Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 7

Hvernig virkar fyrirkomulagið um forystu í söfnuðinum?

Hvernig virkar fyrirkomulagið um forystu í söfnuðinum?

„Kristur er höfuð safnaðarins, líkama síns sem hann frelsar.“ – EF. 5:23.

SÖNGUR 137 Trúfastar konur og kristnar systur

YFIRLIT *

1. Hver er ein ástæða þess að fjölskylda Jehóva er sameinuð?

VIÐ njótum þess að vera í fjölskyldu Jehóva. Hvers vegna ríkir friður og eining meðal okkar? Meðal annars vegna þess að við gerum öll okkar besta til að virða fyrirkomulag Jehóva um forystu. Því betur sem við skiljum þetta fyrirkomulag því sterkari verður einingin.

2. Hvaða spurningum er svarað í þessari grein?

2 Í þessari grein skoðum við hvernig fyrirkomulagið um forystu virkar í söfnuðinum. Við fáum meðal annars svör við eftirfarandi spurningum: Hvert er hlutverk systra? Er hver og einn bróðir höfuð allra systra? Hafa öldungar sömu yfirráð yfir bræðrum og systrum og fjölskyldufaðir hefur yfir eiginkonu sinni og börnum? En skoðum fyrst hvaða viðhorf við ættum að hafa til systra.

HVAÐA VIÐHORF ÆTTUM VIÐ AÐ HAFA TIL SYSTRA?

3. Hvernig getum við lært að meta enn betur það sem systur okkar gera?

3 Við kunnum að meta systur okkar sem leggja hart að sér við að annast fjölskylduna, boða fagnaðarboðskapinn og hjálpa bræðrum og systrum í söfnuðinum. Og við kunnum enn betur að meta þær ef við hugsum um hvaða viðhorf Jehóva og Jesús hafa til þeirra. Við höfum líka gagn af því að skoða hvernig Páll postuli kom fram við konur.

4. Hvernig sýnir Biblían að Jehóva metur bæði konur og karla?

4 Biblían sýnir að Jehóva metur bæði konur og karla. Hún segir til dæmis frá því að á fyrstu öld hafi Jehóva gefið bæði konum og körlum heilagan anda og gert þeim kleift að vinna kraftaverk, eins og að tala önnur tungumál. (Post. 2:1–4, 15–18) Bæði konur og karlar hafa verið smurð heilögum anda og munu ríkja með Kristi. (Gal. 3:26–29) Bæði karlar og konur munu hljóta eilíft líf á jörðinni. (Opinb. 7:9, 10, 13–15) Og bæði körlum og konum er falið að boða fagnaðarboðskapinn og kenna fólki. (Matt. 28:19, 20) Í Postulasögunni er til dæmis talað um systur sem hét Priskilla. Hún og Akvílas maðurinn hennar útskýrðu sannleikann nánar fyrir Apollósi sem var menntaður maður. – Post. 18:24–26.

5. Hvernig sýnir Lúkas 10:38, 39, 42 að Jesús bar virðingu fyrir konum?

5 Jesús sýndi konum virðingu. Hann var ekki eins og farísearnir sem litu niður á konur og vildu ekki tala við þær á almannafæri, hvað þá tala við þær um Ritningarnar. Þvert á móti ræddi hann mikilvæg andleg mál við konur jafnt sem karla. * (Lestu Lúkas 10:38, 39, 42.) Hann leyfði konum líka að fara með sér í boðunarferðir. (Lúk. 8:1–3) Þar að auki veitti Jesús konum þann heiður að tilkynna postulunum að hann væri upprisinn. – Jóh. 20:16–18.

6. Hvernig sýndi Páll postuli að hann bar virðingu fyrir konum?

6 Páll postuli minnti Tímóteus á að sýna konum virðingu. Hann sagði honum að koma fram við „rosknar konur sem mæður“ og líta á „yngri konur sem systur“. (1. Tím. 5:1, 2) Páll átti stóran þátt í að hjálpa Tímóteusi að verða þroskaður kristinn maður. En hann vissi að það voru mamma hans og amma sem byrjuðu að fræða hann um heilagar ritningar. (2. Tím. 1:5; 3:14, 15) Páll nafngreindi systur í kveðjum í bréfi sínu til Rómverja. Hann tók ekki bara eftir því sem systur gerðu í þjónustunni heldur tjáði hann þakklæti sitt fyrir það. – Rómv. 16:1–4, 6, 12; Fil. 4:3.

7. Hvaða spurningar ætlum við að skoða?

7 Eins og sjá má af greinunum á undan er ekkert í Biblíunni sem sýnir að systur séu lægra settar en bræður. Kærleiksríkar og örlátar systur okkar gera margt gott fyrir söfnuðinn og öldungarnir vita að góð breytni þeirra stuðlar að friði og einingu í söfnuðinum. En við þurfum að fá svör við eftirfarandi spurningum: Hvers vegna vill Jehóva að systir beri höfuðfat við vissar aðstæður? Er hver og einn bróðir höfuð allra systra í söfnuðinum þar sem aðeins bræður eru útnefndir öldungar og safnaðarþjónar?

