Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 28

Forðumst samkeppnisanda – stuðlum að friði

Forðumst samkeppnisanda – stuðlum að friði

„Lítum ekki of stórt á sjálf okkur þannig að við förum að keppa hvert við annað og öfunda hvert annað.“ – GAL. 5:26.

SÖNGUR 101 Störfum saman í einingu

YFIRLIT *

1. Hvaða áhrif getur samkeppnisandi haft á fólk?

MARGT fólk í heiminum er sjálfselskt og lætur stjórnast af samkeppnisanda. Viðskiptamaður kann að vera miskunnarlaus þegar hann reynir að hafa betur en samkeppnisaðilinn. Íþróttamaður reynir kannski viljandi að meiða leikmann í hinu liðinu til að vinna leikinn. Nemandi sem vill komast inn í virtan háskóla gæti reynt að svindla á inntökuprófinu. Sem þjónar Jehóva vitum við að slík hegðun er röng. Hún flokkast undir „verk holdsins“. (Gal. 5:19–21) Getur samt verið að sumir af þjónum Jehóva ýti undir samkeppnisanda í söfnuðinum án þess að gera sér grein fyrir því? Þetta er mikilvæg spurning vegna þess að samkeppnisandi getur haft áhrif á einingu safnaðarins.

2. Hvað ræðum við í þessari grein?

2 Í þessari grein ræðum við hvernig neikvæðir eiginleikar geta orðið til þess að við ýtum undir samkeppnisanda í samskiptum við trúsystkini okkar. Við skoðum líka dæmi um trúfast fólk á biblíutímanum sem lét ekki samkeppnisanda hafa áhrif á sig. En fyrst skulum við skoða hvernig við getum rannsakað hvatir okkar.

RANNSAKAÐU HVATIR ÞÍNAR

3. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur?

3 Það er gott fyrir okkur að rannsaka hvatir okkar af og til. Við gætum spurt okkur: Met ég sjálfan mig eftir því hvernig mér finnst ég koma út í samanburði við aðra? Legg ég hart að mér í söfnuðinum til að vera bestur eða að minnsta kosti betri en einhver annar bróðir eða systir? Eða langar mig einfaldlega að gefa Jehóva mitt allra besta? Hvers vegna ættum við að spyrja okkur þessara spurninga? Skoðum hvað orð Guðs segir.

4. Hvers vegna ættum við að forðast að bera okkur saman við aðra eins og kemur fram í Galatabréfinu 6:3, 4?

4 Biblían hvetur okkur til að bera okkur ekki saman við aðra. (Lestu Galatabréfið 6:3, 4.) Hvers vegna? Ef við teljum að við gerum betur en einhver annar í söfnuðinum getum við orðið stolt. En ef við komum illa út í samanburði við trúsystkini okkar getur það á hinn bóginn dregið úr okkur kjark. Hvorugt viðhorfið ber vott um raunsæi. (Rómv. 12:3) Systir að nafni Katerina, * sem býr í Grikklandi, segir: „Ég var vön að bera mig saman við þau sem mér fannst vera fallegri, færari í boðuninni og eiga auðveldara með að eignast vini. Fyrir vikið fannst mér ég einskis virði.“ Við megum ekki gleyma að Jehóva dró okkur ekki til sín vegna þess að við erum falleg, mælsk eða vinsæl, heldur vegna þess að við elskum hann og viljum hlusta á son hans. – Jóh. 6:44; 1. Kor. 1:26–31.

5. Hvað lærum við af reynslu bróður sem heitir Hyun?

5 Önnur spurning sem við gætum spurt okkur: Er ég þekktur fyrir að stuðla að friði eða á ég oft í deilum við aðra? Skoðum reynslu bróður sem heitir Hyun og býr í Suður-Kóreu. Áður leit hann á þá sem bera ábyrgð í söfnuðinum sem keppinauta sína. Hann segir: „Ég var gagnrýninn á þessa bræður og oft ósammála því sem þeir sögðu.“ Hvað hafði það í för með sér? „Viðhorf mitt olli óeiningu í söfnuðinum,“ viðurkennir hann. Nokkrir vinir Hyun hjálpuðu honum að koma auga á vandamálið. Hann leiðrétti viðhorf sitt og er núna traustur öldungur. Ef við verðum vör við tilhneigingu hjá okkur til að ýta undir samkeppni frekar en að stuðla að friði þurfum við að gera eitthvað í málinu.

