Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 14

,Fetum náið í fótspor Krists‘

,Fetum náið í fótspor Krists‘

„Kristur þjáðist fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til að þið skylduð feta náið í fótspor hans.“ – 1. PÉT. 2:21.

SÖNGUR 13 Kristur, fyrirmynd okkar

YFIRLIT *

Við eigum að feta náið í fótspor Jesú. (Sjá 1. og 2. grein.)

1, 2. Hvernig getum við fetað í fótspor Jesú? Lýstu með dæmi.

ÍMYNDAÐU þér að þú sért í göngu um óbyggðir með hópi fólks. Landið er þakið snjó en reyndur leiðsögumaður fer fyrir hópnum um þessar hættulegu slóðir. Allt í einu kemurðu ekki lengur auga á leiðsögumanninn. En þú þarft ekki að óttast því að þú og hinir í hópnum fylgið fótsporum leiðsögumannsins eins vel og þið getið.

2 Þessi illi heimur sem við búum í er eins og hættulegu óbyggðirnar og sannkristnir menn eru eins og gönguhópurinn. Sem betur fer hefur Jehóva séð okkur fyrir fullkomnum leiðsögumanni – syni sínum, Jesú Kristi. Við getum fetað náið í fótspor hans. (1. Pét. 2:21) Biblíuskýringarit segir að Pétur sé hér að líkja Jesú við leiðsögumann. Jesús skildi eftir fótspor sem við getum fetað í líkt og leiðsögumaður skilur eftir slóð. Skoðum þrennt varðandi það að feta í fótspor Jesú – hvað það þýðir, hvers vegna við ættum að gera það og hvernig við getum gert það.

HVAÐ ÞÝÐIR ÞAÐ AÐ FETA Í FÓTSPOR JESÚ?

3. Hvað þýðir það að feta í fótspor einhvers?

3 Hvað þýðir það að feta í fótspor einhvers? Biblían á stundum við lífsstefnu fólks þegar hún talar um göngu og fætur. (1. Mós. 6:9; Orðskv. 4:26) Hægt er að líkja lífsstefnu fólks við fótspor þess. Að feta í fótspor einhvers merkir því að fylgja fordæmi hans, eða líkja eftir honum.

4. Hvað þýðir það að feta í fótspor Jesú?

4 Hvað þýðir þá að feta í fótspor Jesú? Það þýðir að fylgja fordæmi hans. Í lykilversi greinarinnar er Pétur fyrst og fremst að tala um hvernig Jesús sýndi gott fordæmi í að þola þjáningar. En við getum líkt eftir fordæmi hans í mörgu öðru. (1. Pét. 2:18–25) Jesús gaf okkur reyndar fordæmi með öllu sem hann sagði og gerði.

5. Geta ófullkomnir menn fylgt fullkomnu fordæmi Jesú? Skýrðu svarið.

5 Getum við fylgt fordæmi Jesú þó að við séum ófullkomin? Já, við getum það. Pétur hvatti okkur til að „feta náið í fótspor“ Jesú – ekki fullkomlega. Ef við fetum eins vel í fótspor hans og við getum þrátt fyrir ófullkomleikann förum við eftir hvatningu Jóhannesar þegar hann sagði að við ættum að „ganga eins og hann [Jesús] gekk“. – 1. Jóh. 2:6, neðanmáls.

HVERS VEGNA ÆTTUM VIÐ AÐ FETA Í FÓTSPOR JESÚ?

6, 7. Hvernig vitum við að við verðum nánari Jehóva með því að feta í fótspor Jesú?

6 Að feta í fótspor Jesú styrkir samband okkar við Jehóva. Hvernig vitum við það? Í fyrsta lagi gaf Jesús okkur frábært fordæmi í líferni sem Guð hefur velþóknun á. (Jóh. 8:29) Jehóva hefur því velþóknun á okkur ef við fetum í fótspor Jesú. Og við megum vera viss um að faðir okkar á himnum muni nálgast þá sem leggja sig fram um að verða vinir hans. – Jak. 4:8.

