Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 24

Þú getur sloppið úr snörum Satans!

Þú getur sloppið úr snörum Satans!

,Þeir sleppa úr snöru Djöfulsins.‘ – 2. TÍM. 2:26.

SÖNGUR 36 Varðveitum hjartað

YFIRLIT *

1. Hvers vegna er hægt að líkja Satan við veiðimann?

VEIÐIMAÐUR hefur það að markmiði að ná bráðinni eða drepa hana. Hann getur notað til þess mismunandi snörur eða gildrur, eins og minnst er á í Biblíunni. (Job. 18:8–10) Hvernig fer veiðimaður að því að tæla dýr í snöru? Hann fylgist vandlega með dýrinu. Hvert fer það? Hverju hefur það áhuga á? Hvað kemur því í opna skjöldu? Satan er eins og þannig veiðimaður. Hann fylgist grannt með okkur – hvert við förum og hverju við höfum áhuga á. Síðan leggur hann snöru og vonar að við göngum grunlaus í hana. En Biblían kennir að ef við göngum í gildruna er mögulegt að sleppa úr henni aftur. Hún kennir okkur einnig hvernig við getum forðast algerlega að ganga í gildrurnar.

Stolt og græðgi hafa reynst tvær af árangursríkustu snörum Satans. (Sjá 2. grein.) *

2. Hverjar eru tvær af áhrifaríkustu gildrum Satans?

2 Tvær af áhrifaríkustu gildrum Satans eru stolt og græðgi. * Um þúsundir ára hefur Satan með góðum árangri nýtt sér þessa óæskilegu eiginleika. Hann er eins og fuglafangari sem lokkar bráð sína í gildru eða fangar hana í net sitt. (Sálm. 91:3) En við þurfum ekki að ganga í gildru Satans. Jehóva segir okkur nefnilega hvaða aðferðir Satan notar. – 2. Kor. 2:11.

Við getum lært af frásögum í Biblíunni hvernig við eigum að forðast snörur Satans eða losna úr þeim. (Sjá 3. grein.) *

3. Hvers vegna hefur Jehóva látið skrá ákveðin dæmi í Biblíuna?

3 Jehóva varar okkur við stolti og græðgi meðal annars með því að hvetja okkur til að læra af frásögum af fólki sem er okkur víti til varnaðar. Taktu eftir í dæmunum sem við skoðum að Satan tókst jafnvel að veiða þroskaða þjóna Jehóva í gildru. Þýðir það að það sé ógerlegt að forðast stolt og græðgi? Síður en svo. Jehóva lét skrifa þessi dæmi í Biblíuna okkur til viðvörunar. (1. Kor. 10:11) Hann veit að við getum lært af slíkum dæmum og þannig forðast snörur Djöfulsins eða sloppið úr þeim.

STOLT ER SNARA

Sjá 4. grein.

4. Hvað gæti gerst ef við þróuðum með okkur stolt?

4 Satan er mikið í mun að við þróum með okkur óviðeigandi stolt. Hann veit að ef við leyfum slíku stolti að ná tökum á okkur verðum við eins og hann og missum möguleikann á að lifa að eilífu. (Orðskv. 16:18) Páll postuli varaði við því að við gætum ofmetnast og ,hlotið sama dóm og Djöfullinn‘. (1. Tím. 3:6, 7) Það gæti hent okkur öll hvort sem við erum ný í trúnni eða höfum þjónað Jehóva í mörg ár.

5. Hvernig getur stolt birst eins og kemur fram í Prédikaranum 7:16, 20?

5 Stolt endurspeglar sjálfselsku. Satan reynir að fá okkur til að vera sjálfselsk, einblína á okkur sjálf frekar en Jehóva, sérstaklega þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum. Hefurðu til dæmis verið ranglega sakaður um eitthvað? Eða hefurðu þurft að þola óréttlæti? Þá vill Satan gjarnan sjá þig áfellast Jehóva eða trúsystkini þín. Og hann vill að þú haldir að eina leiðin til að leysa málin sé að gera það með eigin aðferðum frekar en að fylgja leiðsögn Jehóva sem birtist í orði hans. – Lestu Prédikarann 7:16, 20.

