Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

ÆVISAGA

„Ég hef lært svo margt af öðrum“

„Ég hef lært svo margt af öðrum“

ÞAÐ var niðdimm nótt í fjalllendi Alsír þar sem franska herdeildin mín hélt til og orrusturnar í Alsír voru orðnar sérstaklega harðar. Með vélbyssu í hönd stóð ég einn á verði við stafla af sandpokum. Skyndilega var þögnin rofin og ég heyrði fótatak nálgast. Ég fraus. Ég var rétt kominn af unglingsaldri og hafði engan áhuga á að drepa aðra eða vera drepinn. Ég hrópaði upp: „Guð! Ó, Guð!“

Þetta skelfilega augnablik breytti lífi mínu því að þá hófst leit mín að skaparanum. En áður en ég segi frá því sem gerðist næst þetta dimma kvöld langar mig að segja frá því hvernig æska mín hafði áhrif á hugarfar mitt og fékk mig til að vilja læra meira um Guð.

ÞAÐ SEM ÉG LÆRÐI AF FÖÐUR MÍNUM

Ég fæddist árið 1937 í námubænum Guesnain í norðanverðu Frakklandi. Faðir minn var kolanámumaður og hann kenndi mér mikilvægi þess að vera duglegur að vinna. Hann hafði sterka réttlætiskennd sem ég tileinkaði mér líka. Og það fékk hann til að beita sér í þágu fátækra námumanna sem unnu við vondar aðstæður. Í viðleitni sinni til að bæta aðstæður þeirra gekk hann til liðs við samtök sem börðust fyrir réttindum námuverkamanna. Það truflaði hann líka að sjá hræsni presta í samfélaginu. Margir þeirra lifðu þægilegu lífi en báðu samt fátæka kolanámumenn um mat og peninga. Faðir minn hafði svo mikla óbeit á hegðun prestanna að hann kenndi mér ekkert um trú. Guð var ekki nefndur á nafn.

Þegar ég óx úr grasi fór ég líka að hata óréttlæti. Eitt af því sem fór fyrir brjóstið á mér var hvað fordómar voru miklir gagnvart útlendingum sem bjuggu í Frakklandi. Ég spilaði fótbolta með börnum innflytjenda og fannst gaman að vera með þeim. Auk þess var móðir mín pólsk en ekki frönsk. Ég þráði frið og jöfnuð meðal kynþátta.

ÉG FER AÐ HUGSA ALVARLEGAR UM LÍFIÐ

Þegar ég var í hernum.

Ég var kvaddur í herinn árið 1957. Þess vegna var ég staddur í fjalllendi Alsír fyrrnefnt kvöld. Eftir að hafa hrópað: „Guð! Ó, Guð!“ stóð ég ekki augliti til auglitis við óvin heldur villiasna. Hvílíkur léttir! En þetta atvik og sjálft stríðið fékk mig til að hugsa alvarlegar um tilgang lífsins. Hvers vegna erum við hér? Er Guði annt um okkur? Verður einhvern tíma varanlegur friður?

Seinna, þegar ég var í leyfi og í heimsókn hjá foreldrum mínum, hitti ég mann sem var vottur Jehóva. Hann gaf mér eintak af La Sainte Bible sem er kaþólsk biblíuþýðing á frönsku. Ég byrjaði að lesa hana þegar ég sneri aftur til Alsír. Opinberunarbókin 21:3, 4 vakti athygli mína. Þar segir: „Tjald Guðs er hjá mönnunum ... Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra og dauðinn verður ekki til framar. Engin sorg, angistaróp né kvöl verður heldur til.“ * Þessi orð vöktu undrun mína. Gat þetta verið rétt? Á þessum tíma vissi ég nánast ekkert um Guð og Biblíuna.

Eftir að ég lauk herþjónustu árið 1959 hitti ég vott, François að nafni, sem kenndi mér margt úr Biblíunni. Hann sýndi mér til dæmis í Biblíunni að Guð á sér nafnið Jehóva. (Sálm. 83:19) Hann útskýrði líka fyrir mér að Jehóva ætlar að koma á réttlæti á jörðinni, breyta henni í paradís og uppfylla það sem segir í Opinberunarbókinni 21:3, 4.

Það sem hann kenndi mér var rökrétt og það snerti mig djúpt. En ég varð líka mjög reiður út í prestana og fordæmdi þá því að þeir kenndu það sem er ekki að finna í Biblíunni. Svo virðist sem viðhorf föður míns hafi enn þá haft áhrif á mig þannig að ég var óþolinmóður og vildi gera eitthvað í málunum strax!

