Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 31

Ertu fús til að bíða eftir Jehóva?

Ertu fús til að bíða eftir Jehóva?

,Ég bíð eftir Guði.‘ – MÍKA 7:7.

SÖNGUR 128 Verum þolgóð allt til enda

YFIRLIT *

1, 2. Hvað skoðum við í þessari grein?

SEGJUM að þú ættir von á pakka. Í honum væri hlutur sem þú þyrftir virkilega á að halda en hann kæmi ekki þegar þú væntir hans. Yrðirðu vonsvikinn? Þér gæti liðið eins og er lýst í Orðskviðunum 13:12: „Löng eftirvænting gerir hjartað sjúkt.“ En hvað ef þú kæmist að því að það væri góð ástæða fyrir því að pakkinn kom ekki þegar þú bjóst við honum? Þá myndirðu líklega vera þolinmóður og fús til að bíða.

2 Í þessari grein skoðum við meginreglur í Biblíunni sem geta hjálpað okkur að rækta með okkur og sýna biðlund. (Míka 7:7) Síðan skoðum við tvö svið þar sem við þurfum að bíða þolinmóð eftir að Jehóva grípi inn í málin. Að lokum veltum við fyrir okkur blessuninni sem bíður þeirra sem eru reiðubúnir að bíða eftir Jehóva.

MEGINREGLUR Í BIBLÍUNNI SEM KENNA OKKUR ÞOLINMÆÐI

3. Hvað lærum við af Orðskviðunum 13:11?

3 Dæmi sem sýnir fram á þörfina fyrir þolinmæði er að finna í Orðskviðunum 13:11. Þar segir: „Skjótfenginn auður hjaðnar en þeim sem safnar smátt og smátt vex auður.“ Kemurðu auga á meginregluna? Það er viturlegt að vera þolinmóður og vandvirkur og taka eitt skref í einu.

4. Hvað felst í meginreglunni sem er að finna í Orðskviðunum 4:18?

4 Í Orðskviðunum 4:18 segir: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, því bjartari sem nær líður hádegi.“ Þessi orð eiga vel við um það hvernig Jehóva opinberar þjónum sínum tilgang sinn – smátt og smátt. En það má líka heimfæra versið upp á það hvernig þjónn Jehóva tekur framförum í trúnni stig af stigi. Það tekur tíma að styrkja sambandið við Jehóva. Ef við skoðum vandlega leiðbeiningarnar sem við fáum í orði Guðs og fyrir milligöngu safnaðar hans ræktum við smám saman með okkur eiginleika eins og Kristur hefur. Við kynnumst líka Guði betur. Skoðum hvernig Jesús lýsti þessu með dæmi.

Rétt eins og planta vex stig af stigi vex sá í trúnni smátt og smátt sem heyrir boðskap Guðsríkis og tekur við honum. (Sjá 5. grein.)

5. Hvernig lýsti Jesús stigvaxandi vexti?

5 Jesús notaði líkingu til að útskýra hvernig boðskapur Guðsríkis sem við boðum er eins og pínulítið fræ. Það vex smám saman í hjörtum þeirra sem elska réttlætið. Hann sagði: „Kornið spírar og plantan vex og stækkar en hann [sá sem sáir] veit ekki hvernig. Jörðin ber smám saman ávöxt af sjálfu sér, fyrst stilkinn, síðan axið og að lokum fullþroskað kornið í axinu.“ (Mark. 4:27, 28) Hvað var Jesús að sýna fram á? Hann var að útskýra að rétt eins og jurt vex stig af stigi, vex sá smátt og smátt í trúnni sem tekur við boðskapnum um Guðsríki. Þegar einlægir biblíunemendur okkar nálægja sig Jehóva tökum við eftir mörgum breytingum sem þeir gera. (Ef. 4:22–24) En við megum ekki gleyma að það er Jehóva sem lætur þetta litla fræ vaxa. – 1. Kor. 3:7.

6, 7. Hvað lærum við af því hvernig Jehóva skapaði jörðina?

6 Jehóva sýnir þolinmæði í öllu sem hann gerir og tekur sér þann tíma sem þarf til að ljúka verki. Hann gerir það bæði til að upphefja nafn sitt og öðrum til gagns. Veltu til dæmis fyrir þér hvernig Jehóva undirbjó jörðina fyrir mannkynið skref fyrir skref.