6. Hvað getum við lært af systur í Hollandi?

6 Skoðum reynslu systur í Hollandi sem komst í uppnám vegna ófullkomleika annarra. Að lokum fannst henni hún ekki geta átt samskipti við þetta fólk lengur. „Ég var mjög einmana og gat ekki fyrirgefið þessum bræðrum og systrum,“ segir hún. „Ég sagði manninum mínum að við yrðum að fara í annan söfnuð.“ Þá horfði hún á mánaðarþáttinn fyrir mars 2016 í Sjónvarpi Votta Jehóva. Þar komu fram tillögur um það hvernig við getum brugðist við ófullkomleika annarra. Systirin segir: „Ég áttaði mig á því að ég þurfti að vera heiðarleg og horfast auðmjúk í augu við eigin mistök frekar en að reyna að breyta bræðrum og systrum í söfnuðinum. Þátturinn hjálpaði mér að beina athyglinni að Jehóva og yfirráðum hans.“ Hvað getum við lært af þessu? Beindu athyglinni að Jehóva þegar þú átt við erfiðleika að stríða. Sárbændu hann að hjálpa þér að sjá aðra eins og hann sér þá. Himneskur faðir þinn sér mistök þeirra en er samt tilbúinn að fyrirgefa þeim. Hann vill að þú gerir það líka. – 1. Jóh. 4:20.

Sjá 7. grein.

7. Hvað henti Ússía konung?

7 Stolt fékk Ússía konung í Júda til að hafna ráðum og verða hrokafullur. Ússía var mjög hæfur maður. Hann naut velgengni í hernaði, byggingaframkvæmdum og á sviði landbúnaðar. ,Guð veitti honum velgengni.‘ (2. Kron. 26:3–7, 10) En „þegar Ússía var orðinn mjög voldugur varð hann svo hrokafullur að hann vann óhæfuverk,“ segir Biblían. Jehóva hafði áður fyrirskipað að aðeins prestarnir mættu bera fram reykelsisfórnir í musterinu en Ússía konungur fór út fyrir valdsvið sitt. Hann fór inn í musterið og færði fram reykelsisfórn. Jehóva var ekki ánægður og sló þennan hrokafulla mann holdsveiki. Ússía var holdsveikur til dauðadags. – 2. Kron. 26:16–21.

8. Hvernig getum við forðast stolt, samanber 1. Korintubréf 4:6, 7?

8 Gæti stolt leitt okkur í snöru eins og Ússía? Skoðum það sem henti José. Hann var mjög farsæll í viðskiptum og virtur öldungur í söfnuðinum. Hann flutti ræður á svæðis- og umdæmismótum og farandhirðar leituðu ráða hjá honum. En hann viðurkennir: „Ég treysti á eigin getu og reynslu. Ég hafði ýtt Jehóva til hliðar. Ég áleit mig svo sterkan að ég hlustaði ekki á viðvaranir og leiðbeiningar Jehóva.“ José drýgði alvarlega synd og var vikið úr söfnuðinum. Fyrir fáeinum árum var hann tekinn inn í söfnuðinn á ný. Hann segir: „Jehóva hefur kennt mér að það sem skiptir máli er ekki að hafa titil heldur gera það sem Jehóva biður okkur að gera.“ Höfum hugfast að hæfileikar okkar eða verkefni sem við fáum í söfnuðinum eru gjöf frá Jehóva. (Lestu 1. Korintubréf 4:6, 7.) Við komum Jehóva ekki að gagni ef við erum stolt.

GRÆÐGI ER SNARA

Sjá 9. grein.

9. Hvað fékk græðgi bæði Satan og Evu til að gera?

9 Þegar við hugsum um græðgi dettur okkur líklega í hug Satan Djöfullinn. Sem einn af englum Jehóva hlýtur Satan að hafa haft mörg mikilvæg verkefni. En hann vildi eitthvað meira. Hann vildi fá tilbeiðslu sem aðeins Jehóva verðskuldar. Satan vill að við verðum eins og hann þannig að hann reynir að fá okkur til að verða óánægð með það sem við höfum. Hann reyndi þetta í fyrsta skipti þegar hann talaði við Evu. Jehóva hafði í kærleika sínum séð Evu og eiginmanni hennar fyrir gnægð af ljúffengri fæðu – „af öllum trjám í aldingarðinum“ nema einu. (1. Mós. 2:16) Satan tókst að fá Evu til að hugsa að hún yrði að borða af þessu eina tré sem var bannað. Eva kunni ekki að meta það sem hún hafði, hún vildi meira. Við þekkjum framhaldið. Eva syndgaði og dó að lokum. – 1. Mós. 3:6, 19.

Sjá 10. grein.

