Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 26

Getur þú gert fólk að lærisveinum?

Getur þú gert fólk að lærisveinum?

„Guð ... gefur ykkur bæði löngun og kraft.“ – FIL. 2:13.

SÖNGUR 64 Vinnum glöð að uppskerunni

YFIRLIT *

1. Hvað hefur Jehóva gert fyrir þig?

HVERNIG gerðist þú vottur Jehóva? Fyrst heyrðirðu fagnaðarboðskapinn – kannski frá foreldrum þínum, vinnufélaga, skólafélaga eða einhverjum sem bankaði upp á hjá þér í boðuninni. (Mark. 13:10) Síðan varði einhver miklum tíma og kröftum í að aðstoða þig við biblíunám. Þú lærðir að elska Jehóva og komst að því að hann elskar þig. Jehóva dró þig til sannleikans og núna ertu lærisveinn Jesú Krists og átt von um eilíft líf. (Jóh. 6:44) Þú er án efa þakklátur Jehóva fyrir að hafa kveikt löngun hjá einhverjum til að kenna þér sannleikann og fyrir að hafa tekið við þér sem þjóni sínum.

2. Hvað ræðum við í þessari grein?

2 Núna þekkjum við sannleikann og njótum þess heiðurs að mega hjálpa öðrum að slást í hópinn með okkur á veginum til lífsins. Við eigum kannski auðvelt með að boða trúna hús úr húsi en erfiðara með að bjóða og halda biblíunámskeið. Á það við um þig? Þá koma ráðin í þessari grein þér eflaust að gagni. Við ræðum um hvað kveikir löngun hjá okkur til að gera fólk að lærisveinum. Við skoðum líka hvernig við getum sigrast á því sem getur hindrað okkur í að halda biblíunámskeið. En skoðum fyrst hvers vegna við þurfum bæði að boða fagnaðarboðskapinn og að kenna fólki.

JESÚS GAF OKKUR ÞAÐ VERKEFNI AÐ BOÐA OG KENNA

3. Hvers vegna boðum við trúna?

3 Þegar Jesús var á jörðinni gaf hann fylgjendum sínum tvíþætt verkefni. Í fyrsta lagi sagði hann þeim að boða fagnaðarboðskapinn um ríkið, og hann sýndi þeim hvernig þeir ættu að fara að því. (Matt. 10:7; Lúk. 8:1) Jesús bjó lærisveina sína til dæmis bæði undir neikvæð og jákvæð viðbrögð við boðskapnum um ríkið. (Lúk. 9:2–5) Hann sagði einnig fyrir um umfang boðunarinnar. Hann sagði að fylgjendur hans myndu láta ,allar þjóðir fá að heyra‘ boðskapinn. (Matt. 24:14; Post. 1:8) Lærisveinarnir áttu að segja frá ríki Guðs og hverju það myndi áorka, óháð því hvaða viðbrögð þeir fengju.

4. Hvað þurfum við að gera auk þess að boða ríki Guðs, samkvæmt Matteusi 28:18–20?

4 Hver var hinn þátturinn í verkefninu sem Jesús gaf? Hann sagði fylgjendum sínum að kenna hugsanlegum lærisveinum að halda öll fyrirmæli hans. Sumir segja kannski að þessi boðun og kennsla hafi aðeins átt við um fyrstu öldina. En er það rétt? Nei, Jesús gaf til kynna að þetta mikilvæga verkefni yrði unnið fram á okkar tíma, „allt þar til þessi heimsskipan endar“. (Lestu Matteus 28:18–20.) Jesús gaf þetta verkefni líklega þegar hann birtist meira en 500 lærisveinum. (1. Kor. 15:6) Og í opinberuninni sem Jesús gaf Jóhannesi gaf hann skýrt til kynna að allir lærisveinar hans ættu að fræða aðra um Jehóva. – Opinb. 22:17.

5. Hvaða samlíkingu notaði Páll í 1. Korintubréfi 3:6–9 til að sýna tengslin á milli boðunar og kennslu?

5 Páll postuli líkti því að gera fólk að lærisveinum við ræktun og sagði að við þyrftum að gera meira en að sá fræjum. Hann sagði Korintumönnum: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði ... þið eruð akur Guðs sem hann ræktar.“ (Lestu 1. Korintubréf 3:6–9.) Sem verkamenn á ,akri Guðs‘ sáum við ekki aðeins fræjum heldur vökvum við og fylgjumst reglulega með vextinum. (Jóh. 4:35) En jafnframt gerum við okkur grein fyrir að það er Guð sem gefur vöxtinn.

