Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 16

Höldum áfram að vera þakklát fyrir lausnarfórnina

Höldum áfram að vera þakklát fyrir lausnarfórnina

„Mannssonurinn kom ... til að þjóna og gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir marga.“ – MARK. 10:45.

SÖNGUR 18 Þakkir fyrir lausnargjaldið

YFIRLIT *

1, 2. Hvað er lausnargjaldið og hvers vegna þurfum við á því að halda?

ÞEGAR Adam sem var fullkominn syndgaði missti hann af tækifærinu til að lifa að eilífu, ekki bara fyrir sjálfan sig heldur líka fyrir börnin sem hann átti eftir að eignast. Adam hafði enga afsökun fyrir því sem hann gerði. Hann syndgaði vísvitandi. En hvað um afkomendur hans? Þeir áttu ekki hlut í synd hans. (Rómv. 5:12, 14) Var hægt að gera eitthvað til að bjarga þeim frá dauðadóminum sem forfaðir þeirra átti skilið? Já! Fljótlega eftir að Adam syndgaði byrjaði Jehóva að gefa til kynna hvernig hann myndi bjarga milljónum af afkomendum Adams frá bölvun syndar og dauða. (1. Mós. 3:15) Á tilsettum tíma myndi Jehóva senda son sinn frá himnum til að „gefa líf sitt sem lausnargjald fyrir marga“. – Mark. 10:45; Jóh. 6:51.

2 Hvað er lausnargjaldið? Þegar talað er um það í kristnu Grísku ritningunum er átt við gjaldið sem Jesús borgaði til að kaupa aftur það sem Adam glataði. (1. Kor. 15:22) Hvers vegna var þörf á því? Vegna þess að réttlætismælikvarði Jehóva, eins og hann kemur fram í lögunum, krafðist lífs fyrir líf. (2. Mós. 21:23, 24) Adam glataði fullkomnu lífi sínu. Til að fullnægja réttlæti Guðs fórnaði Jesús fullkomnu lífi sínu. (Rómv. 5:17) Hann verður þannig „Eilífðarfaðir“ allra þeirra sem iðka trú á lausnarfórnina. – Jes. 9:5; Rómv. 3:23, 24.

3. Hvers vegna var Jesús fús til að fórna fullkomnu lífi sínu samkvæmt Jóhannesi 14:31 og 15:13?

3 Jesús var fús til að fórna lífi sínu vegna þess að hann elskaði himneskan föður sinn og okkur innilega. (Lestu Jóhannes 14:31; 15:13.) Vegna kærleika síns var hann ákveðinn í að sýna trúfesti allt til enda og gera vilja föður síns. Og Jesús var trúfastur allt til dauða. Upprunaleg fyrirætlun Jehóva með mannkynið og jörðina nær þess vegna fram að ganga. Í þessari grein skoðum við hvers vegna Guð leyfði að Jesús þjáðist svona mikið áður en hann dó. Við skoðum einnig stuttlega dæmi um biblíuritara sem mat lausnarfórnina mjög mikils. Að lokum skoðum við hvernig við getum sýnt þakklæti fyrir lausnarfórnina og hvernig við getum lært að meta enn betur þá fórn sem Jehóva og Jesús færðu fyrir okkur.

HVERS VEGNA ÞURFTI JESÚS AÐ ÞJÁST?

Hugsaðu þér misþyrmingarnar sem Jesús þoldi til að sjá okkur fyrir lausnargjaldi! (Sjá 4. grein.)

4. Lýstu því hvernig Jesús dó.

4 Ímyndum okkur hvernig síðasti dagur Jesú á jörð hefur verið. Enda þótt hann geti kallað á hersveitir engla til að vernda sig leyfir hann rómverskum hermönnum að handtaka sig og berja miskunnarlaust. (Matt. 26:52–54; Jóh. 18:3; 19:1) Þeir nota svipu sem rífur upp hold hans. Síðan láta þeir hann bera þungan bjálka á sundurtættu bakinu. Jesús dregur bjálkann í átt að aftökustaðnum en fljótlega er manni sem stendur þar hjá skipað að bera hann fyrir hann. (Matt. 27:32) Þegar Jesús kemur á staðinn þar sem hann verður tekinn af lífi negla hermennirnir hendur hans og fætur á staurinn. Það strekkist á naglagötunum undan líkamsþunga hans. Vinir hans eru harmi slegnir og móðir hans grætur, en leiðtogar Gyðinga hæðast að honum. (Lúk. 23:32–38; Jóh. 19:25) Jesús kvelst tímunum saman. Það reynir á hjarta hans og lungu og það verður erfitt fyrir hann að draga andann. Áður en hann gerir það í síðasta sinn veit hann að hann hefur sigrað og ákallar Jehóva. Hann lýtur síðan höfði og dregur andann í síðasta sinn. (Mark. 15:37; Lúk. 23:46; Jóh. 10:17, 18; 19:30) Þetta var sannarlega hægur, sársaukafullur og auðmýkjandi dauðdagi.