7 Þegar því er lýst í Biblíunni hvernig Jehóva skapaði jörðina er talað um að hann hafi ákveðið „umfang hennar“, sökkt „sökklum hennar“ og lagt „hornstein hennar“. (Job. 38:5, 6) Hann tók sér jafnvel tíma til að líta yfir unnið verk. (1. Mós. 1:10, 12) Geturðu ímyndað þér hvernig englunum leið þegar þeir fylgdust með hvernig sköpunarverk Jehóva tók smám saman á sig mynd? Þeir hljóta að hafa verið mjög spenntir. Það má sjá af því að þeir „sungu saman gleðisöng“. (Job. 38:7) Hvað lærum við? Það liðu mörg þúsund ár áður en Jehóva lauk sköpuninni en þegar hann leit yfir allt sem hann hafði gert svo vel lýsti hann yfir að það væri „harla gott“. – 1. Mós. 1:31.

8. Hvað skoðum við nánar?

8 Eins og við getum séð af fyrrgreindum dæmum er að finna margar meginreglur í orði Guðs sem sýna fram á þörfina á þolinmæði. Við skoðum nú tvö svið þar sem við þurfum að vera fús til að bíða eftir Jehóva.

HVENÆR GÆTUM VIÐ ÞURFT AÐ BÍÐA EFTIR JEHÓVA?

9. Á hvaða sviði þurfum við að vera fús til að bíða eftir Jehóva?

9 Við gætum þurft að bíða eftir því að bænum okkar sé svarað. Þegar við biðjum um styrk til að takast á við prófraun eða hjálp til að sigrast á veikleika gæti okkur fundist það taka Jehóva lengri tíma að svara bænum okkar en við höfðum vonað. Hvers vegna svarar Jehóva ekki öllum bænum okkar strax?

10. Hvers vegna er nauðsynlegt að sýna þolinmæði þegar bæn er annars vegar?

10 Jehóva hlustar mjög vel á bænir okkar. (Sálm. 65:3) Hann lítur á einlægar bænir okkar sem sönnun um trú okkar. (Hebr. 11:6) Jehóva hefur einnig áhuga á að sjá hversu ákveðin við erum í að lifa í samræmi við bænir okkar og gera vilja hans. (1. Jóh. 3:22) Við gætum því þurft að sýna þolinmæði og vinna í samræmi við bænir okkar þegar við reynum að sigrast á ávana eða veikleika. Jesús hjálpaði okkur að skilja að við fengjum ekki alltaf bænheyrslu strax. Hann sagði: „Haldið áfram að biðja og ykkur verður gefið, haldið áfram að leita og þið munuð finna, haldið áfram að banka og það verður opnað fyrir ykkur því að allir fá sem biðja, allir finna sem leita og opnað verður fyrir öllum sem banka.“ (Matt. 7:7, 8) Þegar við fylgjum þessu ráði og höldum áfram að biðja getum við verið fullviss um að himneskur faðir okkar hlustar á okkur og svarar bænum okkar. – Kól. 4:2.

Meðan við bíðum eftir Jehóva höldum við áfram að biðja til hans í trú. (Sjá 11. grein.) *

11. Hvernig getur Hebreabréfið 4:16 hjálpað okkur þegar svari við bæn virðist seinka?

11 Okkur gæti fundist Jehóva vera lengi að svara bæn okkar en hann lofar að svara þegar „við erum hjálparþurfi“. (Lestu Hebreabréfið 4:16.) Þess vegna megum við aldrei kenna Jehóva um þegar hann svarar bæn okkar ekki eins fljótt og okkur finnst að hann ætti að gera. Margir hafa til dæmis beðið árum saman um að Guðsríki bindi enda á núverandi heimskerfi. Jesús kenndi jafnvel að við ættum að biðja um það. (Matt. 6:10) En það væri heimskulegt að missa trúna á Guð bara vegna þess að endirinn kemur ekki þegar menn eiga von á því. (Hab. 2:3; Matt. 24:44) Það er viturlegt að halda áfram að bíða eftir Jehóva og biðja til hans í trú. Endirinn kemur á hárréttum tíma því að Jehóva hefur þegar valið „þann dag og stund“ sem hann á að koma. Og það mun reynast langbesti tíminn fyrir alla. – Matt. 24:36; 2. Pét. 3:15.