François og aðrir nýir vinir mínir sem voru vottar hjálpuðu mér að róa mig niður. Þeir útskýrðu að hlutverk kristinna manna er ekki að dæma heldur að bjóða fram hjálp með því að segja fólki frá Guðsríki. Það er það sem Jesús gerði og sagði fylgjendum sínum að gera. (Matt. 24:14; Lúk. 4:43) Ég þurfti líka að læra að tala vinsamlega og háttvíslega við fólk, burtséð frá því hvaða trúarskoðanir það hefur. Biblían segir: „Þjónn Drottins á ekki að rífast heldur á hann að vera ljúfur við alla.“ – 2. Tím. 2:24.

Ég gerði nauðsynlegar breytingar og skírðist sem vottur Jehóva á svæðismóti árið 1959. Þar hitti ég unga systur sem heitir Angèle og vakti áhuga minn. Ég fór að sækja samkomur í söfnuðinum sem hún tilheyrði og við giftum okkur árið 1960. Hún er framúrskarandi kona, yndisleg eiginkona og dýrmæt gjöf frá Jehóva. – Orðskv. 19:14.

Á brúðkaupsdegi okkar.

ÉG LÆRI MIKIÐ AF VITRUM OG REYNDUM MÖNNUM

Í gegnum árin hef ég lært margt mikilvægt af vitrum og reyndum bræðrum. Ofarlega á listanum er þetta: Til að ná árangri í öllum verkefnum sem við tökumst á við verðum við að vera lítillát og fara eftir því sem segir í Orðskviðunum 15:22 um að áformin rætast þegar margir leggja á ráðin.

Í farandstarfinu í Frakklandi árið 1965.

Árið 1964 fór ég að skilja sannleiksgildi þessara innblásnu orða. Það ár hóf ég að þjóna sem farandhirðir og heimsótti söfnuðina til að hvetja bræður og systur og byggja þau upp í trúnni. Ég var 27 ára gamall og skorti reynslu þannig að ég gerði mistök. En ég reyndi að læra af þeim. Og umfram allt lærði ég margt mjög gagnlegt af hæfum og reyndum mönnum.

Mér er minnisstætt atvik þegar ég var nýlega byrjaður sem farandhirðir. Eftir að hafa heimsótt söfnuð í París kom andlega þroskaður bróðir til mín og spurði mig hvort hann mætti tala við mig í einrúmi. „Að sjálfsögðu,“ sagði ég.

Hann spurði, „Louis, þegar læknir fer í vitjun, hvern heimsækir hann þá?“

„Veikt fólk,“ svaraði ég.

Hann sagði: „Það er rétt. En ég tek eftir því að þú notar mestan tíma með þeim sem hafa sterkt samband við Jehóva eins og umsjónarmann safnaðarins. Í söfnuðinum okkar eru mörg trúsystkini sem eru niðurdregin, ný í trúnni eða feimin. Þeim fyndist mjög uppörvandi ef þú myndir verja tíma með þeim. Þú gætir heimsótt þau og þið borðað saman.“

Ráð þessa kæra bróður var mér bæði þarft og ómetanlegt. Kærleikur hans til þjóna Jehóva snerti mig djúpt. Ég kyngdi þess vegna stoltinu og byrjaði strax að fara að ráðum hans. Ég er þakklátur Jehóva fyrir bræður eins og hann.

Árið 1969 og 1973 fékk ég það verkefni að sjá um mötuneytið á tveimur alþjóðamótum í Colombes í París. Á mótinu árið 1973 þurfti að sjá 60.000 manns fyrir mat í fimm daga. Mér fannst þetta yfirþyrmandi, svo ekki sé meira sagt. En enn og aftur var lausnin í Orðskviðunum 15:22 – að hlusta á ráð vitra manna. Ég leitaði ráða hjá andlega þroskuðum mönnum sem höfðu reynslu á þessu sviði. Þar á meðal voru slátrarar, grænmetisbændur, kokkar og verslunarmenn. Saman gátum við leyst þetta erfiða verkefni.

Árið 1973 var okkur hjónunum boðið að starfa á Betel í Frakklandi. Fyrsta verkefnið mitt þar reyndist vera eitt krefjandi verkefnið til viðbótar. Ég þurfti að finna leið til að koma ritunum okkar til trúsystkina okkar í Kamerún í Afríku, lands þar sem starfsemi okkar var bönnuð á árunum 1970–1993. Ég efaðist um að ég réði við þetta. Umsjónarmaður deildarskrifstofunnar í Frakklandi tók kannski eftir þessu því að hann hvatti mig og sagði: „Trúsystkini okkar í Kamerún eru í mikilli þörf fyrir andlega fæðu. Við þurfum að koma henni til þeirra.“ Og það var nákvæmlega það sem við gerðum.