5. Hvað var verra fyrir Jesú en það hvernig hann var drepinn?

5 Það versta fyrir Jesú við þessa þrekraun var ekki hvernig hann var tekinn af lífi. Það sem angraði hann meira voru forsendurnar fyrir því. Hann var ranglega ákærður fyrir guðlast – að bera enga virðingu fyrir Guði eða nafni hans. (Matt. 26:64–66) Tilhugsunin um þessa ákæru kvaldi Jesú það mikið að hann vonaði að faðir sinn myndi hlífa sér við þeirri auðmýkingu. (Matt. 26:38, 39, 42) Hvers vegna leyfði Jehóva að ástkær sonur sinn þjáðist og dæi? Skoðum þrjár ástæður.

6. Hvers vegna þurfti Jesús að vera hengdur á kvalastaur?

6 Fyrir það fyrsta þurfti Jesús að vera hengdur á staur til að frelsa Gyðinga undan bölvun. (Gal. 3:10, 13) Þeir höfðu samþykkt að hlýða lögum Guðs en stóðu ekki við það. Þessi bölvun bættist við þá fordæmingu sem þeir voru undir vegna þess að þeir voru afkomendur Adams. (Rómv. 5:12) Lög Guðs til Ísraelsmanna sögðu að ef maður drýgði synd sem kallaði á dauðarefsingu ætti að taka hann af lífi. Í sumum tilfellum var líkið hengt á staur. * (5. Mós. 21:22, 23; 27:26) Með því að vera hengdur á staur gerði Jesús þjóðinni sem hafnaði honum kleift að njóta góðs af fórn sinni.

7. Hver er önnur ástæða fyrir því að Guð leyfði að sonur sinn þjáðist?

7 Skoðum aðra ástæðu fyrir því að Guð leyfði að sonur sinn þjáðist. Hann var að búa Jesú undir framtíðarhlutverk hans sem æðstiprestur. Jesús fékk að reyna hversu erfitt er að hlýða Guði undir gífurlegu álagi. Álagið var svo mikið að hann bað um hjálp „með áköllum og tárum“. Eftir að hafa upplifað að vera undir svo miklu tilfinningalegu álagi skilur Jesús þarfir okkar og er „fær um að hjálpa“ okkur þegar við ,verðum fyrir prófraunum‘. Við megum vera innilega þakklát Jehóva fyrir að útnefna handa okkur miskunnsaman æðstaprest sem getur „haft samúð með okkur í veikleika okkar“. – Hebr. 2:17, 18; 4:14–16; 5:7–10.

8. Hver er þriðja ástæðan fyrir því að Jehóva leyfði að Jesús þjáðist mikið?

8 Í þriðja lagi leyfði Jehóva að Jesús gengi í gegnum miklar þjáningar til að svara mikilvægri spurningu: Geta menn verið Jehóva trúfastir jafnvel við mjög erfiðar aðstæður? Satan fullyrðir að svo sé ekki. Hann heldur því fram að menn þjóni Guði af eigingjörnum hvötum. Og hann trúir því að þeir elski ekki Jehóva frekar en Adam forfaðir þeirra. (Job. 1:9–11; 2:4, 5) Jehóva var sannfærður um að Jesús myndi vera trúfastur og leyfði að hann yrði reyndur til hins ítrasta. Jesús reyndist trúfastur og sannaði Satan lygara.

