða og óhamingja í fjölskyldu Jehóva. Enginn myndi til dæmis vita hver ætti að taka lokaákvarðanir og forystuna í að framfylgja þeim.

7. Hvernig vill Jehóva að eiginmenn komi fram við eiginkonur sínar samkvæmt Efesusbréfinu 5:25, 28?

7 Ef fyrirkomulag Guðs varðandi forystu er svona gott, hvers vegna finnst þá mörgum konum þær kúgaðar og þeim stjórnað af eiginmönnum sínum? Vegna þess að margir menn fylgja ekki þeim reglum sem Jehóva hefur gefið fjölskyldunni og kjósa þess í stað að fylgja siðum og hefðum þar sem þeir búa. Hugsanlega koma þeir líka illa fram við eiginkonur sínar af eigingjörnum hvötum. Eiginmaður gæti til dæmis kúgað eiginkonu sína til að reyna að bæta sjálfsálitið eða til að sanna fyrir öðrum að hann sé ,enginn aumingi‘. Kannski finnst honum hann ekki geta þvingað konuna sína til að elska sig en geti að minnsta kosti fengið hana til að óttast sig. Og hann gæti notað óttann til að stjórna henni. * Slíkur hugsunarháttur og hegðun rænir konur þeirri virðingu sem þær eiga rétt á og gengur algerlega í berhögg við vilja Jehóva. – Lestu Efesusbréfið 5:25, 28.

HVERNIG GETUR MAÐUR LÆRT AÐ FARA RÉTT MEÐ FORYSTU Í FJÖLSKYLDUNNI?

8. Hvernig getur maður lært að fara rétt með forystu í fjölskyldunni?

8 Maður getur lært að fara rétt með forystu í fjölskyldunni með því að líkja eftir því hvernig Jehóva og Jesús fara með vald. Skoðum tvo af þeim eiginleikum sem Jehóva og Jesús sýna og hvernig höfuð fjölskyldunnar getur sýnt þessa eiginleika í samskiptum við eiginkonu sína og börn.

9. Hvernig sýnir Jehóva lítillæti?

9 Lítillæti. Jehóva er vitrari en nokkur annar en hann hlustar samt á skoðanir þjóna sinna. (1. Mós. 18:23, 24, 32) Hann hefur leyft þeim sem eru undir hann settir að bera fram tillögur. (1. Kon. 22:19–22) Jehóva er fullkominn en væntir ekki fullkomleika af okkur eins og er. En hann gerir ófullkomnum þjónum sínum kleift að þjóna sér. (Sálm. 113:6, 7) Biblían segir að Jehóva hjálpi okkur. (Sálm. 27:9; Hebr. 13:6) Davíð konungur viðurkenndi að hann væri aðeins fær um að framkvæma þau miklu verk sem honum voru falin vegna lítillætis Jehóva. – 2. Sam. 22:36, Biblían 1981.

10. Hvernig sýndi Jesús lítillæti?

10 Veltum fyrir okkur fordæmi Jesú. Þótt hann væri Drottinn og herra lærisveina sinna þvoði hann fætur þeirra. Hver er ein ástæða fyrir því að Jehóva lét skrifa þessa frásögu í Biblíuna? Vafalaust til að sjá öllum, þar á meðal höfði fjölskyldunnar, fyrir dæmi til eftirbreytni. Jesús sagði sjálfur: „Ég hef gefið ykkur fordæmi. Þið skuluð gera það sama og ég hef gert fyrir ykkur.“ (Jóh. 13:12–17) Þótt hann færi með mikið vald ætlaðist hann ekki til þess að aðrir þjónuðu sér. Hann þjónaði öðrum. – Matt. 20:28.

Höfuð fjölskyldunnar getur sýnt lítillæti og kærleika með því að vinna heimilisstörf og sjá fyrir andlegum þörfum fjölskyldunnar. (Sjá 11. og 13. grein.)

11. Hvað getur höfuð fjölskyldunnar lært um lítillæti af fordæmi Jehóva og Jesú?

11 Hvað lærum við? Sá sem er höfuð fjölskyldunnar getur sýnt lítillæti á marga vegu. Hann ætlast til dæmis ekki til þess að eiginkona sín og börn séu fullkomin. Hann hlustar á skoðanir annarra í fjölskyldunni jafnvel þótt hann sé ekki sammála. Marley, sem býr í Bandaríkjunum, segir: „Maðurinn minn og ég höfum stundum ólíkar skoðanir. En hann virðir mig og sýnir að hann kann að meta mig því að hann spyr mig álits og hugleiðir vandlega hvað mér finnst áður en hann tekur ákvörðun.“ Lítillátur eiginmaður er auk þess fús að vinna húsverk jafnvel þótt slík verk séu álitin kvenmannsverk í samfélaginu. Þetta getur verið áskorun. Hvers vegna? Systir sem heitir Rachel segir: „Ef eiginmaður hjálpar konunni sinni að vaska upp eftir matinn eða þrífa heimilið draga nágrannar og ættingjar í efa að hann sé ,sannur karlmaður‘. Þeir álíta að hann geti ekki haft stjórn á konunni sinni.“ Ef þetta er algengt viðhorf þar sem þú býrð skaltu muna að Jesús þvoði fætur postula sinna jafnvel þótt það væri álitið verk þræla. Þeim sem fer rétt með forystu í fjölskyldunni er ekki umhugað um að vera álitinn mikilvægur. Hann vill að eiginkona sín og börn séu ánægð. Hvaða annan eiginleika auk lítillætis þarf höfuð fjölskyldunnar að hafa?