6. Hvað felst í starfi okkar sem kennarar?

6 Við leitum að þeim sem ,hafa það hugarfar sem þarf til að hljóta eilíft líf‘. (Post. 13:48) Til að aðstoða þá við að verða lærisveinar verðum við að hjálpa þeim þeim að (1) skilja, (2) taka við og (3) fara eftir því sem þeir læra af Biblíunni. (Jóh. 17:3; Kól. 2:6, 7; 1. Þess. 2:13) Allir í söfnuðinum geta hjálpað biblíunemendum með því að sýna þeim kærleika og láta þá finna að þeir eru velkomnir þegar þeir mæta á samkomur. (Jóh. 13:35) Sá sem heldur biblíunámskeiðið gæti einnig þurft að verja miklum tíma og orku í að aðstoða nemandann við að segja skilið við sterkar trúarskoðanir og venjur. (2. Kor. 10:4, 5) Það getur tekið marga mánuði að hjálpa nemandanum að gera þessar breytingar svo að hann verði að lokum hæfur til að láta skírast. En það er vel þess virði.

KÆRLEIKUR KVEIKIR HJÁ OKKUR LÖNGUN TIL AÐ GERA FÓLK AÐ LÆRISVEINUM

7. Hvað kveikir hjá okkur löngun til að boða trúna og gera fólk að lærisveinum?

7 Hvers vegna tökum við þátt í að boða trúna og gera fólk að lærisveinum? Í fyrsta lagi vegna þess að við elskum Jehóva. Þegar við gerum okkar besta til að fara eftir þeim fyrirmælum að boða trúna og gera fólk að lærisveinum sýnum við að við elskum Guð. (1. Jóh. 5:3) Kærleikur þinn til Jehóva hefur nú þegar fengið þig til að boða trúna hús úr húsi. Var auðvelt að fylgja þeim fyrirmælum? Sennilega ekki. Þú varst án efa kvíðinn þegar þú labbaðir að fyrstu dyrunum í boðuninni. En þú vissir að þetta var verkefni sem Jesús vildi að þú gerðir og þú hlýddir fyrirmælum hans. Og með tímanum varð líklega auðveldara fyrir þig að taka þátt í boðuninni. En hvað um að halda biblíunámskeið? Veldur tilhugsunin um það þér kvíða? Ef til vill. En þegar þú biður Jehóva að hjálpa þér að takast á við kvíðann og byggja upp kjark til að bjóða biblíunámskeið getur hann styrkt löngun þína til að gera fólk að lærisveinum.

8. Hvað annað fær okkur til að kenna fólki, samkvæmt Markúsi 6:34?

8 Í öðru lagi elskum við náunga okkar og það fær okkur til að kenna þeim sannleikann. Eitt sinn voru Jesús og lærisveinar hans úrvinda eftir að hafa varið miklum tíma í boðuninni. Þeir þurftu að finna stað þar sem þeir gátu hvílt sig, en mikill mannfjöldi leitaði þá uppi. Jesús kenndi í brjósti um fólkið og „fór að kenna því margt“. (Lestu Markús 6:34.) Jesús beitti sig hörðu þó að hann væri þreyttur. Hann setti sig í spor mannfjöldans. Hann vildi hjálpa fólkinu vegna þess að hann sá að það þjáðist og sárvantaði von. Það er eins komið fyrir fólki nú á dögum. Þó að það virðist ánægt með líf sitt er það eins og týndir sauðir sem hafa engan hirði til að leiða sig. Páll postuli sagði að slíkt fólk væri án Guðs og ætti enga von. (Ef. 2:12) Það er á veginum „sem liggur til tortímingar“. (Matt. 7:13) Kærleikur og samúð knýr okkur til að hjálpa fólki á svæði okkar þegar við hugsum um hve mikið það þarf á Guði að halda. Og besta hjálpin sem við getum veitt því er að bjóða því aðstoð við að kynna sér Biblíuna.

9. Hvernig getur Jehóva hjálpað þér eins og fram kemur í Filippíbréfinu 2:13?

9 Hikarðu við að bjóða biblíunámskeið vegna þess að þú gerir þér grein fyrir hve mikinn tíma það tekur að sinna því? Segðu þá Jehóva hvernig þér líður. Biddu hann að hjálpa þér að rækta með þér löngun til að finna einhvern sem þú getur aðstoðað við biblíunám. (Lestu Filippíbréfið 2:13.) Jóhannes postuli fullvissar okkur um að Guð svari bænum sem eru í samræmi við vilja hans. (1. Jóh. 5:14, 15) Þú getur því verið viss um að Jehóva hjálpar þér að rækta með þér löngun til að taka þátt í að gera fólk að lærisveinum.