7 Í öðru lagi líkti Jesús fullkomlega eftir föður sínum. Þess vegna gat hann sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur líka séð föðurinn.“ (Jóh. 14:9) Við getum líkt eftir eiginleikum Jesú og því hvernig hann kom fram við aðra. Hann kenndi til dæmis í brjósti um holdsveikan mann og konu sem þjáðist af alvarlegum sjúkdómi. Og hann hafði samúð með syrgjendum. Þegar við líkjum eftir Jesú líkjum við jafnframt eftir Jehóva. (Mark. 1:40, 41; 5:25–34; Jóh. 11:33–35) Því betur sem við líkjum eftir Jehóva því nánari verðum við honum.

8. Hvernig hjálpar það okkur að sigra heiminn að feta í fótspor Jesú?

8 Að feta í fótspor Jesú hjálpar okkur að láta ekki þennan illa heim trufla okkur. Nóttina áður en Jesús dó gat hann sagt: „Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóh. 16:33) Hann átti við að hann hafði ekki leyft hugsunarhætti, markmiðum og verkum fólks í þessum heimi að hafa áhrif á sig. Jesús gleymdi aldrei hvers vegna hann var sendur til jarðar – til að upphefja Jehóva. Hvað um okkur? Í þessum heimi er margt sem getur truflað okkur. En ef við einbeitum okkur að því að gera vilja Jehóva, eins og Jesús gerði, munum við líka sigra heiminn. – 1. Jóh. 5:5.

9. Hvað þurfum við að gera til að halda okkur á veginum til eilífa lífsins?

9 Að feta í fótspor Jesú leiðir til eilífs lífs. Þegar ríkur ungur maður spurði hvað hann þyrfti að gera til að hljóta eilíft líf svaraði Jesús honum: „Komdu ... og fylgdu mér.“ (Matt. 19:16–21) Jesús sagði við Gyðinga sem trúðu ekki að hann væri Kristur: „Sauðirnir mínir ... fylgja mér. Ég gef þeim eilíft líf.“ (Jóh. 10:24–29) Nikódemus átti sæti í Æðstaráðinu og sýndi kenningum Jesú áhuga. Jesús sagði honum að þeir sem ,tryðu á Jesú myndu hljóta eilíft líf‘. (Jóh. 3:16) Við sýnum að við trúum á Jesú með því að fara eftir því sem hann kenndi bæði í orði og verki. Ef við gerum það höldum við okkur á veginum sem liggur til eilífs lífs. – Matt. 7:14.

HVERNIG GETUM VIÐ FETAÐ NÁIÐ Í FÓTSPOR JESÚ?

10. Hvað felst í því „að kynnast“ Jesú betur? (Jóh. 17:3)

10 Við þurfum að kynnast Jesú til að geta fetað náið í fótspor hans. (Lestu Jóhannes 17:3.) Við höldum stöðugt áfram „að kynnast“ Jesú. Við þurfum sífellt að læra meira um hann, það er að segja eiginleika hans, hugarfar og viðmið. Við þurfum að halda áfram að kynnast Jehóva og syni hans, sama hve lengi við höfum verið í sannleikanum.

11. Hvaða sögu er að finna í guðspjöllunum?

11 Í kærleika sínum lét Jehóva skrá guðspjöllin fjögur í orð sitt til að hjálpa okkur að kynnast syni sínum. Söguna af lífi og þjónustu Jesú er að finna í guðspjöllunum. Þar lesum við um hvað Jesús sagði, hvað hann gerði og hvernig honum leið. Guðspjöllin gera okkur mögulegt að virða fordæmi Jesú vandlega fyrir okkur. (Hebr. 12:3) Það má segja að þau sýni okkur fótspor Jesú. Við getum kynnst Jesú betur og betur með því að lesa og hugleiða guðspjöllin. Og þá getum við fetað náið í fótspor hans.

12. Hvernig getum við haft sem mest gagn af guðspjöllunum?

12 Það er ekki nóg að lesa guðspjöllin til að hafa sem mest gagn af þeim. Við þurfum að gefa okkur tíma til að rannsaka þau og hugleiða efni þeirra vel. (Jós. 1:8) Skoðum tvennt sem getur hjálpað okkur að hugleiða efni guðspjallanna og fara eftir því sem við lærum.

