Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 15

Hvað lærum við af síðustu orðum Jesú?

Hvað lærum við af síðustu orðum Jesú?

„Þetta er sonur minn sem ég elska og hef velþóknun á. Hlustið á hann.“ – MATT. 17:5.

SÖNGUR 17 „Ég vil“

YFIRLIT *

1, 2. Lýstu sjónarsviðinu þar sem Jesús sagði sín síðustu orð sem maður.

ÞETTA er að degi til þann 14. nísan árið 33. Jesús hefur verið ranglega ákærður og dæmdur sekur fyrir glæp sem hann framdi ekki. Hann er hæddur, pyntaður grimmilega og negldur á kvalastaur. Naglarnir voru reknir í gegnum hendur hans og fætur. Hver einasti andardráttur og hvert einasta orð sem hann segir veldur honum sársauka. En hann verður að tala vegna þess að hann þarf að koma nokkru mikilvægu á framfæri.

2 Skoðum nú það sem Jesús sagði á kvalastaurnum rétt áður en hann dó og hvað við getum lært af því. Við skulum ,hlusta á hann‘. – Matt. 17:5.

„FAÐIR, FYRIRGEFÐU ÞEIM“

3. Um hverja var Jesús líklega að tala þegar hann sagði: „Faðir, fyrirgefðu þeim“?

3 Hvað sagði Jesús? Þegar Jesús var negldur á staurinn bað hann: „Faðir, fyrirgefðu þeim.“ Hverjum átti hann að fyrirgefa? Það sem Jesús sagði næst gefur okkur vísbendingu um það: „Þeir vita ekki hvað þeir eru að gera.“ (Lúk. 23:33, 34) Jesús var líklega að tala um rómversku hermennina sem negldu í gegnum hendur hans og fætur. Þeir vissu ekki hver hann var í raun og veru. Hann getur líka hafa átt við einhverja í mannfjöldanum sem kröfðust þess að hann yrði tekinn af lífi en áttu seinna eftir að taka trú á hann. (Post. 2:36–38) Jesús leyfði ekki óréttlætinu sem hann varð fyrir að gera sig bitran eða graman. (1. Pét. 2:23) Hann bað Jehóva öllu heldur að fyrirgefa þeim sem voru að taka hann af lífi.

4. Hvað getum við lært af fúsleika Jesú til að fyrirgefa andstæðingum sínum?

4 Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði? Við verðum að vera fús til að fyrirgefa öðrum rétt eins og Jesús. (Kól. 3:13) Fólk setur sig stundum upp á móti okkur vegna þess að það skilur ekki trú okkar og lífsstefnu, þar á meðal geta verið ættingjar okkar. Það breiðir kannski út lygar um okkur, niðurlægir okkur fyrir framan aðra, eyðileggur ritin okkar eða hótar jafnvel að meiða okkur. Í stað þess að ala á gremju getum við beðið Jehóva um að hjálpa þeim sem standa á móti okkur að taka við sannleikanum. (Matt. 5:44, 45) Okkur getur stundum fundist erfitt að fyrirgefa, sérsaklega ef við höfum orðið fyrir miklu óréttlæti. En ef við leyfum biturð og gremju að festa rætur í hjarta okkar gerum við sjálfum okkur illt. Systir ein sagði: „Ég geri mér grein fyrir að þó að ég fyrirgefi er ég ekki að horfa fram hjá því sem gert var á hlut minn eða leyfa öðrum að fara illa með mig. Ég ákveð einfaldlega að láta af gremjunni.“ (Sálm. 37:8) Þegar við ákveðum að fyrirgefa veljum við að láta ekki neikvæða reynslu gera okkur bitur. – Ef. 4:31, 32.

„ÞÚ VERÐUR MEÐ MÉR Í PARADÍS“

5. Hverju lofaði Jesús öðrum glæpamanninum sem var tekinn af lífi með honum, og hvers vegna?

5 Hvað sagði Jesús? Tveir glæpamenn voru teknir af lífi við hliðina á Jesú. Til að byrja með tóku þeir báðir þátt í að smána hann. (Matt. 27:44) En annar þeirra skipti svo um skoðun og sannfærðist um að Jesús hefði „ekkert brotið af sér“. (Lúk. 23:40, 41) Hann lét meira að segja í ljós að hann tryði að Jesús yrði reistur upp frá dauðum og myndi ríkja sem konungur þegar þar að kæmi. Hann sagði við hann: „Jesús, mundu eftir mér þegar þú kemur í ríki þitt.“ (Lúk. 23:42) Maðurinn sýndi mikla trú! Jesús svaraði honum: „Ég lofa þér í dag að þú verður með mér [ekki í ríkinu, heldur] í paradís.“ (Lúk. 23:43) Taktu eftir að þetta loforð Jesú var mjög persónulegt vegna þess að hann sagði „ég“, „þú“ og „mér“. Jesús gat gefið þessum glæpamanni sem var að deyja von vegna þess að hann vissi að faðir sinn væri miskunnsamur. – Sálm. 103:8.

