Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 20

Viðhöldum jákvæðu viðhorfi til boðunarinnar

Viðhöldum jákvæðu viðhorfi til boðunarinnar

„Sáðu sæði þínu ... og láttu hendur þínar ekki hvílast.“ – PRÉD. 11:6.

SÖNGUR 70 Leitum að hinum verðugu

YFIRLIT *

Eftir að Jesús er farinn til himna boða lærisveinar hans trúna af kappi í Jerúsalem og víðar. (Sjá 1. grein.)

1. Hvaða fordæmi gaf Jesús fylgjendum sínum og hvernig brugðust þeir við? (Sjá forsíðumynd.)

JESÚS varðveitti jákvætt viðhorf allan tímann meðan hann þjónaði á jörðinni og hann vill að fylgjendur sínir viðhaldi jákvæðu viðhorfi til boðunarinnar líka. (Jóh. 4:35, 36) Lærisveinarnir voru kappsamir í boðuninni meðan Jesús var með þeim. (Lúk. 10:1, 5–11, 17) En þegar Jesús var handtekinn og tekinn af lífi misstu þeir tímabundið löngunina til að boða trúna. (Jóh. 16:32) Eftir að Jesús var reistur upp frá dauðum hvatti hann þá til að einbeita sér að boðuninni. Og eftir að hann fór til himna boðuðu þeir trúna af svo miklu kappi að óvinir þeirra kvörtuðu: ,Þið hafið fyllt Jerúsalem með boðskap ykkar.‘ – Post. 5:28.

2. Hvernig hefur Jehóva hjálpað okkur að ná árangri í boðuninni?

2 Jesús leiðbeindi kristnum mönnum á fyrstu öld í boðuninni. Jehóva blessaði þá og fólk tók við boðskapnum. Á hvítasunnunni árið 33 létu til dæmis um það bil 3000 manns skírast. (Post. 2:41) Og lærisveinunum fór stöðugt fjölgandi. (Post. 6:7) En Jesús sagði að árangurinn af boðuninni yrði langtum meiri á síðustu dögum. – Jóh. 14:12; Post. 1:8.

3, 4. Hvers vegna gæti sumum þótt boðunin krefjandi og hvað skoðum við í þessari grein?

3 Öll reynum við að viðhalda jákvæðu viðhorfi til boðunarinnar. Í sumum löndum er það auðvelt. Þar eru svo margir sem hafa áhuga á biblíunámskeiði að sumir þurfa að fara á biðlista þangað til vottur er laus til að aðstoða þá. Í öðrum löndum finnst boðberum boðunin erfiðari. Fólk er sjaldan heima og þeir sem eru heima sýna kannski lítinn áhuga á Biblíunni.

4 Ef þú býrð á svæði þar sem boðunin er krefjandi koma tillögurnar í þessari grein þér trúlega að góðum notum. Við skoðum hvernig sumir hafa náð sambandi við fleira fólk í boðuninni. Við skoðum einnig hvers vegna við getum haldið áfram að vera jákvæð hvort sem fólk bregst jákvætt við boðskapnum eða ekki.

VERTU JÁKVÆÐUR ÞÓTT ÞAÐ SÉ ERFITT AÐ HITTA FÓLK

5. Hvaða áskorunum mæta margir vottar?

5 Mörgum vottum finnst stöðugt erfiðara að hitta á fólk heima. Sumir boðberar búa á svæðum þar sem er mikil öryggisgæsla í fjölbýlishúsum eða afgirt íbúðasvæði. Þar eru ef til vill húsverðir eða öryggisverðir sem neita fólki um aðgang nema það hafi boð frá húsráðendum. Aðrir boðberar geta heimsótt fólk hús úr húsi hindrunarlaust en hitta fátt fólk heima. Enn aðrir boðberar boða trúna í dreifbýli eða á afskekktum svæðum þar sem fáir búa. Boðberar fara stundum um langan veg bara til að ná sambandi við einn húsráðanda sem er svo kannski ekki heima. Við megum ekki gefast upp ef staðan er þannig á því svæði sem við boðum trúna. Hvað getum við gert til að yfirstíga slíkar hindranir og ná sambandi við fleira fólk?

6. Hvað er líkt með boðberum trúarinnar og fiskimönnum?

6 Jesús líkti boðuninni við fiskveiðar. (Mark. 1:17) Stundum líða heilu dagarnir sem fiskimenn veiða ekkert. En þeir gefast ekki upp heldur reyna að vera sveigjanlegir. Þeir fara á öðrum tíma, á aðra staði og beita öðrum aðferðum. Við getum gert álíka breytingar í boðuninni. Skoðum nokkrar tillögur.