ER HVER BRÓÐIR HÖFUÐ ALLRA SYSTRA?

8. Sýnir Efesusbréfið 5:23 að hver bróðir sé höfuð allra systra? Skýrðu svarið.

8 Nei. Bróðir er ekki höfuð allra systra í söfnuðinum – Kristur er það. (Lestu Efesusbréfið 5:23.) Í fjölskyldunni er eiginmaðurinn höfuð konunnar. Skírður sonur er ekki höfuð móður sinnar. (Ef. 6:1, 2) Og í söfnuðinum hafa öldungarnir aðeins takmörkuð yfirráð yfir systrum og bræðrum. (1. Þess. 5:12; Hebr. 13:17) Einhleypar systur sem búa ekki lengur hjá foreldrum sínum halda áfram að sýna þeim og öldungunum virðingu. En rétt eins og bræðurnir í söfnuðinum hafa þær aðeins eitt höfuð, Jesú.

Jesús er höfuð einhleypra sem búa ekki lengur hjá foreldrum sínum. (Sjá 8. grein.)

9. Af hverju þurfa systur stundum að bera höfuðfat?

9 En Jehóva hefur vissulega falið karlmönnum að fara með forystu í kennslu og tilbeiðslu í söfnuðinum. Hann hefur ekki gefið konum sama vald. (1. Tím. 2:12) Hvers vegna? Af sömu ástæðu og hann hefur skipað Jesú höfuð mannsins – til að hafa röð og reglu í fjölskyldu sinni. Ef systir þarf að sinna verkefni sem er venjulega í höndum bróður vill Jehóva að hún beri höfuðfat. * (1. Kor. 11:4–7) Jehóva biður systur ekki að gera þetta til að lítillækka þær heldur til að þær geti sýnt fyrirkomulagi hans um forystu virðingu. Með það í huga skulum við nú skoða hvaða vald höfuð fjölskyldunnar og öldungar hafa.

HLUTVERK HÖFUÐS FJÖLSKYLDUNNAR OG ÖLDUNGANNA

10. Hvers vegna gæti öldungur haft tilhneigingu til að setja söfnuðinum reglur?

10 Öldungarnir elska Jesú Krist og þeir elska sauðina sem Jehóva og Jesús hafa falið þeim að annast. (Jóh. 21:15–17) Öldungur gæti farið að líta á sjálfan sig eins og föður þeirra sem eru í söfnuðinum vegna þess að honum er annt um söfnuðinn. Hann gæti hugsað sem svo að fyrst höfuð fjölskyldunnar má setja reglur til að vernda fjölskyldu sína geti öldungur sett reglur í þeirri von að þær verndi sauði Guðs. Og sum trúsystkini hvetja öldunga kannski til þess með því að biðja þá um að taka ákvarðanir fyrir sig. En hafa öldungar safnaðarins og höfuð fjölskyldunnar sams konar vald?

Öldungar stuðla að því að þeim sem eru í söfnuðinum líði vel og að þeir eigi náið samband við Jehóva. Jehóva hefur falið þeim þá ábyrgð að halda söfnuðinum siðferðilega hreinum. (Sjá 11. og 12. grein.)

11. Hvað er líkt með hlutverki höfuðs fjölskyldunnar og öldunga?

11 Páll postuli benti á að það er ýmislegt líkt með hlutverki höfuðs fjölskyldunnar og öldunga. (1. Tím. 3:4, 5) Jehóva vill til dæmis að fjölskyldan hlýði höfði fjölskyldunnar. (Kól. 3:20) Og hann vill að þeir sem eru í söfnuðinum hlýði öldungunum. Jehóva ætlast til þess að bæði höfuð fjölskyldunnar og öldungar sjái til þess að þeir sem þeir annast eigi gott samband við Jehóva. Bæði öldungarnir og höfuð fjölskyldunnar sjá til þess að þeim sem þeir annast líði vel. Og eins og góðir fjölskyldufeður sjá öldungarnir til þess að þeir sem þeir annast fái hjálp þegar þeir þurfa á því að halda. (Jak. 2:15–17) Þar að auki ætlast Jehóva til að öldungar og höfuð fjölskyldunnar hjálpi öðrum að fylgja fyrirmælum hans. Og hann varar þá við að ganga „lengra en skrifað er“ í Biblíunni. – 1. Kor. 4:6.

Jehóva hefur falið höfði fjölskyldunnar vald til að fara með forystu í fjölskyldu sinni. Kærleiksríkur fjölskyldufaðir ráðfærir sig við konuna sína áður en hann tekur ákvarðanir. (Sjá 13. grein.)

12, 13. Hvernig eru hlutverk höfuðs fjölskyldunnar og öldunga ólík eins og fram kemur í Rómverjabréfinu 7:2?