13. Hvernig geturðu blásið lífi í frásögur guðspjallanna?

13 Fyrst skaltu blása lífi í frásöguna. Notaðu ímyndunaraflið til að sjá atburðina fyrir þér, heyra það sem fer fram og lifa þig inn í frásöguna. Þú getur notað námsgögn sem söfnuðurinn hefur gefið út til að gera það. Skoðaðu samhengið – atburðina á undan og á eftir því sem þú ert að lesa um. Aflaðu þér frekari upplýsinga um fólk og staði sem nefndir eru í frásögunni. Berðu frásöguna saman við samsvarandi frásögu í öðru guðspjalli. Stundum segir einn guðspjallaritari frá athyglisverðu smáatriði sem annar minnist ekki á.

14, 15. Hvernig getum við heimfært frásögur guðspjallanna á líf okkar?

14 Síðan skaltu fara eftir því sem þú lærir af frásögunni. (Jóh. 13:17) Þegar þú hefur lesið og hugleitt frásögu úr guðspjöllunum skaltu spyrja þig: Er eitthvað í þessari frásögu sem ég get heimfært upp á líf mitt? Hvernig get ég notað þessa frásögu til að hjálpa öðrum? Reyndu að hafa einhvern ákveðinn í huga og veldu síðan viðeigandi tíma til að segja honum frá því sem þú lærðir, á kærleiksríkan og nærgætinn hátt.

15 Skoðum dæmi um hvernig við getum nýtt okkur þessar tvær tillögur. Við tökum fyrir söguna af fátæku ekkjunni sem Jesús fylgdist með í musterinu.

FÁTÆKA EKKJAN Í MUSTERINU

16. Lýstu sögusviðinu í Markúsi 12:41.

16 Blástu lífi í frásöguna. (Lestu Markús 12:41.) Sjáðu sögusviðið fyrir þér. Það er 11. nísan árið 33 og innan við vika þar til Jesús deyr. Jesús hefur varið deginum að miklu leyti í að kenna í musterinu. Trúarleiðtogarnir hafa gert honum erfitt fyrir. Fyrr um daginn drógu sumir þeirra vald hans í efa. Aðrir reyndu að koma honum í vandræði með erfiðum spurningum. (Mark. 11:27–33; 12:13–34) Nú er Jesús kominn á annan stað í musterinu, líklega á svæðið sem er kallað forgarður kvenna. Hann sér söfnunarbaukana meðfram veggjum forgarðsins. Hann sest niður og fylgist með fólkinu setja framlög sín í baukana. Hann sér marga ríka gefa mikið. Hann situr kannski nógu nálægt til að heyra peningana detta ofan í baukana.

17. Hvað gerði fátæka ekkjan sem talað er um í Markúsi 12:42?

17 Lestu Markús 12:42Eftir dálitla stund tekur Jesús sérstaklega eftir einni konu. Þetta er „fátæk ekkja“. Líf hennar er ekki auðvelt og hún á líklega erfitt með að sjá sér fyrir brýnustu nauðsynjum. Samt gengur hún að einum bauknum og setur tvo smápeninga í hann án þess að mikið beri á. Kannski heyrist ekki einu sinni í þeim þegar þeir detta ofan í baukinn. Jesús veit að þetta eru tveir leptonar – sem er minnsti peningurinn í umferð á þessum tíma. Þeir duga ekki einu sinni til að kaupa einn lítinn spörfugl sem er meðal ódýrustu matfugla á markaðnum.

18. Hvað sagði Jesús um framlag ekkjunnar í Markúsi 12:43, 44?

18 Lestu Markús 12:43, 44Jesús er stórhrifinn af því sem ekkjan gerði. Hann kallar því á lærisveina sína, vekur athygli þeirra á ekkjunni og segir: „Þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir.“ Svo bætir hann við: „Þeir [sérstaklega hinir ríku] gáfu allir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla lífsbjörg sína.“ Þegar þessi trúfasta ekkja gaf það síðasta sem hún átti þennan dag sýndi hún fullt traust á að Jehóva myndi sjá fyrir henni. – Sálm. 26:3.