Þegar þú boðar trúna á svæðum þar sem fólk er sjaldan heima skaltu reyna að ná til þess á öðrum tíma, á öðrum stað eða með annarri aðferð. (Sjá 7.–10. grein.) *

7. Hvaða árangur getur það haft að boða trúna á mismunandi tímum?

7 Reyndu að hitta fólk á öðrum tíma. Við náum sambandi við fleira fólk ef við boðum trúna á þeim tíma sem er líklegra að það sé heima. Fyrr eða síðar þurfa jú allir að fara heim til sín. Mörgum bræðrum og systrum finnst gott að boða trúna seinni part dags eða á kvöldin því þá eru fleiri heima. Þar að auki eru húsráðendur ef til vill afslappaðri og tilbúnari til að tala við okkur á þessum tíma dags. Þér gæti líka þótt gagnlegt að fylgja ráðum öldungs sem heitir David. Hann segir að eftir að hafa boðað trúna um tíma á starfssvæðinu þá fari hann og félagi hans aftur til þeirra sem voru ekki heima í fyrra skiptið. Hann segir: „Ég er hissa hversu margir húsráðendur eru heima þegar maður bankar upp á í annað sinn.“ *

Þegar þú boðar trúna á svæðum þar sem fólk er sjaldan heima skaltu reyna að ná til þess á öðrum tíma. (Sjá 7. og 8. grein.)

8. Hvernig getum við farið eftir Prédikaranum 11:6 í boðuninni?

8 Við þurfum að halda áfram að reyna að finna fólk heima. Lykilvers greinarinnar minnir okkur á að tileinka okkur það viðhorf. (Lestu Prédikarann 11:6.) David, sem áður er getið, gafst ekki upp. Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir hitti hann að lokum húsráðandann. Maðurinn hafði áhuga á að ræða um Biblíuna og sagði: „Ég hef búið hér í átta ár og það hefur aldrei komið vottur Jehóva og bankað upp á hjá mér.“ David segir: „Ég komst að því að loksins þegar maður hittir fólk heima þá er það oft móttækilegt fyrir boðskapnum sem við færum því.“

Þegar þú boðar trúna á svæðum þar sem fólk er sjaldan heima skaltu reyna að ná til þess á öðrum stað. (Sjá 9. grein.)

9. Hvað hafa sumir vottar gert til að ná sambandi við fólk sem er erfitt að hitta heima?

9 Prófaðu að boða trúna á öðrum stöðum. Til að ná sambandi við fólk sem er erfitt að hitta heima hafa sumir boðberar farið á aðra staði til að boða trúna. Boðun trúarinnar meðal almennings og ritatrillurnar hafa til dæmis reynst áhrifaríkar aðferðir til að hitta fólk sem býr í stórum fjölbýlishúsum þar sem boðun trúarinnar er ekki leyfð. Þetta gefur okkur tækifæri til að tala augliti til auglitis við fólk sem annars er erfitt að hitta. Margir boðberar hafa auk þess komist að því að fólk er líklegra til að vilja tala eða þiggja rit í almenningsgörðum, á mörkuðum eða viðskiptasvæðum. Floiran, farandhirðir í Bólivíu, segir: „Við förum á markaðina og viðskiptasvæðin milli eitt og þrjú á daginn þegar sölumenn eru ekki eins uppteknir. Við fáum oft góð samtöl og komum jafnvel af stað biblíunámskeiðum.“

Þegar þú boðar trúna á svæðum þar sem fólk er sjaldan heima skaltu reyna að ná til þess með annarri aðferð. (Sjá 10. grein.)

10. Hvaða aðferðir geturðu notað til að ná til fólks?

10 Reyndu aðra aðferð. Segjum að þú hafir reynt að hitta einhvern nokkrum sinnum. Þú hefur farið á mismunandi tímum en ekki hitt hann heima. Er einhver önnur leið til að ná til hans? Katarína segir: „Ég skrifa bréf til þeirra sem ég hitti ekki heima og útskýri það sem ég ætlaði að segja við þá.“ Markmiðið er að ná til allra á svæðinu með einum eða öðrum hætti þegar við boðum trúna.

VERTU ÁFRAM JÁKVÆÐUR ÞÓTT FÓLK HAFI EKKI ÁHUGA

11. Hvers vegna hafa sumir engan áhuga á boðskap okkar?

11 Sumir hafa ekki áhuga á boðskap okkar. Þeim finnst þeir ekki hafa þörf á Guði eða Biblíunni. Þeir trúa ekki á Guð vegna þess að þeir horfa upp á svo miklar þjáningar í heiminum. Þeir hafna Biblíunni vegna hræsni trúarleiðtoganna sem segjast lifa eftir henni. Aðrir eru uppteknir af vinnu, fjölskyldu eða persónulegum vandamálum og skilja ekki hvernig Biblían getur komið þeim að gagni. Hvernig getum við varðveitt gleði okkar þegar þeir sem við tölum við kunna ekki að meta boðskapinn?