VERUM Á VERÐI GAGNVART SJÁLFSELSKU OG ÖFUND

6. Hvaða óæskilegu eiginleikar stuðla að samkeppnisanda samkvæmt Galatabréfinu 5:26?

6 Lestu Galatabréfið 5:26Hvaða óæskilegu eiginleikar geta leitt af sér samkeppnisanda? Einn þeirra er sjálfselska. Sjálfselsk manneskja er stolt og eigingjörn. Annar slæmur eiginleiki er öfund. Öfundsjúk manneskja þráir ekki aðeins eitthvað sem annar á heldur líka að hann missi það sem hann hefur. Öfund er í rauninni ein birtingarmynd haturs. Við viljum sannarlega forðast þessa slæmu eiginleika eins og pestina.

7. Nefndu dæmi sem sýnir hversu slæmt það er að vera sjálfselskur og öfundsjúkur.

7 Líkja má neikvæðum eiginleikum eins og sjálfselsku og öfund við óhreinindi sem menga eldsneyti á flugvél. Flugvélin kemst kannski á loft en óhreinindin geta stíflað bensínleiðslurnar þannig að vélin missir afl rétt fyrir lendingu og brotlendir. Á sama hátt gæti einhver þjónað Jehóva um tíma. En ef hann er sjálfselskur og öfundsjúkur mun hann brotlenda. (Orðskv. 16:18) Hann hættir að þjóna Jehóva og skaðar sjálfan sig og aðra. Hvernig getum við verið á verði gagnvart sjálfselsku og öfund?

8. Hvernig berjumst við gegn sjálfselsku?

8 Við getum barist gegn sjálfselsku með því að hafa í huga ráð Páls postula til Filippímanna: „Verið ekki þrætugjörn og gerið ekkert af sjálfselsku. Verið heldur auðmjúk og lítið á aðra sem ykkur meiri.“ (Fil. 2:3) Ef við lítum á aðra sem okkur meiri keppum við ekki við þá sem gætu haft meiri hæfileika eða getu en við. Þess í stað samgleðjumst við þeim. Það á sérstaklega við þegar þeir nota hæfileika sína í þjónustu Jehóva, honum til lofs. Og ef þessi hæfileikaríku trúsystkini fylgja ráði Páls sjá þau líka góða eiginleika okkar. Fyrir vikið stuðlum við öll að friði og einingu í söfnuðinum.

9. Hvernig getum við forðast öfund?

9 Við getum spornað gegn öfund með því að þroska með okkur hógværð, sem felur í sér að vera meðvitaður um eigin takmörk. Ef við erum hógvær reynum við ekki að sanna að við getum gert betur en allir aðrir. Við reynum frekar að læra af þeim sem eru færari en við. Segjum til dæmis að bróðir í söfnuðinum flytji frábærar ræður. Við gætum spurt hann hvernig hann undirbýr sig fyrir ræðurnar. Ef systir er góður kokkur gætum við spurt hana um ráð til að taka sjálf framförum í eldamennsku. Og ef ungur vottur á ekki auðvelt með að eignast vini gæti hann spurt einhvern sem á auðvelt með það um ráð. Á þennan hátt forðumst við öfund og tökum sjálf framförum.

LÆRUM AF ÞJÓNUM GUÐS TIL FORNA

Gídeon varðveitti frið við Efraímíta vegna þess að hann var hógvær. (Sjá 10.–12. grein.)