Hvað getum við lært um þolinmæði af Jósef? (Sjá 12.–14. grein.)

12. Hvenær gæti verið sérstaklega erfitt að vera þolinmóður?

12 Við gætum þurft að sýna þolinmæði meðan við bíðum eftir að réttlætinu verði fullnægt. Fólk í heiminum kemur oft illa fram við þá sem eru af öðru kyni, kynþætti, menningu, þjóðerni eða þjóðarbroti. Aðrir sæta illri meðferð vegna geðrænnar eða líkamlegrar fötlunar. Margir þjónar Jehóva hafa orðið fyrir óréttlæti vegna trúar sinnar sem byggist á Biblíunni. Þegar við verðum fyrir slíku óréttlæti verðum við að muna það sem Jesús sagði: „Sá sem er þolgóður allt til enda mun bjargast.“ (Matt. 24:13) En hvað ættirðu þá að gera ef þú færð vitneskju um að einhver í söfnuðinum hafi drýgt alvarlega synd? Ertu tilbúinn að láta öldungana um málið eftir að þeir hafa verið upplýstir um það og bíða þolinmóður eftir að þeir taki á því eins og Jehóva vill? Hvað gætu þeir þurft að gera?

13. Hvað felur það í sér að taka á málunum eins og Jehóva vill?

13 Þegar öldungarnir fá vitneskju um að einhver í söfnuðinum hafi drýgt alvarlega synd biðja þeir Jehóva um „visku sem kemur ofan að“ svo að þeir sjái aðstæður eins og hann sér þær. (Jak. 3:17) Markmið þeirra er að hjálpa þeim sem hefur syndgað að snúa „af rangri braut“, ef það er hægt. (Jak. 5:19, 20) Þeir vilja líka gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda söfnuðinn og hugga þá sem hafa verið særðir. (2. Kor. 1:3, 4) Þegar öldungarnir taka á alvarlegum brotum þurfa þeir fyrst að hafa allar staðreyndir á hreinu og það getur tekið svolítinn tíma. Þeir leita til Jehóva í bæn, gefa vel ígrundaðar leiðbeiningar byggðar á Biblíunni og veita leiðréttingu „við hæfi“. (Jer. 30:11) Þeir slá ekki hlutunum á frest en hrapa ekki heldur að ályktun. Þegar öldungarnir fylgja leiðsögn Jehóva gagnast það söfnuðinum best. En jafnvel þótt tekið sé á málum á þennan hátt má vera að þeir sem syndin bitnaði á séu enn þá særðir. Hvað getur dregið úr sársaukanum ef þetta á við um þig?

14. Hvaða frásaga í Biblíunni getur veitt þér huggun ef trúsystkini hefur sært þig djúpt?

14 Hefur þú einhvern tíma orðið fyrir miklu óréttlæti, jafnvel af völdum trúsystkinis? Þú getur fundið frábærar fyrirmyndir í orði Guðs sem sýna hvernig við getum beðið eftir að Jehóva leiðrétti málin. Jósef þurfti til dæmis að þola óréttlæti af hendi sinna eigin bræðra. En hann lét ekki synd þeirra verða til þess að hann yrði bitur. Þess í stað einbeitti hann sér að því að þjóna Jehóva og honum var ríkulega umbunað fyrir þolinmæðina og þolgæðið. (1. Mós. 39:21) Með tímanum komst Jósef yfir sársaukann og sá hvernig Jehóva blessaði hann. (1. Mós. 45:5) Eins og Jósef fáum við huggun þegar við nálægjum okkur Jehóva og látum hann um að fullnægja réttlætinu. – Sálm. 7:18; 73:28.