Líktu eftir Jesú og hrósaðu öðrum þegar þeir gera sitt besta fyrir Jehóva. (Sjá 19. og 20. grein.) *

19. Hvaða mikilvæga lærdóm getum við dregið af því sem Jesús sagði um fátæku ekkjuna?

19 Farðu eftir því sem þú lærðir af frásögunni. Spyrðu þig: Hvað get ég lært af því sem Jesús sagði um fátæku ekkjuna? Hugsaðu um ekkjuna. Hún óskaði þess eflaust að geta gefið Jehóva meira. En hún gerði það sem hún gat. Hún gaf Jehóva það besta sem hún átti. Og Jesús vissi að framlag hennar var verðmætt í augum föður hans. Hvað lærum við af þessu? Það gleður Jehóva þegar við gerum okkar besta og þjónum honum af öllu hjarta okkar og allri sál. (Matt. 22:37; Kól. 3:23) Þegar við gerum eins vel og við getum er Jehóva ánægður með okkur. Það á við um þann tíma og krafta sem við getum varið í tilbeiðslunni á honum, þar á meðal í boðuninni og á samkomum.

20. Hvernig geturðu farið eftir því sem þú lærðir af frásögunni um ekkjuna? Nefndu dæmi.

20 Hvernig geturðu farið eftir því sem þú lærðir af frásögunni um ekkjuna? Hugsaðu um einstaklinga sem hægt væri að hvetja með því að minna þá á að Jehóva er ánægður með það sem þeir geta gert fyrir hann. Veistu til dæmis af eldri systur sem líður illa eða finnst hún gagnslaus vegna þess að hún hefur ekki lengur heilsu eða orku til að gera eins mikið og hún gerði áður í þjónustunni? Eða veistu af bróður sem er niðurdreginn vegna þess að hann getur ekki mætt í ríkissalinn á hverja samkomu af því að hann er með langvinnan og kvalafullan sjúkdóm? Hjálpaðu þeim með því að tala um það sem er „gott og uppbyggilegt“. (Ef. 4:29) Uppörvaðu þau með því að segja þeim frá því sem við lærðum af frásögunni um fátæku ekkjuna. Hvetjandi orð þín geta minnt þau á að Jehóva er ánægður þegar við gerum okkar besta. (Orðskv. 15:23; 1. Þess. 5:11) Þegar þú hrósar öðrum fyrir að gera sitt besta fyrir Jehóva – sama hversu lítið það virðist vera – ertu að feta náið í fótspor Jesú.

21. Hvað ert þú ákveðinn í að gera?

21 Við erum mjög þakklát fyrir að í guðspjöllunum skuli vera sagt frá svo mörgu úr lífi Jesú sem gerir okkur kleift að líkja eftir honum og feta náið í fótspor hans. Hvernig væri að taka guðspjöllin fyrir í sjálfsnáminu eða í tilbeiðslustund fjölskyldunnar? Höfum í huga að til að hafa sem mest gagn af náminu þurfum við að blása lífi í frásöguna og fara eftir því sem við lærum. Auk þess að líkja eftir því sem Jesús gerði þurfum við að hlusta á það sem hann sagði. Í næstu grein skoðum við hvað við getum lært af því sem Jesús sagði rétt áður en hann dó.

SÖNGUR 15 Fögnum frumburði Jehóva

^ gr. 5 Sannkristnir menn þurfa að „feta náið í fótspor“ Jesú. Hvaða fyrirmynd lét Jesús okkur eftir? Því er svarað í greininni. Við ræðum einnig hvers vegna við ættum að feta náið í fótspor hans og hvernig við getum gert það.

^ gr. 60 MYND: Eftir að hafa hugleitt það sem Jesús sagði um fátæku ekkjuna hrósar systir eldri systur fyrir að þjóna Jehóva af heilum huga.