12. Hvað fær kærleikur Jehóva og Jesú til að gera?

12 Kærleikur. Allt sem Jehóva gerir er grundvallað á kærleika. (1. Jóh. 4:7, 8) Hann sýnir að hann elskar okkur og vill eiga okkur að vinum með því að gefa okkur orð sitt og söfnuð. Hann sér fyrir tilfinningalegum þörfum okkar með því að fullvissa okkur um að hann elskar okkur. Og hvað með efnislegar þarfir okkar? Jehóva „sér okkur ríkulega fyrir öllu sem við njótum“. (1. Tím. 6:17) Þegar við gerum mistök leiðréttir hann okkur en hann hættir ekki að elska okkur. Vegna kærleika Jehóva greiddi lausnargjaldið fyrir okkur. Og Jesús elskar okkur svo heitt að hann gaf líf sitt í okkar þágu. (Jóh. 3:16; 15:13) Ekkert getur rofið kærleiksböndin sem tengja Jehóva og Jesú við þá sem eru þeim trúfastir. – Jóh. 13:1; Rómv. 8:35, 38, 39.

13. Hvers vegna er mikilvægt að höfuð fjölskyldunnar elski fjölskylduna sína? (Sjá einnig rammann „Hvernig getur nýkvæntur maður áunnið sér virðingu eiginkonu sinnar?“)

13 Hvað lærum við? Allt sem höfuð fjölskyldunnar gerir ætti að vera grundvallað á kærleika. Hvers vegna er það svo mikilvægt? Jóhannes postuli svarar því: „Sá sem elskar ekki bróður sinn [eða fjölskyldu], sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóh. 4:11, 20) Maður sem elskar fjölskylduna sína og vill líkja eftir Jehóva og Jesú sér fyrir andlegum, tilfinningalegum og efnislegum þörfum hennar. (1. Tím. 5:8) Hann kennir börnunum sínum og agar þau. Hann heldur líka áfram að læra að taka ákvarðanir sem heiðra Jehóva og koma fjölskyldunni að gagni. Skoðum hvað þetta felur í sér og hvernig höfuð fjölskyldunnar getur líkt eftir Jehóva og Jesú.

ÞAÐ SEM HÖFUÐ FJÖLSKYLDUNNAR ÆTTI AÐ GERA

14. Hvernig sér höfuð fjölskyldunnar fyrir andlegum þörfum hennar?

14 Sjá fyrir andlegum þörfum fjölskyldunnar. Jesús líkti eftir föður sínum og vildi hjálpa fylgjendum sínum að hafa sterka trú. (Matt. 5:3, 6; Mark. 6:34) Það mikilvægasta fyrir þann sem er höfuð fjölskyldunnar er að hjálpa fjölskyldunni að eiga náið samband við Jehóva. (5. Mós. 6:6–9) Hann sér til þess að hann og fjölskyldan lesi og rannsaki orð Guðs, mæti á samkomur, boði fagnaðarboðskapinn og byggi upp og viðhaldi vináttu við Jehóva.

15. Hvernig getur höfuð fjölskyldunnar hjálpað fjölskyldu sinni að finna til öryggis?

15 Sjá fyrir tilfinningalegum þörfum fjölskyldunnar. Jehóva tjáði ást sína á Jesú opinskátt. (Matt. 3:17) Jesús hikaði ekki við að tjá ást sína á fylgjendum sínum bæði í orði og verki. Þeir sögðu honum einnig að þeir elskuðu hann. (Jóh. 15:9, 12, 13; 21:16) Sá sem er höfuð fjölskyldunnar getur sýnt eiginkonu sinni og börnum ást sína með verkum sínum, eins og með því að rannsaka Biblíuna með þeim. Hann ætti líka að segja þeim að hann elski þau og meti og hrósa þeim í viðurvist annarra þegar það á við. – Orðskv. 31:28, 29.

Til að hafa velþóknun Jehóva verður höfuð fjölskyldunnar að sjá fyrir efnislegum þörfum hennar. (Sjá 16. grein.)

16. Hvað annað þarf sá sem er höfuð fjölskyldunnar að gera og hvernig getur hann gætt jafnvægis?

16 Sjá fyrir efnislegum þörfum fjölskyldunnar. Jehóva sá fyrir grundvallarþörfum Ísraelsmanna jafnvel þegar þeim var refsað fyrir óhlýðni. (5. Mós. 2:7; 29:4) Hann sér einnig fyrir grundvallarþörfum okkar. (Matt. 6:31–33; 7:11) Jesús sá líka fylgjendum sínum fyrir fæðu. (Matt. 14:17–20) Og hann læknaði marga sem voru veikir. (Matt. 4:24) Til að hafa velþóknun Jehóva þarf sá sem er höfuð fjölskyldunnar að sjá fyrir efnislegum þörfum hennar. Hann þarf hins vegar að gæta jafnvægis. Hann ætti ekki að vera svo upptekinn af veraldlegri vinnu til að sjá fyrir fjölskyldu sinni að hann vanræki andlegar og tilfinningalegar þarfir hennar.

