Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 35

Metum mikils eldri bræður okkar og systur

Metum mikils eldri bræður okkar og systur

„Gráar hærur eru heiðurskóróna.“ – ORÐSKV. 16:31.

SÖNGUR 138 Gráar hærur eru heiðurskóróna

YFIRLIT *

1, 2. (a) Hvernig ættum við að líta á eldri trúsystkini okkar samkvæmt Orðskviðunum 16:31? (b) Hvaða spurningum verður svarað í þessari grein?

ÞEIR sem heimsækja þjóðgarð í Arkansas í Bandaríkjunum gætu rekist á demanta liggjandi á jörðinni. En þessir demantar eru í sínu náttúrulega formi, óslípaðir. Margir sem sjá þá gera sér kannski ekki grein fyrir á hvað þeir eru að horfa og ganga því fram hjá þeim.

2 Á vissan hátt eru eldri trúsystkini okkar eins og þessir demantar. Þau eru gersemar. Í orði Guðs er gráu hári þeirra líkt við kórónu. (Lestu Orðskviðina 16:31; 20:29) En það getur verið auðvelt að horfa fram hjá þessum gersemum. Þegar þeir sem yngri eru skilja hversu mikils virði hinir eldri eru geta þeir öðlast eitthvað sem er miklu dýrmætara en bókstaflegur auður. Í þessari grein fáum við svar við þremur spurningum: Hvers vegna lítur Jehóva á trúfasta eldri bræður og systur sem gersemar? Hvaða hlutverk hefur Jehóva gefið þeim í söfnuði sínum? Hvað getum við lært af þeim?

JEHÓVA ÁLÍTUR TRÚFÖST ELDRI TRÚSYSTKINI OKKAR GERSEMAR

Trúfastir eldri þjónar Jehóva eru dýrmætir í augum hans og annarra þjóna hans. (Sjá 3. grein.)

3. Hvers vegna eru trúföst eldri trúsystkini dýrmæt í augum Jehóva, samanber Sálm 92:13–16?

3 Trúföst eldri trúsystkini okkar eru dýrmæt í augum Jehóva Guðs. Hann veit hvaða mann þau hafa að geyma og þekkir og metur frábæra eiginleika þeirra. Hann kann að meta það þegar hinir eldri miðla þeim yngri af viskunni sem þeir hafa aflað sér í margra ára trúfastri þjónustu. (Job. 12:12; Orðskv. 1:1–4) Jehóva kann líka að meta þolgæði þeirra. (Mal. 3:16) Líf þeirra hefur ekki bara verið dans á rósum en samt hefur trúin á Jehóva aldrei dvínað. Framtíðarvon þeirra er bjartari nú en þegar þeir kynntust sannleikanum. Og Jehóva elskar þá vegna þess að þeir halda áfram að kunngera nafn hans, jafnvel „í hárri elli“. – Lestu Sálm 92:13–16.

4. Hvað getur uppörvað eldri bræður okkar og systur?

4 Ef þú ert kominn á efri ár máttu vera viss um að Jehóva gleymir ekki verki þínu í gegnum tíðina. (Hebr. 6:10) Þú hefur stutt boðunina heils hugar og það gleður himneskan föður okkar. Þú hefur haldið út í prófraunum, jafnvel mjög erfiðum. Þú hefur haldið á lofti réttlátum mælikvarða Biblíunnar, sinnt mikilvægum verkefnum í söfnuði Jehóva og aðlagast hröðum breytingum í honum. Þú hefur stutt og hvatt þá sem þjóna í fullu starfi. Jehóva Guð elskar þig innilega fyrir trúfesti þína. Hann lofar að ,yfirgefa eigi sína trúuðu‘. (Sálm. 37:28) Hann lofar okkur líka: „Ég mun bera yður þar til þér verðið gráir fyrir hærum.“ (Jes. 46:4) Hugsaðu því ekki sem svo að þú skiptir ekki lengur máli í söfnuði Guðs vegna þess að þú ert orðinn eldri. Þú skiptir sannarlega máli!

ELDRI TRÚSYSTKINI GEGNA MIKILVÆGU HLUTVERKI Í SÖFNUÐI GUÐS

5. Hvað ættu eldri trúsystkini að hafa í huga?

5 Eldri trúsystkini hafa margt fram að færa. Þótt þau hafi kannski ekki jafn mikla orku og áður hafa þau heilmikla reynslu sem þau hafa aflað sér í gegnum árin. Þau geta reynst Jehóva gagnleg á margvíslegan hátt eins og eftirfarandi dæmi úr fortíð og nútíð sýna.

6, 7. Nefndu dæmi úr Biblíunni um hvernig Jehóva umbunaði eldri þjónum sínum fyrir trúfasta þjónustu þeirra.

6 Í Biblíunni er að finna dæmi um trúfasta einstaklinga sem þjónuðu Jehóva í hárri elli. Móse var til dæmis um 80 ára þegar hann byrjaði að þjóna sem spámaður Jehóva og leiðtogi Ísraelsþjóðarinnar. Spámaðurinn Daníel var líklega enn talsmaður Jehóva þegar hann var kominn á tíræðisaldur. Og Jóhannes postuli var líklega á svipuðum aldri þegar honum var innblásið að skrifa Opinberunarbókina.