6. Hvað lærum við af því sem Jesús sagði við glæpamanninn?

6 Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði? Jesús er fullkomin eftirmynd föður síns. (Hebr. 1:3) Jehóva vill mjög gjarnan fyrirgefa okkur og sýna okkur miskunn ef við sjáum virkilega eftir því sem við höfum gert af okkur og sýnum að við treystum að við getum fengið fyrirgefningu fyrir syndir okkar vegna fórnar Jesú Krists. (1. Jóh. 1:7) Sumir eiga kannski erfitt með að trúa því að Jehóva geti nokkurn tíma fyrirgefið þeim það sem þeim hefur orðið á. Ef þér líður stundum þannig skaltu hafa í huga að stuttu áður en Jesús dó sýndi hann dæmdum glæpamanni miskunn þótt hann væri aðeins rétt farinn að sýna trú. Hvers vegna ætti Jehóva ekki miklu frekar að sýna miskunn trúföstum þjónum sínum sem gera sitt besta til að hlýða fyrirmælum hans? – Sálm. 51:3; 1. Jóh. 2:1, 2.

„NÚ ER HANN SONUR ÞINN ... NÚ ER HÚN MÓÐIR ÞÍN“

7. Hvað sagði Jesús við Maríu og Jóhannes eins og fram kemur í Jóhannesi 19:26, 27, og hvers vegna gerði hann það?

7 Hvað sagði Jesús? (Lestu Jóhannes 19:26, 27.) Jesús lét sér annt um móður sína, en hún var líklega orðin ekkja. Systkini hans gætu eflaust séð fyrir efnislegum þörfum hennar. En hver gæti séð fyrir andlegum þörfum hennar? Ekkert bendir til þess að bræður hans hafi verið orðnir lærisveinar. En Jóhannes var trúfastur postuli og einn nánasti vinur Jesú. Jesús leit á þá sem tilbáðu Jehóva með honum sem andlega fjölskyldu sína. (Matt. 12:46–50) Jesús elskaði Maríu og vildi tryggja að séð yrði fyrir henni. Hann vissi að Jóhannes myndi sjá fyrir andlegum þörfum hennar og bað hann þess vegna um að annast hana. Hann sagði við móður sína: „Nú er hann sonur þinn.“ Og hann sagði við Jóhannes: „Nú er hún móðir þín.“ Þaðan í frá varð Jóhannes eins og sonur Maríu og annaðist hana eins og hún væri móðir hans. Jesús sýndi innilega ástúð þessari dýrmætu konu sem hafði annast hann af blíðu þegar hann fæddist og stóð nálægt honum þegar hann var að deyja.

8. Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði við Maríu og Jóhannes?

8 Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði? Samband okkar við bræður og systur í söfnuðinum getur verið sterkara en sambandið við nánustu fjölskyldu okkar. Ættingjar geta staðið á móti okkur eða jafnvel yfirgefið okkur, en eins og Jesús lofaði fáum við „hundraðfalt aftur“ það sem við höfum misst ef við höldum okkur nálægt Jehóva og söfnuði hans. Margir verða okkur ástkærir eins og sonur, dóttir, móðir eða faðir. (Mark. 10:29, 30) Hvernig finnst þér að tilheyra andlegri fjölskyldu sem er sameinuð í trú og kærleika – kærleika til Jehóva og hvert til annars? – Kól. 3:14; 1. Pét. 2:17.

„GUÐ MINN, HVERS VEGNA HEFURÐU YFIRGEFIÐ MIG?“

9. Hvað segja orð Jesú í Matteusi 27:46 okkur?

9 Hvað sagði Jesús? Rétt áður en Jesús dó hrópaði hann: „Guð minn, Guð minn, hvers vegna hefurðu yfirgefið mig?“ (Matt. 27:46) Biblían útskýrir ekki hvers vegna Jesús sagði þetta. Skoðum samt hvað þessi orð segja okkur. Með því að segja þetta var Jesús meðal annars að uppfylla spádóminn í Sálmi 22:2. * Auk þess er ljóst af þessum orðum að Jehóva var ekki að vernda son sinn. (Job. 1:9, 10) Jesús skildi að faðir hans leyfði óvinum hans að reyna hann til hins ýtrasta – meira en nokkur maður hefur verið reyndur. Enn fremur staðfesti þetta að hann hafði ekki framið neinn glæp sem hann verðskuldaði dauðarefsingu fyrir.

10. Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði við föður sinn?

10 Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði? Við lærum meðal annars að við megum ekki ætlast til að Jehóva verndi okkur fyrir erfiðleikum sem reyna á trú okkar. Jesús var reyndur til hins ýtrasta og eins verðum við að vera tilbúin að vera trúföst allt til dauða ef nauðsyn krefur. (Matt. 16:24, 25) En við megum treysta að Guð láti ekki reyna okkur umfram það sem við ráðum við. (1. Kor. 10:13) Við lærum líka að við getum þurft að þjást saklaus eins og Jesús gerði. (1. Pét. 2:19, 20) Þeir sem ofsækja okkur gera það ekki vegna þess að við höfum gert eitthvað rangt heldur vegna þess að við tilheyrum ekki heiminum og berum sannleikanum vitni. (Jóh. 17:14; 1. Pét. 4:15, 16) Jesús skildi hvers vegna Jehóva leyfði að hann þjáðist. Hins vegar hafa trúfastir þjónar Jehóva stundum velt fyrir sér hvers vegna hann leyfði að ákveðnir hlutir gerðust. (Hab. 1:3) Miskunnsamur og þolinmóður Guð okkar skilur að þá skortir ekki trú heldur þurfa þeir huggun sem aðeins hann getur veitt. – 2. Kor. 1:3, 4.

„ÉG ER ÞYRSTUR“

11. Hvers vegna sagði Jesús það sem við lesum í Jóhannesi 19:28?

11 Hvað sagði Jesús? (Lestu Jóhannes 19:28.) Hvers vegna sagði Jesús: „Ég er þyrstur“? Hann gerði það „til að ritningarstaðurinn rættist“ – það er að segja spádómurinn í Sálmi 22:16 sem segir: „Kverkar mínar eru þurrar sem brenndur leir, tungan loðir við góminn.“ Auk þess hlýtur hann að hafa verið mjög þyrstur eftir allt sem hann hafði mátt þola, þar á meðal hræðilegar þjáningar á kvalastaurnum. Og hann þurfti hjálp til að svala þorstanum.

12. Hvað getum við lært af því að Jesús sagði: „Ég er þyrstur“?

12 Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði? Jesús áleit það ekki veikleikamerki að segja frá því hvernig sér liði og við ættum ekki heldur að gera það. Við erum kannski ekki vön að biðja aðra um hjálp með það sem okkur vantar. En við ættum ekki að hika við það þegar við þurfum á því að halda. Ef við erum til dæmis veikburða eða orðin öldruð gætum við þurft að biðja vin að skutla okkur í búð eða til læknis. Ef við erum döpur eða niðurdregin gætum við þurft að biðja öldung eða annan þroskaðan vin í söfnuðinum að gefa sér tíma til að hlusta á okkur eða uppörva okkur með ,vingjarnlegu orði‘. (Orðskv. 12:25) Munum að bræður okkar og systur elska okkur og að þau vilja hjálpa okkur „í andstreymi“. (Orðskv. 17:17) En þau geta ekki lesið hugsanir. Þau vita kannski ekki að við þurfum hjálp nema við segjum þeim það.

„ÆTLUNARVERKINU ER LOKIГ

13. Hverju kom Jesús til leiðar með því að vera ráðvandur allt til dauða?

13 Hvað sagði Jesús? Um þrjúleytið eftir hádegi þann 14. nísan kallaði Jesús: „Ætlunarverkinu er lokið.“ (Jóh. 19:30) Rétt áður en Jesús dó vissi hann að hann hafði lokið öllu því verki sem Jehóva hafði falið honum. Jesús kom ýmsu til leiðar með því að vera ráðvandur allt til dauða. Í fyrsta lagi sannaði hann að Satan væri lygari. Jesús sýndi að fullkominn maður getur verið fullkomlega ráðvandur hvað sem Satan gerir honum. Í öðru lagi gaf Jesús líf sitt sem lausnargjald. Fórnardauði hans gerði ófullkomnum mönnum kleift að eiga gott samband við Guð og von um eilíft líf. Í þriðja lagi sannaði Jesús að Jehóva er réttmætur stjórnandi og hreinsaði nafn föður síns af þeirri smán sem það hafði orðið fyrir.