10. Hvaða vandamáli stóð Gídeon frammi fyrir?

10 Skoðum atvik þar sem Gídeon af ættkvísl Manasse og menn af ættkvísl Efraíms komu við sögu. Með hjálp Jehóva unnu Gídeon og 300 menn hans frækilegan sigur og hefðu getað stært sig af því. Efraímítarnir komu til fundar við Gídeon, ekki til að hrósa honum heldur til að gagnrýna hann. Svo virðist sem stolt þeirra hafi verið sært vegna þess að Gídeon bauð þeim ekki í byrjun að taka þátt í bardaganum gegn óvinum Guðs. Þeir voru svo uppteknir af heiðri ættkvíslar sinnar að þeir misstu sjónar á heildarmyndinni. Það sem Gídeon gerði hafði heiðrað nafn Jehóva og verndaði fólk hans. – Dóm. 8:1.

11. Hver voru viðbrögð Gídeons gagnvart Efraímítum?

11 Gídeon var hógvær og sagði við Efraímítana: „Hvað hef ég nú gert í samanburði við ykkur?“ Síðan minnti hann þá á hvernig Jehóva hafði hjálpað þeim að gera mikla hluti. Það varð til þess að ,þeim rann reiðin‘. (Dóm. 8:2, 3) Gídeon var fús að kyngja stoltinu til að viðhalda friði meðal fólks Guðs.

12. Hvað getum við lært af samskiptum Efraímíta og Gídeons?

12 Hvað getum við lært af þessari frásögu? Af Efraímítum getum við lært að við ættum ekki að hugsa meira um eigin heiður en heiður Jehóva. Fjölskyldufeður og öldungar geta dregið lærdóm af því sem Gídeon gerði. Ef einhver kemst í uppnám vegna einhvers sem við gerðum ættum við að reyna að sjá málin frá hans sjónarhóli. Við getum líka hrósað honum fyrir það sem hann hefur gert vel. Það krefst hógværðar af okkar hálfu, sérstaklega ef hann hefur greinilega rangt fyrir sér. En friðurinn er miklu meira virði heldur en heiður okkar.

Hanna endurheimti innri frið af því að hún treysti Jehóva. (Sjá 13. og 14. grein.)

13. Hvaða erfiðleika glímdi Hanna við og hvernig tókst hún á við þá?

13 Skoðum líka hvað við getum lært af Hönnu. Hún var gift Levíta sem hét Elkana og elskaði hana heitt. En hann átti aðra konu, Peninnu. Elkana elskaði Hönnu meira en Peninnu. Hins vegar átti Peninna börn en Hanna ekki. Vegna þessa olli Peninna Hönnu „sárri gremju og skapraunaði henni“. Hver voru viðbrögð Hönnu? Þetta var henni mjög erfitt. Hún ,grét og vildi ekki borða‘. (1. Sam. 1:2, 6, 7) Það kemur samt hvergi fram að Hanna hafi reynt að hefna sín á Peninnu. En hún úthellti hjarta sínu frammi fyrir Jehóva og treysti því að hann myndi hjálpa sér. Breyttist viðhorf Peninnu gagnvart Hönnu? Biblían segir ekkert til um það. En við fáum að vita að Hanna endurheimti innri frið. „Hún ... var ekki lengur döpur í bragði.“ – 1. Sam. 1:10, 18.

14. Hvað getum við lært af Hönnu?

14 Hvað getum við lært af fordæmi Hönnu? Ef einhver reynir að keppa við þig á einhverju sviði skaltu muna að þú getur haft stjórn á aðstæðunum. Þú þarft ekki að láta æsa þig til að taka þátt í samkeppni. Í stað þess að gjalda illt með illu skaltu reyna að semja frið. (Rómv. 12:17–21) Og jafnvel þótt það hafi ekki tilætluð áhrif getur þú haft innri frið.

Apollós og Páll voru ekki keppinautar af því að þeir vissu að það var Jehóva sem blessaði starf þeirra. (Sjá 15.–18. grein.)