17. Hvernig kenna og leiðrétta Jehóva og Jesús okkur?

17 Gefa fjölskyldunni kærleiksríkar leiðbeiningar. Jehóva þjálfar og agar okkur með hag okkar að leiðarljósi. (Hebr. 12:7–9) Jesús þjálfar þá sem eru undir hann settir á kærleiksríkan hátt, rétt eins og faðir hans. (Jóh. 15:14, 15) Hann er ákveðinn en vingjarnlegur. (Matt. 20:24–28) Hann skilur að við erum ófullkomin og okkur hættir til að gera mistök. – Matt. 26:41.

18. Hverju ætti höfuð fjölskyldunnar ekki að gleyma?

18 Sá sem er höfuð fjölskyldunnar og líkir eftir Jehóva og Jesú gerir sér grein fyrir því að eiginkona hans og börn eru ófullkomin. Hann verður ekki ,beiskur og reiður‘ í samskiptum við þau. (Kól. 3:19) Hann fer eftir meginreglunni í Galatabréfinu 6:1 og reynir að leiðrétta þau „mildilega“, minnugur þess að hann er sjálfur ófullkominn. Líkt og Jesús gerir hann sér grein fyrir því að besta leiðin til að kenna er að vera sjálfur gott fordæmi. – 1. Pét. 2:21.

19, 20. Hvernig getur sá sem er höfuð fjölskyldunnar líkt eftir Jehóva og Jesú þegar hann tekur ákvarðanir?

19 Taka óeigingjarnar ákvarðanir. Jehóva tekur ákvarðanir með hag annarra í huga. Hann ákvað að skapa líf, ekki til að hafa hag af því sjálfur heldur til að við gætum notið lífsins. Enginn hefði getað þvingað hann til að gefa son sinn til að greiða fyrir syndir okkar. Hann var fús til að færa þá fórn í okkar þágu. Jesús tók líka ákvarðanir sem voru fyrst og fremst í þágu annarra. (Rómv. 15:3) Hann ákvað til dæmis að ýta til hliðar eigin þörf fyrir hvíld til að kenna hóp af fólki. – Mark. 6:31–34.

20 Sá sem sinnir forystuhlutverki sínu vel veit að eitt af því erfiðasta sem hann gerir er að taka skynsamlegar ákvarðanir fyrir fjölskylduna sína og hann tekur þessa ábyrgð mjög alvarlega. Hann forðast að taka ákvarðanir sem eru gerræðislegar eða eingöngu byggðar á tilfinningum. Hann leyfir Jehóva að þjálfa sig. * (Orðskv. 2:6, 7) Þannig hugsar hann um hag annarra en ekki eigin hag. – Fil. 2:4.

21. Hvað verður rætt í næstu grein?

21 Jehóva hefur gefið þeim sem fara með forystu í fjölskyldunni krefjandi verkefni og væntir þess að þeir geri það eins vel og þeir geta. Ef eiginmaður gerir sitt besta til að fylgja fordæmi Jehóva og Jesú gerir hann vel sem höfuð fjölskyldunnar. Og ef eiginkona hans axlar sína ábyrgð verður hjónabandið hamingjuríkt. Hvernig ætti eiginkona að líta á ábyrgð eiginmannsins sem höfuð fjölskyldunnar og hvaða erfiðleika gæti hún þurft að takast á við? Því verður svarað í næstu grein.

SÖNGUR 16 Hyllum Jehóva fyrir smurðan son hans

^ gr. 5 Þegar maður kvænist verður hann höfuð nýrrar fjölskyldu. Í þessari grein skoðum við hvaða vald Jehóva hefur falið öðrum, hvers vegna hann hefur gert það og hvað má læra af fordæmi Jehóva og Jesú. Í næstu grein fjöllum við um hvað eiginmaður og eiginkona geta lært af fordæmi Jesú og annarra sem sagt er frá í Biblíunni. Og í þriðju greininni skoðum við forystuhlutverk bræðra í söfnuðinum.

^ gr. 7 Sú hugmynd að það sé boðlegt að maður komi illa fram við eiginkonu sína og beiti hana jafnvel líkamlegu ofbeldi hefur stundum verið sett fram í kvikmyndum, leikritum og jafnvel í teiknimyndasögum. Fólk gæti þess vegna álitið að það sé ekki rangt að maður drottni yfir eiginkonu sinni.

^ gr. 20 Frekari upplýsingar um hvernig hægt er að taka góðar ákvarðanir er að finna í greininni „Heiðraðu Guð með ákvörðunum þínum“ í Varðturninum 15. apríl 2011 bls. 13–17.