10. Hvernig reyndist græðgi vera snara fyrir Davíð konung?

10 Græðgi fékk Davíð konung til að gleyma að Jehóva hafði gefið honum margt, þar á meðal auð, stöðu og sigur yfir mörgum óvinum. Davíð viðurkenndi þakklátur að gjafir Guðs væru ,fleiri en tölu yrði á komið‘. (Sálm. 40:6) En hann gleymdi um tíma hvað Jehóva hafði gefið honum. Hann var ekki lengur ánægður, hann vildi meira. Þótt Davíð ætti margar eiginkonur leyfði hann óviðeigandi löngun í eiginkonu annars manns að skjóta rótum í hjarta sér. Konan var Batseba og eiginmaður hennar Úría Hetíti. Í eigingirni sinni hafði hann kynmök við Batsebu sem varð þunguð. Og ekki nóg með að hann drýgði hjúskaparbrot heldur sá hann líka til þess að Úría yrði drepinn. (2. Sam. 11:2–15) Hvað var Davíð að hugsa? Ímyndaði hann sér að Jehóva sæi ekki til hans? Þessi fyrrum trúfasti þjónn Jehóva lét undan eigingirni og græðgi og fékk að súpa seyðið af því. Til allrar hamingju viðurkenndi Davíð þó með tímanum synd sína og iðraðist. Honum létti ótrúlega mikið að njóta velþóknunar Jehóva aftur. – 2. Sam. 12:7–13.

11. Hvað getur hjálpað okkur að berjast gegn græðgi samkvæmt Efesusbréfinu 5:3, 4?

11 Hvað getum við lært af Davíð? Þakklæti fyrir allt sem Jehóva hefur gefið okkur hjálpar okkur að forðast græðgi. (Lestu Efesusbréfið 5:3, 4.) Við þurfum að vera ánægð með það sem við höfum. Það er gott að hvetja nýja biblíunemendur til að rifja upp í huga sér eitthvað gott sem Jehóva hefur gefið þeim og þakka honum fyrir. Ef maður gerir það á hverjum degi í eina viku hefur maður þakkað Jehóva fyrir sjö mismunandi atriði. (1. Þess. 5:18) Hefur þú gert eitthvað svipað? Ef þú hugleiðir allt sem Jehóva hefur gert fyrir þig hjálpar það þér að vera þakklátur. Og þegar þú ert þakklátur ertu sáttur. Þegar þú ert sáttur nær græðgi ekki tökum á þér.

Sjá 12. grein.

12. Hvað fékk græðgi Júdas Ískaríot til að gera?

12 Græðgi orsakaði það að Júdas Ískaríot varð fyrirlitlegur svikari. En hann hafði ekki alltaf verið þannig innrættur. (Lúk. 6:13, 16) Jesús valdi hann sem postula. Júdas var greinilega hæfur og áreiðanlegur vegna þess að honum var falið að gæta sameiginlegra peninga. Jesús og postularnir notuðu þessa fjármuni til að greiða fyrir kostnað sem tengdist boðuninni. Að sumu leyti voru þeir eins og fjárframlögin sem eru notuð til að fjármagna alþjóðastarfið nú á dögum. En þar að kom að Júdas freistaðist til að stela þrátt fyrir að hafa hlustað á Jesú aftur og aftur vara við græðgi. (Mark. 7:22, 23; Lúk. 11:39; 12:15) Júdas hunsaði þessar viðvaranir.

13. Hvenær kom græðgi Júdasar í ljós?

13 Græðgi Júdasar kom í ljós stuttu áður en Jesús var tekinn af lífi. Jesús og lærisveinar hans, þar á meðal María og systir hennar Marta, voru í heimsókn hjá Símoni líkþráa. Meðan þau voru að borða stóð María upp og hellti á höfuð Jesú mjög verðmætri ilmolíu. Júdas og hinir lærisveinarnir hneyksluðust. Hinum lærisveinunum hefur ef til vill fundist peningunum betur varið í að hjálpa nauðstöddum. En það var ekki það sem Júdas hugsaði. „Hann var þjófur“ og stal peningum úr sameiginlegum sjóði. Síðar varð græðgi til þess að Júdas sveik Jesú fyrir andvirði þræls. – Jóh. 12:2–6; Matt. 26:6–16; Lúk. 22:3–6.