12 En hlutverk öldunganna og hlutverk höfuðs fjölskyldunnar eru líka á ýmsan hátt ólík. Jehóva hefur til dæmis útnefnt öldunga til að vera dómara. Og hann hefur gefið þeim þá ábyrgð að víkja þeim sem syndga og iðrast ekki úr söfnuðinum. – 1. Kor. 5:11–13.

13 En Jehóva hefur gefið fjölskyldufeðrum ákveðið vald sem hann hefur ekki gefið öldungum. Hann hefur til dæmis falið höfði fjölskyldunnar bæði að setja og framfylgja reglum í sinni fjölskyldu. (Lestu Rómverjabréfið 7:2.) Höfuð fjölskyldunnar hefur til dæmis rétt á að setja börnum sínum útivistarreglur. Hann hefur líka vald til þess að aga þau ef þau brjóta þær. (Ef. 6:1) Að sjálfsögðu ráðfærir kærleiksríkur fjölskyldufaðir sig við konuna sína áður en hann setur reglur á heimilinu enda eru þau eitt. * – Matt. 19:6.

VIRÐUM KRIST SEM HÖFUÐ SAFNAÐARINS

Kristni söfnuðurinn fær leiðbeiningar frá Jesú sem lýtur forystu Jehóva. (Sjá 14. grein.)

14. (a) Hvað segir í Markúsi 10:45 sem sýnir að það er við hæfi að Jehóva hafi útnefnt Jesú sem höfuð safnaðarins? (b) Hvert er hlutverk hins stjórnandi ráðs? (Sjá rammann „ Hlutverk hins stjórnandi ráðs“.)

14 Jehóva hefur með lausnargjaldinu keypt líf allra í söfnuðinum og allra annarra sem iðka trú á Jesú. (Lestu Markús 10:45; Post. 20:28; 1. Kor. 15:21, 22) Jesús gaf líf sitt sem lausnargjald og þess vegna var vel við hæfi að Jehóva skyldi útnefna hann sem höfuð safnaðarins. Sem höfuð okkar hefur Jesús vald til að setja og framfylgja reglum um hegðun fyrir einstaklinga, fjölskyldur og allan söfnuðinn. (Gal. 6:2) En Jesús setur ekki bara reglur heldur elskar hann og annast hvert og eitt okkar. – Ef. 5:29.

15, 16. Hvað getum við lært af Marley og Benjamin?

15 Systur sýna að þær virða Krist með því að fylgja leiðbeiningum þeirra manna sem hann hefur falið að annast þær. Margar systur eru sammála Marley, systur sem býr í Bandaríkjunum. Hún segir: „Ég kann virkilega að meta hlutverk mitt sem eiginkona og systir í söfnuðinum. En ég þarf stöðugt að temja mér rétt viðhorf gagnvart ráðstöfun Jehóva um forystu. Maðurinn minn og bræður í söfnuðinum hafa þó gert mér það auðveldara vegna þess að þeir sýna mér virðingu og láta í ljós að þeir kunna að meta það sem ég geri.“

16 Bræður sýna að þeir skilja fyrirkomulagið um forystu með því að sýna systrum virðingu. Benjamin, bróðir sem býr á Englandi, segir: „Ég hef lært rosalega margt af svörum systra á samkomum og af ráðleggingum þeirra varðandi sjálfsnám og það hvernig á að ná árangri í boðuninni. Mér finnst það sem þær gera mjög mikils virði.“

17. Hvers vegna ættum við að virða fyrirkomulagið um forystu?

17 Þegar allir í söfnuðinum – karlar, konur, höfuð fjölskyldunnar og öldungar – skilja og virða fyrirkomulagið um forystu ríkir friður í söfnuðinum. Og það sem mestu máli skiptir er að þá lofum við Jehóva, kærleiksríkan föður okkar á himnum. – Sálm. 150:6.

SÖNGUR 123 Verum hlýðin skipan Guðs

^ gr. 5 Hvert er hlutverk systra í söfnuðinum? Er hver og einn bróðir höfuð allra systra? Hafa öldungar og höfuð fjölskyldunnar sams konar vald? Í þessari grein skoðum við svör Biblíunnar við þessum spurningum.

^ gr. 5 Sjá grein 6 í greininni „Veitum systrum okkar í söfnuðinum stuðning“ í Varðturninum september 2020.

^ gr. 13 Umfjöllun um það hver ætti að ákveða í hvaða söfnuði fjölskyldan á að vera má finna í grein 17–19 í greininni „Berum virðingu fyrir öllum í söfnuði Jehóva“ í Varðturninum ágúst 2020.

^ gr. 59 Ítarlegri umfjöllun um efnið má finna í bókinni „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“, bls. 209–212.

^ gr. 64 Sjá ítarlega umfjöllun um hlutverk stjórnandi ráðs í Varðturninum 15. júlí 2013, bls. 20–25.