BIBLÍURITARI SEM MAT LAUSNARFÓRNINA MIKILS

9. Hvaða fordæmi setti Jóhannes postuli okkur?

9 Kenningin um lausnarfórnina hefur styrkt trú margra þjóna Guðs. Þeir hafa haldið áfram að boða trúna þrátt fyrir andstöðu og haldið út í alls konar raunum fram á gamals aldur. Skoðum fordæmi Jóhannesar postula. Hann boðaði trúfastur sannleikann um Krist og lausnarfórnina að öllum líkindum í meira en 60 ár. Þegar hann var að nálgast tírætt var hann greinilega álitin svo mikil ógn við rómverska heimsveldið að hann var fangelsaður á eyjunni Patmos. Og hver var glæpur hans? „Að hafa talað um Guð og vitnað um Jesú.“ (Opinb. 1:9) Hvílík fyrirmynd um trú og þolgæði!

10. Hvernig sjáum við af biblíubókum Jóhannesar að hann mat lausnarfórnina mikils?

10 Í biblíubókunum sem Jóhannes skrifaði tjáir hann innilegan kærleika sinn til Jesú og þakklæti sitt fyrir lausnarfórnina. Í þeim nefnir hann lausnarfórnina eða gagnið sem hlýst af henni yfir hundrað sinnum. Hann skrifaði til dæmis: „Ef einhver drýgir synd höfum við hjálpara hjá föðurnum, Jesú Krist sem er réttlátur.“ (1. Jóh. 2:1, 2) Og hann leggur ríka áherslu á mikilvægi þess „að vitna um Jesú“. (Opinb. 19:10) Jóhannes mat lausnarfórnina greinilega mikils. Hvernig getum við sýnt að við erum sama sinnis?

HVERNIG GETUM VIÐ SÝNT ÞAKKLÆTI FYRIR LAUSNARFÓRNINA?

Ef við kunnum að meta lausnarfórnina stöndumst við freistinguna að syndga. (Sjá 11. grein.) *

11. Hvað getur hjálpað okkur að standast freistingu?

11 Stöndumst freistinguna til að syndga. Ef við metum lausnarfórnina að verðleikum hugsum við ekki á þá leið að það sé ekki þörf á að við gætum okkar á freistingum því að ef við syndgum getum við alltaf beðið um fyrirgefningu. Þegar okkar er freistað til að gera eitthvað rangt segjum við frekar: „Nei! Eftir allt sem Jehóva og Jesús hafa gert fyrir mig gæti ég aldrei gert neitt slíkt.“ Við getum beðið Jehóva um styrk og sárbænt hann: „Forðaðu mér frá því að láta undan freistingu.“ – Matt. 6:13.

12. Hvernig getum við farið eftir leiðbeiningunum í 1. Jóhannesarbréfi 3:16–18?

12 Elskum bræður okkar og systur. Þegar við sýnum slíkan kærleika sýnum við um leið að við kunnum að meta lausnarfórnina. Hvers vegna getum við sagt það? Jesús gaf líf sitt ekki bara fyrir okkur heldur líka fyrir bræður okkar og systur. Fyrst hann var tilbúinn að deyja fyrir þau eru þau greinilega mjög verðmæt í hans augum. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 3:16–18.) Við sýnum kærleika til bræðra okkar og systra með framkomu okkar. (Ef. 4:29, 31–5:2) Við hjálpum þeim þegar þau eru veik eða ganga í gegnum erfiðar raunir eins og til dæmis náttúruhamfarir. En hvað ættum við að gera ef trúsystkini okkar segir eða gerir eitthvað sem móðgar okkur?

13. Hvers vegna ættum við að fyrirgefa öðrum?

13 Áttu það til að bera kala til einhvers í söfnuðinum? (3. Mós. 19:18, NW) Þá skaltu fylgja þessum leiðbeiningum: „Haldið áfram að umbera hvert annað og fyrirgefa hvert öðru fúslega, jafnvel þegar þið hafið ástæðu til að kvarta undan öðrum. Eins og Jehóva fyrirgaf ykkur fúslega skuluð þið fyrirgefa öðrum.“ (Kól. 3:13) Í hvert skipti sem við fyrirgefum bróður okkar eða systur sýnum við himneskum föður okkar að við kunnum að meta lausnarfórnina. Hvernig getum við lært að meta enn betur þessa gjöf frá Guði?

HVERNIG GETUM VIÐ ORÐIÐ ENN ÞAKKLÁTARI FYRIR LAUSNARFÓRNINA?