AÐ YFIRSTÍGA AÐRAR HINDRANIR

10, 11. Hvað getur haldið aftur af okkur með að halda biblíunámskeið?

10 Við tökum kennsluverkefni okkar alvarlega þó að við mætum hindrunum sem geta komið í veg fyrir að við tökum eins mikinn þátt og við myndum vilja í að gera fólk að lærisveinum. Skoðum nokkrar af þessum hindrunum og hvernig við getum yfirstígið þær.

11 Kannski finnst okkur aðstæður okkar halda aftur af okkur. Sumir boðberar eru til dæmis orðnir aldraðir eða glíma við heilsuleysi. Á það við um þig? Hugsaðu þá um eitt af því sem við höfum lært af COVID-19 faraldrinum. Við höfum lært að við getum haldið árangursrík biblíunámskeið í gegnum síma eða önnur tæki. Þú gætir því hafið biblíunámskeið heiman frá þér. Og það er annar kostur við það. Sumir myndu vilja kynna sér Biblíuna en hafa ekki tök á því á þeim tíma sem boðberar nota venjulega í boðunina. En þeir geta það kannski snemma á morgnanna eða seint á kvöldin. Getur þú verið tilbúinn að mæta þeirri þörf? Jesús kenndi Nikódemusi að nóttu til, en það var tími sem Nikódemus valdi. – Jóh. 3:1, 2.

12. Hvað sannfærir okkur um að við getum verið árangursríkir kennarar?

12 Kannski finnst okkur við ekki hæf til að halda biblíunámskeið. Okkur finnst við kannski þurfa að vita meira eða verða betri kennarar áður en við getum hafið biblíunámskeið með einhverjum. Ef þér líður þannig skaltu hugleiða þrennt sem getur byggt upp sjálfstraust þitt. Í fyrsta lagi lítur Jehóva svo á að þú sért hæfur til að kenna öðrum. (2. Kor. 3:5) Í öðru lagi hefur Jesús, sem hefur „allt vald á himni og jörð“, falið þér að kenna. (Matt. 28:18) Og í þriðja lagi geturðu treyst á hjálp annarra. Jesús reiddi sig á það sem faðir hans kenndi honum að segja og það getur þú einnig. (Jóh. 8:28; 12:49) Auk þess geturðu beðið umsjónarmann starfshópsins eða reyndan brautryðjanda eða boðbera um aðstoð við að hefja og halda biblíunámskeið. Ein leið til að byggja upp sjálfstraustið er að fara með einhverjum þeirra í biblíunámskeið sem hann heldur.

13. Hvers vegna þurfum við að vera fús til að tileinka okkur nýjar kennsluaðferðir?

13 Kannski er áskorun fyrir okkur að aðlagast nýjum aðferðum og nýjum verkfærum. Aðferðin við að halda biblíunámskeið hefur breyst. Aðalnámsritið okkar, Von um bjarta framtíð, krefst þess að við undirbúum og höldum biblíunámskeið á annan hátt en við gerðum áður. Við lesum færri greinar og ræðum meira við nemandann. Við notum fleiri myndbönd og rafræn hjálpargögn, eins og JW Library®, við kennsluna. Ef þú ert ekki vanur að nota þessi verkfæri skaltu biðja einhvern að hjálpa þér að læra á þau. Við viljum oftast gera hlutina eins og við erum vön. Það er ekki auðvelt að venjast nýjum aðferðum. En með hjálp Jehóva og annarra er auðveldara að aðlagast þeim og verður jafnvel skemmtilegra að aðstoða fólk við biblíunám. Brautryðjandi nokkur sagði að þessi kennsluaðferð væri „hressandi, bæði fyrir nemandann og kennarann“.

14. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við boðum trúna á erfiðu svæði og hvernig getur það sem segir í 1. Korintubréfi 3:6, 7 hvatt okkur?