14. Hvernig tóku ein hjón orðin í Lúkasi 16:13 til sín?

14 Jesús minnti fylgjendur sína á eftirfarandi grundvallarsannindi: „Þið getið ekki verið þjónar Guðs og auðsins.“ (Lestu Lúkas 16:13.) Þessi orð eru enn í fullu gildi. Skoðum hvernig hjón í Rúmeníu fóru eftir því sem Jesús sagði. Þeim var boðin tímabundin vinna í landi þar sem var meiri velmegun. „Við vorum að borga af stóru bankaláni og álitum því í fyrstu að þessi vinna væri blessun frá Jehóva,“ viðurkenna þau. En þetta var ekki alveg svona einfalt. Ef þau tækju vinnuna myndu þau hafa minni tíma fyrir þjónustu Jehóva. Eftir að hafa lesið greinina „Vertu trúr af heilu hjarta,“ í Varðturninum 15. ágúst 2008, tóku þau ákvörðun. Þau segja: „Ef við færum að vinna í öðru landi vegna þess að vildum þéna peninga myndum við setja sambandið við Jehóva í annað sætið. Við vorum sannfærð um að þetta kæmi niður á sambandinu við hann.“ Þau höfnuðu því atvinnutilboðinu. Hvað gerðist? Eiginmaðurinn fékk vinnu í heimalandi þeirra og launin dugðu þeim. Eiginkonan segir: „Hönd Jehóva er aldrei of stutt.“ Þessi hjón eru ánægð að hafa gert Jehóva að herra sínum en ekki peninga.

FORÐUMST SNÖRUR SATANS

15. Hvers vegna getum við verið viss um að það sé hægt að losna úr snöru Satans?

15 Hvað ættum við að gera ef við uppgötvum að við höfum látið undan stolti eða græðgi? Við getum breytt okkur. Páll segir að ,þeir sem hafa verið veiddir lifandi‘ af Djöflinum geti losnað úr snöru hans. (2. Tím. 2:26). Davíð gerði það. Hann hlustaði á alvarlega áminningu Natans, iðraðist þess að hafa sýnt græðgi og endurheimti sambandið við Jehóva. Gleymum aldrei að Jehóva er sterkari en Satan. Ef við þiggjum hjálp Jehóva getum við losnað úr hverri gildru sem Djöfullinn setur fyrir okkur.

16. Hvað hjálpar okkur að forðast snörur Satans?

16 Best af öllu er náttúrulega að verða aldrei stoltur eða gráðugur. Við getum það aðeins með hjálp Guðs. En við megum ekki vera of sjálfsörugg. Jafnvel sumir sem hafa þjónað Jehóva lengi hafa orðið stoltir eða gráðugir. Biddu Jehóva því daglega að hjálpa þér að koma auga á hvort þessir ljótu eiginleikar eru byrjaðir að hafa áhrif á hugsun þína og verk. (Sálm. 139:23, 24) Gerðu þitt besta til að láta þá aldrei ná tökum á þér!

17. Hvað verður fljótlega um andstæðing okkar, Djöfulinn?

17 Satan hefur verið veiðimaður um þúsundir ára. En fljótlega verður hann bundinn og honum að lokum eytt. (Opinb. 20:1–3, 10) Við þráum þann dag. Þangað til skulum við vera á verði gagnvart gildrum Satans. Leggjum okkur öll fram við að láta ekki stolt eða græðgi verða okkur að bráð. Verum ákveðin í að standa gegn Djöflinum og þá mun hann flýja okkur. – Jak. 4:7.

SÖNGUR 127 Þannig ber mér að lifa

^ gr. 5 Satan er eins og reyndur veiðimaður. Hann reynir að veiða okkur í gildru, sama hversu lengi við höfum þjónað Jehóva. Í þessari grein skoðum við hvernig Satan reynir að nota stolt og græðgi til að eyðileggja samband okkar við Guð. Við lærum líka um suma sem hafa látið tælast í gildru stolts og græðgi og sjáum hvernig við getum forðast þessar gildrur.

^ gr. 2 ORÐASKÝRINGAR: Þessi grein beinir athyglinni að óviðeigandi stolti, þeirri hugmynd að einn maður sé öðrum betri, og græðgi eða óstöðvandi löngun í meiri peninga, völd, kynlíf eða annað.

^ gr. 53 MYND: Bróðir sýnir stolt og hafnar skynsamlegum leiðbeiningum. Systir á margt en sækist samt eftir meiru.

^ gr. 55 MYND: Engill og Ússía konungur létu stolt hafa áhrif á sig. Eva, Davíð konungur og Júdas urðu græðgi að bráð. Þess vegna borðaði Eva af trénu, Davíð framdi hjúskaparbrot með Batsebu og Júdas stal peningum.