7 Margir aðrir trúfastir þjónar Guðs til forna voru ekki vel þekktir og kannski tók fólk ekki eftir þeim. En Jehóva gerði það og umbunaði þeim hollustu þeirra. Hinn réttláti og guðhræddi Símeon er til dæmis bara stuttlega nefndur í Biblíunni en Jehóva vissi hver hann var og veitti honum þann heiður að sjá ungbarnið Jesú og bera fram spádóm um barnið og móður þess. (Lúk. 2:22, 25–35) Tökum líka sem dæmi ekkjuna og spákonuna Önnu. Hún var 84 ára en „var öllum stundum í musterinu“. Jehóva blessaði hana fyrir að sækja samkomur reglulega með því að leyfa henni líka að sjá ungbarnið Jesú. Símeon og Anna voru bæði dýrmæt í augum Jehóva. – Lúk. 2:36–38.

Systir Didur er nú á níræðisaldri en heldur áfram að þjóna Jehóva trúfastlega. (Sjá 8. grein.)

8, 9. Hvað hafa ekkjur fram að færa?

8 Margir eldri trúfastir þjónar Jehóva nú á dögum eru hinum yngri góðar fyrirmyndir. Tökum sem dæmi systur okkar Lois Didur. Hún var aðeins 21 árs þegar hún gerðist sérbrautryðjandi í Kanada. Eftir það voru hún og John eiginmaður hennar í farandstarfinu í mörg ár. Síðar þjónuðu þau á Betel í Kanada í meira en 20 ár. Þegar Lois var 58 ára var henni og John boðið að taka að sér verkefni í Úkraínu. Hvað gerðu þau? Fannst þeim þau vera orðin of gömul til að þjóna í öðru landi? Þau tóku að sér verkefnið og John var útnefndur til að þjóna í deildarnefndinni þar. Eftir að hann lést sjö árum síðar ákvað Lois að þjóna Jehóva þar áfram. Hún er nú 81 árs og þjónar Jehóva trúfastlega ásamt Betelfjölskyldunni sem elskar hana innilega.

9 Það ber kannski minna á ekkjum eins og Lois eftir að eignimenn þeirra deyja en þær eru samt ekki minna dýrmætar. Jehóva metur mikils systur sem studdu eiginmenn sína árum saman og eru áfram jafn staðfastar. (1. Tím. 5:3) Þær eru einnig hinum yngri mikil hvatning.

10. Hvaða frábæra fordæmi hefur Tony sett?

10 Margir trúfastir eldri þjónar Jehóva sem dvelja á öldrunarheimilum eru einnig gersemar. Bróðir að nafni Tony dvelur á slíku heimili. Hann lét skírast í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum í ágúst 1942 þegar hann var tvítugur. Stuttu eftir skírnina neitaði hann að gegna herskyldu og þurfti að sitja í fangelsi í tvö og hálft ár. Hann og Hilda konan hans ólu tvö börn upp í sannleikanum. Tony hefur í gegnum árin þjónað í þremur söfnuðum sem öldungur í forsæti (nú nefndur umsjónarmaður öldungaráðs) og einnig sem mótsstjóri. Hann hélt samkomur og biblíunámskeið í ríkisfangelsi. Tony er orðinn 98 ára og er ekki tilbúinn að taka það rólega. Hann gerir sitt besta til að þjóna Jehóva og starfar náið með bræðrum og systrum í söfnuðinum.

11. Hvernig getum við sýnt að þeir sem dvelja á öldrunarheimilum eru okkur mikils virði?

11 Hvernig getum við sýnt öldruðum trúsystkinum á öldrunarheimilum virðingu? Öldungar geta hjálpað þeim eins og aðstæður leyfa að sækja samkomur eða hlusta á þær og taka þátt í að boða trúna. Við getum sýnt þeim persónulega athygli með því að heimsækja þau eða með því að bjóðast til að tala við þau í myndsíma. Við viljum veita öldruðum sem dvelja á öldrunarheimilum langt frá heimasöfnuði sínum sérstaka athygli. Við þurfum að vera vakandi og megum ekki gleyma þessum eldri trúsystkinum okkar. Sumum þeirra finnst ef til vill erfitt eða óviðeigandi að tala um sjálf sig. En það er mjög uppörvandi fyrir okkur ef við getum fengið þau til að segja okkur hvað hefur veitt þeim gleði í söfnuði Jehóva.