12. Hvernig getur það verið gagnlegt í boðuninni að fara eftir því sem segir í Filippíbréfinu 2:4?

12 Sýndu persónulegan áhuga. Margir sem voru í fyrstu áhugalausir hafa seinna hlustað á boðskap okkar þegar boðberi sýndi þeim einlægan áhuga. (Lestu Filippíbréfið 2:4.) David, sem áður er vitnað í, segir til dæmis: „Ef einhver segir að hann hafi ekki áhuga legg ég Biblíuna eða ritin til hliðar og segi: ,Það væri athyglisvert að vita hvers vegna.‘“ Fólk finnur það þegar einhver sýnir því áhuga. Það man kannski ekki nákvæmlega hvað við sögðum en trúlega hvaða áhrif við höfðum á það. Þótt húsráðandi gefi okkur ekki tækifæri til að tala getum við sýnt með framkomu okkar og svipbrigðum að við berum umhyggju fyrir fólki.

13. Hvernig getum við lagað boðskapinn að þörfum hvers og eins húsráðanda?

13 Við sýnum persónulegan áhuga þegar við lögum orð okkar að þörfum og áhuga húsráðandans. Eru vísbendingar um að börn séu á heimilinu? Foreldrarnir gætu haft áhuga á ráðleggingum Biblíunnar um barnauppeldi eða gagnlegum ráðum hennar til að eiga hamingjusamara fjölskyldulíf. Er eftirlitsmyndavél við útidyrahurðina? Þá gæti verið hugmynd að tala um glæpi og vaxandi ótta í heiminum. Og síðan kann húsráðandi ef til vill að meta að heyra um varanlega lausn á glæpum. Hverjar sem aðstæðurnar eru skaltu hjálpa þeim sem hlusta að sjá hvernig ráð Biblíunnar geta komið þeim að gagni. Katarína, sem minnst er á fyrr í greininni, segir: „Ég rifja upp hvernig sannleikurinn gerði líf mitt betra.“ Það gerir það að verkum að Katarína talar af sannfæringu og fólk sem hlustar á hana finnur það örugglega.

14. Hvernig geta samstarfsfélagar hjálpað hver öðrum í boðuninni eins og sjá má af Orðskviðunum 27:17?

14 Nýttu þér aðstoð annarra. Á fyrstu öld kenndi Páll Tímóteusi að boða trúna og kenna og hvatti hann til að nota sömu aðferðir til að kenna öðrum. (1. Kor. 4:17) Við getum, líkt og Tímóteus, haft gagn af reynslu annarra í okkar söfnuði. (Lestu Orðskviðina 27:17.) Tökum sem dæmi bróður sem heitir Shawn. Um tíma var hann brautryðjandi í dreifbýli þar sem flestir voru ánægðir með trú sína. Hvernig viðhélt hann gleðinni? „Hvenær sem færi gafst reyndi ég að hafa samstarf með öðrum,“ segir hann. „Við notuðum tímann þegar við ferðuðumst hús úr húsi til að bæta kennsluaðferðir okkar. Við ræddum til dæmis um það sem húsráðandinn hafði sagt og viðbrögð okkar. Síðan ræddum við hvernig við myndum ef til vill bregðast öðruvísi við ef við lentum í sömu aðstæðum aftur.“

15. Hvers vegna er bæn nauðsynleg til að geta boðið trúna?

15 Biddu til Jehóva um hjálp. Biddu Jehóva um leiðsögn í hvert sinn sem þú tekur þátt í boðuninni. Enginn okkar gæti náð árangri ef hann fengi ekki hjálp heilags anda Guðs. (Sálm. 127:1; Lúk. 11:13) Vertu nákvæmur í bænum þínum þegar þú biður Jehóva um hjálp. Biddu hann til dæmis að leiða þig til þeirra sem hafa áhuga á að hlusta og læra um hann. Síðan skaltu vinna í samræmi við bæn þína með því að boða öllum sem þú hittir trúna.

16. Hvers vegna er sjálfsnám mikilvægt fyrir boðunina?

16 Taktu tíma fyrir sjálfsnám. Orð Guðs segir: ,Sannreyndu hver sé hinn góði og fullkomni vilji Guðs og hvað honum sé þóknanlegt.‘ (Rómv. 12:2) Því öruggari sem við erum um að við höfum sannleikann um Guð þeim mun sterkari verður sannfæring okkar þegar við tölum við aðra í boðuninni. Áðurnefnd Katarína segir: „Fyrir stuttu áttaði ég mig á því að ég þyrfti að styrkja trú mína á nokkrum grundvallarsannindum Biblíunnar. Ég rannsakaði því vandlega sannanir fyrir því að til sé skapari, að Biblían sé orð Guðs og að Guð eigi sér söfnuð á jörð nú á dögum.“ Katarína segir að sjálfsnámið hafi styrkt trú sína og að sér finnist skemmtilegra í boðuninni.