15. Hvað hjálpaði systur einni að leiða óréttlæti hjá sér?

15 Auðvitað er allt óréttlæti ekki jafn alvarlegt og það sem Jósef varð fyrir. En það særir okkur samt ef við verðum fyrir illri meðferð af einhverju tagi. Ef snurða hleypur á þráðinn í samskiptum okkar við einhvern er gagnlegt að fara eftir meginreglum Biblíunnar, hvort sem hann þjónar Jehóva eða ekki. (Fil. 2:3, 4) Tökum dæmi. Systir var mjög særð þegar hún komst að því að samstarfskona hennar sagði ósatt og talaði illa um hana við aðra. Í stað þess að bregðast of fljótt við tók systir okkar sér tíma til að hugleiða fordæmi Jesú. „Hann svaraði ekki með fúkyrðum þegar hann var smánaður.“ (1. Pét. 2:21, 23) Með það í huga ákvað hún að gera ekki mál úr þessu. Síðar komst hún að því að samstarfskona hennar hafði glímt við alvarleg veikindi og verið undir miklu álagi. Systirin dró þá ályktun að samstarfskona hennar hefði að öllum líkindum ekki meint það sem hún sagði. Systirin varð þess vegna mjög glöð að hafa verið þolinmóð og þolað óréttlætið og hún fann innri frið.

16. Hvað getur huggað þig ef þú þarft að þola óréttlæti? (1. Pétursbréf 3:12)

16 Ef þú líður vegna óréttlætis eða af einhverri annarri ástæðu skaltu muna að Jehóva er „nálægur þeim sem hafa sundurmarið hjarta“. (Sálm. 34:19) Hann elskar þig fyrir að sýna þolinmæði og varpa áhyggjum þínum á hann. (Sálm. 55:23) Hann er dómari allrar jarðarinnar. Ekkert fer fram hjá honum. (Lestu 1. Pétursbréf 3:12.) Ertu tilbúinn að bíða eftir honum ef þú ert að glíma við erfið vandamál sem þú getur ekki leyst?

EILÍF BLESSUN FYRIR ÞÁ SEM BÍÐA EFTIR JEHÓVA

17. Hvaða loforð gefur Jehóva okkur í Jesaja 30:18?

17 Bráðlega mun faðir okkar á himnum blessa okkur ríkulega fyrir atbeina ríkis síns. Jesaja 30:18 segir: „Því bíður Drottinn þess að sýna yður náð, þess vegna rís hann upp til að miskunna yður, því að Drottinn er Guð réttlætisins. Sælir eru þeir sem á hann vona.“ Þeir sem vona á Jehóva fá mikla blessun bæði núna og í hinum komandi nýja heimi.

18. Hvaða blessun bíður okkar?

18 Þegar fólk Guðs gengur inn í nýja heiminn þarf það aldrei framar að takast á við þá erfiðleika og áhyggjur sem það gerir núna. Óréttlæti og sársauki verður úr sögunni. (Opinb. 21:4) Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af því að við höfum ekki það sem við þurfum því að það verður til meira en nóg handa öllum. (Sálm. 72:16; Jes. 54:13) Það verður yndislegt!

19. Undir hvað er Jehóva að búa okkur?

19 Jehóva er núna að búa okkur undir að lifa undir stjórn sinni með því að hjálpa okkur að losa okkur við slæma ávana og rækta eiginleika sem gleðja hann. Ekki missa kjarkinn og gefast upp. Besta lífið er fram undan. Höldum áfram að bíða fúslega og af þolinmæði eftir þessum frábæra tíma meðan Jehóva lýkur verki sínu.

SÖNGUR 118 Auk okkur trú

^ gr. 5 Hefurðu einhvern tíma heyrt trúsystkini sem hefur þjónað Jehóva lengi segja: „Ég bjóst aldrei við að verða svona gamall í þessu heimskerfi“? Við hlökkum öll til að sjá Jehóva binda enda á þetta heimskerfi, ekki síst núna þegar tímarnir eru svona erfiðir. En við þurfum að læra að vera þolinmóð. Í þessari grein skoðum við meginreglur í Biblíunni sem geta hjálpað okkur að sýna biðlund. Við skoðum líka tvö svið þar sem við þurfum að bíða þolinmóð eftir Jehóva. Að lokum leiðum við hugann að þeirri blessun sem bíður þeirra sem eru fúsir til að bíða.

^ gr. 56 MYND: Systir nokkur hefur beðið til Jehóva frá barnæsku. Foreldrar hennar kenndu henni að biðja þegar hún var lítil. Þegar hún komst á unglingsárin gerðist hún brautryðjandi og bað Jehóva oft um að blessa þjónustu sína. Árum síðar þegar eiginmaður hennar veiktist grátbað hún Jehóva um styrk til að þola erfiðleikana. Nú er hún ekkja og heldur áfram að biðja, sannfærð um að faðir hennar á himnum svari bænum hennar, rétt eins og hann hefur gert alla hennar ævi.