12. Hvaða bræður og systur er að finna í okkar eigin söfnuði?

12 Það gæti komi okkur á óvart að uppgötva að í okkar eigin söfnuði eru einstök og trúföst eldri trúsystkini. Systir að nafni Harriette þjónaði Jehóva trúföst í mörg ár í heimasöfnuði sínum í New Jersey í Bandaríkjunum. Þá flutti hún í burtu til að búa hjá dóttur sinni. Bræðurnir í nýja söfnuðinum tóku sér tíma til að kynnast henni og þeir uppgötvuðu gersemi. Hún sagði þeim uppörvandi frásögur úr boðuninni frá þeim tíma þegar hún kynntist sannleikanum á þriðja áratugnum. Á þeim tíma var hún alltaf með tannbursta með sér í boðuninni ef hún skyldi verða handtekin. Og tvisvar sinnum árið 1933 þurfti hún að sitja í fangelsi í um viku í senn. Eiginmaður hennar sem var ekki vottur studdi hana. Þegar hún sat í fangelsi sá hann um þrjú ung börn þeirra. Trúföst eldri trúsystkini eins og Harriette eru sannarlega gersemar.

13. Hvað höfum við lært um það hversu mikils virði hinir eldri í söfnuðinum eru?

13 Eldri bræður okkar og systur gegna mikilvægu hlutverki í söfnuði Jehóva. Þau hafa séð hvernig Jehóva hefur veitt söfnuði sínum og þeim sjálfum margvíslega blessun. Þau hafa lært margt af mistökum sínum. Líttu á þau sem „lind viskunnar“ og lærðu af þeim. (Orðskv. 18:4) Þú styrkir trú þína og lærir margt ef þú tekur þér tíma til að kynnast þeim.

HÖFUM SEM MEST GAGN AF REYNSLU HINNA ELDRI

Rétt eins og Elísa hafði gagn af því að vera með Elía geta bræður og systur haft gagn af því að hlusta á það sem þeir hafa að segja sem hafa þjónað Jehóva lengi. (Sjá 14. og 15. grein.)

14. Hvað eru þeir sem yngri eru hvattir til að gera í 5. Mósebók 32:7?

14 Tökum okkur tíma til að tala við þá sem eru eldri. (Lestu 5. Mósebók 32:7.) Sjónin hefur ef til vill daprast, þeir ganga kannski ekki jafn hratt og áður og rödd þeirra er mögulega orðin veikari en þeir eru ungir í hjarta og hafa öðlast „gott mannorð“ hjá Jehóva. (Préd. 7:1) Munum hvers vegna Jehóva kann að meta þá. Höldum áfram að sýna þeim virðingu. Verum eins og Elísa. Hann krafðist þess að vera í nánum tengslum við Elía síðasta daginn þeirra saman. Elísa sagði þrisvar: ,Ég yfirgef þig ekki.‘ – 2. Kon. 2:2, 4, 6.

15. Hvaða spurninga gætum við spurt hina eldri?

15 Sýndu hinum öldruðu einlægan áhuga með því að hvetja þá hlýlega til að tjá sig. (Orðskv. 1:5; 20:5; 1. Tím. 5:1, 2) Spyrðu spurninga eins og: Hvað fullvissaði þig um að þú hefðir fundið sannleikann þegar þú varst yngri? Hvernig hefur það sem þú hefur upplifað í gegnum árin styrkt samband þitt við Jehóva? Hvað hefur hjálpað þér að viðhalda gleðinni í þjónustu Jehóva? (1. Tím. 6:6–8) Hlustaðu síðan vandlega þegar þeir segja sögu sína.

16. Hvernig getur það gert bæði hinum eldri og hinum yngri gott að tala saman?

16 Þegar þú sem ert yngri talar við einhvern eldri fáið þið báðir uppörvun. (Rómv. 1:12) Þú sannfærist enn frekar um að Jehóva annist trúfasta þjóna sína og sá eldri finnur að hann er mikils metinn. Hann nýtur þess að segja þér frá því hvernig Jehóva hefur blessað hann.

17. Hvers vegna getum við sagt að trúföst eldri trúsystkini okkar verði fallegri og fallegri með árunum?

17 Líkamleg fegurð dofnar venjulega með aldrinum en þeir sem eru trúfastir Jehóva verða fallegri og fallegri í augum hans með hverju árinu. (1. Þess. 1:2, 3) Hvað kemur til? Þeir hafa í gegnum árin leyft anda Jehóva að móta sig og slípa sig til. Því betur sem við kynnumst dýrmætum eldri bræðrum okkar og systrum, virðum þau og lærum af þeim, þeim mun dýrmætari verða þau okkur.

18. Hvað skoðum við í næstu grein?

18 Söfnuðurinn verður ekki bara sterkari þegar yngri trúsystkini meta þau eldri mikils heldur líka þegar eldri trúsystkini kunna að meta þau yngri. Í næstu grein skoðum við hvernig hinir eldri geta sýnt að þeir meta mikils þá sem yngri eru í söfnuðinum.

SÖNGUR 144 Horfðu á sigurlaunin

^ gr. 5 Eldri trúsystkini okkar eru mjög dýrmæt. Þessi grein hvetur okkur til að meta þau enn meir og við ræðum hvernig við getum haft gagn af visku þeirra og reynslu. Greinin fullvissar líka þá sem eldri eru um að þeir hafi mikilvægt hlutverk í söfnuði Guðs.