AF HVERJU ÆTTUM VIÐ AÐ VERA JÁKVÆÐ Í BOÐUNINNI?

17. Hvers vegna hélt Jesús áfram að vera jákvæður í boðuninni?

17 Jesús hélt áfram að vera jákvæður og boða trúna þótt sumir sýndu boðskapnum ekki áhuga. Hann vissi hversu mikla þörf fólk hefði á að þekkja sannleikann og hann vildi gefa eins mörgum og mögulegt var tækifæri til að taka við boðskapnum um ríki Guðs. Hann vissi líka að sumir þeirra sem sýndu ekki áhuga í byrjun myndu gera það síðar. Skoðum það sem gerðist í hans eigin fjölskyldu. Í öll þau þrjú og hálft ár sem hann boðaði trúna hér á jörð varð enginn af bræðrum hans lærisveinn hans. (Jóh. 7:5) En eftir upprisu hans tóku þeir kristna trú. – Post. 1:14.

18. Hvers vegna höldum við áfram að boða trúna?

18 Við vitum ekki hverjir munu á endanum taka við sannleikanum. Það tekur suma lengri tíma en aðra að bregðast við honum. Jafnvel þeir sem vilja ekki hlusta á okkur sjá góða breytni okkar og jákvætt viðhorf og þeir gætu á endanum byrjað að ,lofa Guð‘. – 1. Pét. 2:12.

19. Hverju þurfum við að gera okkur grein fyrir samkvæmt 1. Korintubréfi 3:6, 7?

19 Þótt við gróðursetjum og vökvum verðum við að muna að það er Guð sem gefur vöxtinn. (Lestu 1. Korintubréf 3:6, 7.) Getahun, bróðir sem býr í Eþíópíu, segir: „Í meira en 20 ár var ég eini votturinn á svæði þar sem sjaldan er starfað. En nú erum við 14 boðberar. Þrettán þeirra hafa látið skírast, þar á meðal eiginkona mín og þrjú börn. Það koma að meðaltali 32 á samkomur.“ Getahun er ánægður að hafa haldið áfram að boða trúna meðan hann beið þolinmóður eftir að Jehóva drægi hjartahreint fólk til safnaðarins. – Jóh. 6:44.

20. Að hvaða leyti erum við eins og björgunarsveit?

20 Í augum Jehóva er líf allra manna dýrmætt. Hann veitir okkur þann heiður að vinna með syni sínum við að safna saman fólki úr öllum þjóðum áður en endir þessa heimskerfis kemur. (Hag. 2:7) Hægt er að líkja boðun okkar við björgunarstarf. Og við erum eins og hluti af björgunarteymi sem er sent til að bjarga fólki sem er innilokað í námu. Þótt aðeins nokkrir björgunarmenn finni einhvern þá skiptir vinna allra miklu máli. Það sama á við um það sem við gerum í boðuninni. Við vitum ekki hve mörgum á enn eftir að bjarga úr heimi Satans. En Jehóva getur notað hvert okkar sem er til að hjálpa þeim. Andreas, sem býr í Bólivíu, segir: „Ég veit að þegar einhver kynnist sannleikanum og lætur skírast er það vegna þess að margir hafa lagt hönd á plóginn til að hjálpa honum.“ Við skulum líka hafa svona jákvætt viðhorf til boðunarinnar. Þegar við gerum það blessar Jehóva okkur og boðunin verður sannur gleðigjafi.

SÖNGUR 66 Boðið fagnaðarboðskapinn

^ gr. 5 Hvernig getum við verið jákvæð gagnvart boðuninni jafnvel þótt fáir séu heima eða sýni boðskap okkar áhuga. Í þessari grein fáum við tillögur sem geta hjálpað okkur að viðhalda jákvæðu viðhorfi.

^ gr. 7 Boðberar ættu að vinna í mismunandi greinum þjónustunnar, eins og þeim sem eru ræddar í þessari grein, í samræmi við gildandi persónuverndarlög.

^ gr. 60 MYND: (ofan frá og niður): Hjón boða trúna þar sem er erfitt að finna fólk heima. Fyrsti íbúinn er í vinnunni, annar er hjá lækni og sá þriðji er í búðinni. Þau hitta fyrsta íbúann með því að heimsækja hann seinna um daginn. Þau hitta annan íbúann með því að boða trúna meðal almennings nálægt læknastofunni. Þau ná til þriðja íbúans með því að hringja í hann.