14. Hvernig ættum við að vera staðráðin í að verja hverjum einasta degi? Skýrðu svarið.

14 Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði? Við verðum að vera staðráðin í að vera ráðvönd á hverjum einasta degi. Skoðum hvað bróðir Maxwell Friend sagði, en hann var kennari í Biblíuskólanum Gíleað. Á alþjóðamóti sagði hann í ræðu um trúfesti: „Frestaðu ekki til morguns því sem þú getur gert eða sagt í dag. Ertu viss um að þú verðir á lífi á morgun? Verðu hverjum degi eins og hann væri sá síðasti sem þú hefðir tækifæri til að sýna að þú sért verðugur þess að lifa að eilífu.“ Við skulum verja hverjum degi eins og hann væri sá síðasti sem við hefðum tækifæri til að vera ráðvönd. Við getum þá sagt, jafnvel þó að við stöndum frammi fyrir dauðanum: „Jehóva, ég hef gert mitt besta til að vera ráðvandur, sanna að Satan sé lygari og upphefja nafn þitt og drottinvald.“

„ÉG FEL ANDA MINN Í ÞÍNAR HENDUR“

15. Hvað var Jesús fullviss um eins og fram kemur í Lúkasi 23:46?

15 Hvað sagði Jesús? (Lestu Lúkas 23:46.) Jesús sagði í fullu trausti til Jehóva: „Faðir, ég fel anda minn í þínar hendur.“ Jesús vissi að framtíð hans var í höndum Jehóva og hann var sannfærður um að faðir hans myndi muna eftir sér.

16. Hvað lærum við af reynslu 15 ára bróður?

16 Hvað getum við lært af því sem Jesús sagði? Vertu tilbúinn að leggja líf þitt í hendur Jehóva. Til að gera það þarftu að treysta Jehóva „af öllu hjarta“. (Orðskv. 3:5) Tökum sem dæmi Joshua, 15 ára bróður með banvænan sjúkdóm. Hann hafnaði læknismeðferðum sem stangast á við lög Guðs. Stuttu áður en hann lést sagði hann við móður sína: „Mamma, ég er í höndum Jehóva ... Ég get fullvissað þig um þetta, mamma: Ég veit að Jehóva mun pottþétt gefa mér líf á ný í upprisunni. Hann veit hvernig ég hugsa og ég elska hann.“ * Það væri gott fyrir hvert og eitt okkar að spyrja sig: „Myndi ég leggja líf mitt í hendurnar á Jehóva og treysta því að hann myndi eftir mér ef ég væri í aðstöðu sem ógnaði lífi mínu og reyndi á trúna?“

17, 18. Hvað höfum við lært? (Sjá einnig rammann „Það sem við lærum af síðustu orðum Jesú“.)

17 Við lærum heilmargt mikilvægt af síðustu orðum Jesú. Við erum minnt á að við þurfum að fyrirgefa öðrum og treysta að Jehóva fyrirgefi okkur. Við njótum þess að eiga yndislega andlega fjölskyldu bræðra og systra sem eru tilbúin að hjálpa okkur. En þegar við þurfum hjálp verðum við að eiga frumkvæðið að því að biðja um hana. Við vitum að Jehóva hjálpar okkur að þola hvaða erfiðleika sem við mætum. Og við sjáum hversu mikilvægt það er að verja hverjum degi eins og hann sé sá síðasti sem við getum sannað ráðvendni okkar, fullviss um að líf okkar sé öruggt í höndum Jehóva.

18 Við getum sannarlega lært margt af því sem Jesús sagði á kvalastaurnum rétt áður en hann dó. Þegar við förum eftir því sem við höfum lært erum við að hlýða því sem Jehóva sagði um son sinn: „Hlustið á hann.“ – Matt. 17:5.

SÖNGUR 126 Vakið, standið stöðug, verið styrk

^ gr. 5 Jehóva vill að við hlustum á son sinn, eins og fram kemur í Matteusi 17:5. Í þessari grein ræðum við um ýmislegt sem við getum lært af því sem Jesús sagði á kvalastaurnum rétt áður en hann dó.

^ gr. 9 Nánari umfjöllun um hugsanlegar ástæður fyrir því að Jesús vitnaði í Sálm 22:2 er að finna í „Spurningum frá lesendum“ í þessu blaði.

^ gr. 16 Sjá greinina „Joshua’s Faith – A Victory for Children’s Rights“ í Vaknið! á ensku 22. janúar 1995.