14 Kannski búum við á svæði þar sem erfitt er að hefja biblíunámskeið. Fólk sýnir boðskap okkar kannski engan áhuga eða er jafnvel á móti honum. Hvað getur hjálpað okkur að vera jákvæð á slíku svæði? Mundu að aðstæður fólks geta breyst skyndilega í þessum óstöðuga heimi og þeir sem sýndu boðskapnum engan áhuga áður geta farið að skynja andlega þörf sína. (Matt. 5:3) Sumir sem höfnuðu alltaf ritum frá okkur áður þáðu síðar biblíunámskeið. Við vitum líka að Jehóva er herra uppskerunnar. (Matt. 9:38) Hann vill að við höldum áfram að gróðursetja og vökva, en það er hann sem ber ábyrgð á vextinum. (1. Kor. 3:6, 7) Og það er mjög hvetjandi að vita að jafnvel þó að við getum ekki haldið biblíunámskeið eins og er umbunar Jehóva okkur fyrir það sem við leggjum á okkur en ekki árangurinn af því. *

NJÓTTU GLEÐINNAR AF ÞVÍ AÐ GERA FÓLK AÐ LÆRISVEINUM

Sjáðu hvernig boðun okkar og kennsla getur gagnast fólki. (Sjá 15.–17. grein.) *

15. Hvernig líður Jehóva þegar einhver þiggur biblíunámskeið og fer eftir því sem hann lærir?

15 Jehóva gleðst þegar einhver tekur við sannleika Biblíunnar og segir öðrum frá honum. (Orðskv. 23:15, 16) Það hlýtur að gleðja Jehóva ákaflega að fylgjast með boðuninni nú á dögum. Þrátt fyrir heimsfaraldur á þjónustuárinu 2020 voru til dæmis haldin 7.705.765 biblíunámskeið sem hjálpuðu 241.994 að vígja líf sitt Jehóva og láta skírast. Og þessir nýju lærisveinar halda síðan biblíunámskeið og gera enn fleiri að lærisveinum. (Lúk. 6:40) Á því leikur enginn vafi að við gleðjum Jehóva þegar við gerum fólk að lærisveinum.

16. Hvaða markmið er gott að setja sér?

16 Það er mikil vinna að gera fólk að lærisveinum en með hjálp Jehóva getum við tekið þátt í að kenna nýjum að elska föður okkar á himnum. Getum við sett okkur það markmið að hefja og halda að minnsta kosti eitt biblíunámskeið? Það gæti komið okkur á óvart að sjá hvað gerist þegar við notum hvert tækifæri sem gefst til að bjóða þeim sem við hittum biblíunámskeið. Við megum vera viss um að Jehóva blessar viðleitni okkar.

17. Hvernig líður okkur þegar við aðstoðum aðra við biblíunám?

17 Hvílíkur heiður að fá bæði að boða og kenna sannleikann! Þetta verkefni gerir okkur sannarlega ánægð. Páll postuli hjálpaði mörgum í Þessaloníku að verða lærisveinar. Hann lýsir tilfinningum sínum svona: „Hver er von okkar eða gleði eða heiðurskóróna frammi fyrir Drottni okkar Jesú við nærveru hans? Eruð það ekki einmitt þið? Þið eruð vissulega stolt okkar og gleði.“ (1. Þess. 2:19, 20; Post. 17:1–4) Mörgum nú á dögum er eins innanbrjósts. Systir að nafni Stéphanie hefur ásamt manni sínum hjálpað mörgum að verða hæfir til skírnar. Hún segir: „Það jafnast ekkert á við að hjálpa fólki að vígja líf sitt Jehóva.“

SÖNGUR 57 Vitnum fyrir alls konar fólki

^ gr. 5 Jehóva hefur ekki aðeins gefið okkur þann heiður að boða öðrum trúna heldur líka að kenna þeim að halda öll fyrirmæli Jesú. Hvað kveikir löngun hjá okkur til að kenna öðrum? Hvaða hindrunum mætum við í boðuninni og þegar við gerum fólk að lærisveinum? Hvernig getum við yfirstigið þessar hindranir? Þessum spurningum er svarað í greininni.

^ gr. 14 Frekari upplýsingar um hlutverk okkar í að gera fólk að lærisveinum er að finna í greininni „Allir í söfnuðinum geta hjálpað biblíunemendum til skírnar“ í Varðturninum mars 2021.

^ gr. 53 MYND: Sjáðu hve miklu biblíunám getur breytt í lífi manns: Til að byrja með virðist líf hans tilgangslaust og hann þekkir ekki Jehóva. Vottar hitta hann í boðuninni og hann þiggur biblíunámskeið. Það sem hann lærir fær hann til að vígjast Jehóva og láta skírast. Með tímanum hjálpar hann öðrum að gerast lærisveinar. Að lokum njóta þau öll lífsins í paradís.