Á sérstakri samkomu í Nígeríu með vottum frá Kamerún árið 1973.

Ég fór í margar ferðir til landa sem liggja að Kamerún til að hitta öldunga sem komu þaðan. Þessir hugrökku og skynsömu menn hjálpuðu mér að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að koma andlegri fæðu reglulega til Kamerún. Jehóva blessaði viðleitni okkar. Í 20 ár missti fólk hans í þessu landi ekki af einu einasta tölublaði af Varðturninum og mánaðarlegu riti sem var kallað Ríkisþjónusta okkar.

Við Angèle í heimsókn í Nígeríu árið 1977 með farandhirðum og eiginkonum þeirra frá Kamerún.

ÉG LÆRI MIKIÐ AF MINNI ÁSTKÆRU EIGINKONU

Strax í tilhugalífinu tók ég eftir því hvað Angèle hefur sterkt samband við Jehóva. Og þegar við giftum okkur kom það enn betur í ljós. Að kvöldi brúðkaupsdagsins bað hún mig að biðja til Jehóva varðandi löngun okkar að þjóna honum eins mikið og okkur væri unnt sem hjónum. Jehóva svaraði bæninni.

Angèle hefur líka hjálpað mér að treysta Jehóva enn betur. Sem dæmi var okkur boðið að starfa á Betel árið 1973. En ég hikaði því að ég var svo ánægður í farandstarfinu. Þá minnti Angèle mig á að við hefðum helgað Jehóva líf okkar og því ættum við að gera hvað sem söfnuður hans bæði okkur um. (Hebr. 13:17) Ég var henni algerlega sammála svo að við fórum á Betel. Konan mín er skynsöm og vitur og elskar Jehóva í sannleika. Eiginleikar hennar hafa styrkt samband okkar og hjálpað okkur að taka góðar ákvarðanir öll okkar ár saman.

Með Angèle í garðinum á Betel í Frakklandi.

Við erum komin á efri ár og Angèle er enn framúrskarandi eiginkona sem styður mig. Til að geta sótt ýmsa skóla á vegum safnaðarins þar sem kennslan fer fram á ensku höfum við Angèle lagt hart að okkur til að bæta enskuna okkar. Við fórum meðal annars í enskumælandi söfnuð jafnvel þótt við værum á miðjum áttræðisaldri á þeim tíma. Vegna ábyrgðar minnar í frönsku deildarnefndinni var erfitt að finna tíma til að læra annað tungumál. En við Angèle hjálpuðumst að. Núna erum við á níræðisaldri og undirbúum okkur enn fyrir samkomur bæði á ensku og frönsku. Við reynum líka að taka eins oft þátt og við getum í samkomum og boðuninni með söfnuðinum okkar. Jehóva hefur blessað viðleitni okkar til að læra ensku.

Við nutum einstakrar blessunar árið 2017. Okkur Angèle var boðið að sækja Skólann fyrir bræður í deildarnefndum og eiginkonur þeirra í Fræðslumiðstöð Varðturnsins í Patterson í New York-fylki.

Jehóva er sannarlega stórkostlegur kennari. (Jes. 30:20) Það er því engin furða að þjónar hans, ungir sem aldnir, fá langbestu menntun sem völ er á. (5. Mós. 4:5–8) Ég hef tekið eftir því að þeir sem eru ungir og hlusta bæði á Jehóva og reynda bræður og systur taka góðar ákvarðanir í lífinu og verða trúfastir þjónar Jehóva. Í Orðskviðunum 9:9 segir: „Gefðu hinum vitra, þá verður hann að vitrari, fræddu hinn réttláta og hann mun auka lærdóm sinn.“

Stundum leitar hugurinn til dimma kvöldsins í fjalllendi Alsír fyrir um það bil 60 árum. Þá hafði ég ekki hugmynd um að líf mitt yrði svona hamingjuríkt. Ég hef lært svo mikið af öðrum. Jehóva hefur sannarlega gefið okkur Angèle dásamlegt og innihaldsríkt líf. Við erum ákveðin í því að hætta aldrei að læra af himneskum föður okkar og af vitrum og reyndum bræðrum og systrum sem elska hann.

^ gr. 11 Nýheimsþýðing Biblíunnar.