14. Hvernig getum við orðið þakklátari fyrir lausnarfórnina?

14 Þökkum Jehóva fyrir lausnarfórnina. „Mér finnst mikilvægt að nefna lausnarfórnina í bænum mínum á hverjum degi og þakka Jehóva fyrir hana,“ segir 83 ára gömul systir sem heitir Joanna og býr á Indlandi. Þegar þú biður til Jehóva í lok dags skaltu nefna í bæninni mistök sem þú hefur gert þann daginn og biðja hann að fyrirgefa þér. Ef þú hefur drýgt alvarlega synd verðurðu auðvitað að fá hjálp frá öldungunum. Þeir hlusta á þig og gefa þér kærleiksríkar leiðbeiningar frá orði Guðs. Þeir leita til Jehóva í bæn með þér og biðja hann að nýta verðgildi fórnar Jesú svo að þú endurheimtir gott samband við Jehóva. – Jak. 5:14–16.

15. Hvers vegna ættum við að taka okkur tíma til að lesa um lausnarfórnina og hugleiða hana?

15 Hugleiðum lausnarfórnina. „Ég tárast þegar ég les um þjáningar Jesú,“ segir 73 ára gömul systir sem heitir Rajamani. Þú finnur kannski líka til þegar þú hugsar um það hversu mikið sonur Guðs þjáðist. En því meira sem þú hugleiðir fórnina sem Jesús færði þeim mun sterkari verður kærleikur þinn til hans og föður hans. Hví ekki að gera þetta að rannsóknarefni í sjálfsnámi þínu til að hjálpa þér að hugleiða lausnarfórnina?

Jesús notaði einfalda máltíð til að sýna lærisveinum sínum hvernig þeir ættu að minnast fórnar hans. (Sjá 16. grein.)

16. Hvernig kemur það okkur sjálfum að gagni að fræða aðra um lausnarfórnina? (Sjá forsíðumynd.)

16 Fræðum aðra um lausnarfórnina. Þakklæti okkar fyrir lausnarfórnina vex í hvert skipti sem við segjum öðrum frá henni. Við höfum frábær rit og myndbönd sem við getum notað til að fræða aðra um það hvers vegna Jesús dó fyrir okkur. Við getum til dæmis notað 4. kafla í bæklingnum Gleðifréttir frá Guði. Kaflinn ber heitið: „Hver er Jesús Kristur?“ Við gætum líka notað 5. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Hann ber heitið: „Lausnargjaldið – mesta gjöf Guðs.“ Og með hverju árinu sem líður verðum við þakklátari fyrir lausnarfórnina þegar við mætum á minningarhátíðina um dauða Jesú og erum dugleg að bjóða öðrum með okkur. Jehóva hefur veitt okkur þann mikla heiður að fá að fræða aðra um son sinn.

17. Hvers vegna er lausnarfórnin stórkostlegasta gjöf Guðs til mannkynsins?

17 Við höfum ríka ástæðu til að rækta með okkur og viðhalda þakklæti fyrir lausnarfórnina. Vegna hennar getum við verið nánir vinir Jehóva þótt við séum ófullkomin. Það er henni að þakka að verk Djöfulsins verða algerlega brotin niður. (1. Jóh. 3:8) Og það er vegna lausnarfórnarinnar sem upphafleg fyrirætlun Jehóva með jörðina verður að veruleika. Öll jörðin á eftir að verða paradís. Allir sem þú hittir þá munu elska Jehóva og þjóna honum. Við skulum þess vegna dag hvern leitast við að sýna þakklæti okkar fyrir lausnarfórnina – stórkostlegustu gjöf Guðs til mannkynsins!

SÖNGUR 20 Þú gafst þinn kæra son

^ gr. 5 Hvers vegna þurfti Jesús að þola pyntingar og dauða? Við fáum svar við spurningunni í þessari grein. Við fáum líka hjálp til að kunna enn þá betur að meta lausnarfórnina.

^ gr. 6 Það var venja hjá Rómverjum að negla eða binda glæpamenn á staur á meðan þeir voru enn lifandi. Og Jehóva leyfði að sonur sinn yrði tekinn af lífi með þessum hætti.

^ gr. 55 MYND: Hver og einn bróðir stenst freistingu – að horfa á óviðeigandi myndir, reykja og þiggja mútur.