15. Hvað áttu Apollós og Páll sameiginlegt?

15 Að lokum skulum við skoða hvað við getum lært af lærisveininum Apollósi og Páli postula. Báðir voru þeir mjög vel að sér í ritningunum. Þeir voru báðir vel þekktir og framúrskarandi kennarar. Og báðir höfðu þeir hjálpað til við að gera marga að lærisveinum. En hvorugur þeirra leit á hinn sem keppinaut.

16. Hvernig myndirðu lýsa Apollósi?

16 Apollós var frá Alexandríu, sem var menntasetur á fyrstu öld. Hann var greinilega mjög góður ræðumaður og „vel að sér í Ritningunum“. (Post. 18:24) Þegar Apollós dvaldi í Korintu sýndu sumir í söfnuðinum greinilega að þeir tóku hann fram yfir aðra bræður, þar á meðal Pál. (1. Kor. 1:12, 13) Stuðlaði Apollós að þessu sundurlyndi? Það getur ekki verið. Eftir að Apollós fór frá Korintu hvatti Páll hann til þess að fara þangað aftur. (1. Kor. 16:12) Páll hefði aldrei gert það ef hann hefði álitið að Apollós stuðlaði að sundurlyndi í söfnuðinum. Apollós notaði greinilega hæfileika sína á góðan hátt – til að boða fagnaðarboðskapinn og styrkja bræður sína. Við getum líka verið viss um að hann var hógvær maður. Það bendir til dæmis ekkert til þess að hann hafi móðgast þegar Akvílas og Priskilla „útskýrðu veg Guðs nánar fyrir honum“. – Post. 18:24–28.

17. Hvernig stuðlaði Páll að friði?

17 Páll postuli gerði sér grein fyrir því góða starfi sem Apollós vann. En Páll óttaðist ekki að falla í skuggann af honum. Hógværð Páls, lítillæti og sanngirni hans sjást af ráðunum sem hann gaf söfnuðinum í Korintu. Í stað þess að vera upp með sér þegar sumir sögðu „ég fylgi Páli“ beindi hann allri athygli að Jehóva Guði og Jesú Kristi. – 1. Kor. 3:3–6.

18. Hvað lærum við af frásögunni af Apollósi og Páli, samanber 1. Korintubréf 4:6, 7?

18 Hvað lærum við af Apollósi og Páli? Við gerum kannski margt í þjónustu Jehóva og hjálpum kannski mörgum að sækja fram til skírnar. En við gerum okkur grein fyrir því að við getum þetta aðeins með hjálp Jehóva. Við getum líka dregið annan lærdóm af frásögunni af Apollósi og Páli: Því meiri ábyrgð sem við berum, því meiri möguleika höfum við til að stuðla að friði. Við erum innilega þakklát þegar öldungar og safnaðarþjónar stuðla að friði og einingu með því að byggja ráð sín á orði Guðs og beina athyglinni ekki að sjálfum sér heldur að fyrirmynd okkar, Jesú Kristi. – Lestu 1. Korintubréf 4:6, 7.

19.  Hvað getum við öll gert? (Sjá einnig rammann: „Forðumst samkeppnisanda.“)

19 Við höfum öll fengið hæfileika að gjöf frá Guði. Við getum notað þá „til að þjóna hvert öðru“. (1. Pét. 4:10) Okkur finnst kannski okkar framlag vera lítið. En litlu verkin stuðla að einingu rétt eins og mörg lítil saumspor halda flík saman. Leggjum okkur öll einlæglega fram við að losa okkur við allan samkeppnisanda. Gerum okkar besta til að stuðla að friði og einingu í söfnuðinum. – Ef. 4:3.

SÖNGUR 80 Finnið og sjáið að Jehóva er góður

^ gr. 5 Rétt eins og litlar sprungur í leirkeri geta gert það brothættara getur samkeppnisandi veikt söfnuð. Söfnuðurinn getur ekki verið friðsamur staður til að tilbiðja Guð ef hann er ekki sameinaður og sterkur. Í þessari grein ræðum við hvers vegna við ættum að forðast samkeppnisanda og hvað við getum gert til að stuðla að friði í söfnuðinum.

^ gr. 4 Nöfnum hefur verið breytt.